Monday, August 29, 2011
Hann á afmæli í dag
Eitt af afmælisbörnum dagsins í dag, er líklega frægast fyrir að vera ekki á þessari mynd.
Einhver gæti giskað á Krumma í Mínus en við eigum ekki við hann, þó hann eigi vissulega afmæli.
Nei, það er reyndar hinn 34 ára gamli Devean George. Hann var oftast (48) í byrjunarliði Los Angeles Lakers leiktíðina frægu 2003-´04 og spilaði stöðu minni framherja. Það var Rick Fox sem jafnan mannaði stöðuna en hann átti við meiðsli að stríða þennan vetur eins og flestir í liðinu. Aðeins George, Derek Fisher og Gary Payton spiluðu alla 82 leikina.
Þetta var veturinn sem Lakers ætlaði að hrifsa aftur til sín titilinn sem það missti í hendur San Antonio vorið áður. Karl Malone og Gary Payton voru komnir til Hollywood til að spila með Kobe Bryant og Shaquille O´Neal. Payton og Malone voru auðvitað komnir af léttasta skeiði, en það eru líklega engin fordæmi fyrir því að fjórir leikmenn með aðra eins pappíra hafi myndað byrjunarlið. Þessi liðsstyrkur skilaði Lakers aftur í úrslitin en þar beið ekki annað en sögufrægur skellur gegn Detroit.
Já, það var afar huggulegt í vinnunni hjá Devean George og okkur er minnistætt að einhver blaðamaðurinn skrifaði að George væri án nokkurs vafa heppnasti maðurinn í NBA deildinni með djobbið sitt - jafnvel heppnari en þessi Jon Stefansson sem skömmu áður hafði landað samningi við Dallas Mavericks.
Það hefur örugglega verið gaman að vera Devean George þennan vetur og auðvelt að sjá fyrir sér hvað kappinn hefur talað um þegar hann var að spjalla við dömurnar á barnum.
"Já, já, það var auðvitað æfing í dag. Fórum í þriggja stiga keppni og ég vann Kobe í úrslitum - í annað skiptið á þremur dögum. Hann er ekkert svo góð skytta, sko!"
"Hvernig er að spila með Malone? Æ, hann Kalli mætti nú gera meira af því að finna mig í hornunum, en hann er fínn gaur sko. Atvinnumaður fram í fingurgóma og þannig gaura fíla ég að hafa með mér í liðinu Traustur vinur sem getur gert kraftaverk!"
"Payton? Heh, hann þorir nú ekkert að þenja sig við mig. Ég sagði honum nú bara að hann væri kominn til Lakers núna og að hann ætti að reyna að tala aðeins minna og spila meira!"
"Það er sama hvað maður reynir að segja Shaq til í vítunum. Hann bara hlustar ekkert á mann. Alveg dæmigert fyrir Shaq!"
--------------------------------------
- P.s. - Hefðir þú trúað því að Stanislav Medvedenko var stigahæsti leikmaður Lakers yfir veturinn fyrir utan fjórmenningana með 8,3 stig að meðaltali? Já, já, flettu því bara upp.
Umhverfisvæn tækjagreftrun
Þær eru að óðum að nálgast 1500, færslurnar sem skrifaðar hafa verið á þessa síðu síðan hún hóf göngu sína á síðasta degi nóvembermánaðar árið 2009. Takk fyrir að lesa tuðið okkar allan þann tíma.
Við höfum verið að skrifa þetta á misgóðar fartölvur alveg þangað til um daginn, þegar ritstjórnin sló kúlulán og fjárfesti í ofur-borðvél sem keyrir nú allt apparatið.
Það var tregablandin tilfinning að fara með fartölvulíkin í endurvinnsluna á dögunum. Mikil ósköp af bulli hafa nú komið út úr þessum tækjum og endað á skjánum þínum.
Jæja, þá ertu búin(n) að lesa tilfinningaþrungna myndasögufærslu um tölvugreftrun.
Enn eitt atriðið sem þú getur strikað út af fötulistanum þínum eftir að hafa lesið NBA Ísland.
Efnisflokkar:
Eðlilegt
Sunday, August 28, 2011
Friday, August 26, 2011
Bobby Hansen og septemberdagskráin á NBATV
Það sést á þér. Þú ert eflaust að hugsa með þér, "af hverju er Bobby Hansen svona rosalega glaðlegur á svipinn?"
Jú, það er af því hann var að komast að því að tæknitröllin á NBA Ísland voru að fikta í Google docs og náðu að setja septemberdagskrána á NBATV inn á dagskrársíðuna á NBA Ísland (smelltu á kassann undir Twitter-glugganum til hægri).
Nú getur þú skrollað í gegn um alla septemberdagskrána, mínútu fyrir mínútu, og merkt við allt það sem þig langar að sjá á dagatalinu.
NBATV er jafnan með ágætis úrval af gömlum klassíkerum og öðru góðgæti og nú þegar illa horfir með næstu leiktíð er ekki annað að gera en að sökkva sér í klassíkina. Finna þessa Jordan-leiki sem þig hefur alltaf langað að sjá og svona.
Þú áttar þig á því að tímarnir sem gefnir eru upp í skjalinu miðast við austurtíma í Bandaríkjunum og fram á haustið þýðir það að við erum fjórum tímum á undan. Dagskrárliðir sem hefjast 7pm á NBATV eru þannig á dagskrá klukkan 23 hér á landi og 8pm þýðir að liðurinn hefst á miðnætti hér. Þú áttar þig á þessu. Góða skemmtun.
Efnisflokkar:
Dagskrá
Tuesday, August 23, 2011
Monday, August 22, 2011
Sunday, August 21, 2011
Tarfurinn
Smári Tarfur er einn af uppáhalds tónlistarmönnum okkar. Hér tekur hann nýjustu afurð sína "Ástin mín" heima í stofu. Það er sama hvað drengurinn tekur sér fyrir hendur í músíkinni, það leikur allt í höndunum á honum. Og svo les hann líka NBA Ísland á hverjum degi eins og allir með viti.
Efnisflokkar:
Tónlistarhornið
Wilt Chamberlain hefði orðið 75 ára í dag
Stigamaskínan, brautryðjandinn og náttúrufyrirbærið Wilt Chamberlain ætti 75 ára afmæli í dag, hefði hann lifað.
Chamberlain lést um aldur fram árið 1999 en var þá löngu búinn að setja sinn tröllvaxna stimpil á sögu leiksins.
Körfubolti væri einfaldlega ekki jafn áhugaverð íþrótt ef menn eins og Wilt hefðu ekki farið á kostum á parketinu.
Það hefur myndast leiðinleg hefð fyrir því að gagnrýna Wilt Chamberlain af því hann var harðasti andstæðingur og samferðamaður Bill Russell í greininni.
Wilt sá um að trekkja að áhorfendur og slá met, meðan Russell var aðallega í því að vinna meistaratitla. Menn verða að gera bæði svo gaman sé af leiknum.
Það getur vel verið að Wilt hafi ekki verið eins mikill sigurvegari og Russell, en það fer í taugarnar á okkur þegar því er haldið gegn honum. Wilt var sannkallað fyrirbæri á íþróttasviðinu og mikill karakter.
Allir vita að hann er eini maðurinn sem skorað hefur 100 stig í einum leik í NBA deildinni, færri vita að hann skilaði meðaltali einn veturinn upp á 50 stig og 25 fráköst - sem er óguðlegt alveg sama hvernig á það er litið. Varð líka frákastakóngur oftar en nokkur annar.
Það er oft rætt um það hvort menn sem sköruðu fram úr í NBA fyrir áratugum síðan gætu gert það í boltanum í dag, en það er enginn vafi í okkar huga að menn eins og Wilt hefðu verið handfylli fyrir hvern sem er - hvenær sem er.
Hann var rosalegur íþróttamaður, fljótur og nautsterkur. Hristir eflaust höfuðið í kvennabúrinu sínu á himnum þegar hann horfir á miðherja dagsins í dag þjösnast um í teignum.
Það eru líka til margar sögur af Wilt úr skemmtanalífinu og þegar hann var veiðum, var enginn kvenmaður í póstnúmerinu óhultur. Hann lét líka til sín taka í Hollywood þegar hann lék á móti Arnold í Conan. Arnold var hrikalegur, en hann hefði aldrei átt séns í Stóra Dipperinn.
Til hamingju með daginn, stóri.
Efnisflokkar:
Afmæli
,
Klassík
,
NBA 101
,
Wilt Chamberlain
Saturday, August 20, 2011
Thursday, August 18, 2011
Draumaandstæðingar Shaq í hringnum
Shaq hefur gaman af bardagaíþróttum og hér segir hann okkur hvaða kappa hann væri til í að berjast við. Vitum ekki með ykkur, en við myndum borga hátt verð fyrir að sjá þessa bardaga. Eða hefðum viljað sjá þá - sumir af þessum körlum eru nú komnir aðeins á aldur fyrir áflog. Áhugavert að þetta eru allt framherjar, nema Ainge auðvitað. Shaq nefndi ekki Scott Skiles til sögunnar, enda eru þeir búnir að slást.
Efnisflokkar:
Shaquille O´Neal
Wednesday, August 17, 2011
Velkominn í HOFið, Tex (það var mikið)
"He [Tex Winter] got frustrated with players at times. A Michael Jordan who he said couldn’t pass the ball right; Shaq who wouldn’t take coaching very easily, Kobe who overpenetrated or handled the ball too long so the offense didn’t run right. Every star that I’ve ever had on a team, except Scottie Pippen basically, he had trouble with parts of their game."
- Phil Jackson, on Tex Winter
Efnisflokkar:
Heiðurshöllin
Tuesday, August 16, 2011
Monday, August 15, 2011
Sabonis er líka kominn í HOFið
Það er eitt stærsta "hvað ef" í sögu leiksins. Hvað ef Arvydas Sabonis hefði spilað í NBA deildinni þegar hann var upp á sitt besta?
Við fáum aldrei svar við þeirri spurningu, en hann hefði í versta falli haft mikil áhrif. Það er alltaf þannig með stórkostlega miðherja. Þeir breyta landslaginu í NBA og það hefði Sabonis vafalítið gert.
Ef þú efast um það, skaltu kíkja á myndina af honum hérna fyrir neðan þar sem hann er að setja ungan David Robinson á veggspjald.
Sabonis var engum líkur og það var hrein unum að horfa á hann spila körfubolta með Portland, jafnvel þó hann væri kominn af léttasta skeiði. Dálítið eins og skógarbjörn með sendingar Magic Johnson.
Efnisflokkar:
Arvydas Sabonis
,
Heiðurshöllin
Sunday, August 14, 2011
Saturday, August 13, 2011
Wednesday, August 10, 2011
Tuesday, August 9, 2011
Þessi mynd er stórbrotin
Þetta eru Method Man úr Wu-Tang Clan og framherjinn Anthony Mason sem þekktastur er fyrir að hafa spilað með New York Knicks. Myndin er frá vetrinum 2000-2001 þegar Mason lék með Miami Heat. Var þá með skáp við hliðina á Brian Grant eins og sjá má á myndinni. Annars var nokkuð skemmtileg blanda af leikmönnum í þessu aldamótaliði Heat.
Monday, August 8, 2011
Thursday, August 4, 2011
Er virkilega svona langt síðan?
Þetta var í Stjörnuleiknum 1998. Kevin Garnett í sínum öðrum Stjörnuleik - Kobe
Bryant í sínum fyrsta. Hvorugur þeirra var í raun orðinn nógu góður til að eiga
skilið að fá alvöru mínútur í leiknum, sérstaklega Bryant.
Kobe var varamaður Eddie Jones hjá Lakers alla leiktíðina, en hirti af honum
byrjunarliðssætið í Stjörnuleiknum út á vinsældir sínar. Svona er þetta stundum.
Ef vel er að gáð má sjá Larry Bird á hliðarlínunni en hann var þarna að þjálfa austurliðið.
Indiana-liðið hans var gott eins og þið munið.
Efnisflokkar:
Klassík
,
Stjörnuleikir
Kvöld með Michael Jordan
Sem betur fer fyrir okkur hin, er enn nóg af fólki þarna úti sem hefur nægan frítíma. Þú verður líka að hafa hann til að klippa saman tvo og hálfan tíma af tilþrifum sem ná yfir nær alla 50+ stiga leiki Michael Jordan á ferlinum. Má ekki milli sjá hvort afrekið er merkilegra, öll þessi stig Jordan eða klippivinnan á bak við þetta youtube myndband. Þetta er keppnis.
Efnisflokkar:
Klassík
,
Michael Jordan
,
NBA 101
,
Netbrennur
Wednesday, August 3, 2011
Tuesday, August 2, 2011
Kevin Durant hélt netbrennu á leikvellinum
Efnisflokkar:
And1
,
Götubolti
,
Kevin Durant
,
Netbrennur
,
Svægi
Subscribe to:
Posts (Atom)