Sunday, August 21, 2011
Wilt Chamberlain hefði orðið 75 ára í dag
Stigamaskínan, brautryðjandinn og náttúrufyrirbærið Wilt Chamberlain ætti 75 ára afmæli í dag, hefði hann lifað.
Chamberlain lést um aldur fram árið 1999 en var þá löngu búinn að setja sinn tröllvaxna stimpil á sögu leiksins.
Körfubolti væri einfaldlega ekki jafn áhugaverð íþrótt ef menn eins og Wilt hefðu ekki farið á kostum á parketinu.
Það hefur myndast leiðinleg hefð fyrir því að gagnrýna Wilt Chamberlain af því hann var harðasti andstæðingur og samferðamaður Bill Russell í greininni.
Wilt sá um að trekkja að áhorfendur og slá met, meðan Russell var aðallega í því að vinna meistaratitla. Menn verða að gera bæði svo gaman sé af leiknum.
Það getur vel verið að Wilt hafi ekki verið eins mikill sigurvegari og Russell, en það fer í taugarnar á okkur þegar því er haldið gegn honum. Wilt var sannkallað fyrirbæri á íþróttasviðinu og mikill karakter.
Allir vita að hann er eini maðurinn sem skorað hefur 100 stig í einum leik í NBA deildinni, færri vita að hann skilaði meðaltali einn veturinn upp á 50 stig og 25 fráköst - sem er óguðlegt alveg sama hvernig á það er litið. Varð líka frákastakóngur oftar en nokkur annar.
Það er oft rætt um það hvort menn sem sköruðu fram úr í NBA fyrir áratugum síðan gætu gert það í boltanum í dag, en það er enginn vafi í okkar huga að menn eins og Wilt hefðu verið handfylli fyrir hvern sem er - hvenær sem er.
Hann var rosalegur íþróttamaður, fljótur og nautsterkur. Hristir eflaust höfuðið í kvennabúrinu sínu á himnum þegar hann horfir á miðherja dagsins í dag þjösnast um í teignum.
Það eru líka til margar sögur af Wilt úr skemmtanalífinu og þegar hann var veiðum, var enginn kvenmaður í póstnúmerinu óhultur. Hann lét líka til sín taka í Hollywood þegar hann lék á móti Arnold í Conan. Arnold var hrikalegur, en hann hefði aldrei átt séns í Stóra Dipperinn.
Til hamingju með daginn, stóri.
Efnisflokkar:
Afmæli
,
Klassík
,
NBA 101
,
Wilt Chamberlain