Af því það eru þrjár vikur á milli leikja í lokaúrslitaeinvíginu í NBA, gefst alltaf tími til að skoða hlutina í víðara samhengi meðan beðið er eftir næsta leik. Og það er dálítið skondið að stíga út fyrir þessa rimmu og skoða hvað er í gangi.
Við náum ekki alveg að henda reiður á það hvers vegna, en einvígi Golden State og Cleveland er búið að vera alveg sérstaklega skemmtilegt - og það þrátt fyrir að annað liðið sé búið að reyna að drulla það út með því að hægja á leikjunum og breyta þeim í leðjuglímu.
Þetta er búið að vera drullugaman, þó Cleveland spili eins og þungavigtarboxari og Golden State hafi alls ekki tekist að spila þann leiftrandi sóknarleik sem gerði það svo fallegt á að horfa í vetur. Meira að segja meiðsladraugurinn hefur ekki náð að koma í veg fyrir að þetta sé búið að vera frábært einvígi, en það þýðir ekki að þau séu ekki búin að hafa áhrif.
Meiðsli eru nefnilega faktórinn á bak við áhugaverðasta narratífið í úrslitaeinvíginu 2015, en það snýst um það hvort besta lið vetrarins ætli virkilega að láta miðlungslið hirða af sér titilinn.
Þið munið kannski hvað við skrifuðum þegar Anderson Varejao datt úr leik hjá Cleveland í vetur. Eins og það kom ekkert á óvart að hann félli úr leik, áttum við von á að það yrði erfitt eða næstum ómögulegt fyrir Cavs að fylla skarð hans. En annað kom sannarlega á daginn og þess vegna er framkvæmdastjóri Cleveland búinn að standa sig betur en allir kollegar hans í deildinni í vetur.
Ef það hefðu nú bara verið meiðsli Varejao sem Cleveland þurfti að hafa áhyggjur af. Nei, þeir Kevin Love og Kyrie Irving þurftu að fara líka. Ástþór í fyrstu umferðinni, Irving í fyrsta leik í lokaúrslitunum eftir að hafa verið lengi á annari löppinni. Það sem eftir stendur er það sem við erum að horfa á í dag: Golden State á móti LeBron James og blöndu af ellilífeyrisþegum og aukaleikurum.
Þetta ætti ekki að vera flókin viðureign. Við getum alveg sagt ykkur það eins og er að við höfðum ekki trú á því að Cleveland ætti eftir að fara í úrslitin og enn síður að það væri nú að gera eitthvað þar. Við hefðum tippað á að Cleveland næði í allra mesta lagi að vinna tvo leiki gegn Golden State í úrslitunum - en aðeins ef bæði Kevin Love og Kyrie Irving hefðu verið við fulla heilsu.
Það er því eðlilega búið að vera stórfurðulegt fyrir okkur og alla aðra að horfa upp á Cleveland eiga i fullu tré við Golden State þrátt fyrir þennan augljósa liðsmun. Enginn hefði spáð því að Cavs ætti eftir að komast yfir 2-1 í rimmunni og sennilega hefðu fáir spáð því að liðið næði að vinna tvo leiki í henni yfir höfuð.
Nú er ekki hægt að fullyrða neitt um það - og einmitt þess vegna fullyrðum við það - en við erum alveg handviss um að ef þessi lið hefðu mæst í úrslitum með allan sinn mannskap heilan, hefði það ekki verið eins jafnt og dramatískt og það hefur verið til þessa. Við þorum að veðja að þá hefði það spilast allt öðruvísi, varnarleikur Cleveland hefði verið miklu, miklu lélegri og Golden State hefði gengið á lagið og skotið það í kaf.
En í staðinn fyrir skotsýningar, hefur úrslitaeinvígið verið hálfgert grændkor eins og þið hafið öll séð. Þið eruð vafalítið ósammála okkur, en við erum handviss um að þessi ofurmannlega varnar- og hnoðleikaðferð Cavs er að skila liðinu lengra en það hefði farið með alla heila.
Þeir Love og Irving eru kannski ekki lélegustu varnarmenn í heimi, en þeir hafa svona mikil áhrif.
Golden State hefði fundið leiðir til að pikka þá og róla til andskotans í hverri einustu sókn.
Þessi kenning skiptir náttúrulega engu máli, því úrslitin halda áfram þó menn séu með meiddi og þegar hér er komið við sögðu er staðan orðin 2-2 fyrir Golden State.
Staðan var 2-1 fyrir Cleveland og þá féllu öll vötn til Dýrafjarðar hjá LeBron James og félögum - eitthvað sögulegt virtist í loftinu.
Flóamenn náðu hinsvegar að rífa sig upp á anusnum í fjórða leiknum og vinna stórsigur eftir að leikmennirnir fóru í ítarlega naflaskoðun og þjálfarateymið djassaði upp smá breytingar á byrjunarliði og rótasjónum.
Þess vegna segjum við að staðan sé 2-2 fyrir Golden State: liðið er í fyrsta skipti búið að ná tökum á þessu einvígi.
Fyrsti sigurinn hjá þeim var naumur og vannst þrátt fyrir að Cleveland stýrði ferðinni gjörsamlega þangað til botninn datt úr þessu hjá þeim í framlengingunni.
Og þá erum við komin að heildarmyndinni aftur. Ef við tökum nefið upp úr einvíginu og fáum Ómar Ragnarsson til að fljúga með okkur yfir það, ætti það að vera alveg augljóst hvert stefnir. Hvernig í fjandanum á lið án þriggja fastamanna, tveggja þeirra Stjörnuleikmanna, að standa í besta liði vetrarins? Það á ekki að vera hægt!
Og vitið þið hvað?
Það er ekkert hægt.
Barátta Cleveland var algjörlega til fyrirmyndar hjá Cleveland í fyrstu þremur leikjunum en við erum hrædd um að nú sé sú blaðra sprungin. Golden State náði kannski ekki að slíta sig alveg úr hrömmunum á Cavs-vörninni í síðasta leik, en þó nógu mikið til að skorarar Warriors fengu loksins smá sjálfstraust.
Það á eftir að koma í ljós sunnudagskvöldið 14. júní 2015 hvort Cleveland hefur náð að hlaða rafhlöðurnar nægilega vel á þessum góða tíma sem líður á milli leikja fjögur og fimm.
En þó LeBron og félagar verði klárlega ferskari í þessum leik en í þeim síðasta (þar sem þeir áttu ekki séns vegna orkuskorts) er eitthvað sem segir okkur að þeir muni ekki ná að hemja tempóið eins vel og áður og að skyttur Warriors eigi eftir að hitta miklu betur en áður. Sem yrði uppskrift að hörmungum fyrir Cavs.
Það eina sem vinnur með Cavs hérna er að pressan er farin af því vegna allra meiðslanna eins og við töluðum um fyrir einvígið. Að sama skapi er öll pressan á Golden State, sem hefur aldrei gert þetta áður.
Það vorkennir samt enginn Warriors að vera í þessari stöðu, því hvert einasta lið sem hefur tapað í úrslitum á síðustu þrjátíu árum er núna að hugsa um af hverju Warriors hafi verið svona ógeðslega heppið að fá vængbrotinn andstæðing í lokaúrslitaeinvígnu.
Það er ekki ofsögum sagt að Cleveland sé vængbrotið - og það á báðum. Pældu bara aðeins í því hvernig Miami hefði gengið að eiga við San Antonio í úrslitunum í fyrra ef hvorki Dwyane Wade né Chris Bosh hefði verið með í fænals. Bara LeBron og Greg Oden og Michael Beasley.
Efnilegt, hér.
Þess vegna er nú kominn tími til að Golden State hætti þessu rugli og loki þessu í næstu tveimur leikjum - og það örugglega. Annað er bara aulagangur.
Við vitum alveg að við eigum að bera virðingu fyrir öllum andstæðingum og að öll lið spila af fullum krafti í úrslitum, en þetta á ekki að vera svona erfitt hjá Dubs. Þeir eiga að valta yfir svona lið eftir að hafa farið örugglega í gegn um vestrið. Nei, svona í alvöru.
Það besta við þetta einvígi er samt að það er alveg sama hvað gerist í því, við fáum alltaf góða sögu úr því. Golden State á séns á að vinna þetta í fyrsta skipti í 600 ár, hefur átt frábæran vetur og er með ný og fersk og andlit sem eru að verða húsáhaldanöfn í bransanum.
Best af öllu yrði þó auðvitað ef Cleveland næði að naga sig í gegn um þetta og vinna titilinn. Það yrðu óvæntustu úrslit í nútíma NBA og myndu setja allt á annan endann. Skemmtilegasta verkefnið eftir slíka bombu yrði að reyna að finna út úr því hvað ætti að gera við LeBron James í kjölfarið.
Kannski er asnalegt að vera að bíða eftir því að sjá hver úrslitin verða í síðustu 2-3 leikjunum og láta það ráða því hvort LeBron James fer hátt á FIFA-lista bestu körfuboltamanna allra tíma, en það eru víst titlarnir sem ráða þessu.
Og ef James vinnur þennan, þarf að kalla allar nefndir á neyðarfund og skrifa allt upp á nýtt.
Ekki ólíklegt að við tækjum þátt í þeim skrifum.