Friday, June 19, 2015

Vel gert Warriors


Ritstjórnin velur sér tímann til að fara í árshátíðarferðina í ár...

Komið hefur í ljós að sum Evrópulönd eru ekki með internet og því varð umfjöllun okkar um síðasta körfuboltaleik ársins í NBA deildinni frekar endasleppt. Skítur skeður, það er ekki eins og hafi eitthvað óvænt gerst. Golden State vann meistaratitilinn og þó það hljómi fáránlega, er það rökrétt í alla staði.

Þið munið kannski eftir því sem við skrifuðum tvisvar eða þrisvar í vetur að svo gæti farið að við áttuðum okkur öll skyndilega á því að við hefðum orðið vitni að sögulegri leiktíð hjá mögnuðu körfuboltaliði. Við erum ekki að þenja út kassann og monta okkur yfir spádómsgáfu okkar, heldur aðeins að minna á að við veltum þessari pælingu upp þegar við sáum að Golden State ætlaði að verða eitthvað meira en Öskubuskuævintýri.


Við erum nokkurn vegin búin að dekka þetta Warriors-lið í öllum pistlunum í úrslitakeppninni og nú síðast í lokaúrslitunum. Það eina sem þetta lið átti eftir að sanna var að það gæti lokað á stóra sviðinu og það gerði það, þó andstæðingurinn hafi vissulega verið vængbrotinn.

Það er ekki Stephen Curry að kenna að hann hafi varla spilað á móti byrjunarliðsleikstjórnanda í úrslitakeppninni og það er ekki Golden State að kenna þó Cleveland hafi varla náð í lið vegna meiðsla. Við höfum sagt ykkur það hundrað sinnum að það verður ekkert lið NBA meistari án þess að hafa heppnina með sér - helst hvað varðar heilsu leikmanna.

Eins og þið sáuð, slapp Golden State mjög vel við allt svona vesen og það hafði sitt að segja í baráttunni. Þið þurfið ekki að leita lengra en til andstæðinga Warriors í úrslitunum til að sjá hvað heilsa og hressleiki skipta miklu máli.

Við getum alveg sætt okkur á að Golden State sé nú allt í einu orðið gott körfuboltalið sem er meira að segja búið að vinna meistaratitil. Það rúllaði deildarkeppninni upp og þó það hafi hikstað tvisvar í úrslitakeppninni, er ekki hægt að segja að því hafi verið ýtt út í horn á neinum tímapunkti. Ekki þannig.

Við höfum ekkert á móti Cleveland, en það hefði verið gjörsamlega glóraulaust ef liðið hefði náð að vinna titilinn. Það var bara of undirmannað. Þó er magnað að hugsa til þess að ef Cleveland hefði bara verið með tvo leikmenn í sinum röðum sem hefðu getað hitt úr þriggja stiga skotum (og við erum ekkert endilega að tala um Kyrie Irving og Kevin Love, heldur menn sem skjóta betur en JR Smith, sem hitti -18% fyrir utan í úrslitunum, þó það sé ekki hægt).

Þá hefði LeBron James kannski átt séns í að draga Cavs yfir endalínuna. Hann var svo fáránlega góður. Mörg ykkar eruð orðin leið á því að verið sé að mæra LeBron en það er ekkert annað í boði, því maðurinn sýndi hluti í lokaúrslitunum sem enginn körfuboltamaður í sögunni gæti leikið eftir.

Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað við hefðum skrifað um James ef Cleveland hefði unnið, en það gat auðvitað ekki verið. Hann fór hinsvegar fyrir liði sem komst yfir 2-1 í lokaúrslitum þrátt fyrir að vera... lélegt.

Margir segja að 2007 lið Cleveland hafi verið djók og veikasta lið síðari ára í lokaúrslitum, en það lið er eins og ´87 Lakers við hliðina á 2015 útgáfunni af Cleveland. Því er ykkur alveg óhætt að missa ykkur yfir James, það er bara í fínu lagi, hann á það inni. Í sumar skrifum við svo ítarlega rannsóknarskýrslu um það hvernig hann kemur út í samanburði við hinar goðsagnirnar.

Einu sinni voru það alltaf bestu leikmenn liðanna sem unnu titilinn sem kjörnir voru leikmenn lokaúrslitanna, en þannig var það ekki að þessu sinni. Við höfum ekkert á móti Andre Iguodala og hann átti sannarlega skilið að vera kjörinn leikmaður úrslitanna, en það að hann skuli verða fyrir valinu segir okkur margt um lið Warriors.

Iguodala er ekki fyrsta nafnið á blað hjá fólki þegar kemur að því að velja bestu leikmenn Golden State, en hann var einfaldlega réttur maður á réttum stað í þessum mánuði. Hann er einn af örfáum íþróttamönnum í þessum heimi sem getur hangið eitthvað í LeBron James og náði svo meira að segja að setja skotin sin ofan í með reglulegu millibili - sem var fundið fé fyrir Warriors.

Eitt skulum við lofa ykkur og það er að ef Golden State vinnur titilinn aftur, verður Iguodala ekki kjörinn maður úrslitanna. Þá segði Stephen Curry hingað og ekki lengra.

Þeir splass-bræður Curry og Thompson fóru í gegn um gríðarlega erfiðan skóla í úrslitunum og verða tilbúnir í allt framvegis. Fólk gerir sér ekki grein fyrir hvað það er erfitt fyrir skyttur að fóta sig í úrslitakeppni, þar sem varnamenn spila miklu fastar og komast upp með miklu meira áreiti og ofbeldi.

Það er ekki auðvelt að mæta svona hörðu en þurfa svo að finna algjöra mýkt í skotunum, gjarnan með hönd í andlitinu eða jafnvel hnefa á pung. Nú eru þeir Curry og Thompson reynslunni ríkari og verða ekki árennilegir í framtíðinni.

Ef við rýnum inn í framtíðina, er ekki annað að sjá en að Golden State verði á sínum stað við toppinn á næstu misserum. Við lofum ykkur að þetta lið verður aldrei aftur svona heppið með meiðsli, en það ætti samt að hafa nóg til að keppa um titilinn.

Það er ákaflega jákvætt að lið eins og Golden State sé að koma eins og skrattinn úr sauðaleggnum og vinna titil í ár, því við getum alltaf bókað að einhver lið í NBA reyna að herma eftir meisturunum. Það er reyndar ekki hægt af því það er bara til einn Steph Curry, en leikstíll Warriors er einstaklega sjónvarpsvænn og skemmtilegur. Og hversu mikið rugl er þessi leiktíð búin að vera hjá Steve Kerr! Hann er svar körfuboltans við Burn my eyes, fyrstu plötu Machine Head, sem var svo hörð að hún kom sveitinni rakleitt á toppinn og á gigg með Slayer og Sepultura.

Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig þessi titill fer í leikmenn Warriors, hvort þeir verða saddir eða peningagráðugir eða of miklar stjörnur til að halda þessu frábæra liði gangandi áfram. Golden State komst eins og áður sagði nokkuð huggulega í gegn um þessa úrslitakeppni. Það þurfti ekki að mæta San Antonio, Oklahoma og ekki Clipppers. Það mætti Houston liði án tveggja lykilmanna, Memphis með lykilmann á felgunni og svo fulltrúa austursins, sem án tveggja Stjörnuleikmanna var skipað besta körfuboltamanni aldarinnar, rulluspilurum, líkum og gamalmennum.

Leikmenn Golden State vita alveg hvernig þeir geta bundið enda á þetta hvísl.

Þeir vinna bara aftur að ári.