Monday, June 15, 2015

Golden State er í dauðafæri


Eitt af því sem rimmur í úrslitakeppni verða að hafa ef þær eiga að vera skemmtilegar, er að þær séu dálítið óútreiknanlegar og komi okkur á óvart. Á yfirborðinu gæti fólk sagt að einvígi Golden State og Cleveland sé fyrirsjáanlegt, en þið sem kafið dýpra vitið að svo er ekki. Þið vitið að óvæntu hlutirnir eru búnir að krydda þessa rimmu frá byrjun, eins og t.d. sú staðreynd að Cleveland skuli enn vera að spila körfubolta þegar júnímánuður er hálfnaður.

Nú kann það að vera að 104-91 sigur Golden State á Cleveland í fimmta leiknum í nótt hafi ekkert komið ykkur á óvart, en hann kom okkur talsvert á óvart.

Við áttum nefnilega von á því að sjá Golden State vinna stóran sigur í þessum leik, jafnvel slátra Cleveland. Það var bara eitthvað svo í kortunum eftir flenginguna sem Warriors færði Cavs í fjórða leiknum. Við sáum fyrir okkur að blaðran væri loksins sprungin hjá Cavs, þó það sé mjög ósanngjarnt að líkja því við uppblásna blöðru.


En rétt eins og áður var Cleveland ekki á því að gefa eitt eða neitt. Leikmenn voru búnir að fá þrjá sólarhringa til að jafna sig eftir erfiðan leik fjögur og voru því tilbúnir í slaginn þrátt fyrir tímabeltaflakk, flugþreytu og þotuþynnku. Og aftur náðu þeir að halda ótrúlega lengi í við heimamenn - eða þangað til Stephen Curry nennti þessu ekki lengur og ákvað að fara að spila eins og leikmaður ársins.

Hrókeringar þjálfaranna héldu líka áfram að koma á óvart og á tímabili var eins og þeir væru að keppast um hvor þeirra gæti teflt fram lágvaxnara liði. Minniboltinn var allsráðandi og menn eins og Timofey Mozgov og Andrew Bogut voru bara geymdir á bekknum.

Það var Steve Kerr sem átti frumkvæðið að því að lækka meðalhæðina í liðinu sínu, en það kom ekki til af góðu. Hann gerði breytingar á liðinu í fjórða leiknum og hélt áfram að þróa þær í nótt af því Golden State var í bullandi vandræðum í sóknarleiknum og vantaði meiri neista þar. Svo hjálpaði Andrew Bogut honum reyndar að taka ákvörðunina með því að spila þannig að enginn tók eftir honum.


Þessar breytingar hjá Kerr hafa svo sem ekki skilað neinum flugeldasýningum, en það er ljóst að möguleikar Warriors í sóknarleiknum aukast við þessa ráðstöfun og Kerr var nokkuð sáttur við það hvernig hans menn brugðust við breytingunum.

En þegar á hólminn er komið, eru það venjulega stórstjörnurnar sem stíga á stokk og eiga síðasta orðið og þannig var það í nótt. Undanfarna daga hefur verið rætt mikið um það hvort LeBron James gæti orðið fyrsti maðurinn í hátt í hálfa öld til að verða kjörinn leikmaður úrslitanna þrátt fyrir að verða jafnvel í tapliði. Bókstafstrúarmenn sem vilja að maður úrslitanna komi úr sigurliðinu og margir þeirra stungu upp á Andre Iguodala, sem Steve Kerr útnefndi réttilega besta leikmann Warriors í einvíginu eftir fjórða leikinn.

Þetta hefur ekkert farið framhjá Stephen Curry.


Rétt eins og það fer í taugarnar á LeBron James að Curry skuli hafa verið kjörinn leikmaður ársins í deildarkeppninni (en ekki hann sjálfur), er Curry ekki sáttur við að sjá nafn sitt hvergi í fyrirsögnum um einvígið fram að þessu. Og eins og allir alvörumenn gera, ákvað hann að gera eitthvað í því í stað þess að fara út í horn og grenja.

Fram að fimmta leiknum höfðum við ekki fengið að sjá nema glefsur af því sem Curry getur, en í nótt fíraði hann upp í Fjölskyldupakkanum og tók það að sér að loka leiknum. Curry skoraði 37 stig í leiknum, þar af 17 á meðan hann varð að skjóta Cleveland í kaf í fjórða leikhlutanum. Guð blessi drenginn.

LeBron James hélt áfram að spila eins og Robocop á bandímóti og henti í kolgeðveika 40/14/11 þrennu eins og það væri bara alveg eðlilegt. Rétt eins og áður er það auðvitað ekki nóg fyrir internetið og þá sérstaklega félagsmiðlana, sem eru fullir af ati og óbeit.

Hvort sem þeir hafa rétt fyrir sér eða ekki, reyndist enn ein sæborgarframmistaðan frá James ekki nóg fyrir Cleveland heldur.

Hinn maðurinn sem getur ekki gert neitt rétt að mati internetsins er David Blatt, en hann er sífellt að troða óhreinni tuskum upp í efasemdamenn sína.

Við höfum ekki hundsvit á þjálfun, en við erum nokkuð viss um að Blatt er að kreista nálægt því hámarksframmistöðu út úr skörðóttu liðinu sínu.

Liðið hans er inni í öllum leikjum í 40+ mínútur og hann nær að fá eitthvað út úr flestum leikmönnum sínum nema auðvitað JR Smith, sem er ekki viðbjargandi.

Við sögðum ykkur að það hefði komið okkur á óvart hvað Cleveland hékk lengi inni í þessum leik og ef einhver hefði sagt okkur fyrir leik að hann yrði svona jafn, hefðum við alveg eins tippað á Cleveland-sigur í ljósi þess að það hentar Cavs betur að drepa tempóið.

Það voru hinsvegar Warriors-menn sem áttu fleiri og betri svör en Cavaliers á síðustu mínútunum og nú eru þeir komnir í ansi álitlega stöðu í einvíginu. Nú nægir þeim einn sigur í tveimur leikjum til að vinna meistaratitilinn og annar þessara leikja - oddaleikurinn - verður heima í Oracle ef þeim tekst ekki að loka þessu í Cleveland á þriðjudagskvöldið.


Við ætlum ekkert að eyða tíma í það núna að spá í sjötta leikinn, sem við lofum ykkur að verður sögulegur frá fyrstu mínútu eins og allt þetta einvígi. Við kjósum heldur að skoða heildarmyndina aftur, því heildarmyndin af þessu einvígi er listaverk sem verður fallegra með hverjum deginum.

Það er nefnilega þannig að þó allir spádómar okkar fyrir þetta einvígi hafi bókstaflega fokið til andskotans frá fyrstu mínútu, þýðir það ekki að séu ekki merkilegir hlutir að gerast í því.

Það sem ber hæst hjá okkur er ofurmannleg spilamennska LeBron James og það hvað Blatt og félagar eru að fá út úr takmörkuðum mannskap sem þeir hafa úr að moða. Og þar komum við að merkilegasta hlutnum í einvíginu að okkar mati:

  • Golden State er búið að vera besta liðið í NBA í allan vetur, óslitið síðan í haust.
  • Golden State hefur nánast sloppið við öll meiðsli, sem í ár er kraftaverk.
  • Golden State er með leikmann ársins í sínum röðum.
  • Golden State er með þjálfara ársins í sínum röðum.*
  • Golden State vann 67 leiki í deildarkeppninni, sem er eitt besta tímabil í sögu NBA.
  • Golden State var með bestu vörnina og næstbestu sóknina í NBA í vetur.
  • Golden State sópaði Brúnari í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
  • Golden State henti Memphis og Houston líka úr leik - gjörólíkum en fyrnasterkum liðum.
  • Golden State á þess vegna að vinna öruggan sigur á fulltrúa austursins og hirða titilinn.


Gallinn er bara að besti körfuboltamaður veraldar er ekki alveg tilbúinn að kvitta undir þetta handrit og er með sínar eigin hugmyndir um hvernig þetta á að fara. Liðið sem hann fer fyrir er ágætlega þjálfað en mannskapurinn sem það hefur úr að moða er ansi fátæklegur. Eins og einhver orðaði það svo skemmtilega:

"Vandræði LeBron James (og þar með Cleveland) í úrslitaeinvíginu snúast að mestu um að hann fær ekki nógu mikla hjálp, en það er ekki af því að aukaleikararnir hans séu að bregðast. Það er vegna þess að aukaleikarar aukaleikaranna hans eru ekki nógu góðir."

Það sem við erum sem sagt að reyna að segja er að þó Golden State sé aðeins að hiksta í úrslitaeinvíginu, breytir það engu um að þetta tímabil hjá því er ekki aðeins búið að vera frábært, heldur líka sögulegt. Þetta lið er að strauja sig í gegn um deildarkeppnina og hrikalegt vestrið og er komið með aðra hönd á bikarinn.

Og LeBron James var næstum rétt búinn að eyðileggja þetta allt fyrir þeim. Nánast einn síns liðs.

Fullkomlega eðlilegt að eina alvöru hindrunin á leið Warriors að titlinum sé einn maður.

Hann er bara það góður.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Mike Budenholzer var kjörinn þjálfari ársins, við vitum það alveg.
     Finnst þér það gáfulegt?  Einmitt.