Tuesday, December 29, 2015

Áramótaannáll NBA Ísland


Það er ekki til siðs að gera áramótaannála í NBA deildinni, enda er árið þar ekki gert upp fyrr en hálfu ári eftir áramót. Við hérna á NBA Ísland horfum hinsvegar ekkert í það hvað er til siðs eða ekki. Þó það sé vissulega glórulaust að gera áramótaannál í NBA deildinni, erum við svo mikið fyrir að gera hlutina upp um áramót að okkur fannst ekki hægt annað en setja niður nokkrar línur um NBA-árið sem er að líða.

Helsta ástæðan fyrir þessari annálaáráttu í okkur núna er auðvitað Golden State liðið okkar (flest) allra og lygilegur árangur þess á almanaksárinu 2015 sem senn er á enda. Samkvæmt okkar útreikningum er Warriors liðið búið að vinna 69 deildarleiki á árinu 2015, tapa aðeins 16 og vinna jú einn meistaratitil eða svo.

Það varð fljótt ljóst síðasta haust hvert stefndi, þegar Golden State stökk öskrandi upp úr startblokkunum og byrjaði að valta yfir andstæðinga sína. Ekkert okkar hafði trú á því að þetta lið væri beinlínis meistaraefni framan af, því við höfðum jú oft séð lið vinna fullt af leikjum í deildarkeppninni en missa svo niður um sig brækurnar að vori.




En Golden State hélt bara áfram að vinna og vinna - vann 67 leiki í deildarkeppninni og hélt uppteknum hætti í úrslitakeppninni. Liðið sópaði New Orleans í fyrstu umferð, en fékk svo aðeins á kjaftinn í annari umferð þegar Memphis náði að koma á þá ágætum vinstri krók. Warriors-menn svöruðu honum með hægrihandarbombu og rotuðu Húnana. Þá beið þeirra Houston-lið sem veitti mótspyrnu í fyrstu tveimur leikjunum í Oakland, en síðan ekki söguna meir - strangt til tekið.

Eins og flestir sem þetta lesa vita svo, vann Golden State meistaratitilinn eftir þungavigtareinvígi við vængbrotið Cleveland-lið í lokaúrslitunum í júní.

Hatursmenn Warriors og neikvæðar-Nönnur hafa allar götur síðan verið með leiðindi út í liðið af því öll liðin sem það mætti í úrslitakeppninni voru á einn eða annan hátt að glíma við meiðsli lykilmanna. Eins og það hafi verið leikmönnum Warriors að kenna að enginn af andstæðingum þeirra í úrslitakeppninni gat státað af því að tefla fram fullkomlega heilum leikstjórnanda. Eins og það væri við Curry og félaga að sakast að Cleveland hafi verið án tveggja stjörnuleikmanna í lokaúrslitunum. Og að það hafi verið þeim að kenna að þeir hafi hvorki þurft að mæta LA Clippers né San Antonio í úrslitakeppninni á leið sinni að titlinum.


Nei, það var ekki Warriors að kenna, en sumir virtustu líta þannig á þetta og gengisfella þar með fyrsta meistaratitil félagsins í fjóra áratugi.

Við höfum farið yfir þetta hundrað sinnum og gerum það einu sinni enn hér, Golden State var vel að titlinum komið og gerði ansi vel að landa honum með tiltölulega ungt lið, nýliða í þjálfarastólnum og litla reynslu af að fara djúpt inn í úrslitakeppnina.

Nú hafa leikmenn Golden State notað alla þessa neikvæðni á hárréttan hátt og virðast staðráðnir í að troða drulluskítugri tusku upp í alla hatursmenn sína og konur. Eða það lítur að minnsta kosti þannig út, þegar lið tapar ekki nema einum af fyrstu 30 leikjum sínum eða svo í deildarkeppninni þrátt fyrir að aðalþjálfari þess sé enn ekki mættur í vinnunna vegna veikinda.

Margir settu upp undrunarsvip þegar Steve Kerr lét hafa eftir sér að þó lið hans hefði vissulega verið gott á síðustu leiktíð, ætti það enn langt í land með að verða alvöru. Það yrði fyrst alvöru í ár, þegar menn væru komnir með ársreynslu og búnir að slípa sig almennilega saman sem lið. Þetta þekkir Kerr mjög vel frá því á árunum sem hann var leikmaður sjálfur, þar sem hann lyfti bikurum á hverju ári á lokasprettinum með Bulls og Spurs.

Það hefur svo komið á daginn að þetta var hárrétt hjá Kerr - Golden State er miklu betra í vetur en það var í fyrra - eins hrikalegar fréttir og það eru nú fyrir andstæðingana.

Eins og staðan er núna um áramótin 2015-16, eiga bara þrjú lið fræðilegan möguleika á að slá heilt Golden State lið út úr úrslitakeppninni og sennilega eiga bara tvö þeirra raunhæfa möguleika á því. Það fer þó sennilega alveg eftir því hvað við köllum raunhæfa möguleika, því þessir möguleikar eru satt best að segja ekkert rosalega miklir.


Oklahoma á smá séns ef allt smellur hjá því í vetur, en eins og staðan er hjá Durant, Westbrook og félögum akkúrat í dag, er það einfaldlega ekki nógu sterkt lið til að eiga séns í Warriors. Oklahoma er hinsvegar gott lið með góðan pótensjal og við verðum að gefa því smá séns til að bæta sig undir stjórn nýs þjálfara. Við höldum þó ekki niðri í okkur andanum með þetta lið.

Hin tvö liðin sem eiga raunhæfa möguleika á að veita Golden State almennilega samkeppni eru Cleveland og San Antonio. Texas-liðið er búið að spila óhemju vel í vetur - miklu betur en við áttum von á - sérstaklega í varnarleiknum. Þetta er síðasta árið sem San Antonio á möguleika á titli með Tim Duncan og Manu Ginobili í lykilstöðum og því er mikið undir á þeim bænum. Það verður ekkert gaman að eiga við þetta lið í úrslitakeppninni í vor, en þó þetta sé óhemju sterkt lið, eru mögulegt að vel þjálfaður og sterkur mótherju geti sparkað í það á viðkvæmum svæðum og sent það í sumarfrí.

Cleveland á fyrst og fremst séns í Golden State af því það er með tryggan farseðil í úrslitaeinvígið, nánast hvort sem það er heilt heilsu eða ekki. Við höfum séð austrið taka sig á í vetur, en það hefur ekkert að segja þegar kemur fram í úrslitakeppni. Það á ekkert lið í austrinu vísindalegan séns í Cleveland.

Lið með LeBron James á alltaf ágæta möguleika á að gera eitthvað gott í seríu og vonandi fær téður James meiri hjálp í úrslitakeppninni næsta vor en hann fékk síðast.



Færi svo að Golden State og Cleveland mættust öðru sinni í úrslitum, er ljóst að einvígið myndi þróast allt öðruvísi ef austurliðið mætti með allar sínar stjörnur heilar. Okkur sýnist samt að eina leiðin sem Cleveland yrði fær í það skiptið, yrði að skjóta Golden State í kaf í staðinn fyrir að berja það í kaf eins og síðast. Það er aftur á móti hættuleg aðferðafræði gegn trylltustu sókninni í NBA.

Árið 2015 var sannarlega ár Golden State Warriors og það er ekki oft sem lið ná að loka almanaksárinu með jafn glæsilegum og afgerandi hætti og Warriors í ár. Þetta lið er búið að skrifa kapítula í sögubækurnar með frammistöðu sinni og er hvergi nærri hætt. Það er ekki aðeins að vinna, það er að spila körfubolta sem aldrei hefur sést áður, með stórstjörnu í fararbroddi sem körfuboltaheimurinn hefur aldrei séð áður.

Framganga Stephen Curry og Golden State Warriors hefur tryggt það að ritstjórn NBA Ísland skemmti sér konunglega á árinu 2015 og við vonum sannarlega að árið 2016 verði jafn eftirminnilegt og skemmtilegt.

Nýtt hlaðvarp


Í 55. þætti Hlaðvarps NBA Ísland fara Baldur og Gunnar yfir stöðu mála í NBA deildinni, lið fyrir lið, og ræða meðal annars hvernig austurdeildinni hefur vaxið fiskur um hrygg að undanförnu, hvaða lið geta átt von á að keppa um titla og hver ekki, hvort Golden State geti slegið met Chicago Bulls yfir flesta sigra á einu tímabili, stjörnuleikjahefðina, kveðjutúr Kobe Bryant og margt, margt fleira - skárra væri það nú á 90 mínútum af gæðahlaðvarpi (með nokkrum innskotum af ótímabærum flugeldasprengingum frá vandræðaunglingum í Grafarholti).

Þú getur hlustað á þáttinn í spilaranum hérna fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna til að sækja hann og setja hann inn á spilarann þinn.

Saturday, December 26, 2015

Perla fyrir pening


Illa farið með besta lag Public Enemy, en ef við gleymum því í augnablik að þetta sé auglýsing, er þetta nokkuð skemmtilega gert. Hefði einhver átt að segja Chuck D að hann ætti eftir að lána þetta lag í farsímaauglýsingu daginn eftir að það kom út. Sá hefði hlegið.

Thursday, December 24, 2015

Tuesday, December 22, 2015

Af vandamálum Chicago Bulls


Af hverju að vera að eyða orku í að skrifa um þetta Chicago-lið, sem við eru meira að segja búin að afskrifa fyrir löngu? Það er ekki gott að segja. Kannski af því það tekur alltaf upp helminginn af fréttunum á ESPN, alveg sama hvort eitthvað er að frétta af liðinu eða ekki.

Þær eru búnar að vera margar, ekki-fréttirnar af Chicago í vetur, en sú nýjasta var merkilegt nokk ekki ekki-frétt um það hvort Derrick Rose treysti sér til að spila með bólu á rassinum eða tognað nefhár - þetta voru raunveruleg tíðindi. Og auðvitað gátu þau ekki verið jákvæð - þetta er Chicago, grátandi upphátt.

Nei, málið snýst um ummælin sem Jimmy Butler lét falla í viðtali eftir tap Chicago gegn New York á dögunum, þar sem hann viðraði skoðanir sínar á þjálfaranum sínum og meðspilurum með frekar afgerandi hætti.

Það gerist hreinlega ekki á hverjum degi að leikmenn í NBA deildinni rífi þjálfarana sína svona upp á punghárunum og kasti þeim undir næstu rútu, en Butler var greinilega búinn að fá nóg af því viðvarandi ástandi sem ríkt hefur hjá Bulls að undanförnu.

Fjölmiðlar hlupu auðvitað til og slógu því upp að Butler hefði þarna verið að taka þjálfarann sinn af lífi, en það er ekki nema helmingur sögunnar að okkar mati.

Ástæðan fyrir því að Butler var óánægður með þjálfarann var sú að honum þótti Fred Hoiberg ekki nógu duglegur að skamma leikmennina þegar þeir eru með allt lóðrétt niður um sig. Og þeir hafa sannarlega verið með allt á hælunum með reglulegum hætti.

Gagnrýnin í þessu snýr því faktískt meira að leikmönnum Chicago en þjálfaranum og það þýðir að Jimmy Butler er nú orðinn jafn pirraður á leikmönnum Bulls og við! Þó fyrr hefði verið.

Það var þónokkuð skrum í kring um ráðningu Bulls á Hoiberg sem þjálfara í sumar og margir vildu meina að hann ætti eftir að gefa sóknarleik liðsins sterasprautu í anusinn. Hann kann að hafa reynt að gera það í haust, en öll áform hans um að reyna að láta boltann ganga hraðar í sókninni runnu víst fljótlega út í sandinn og eftir stendur eitthvað hnoð sem skilar litlum árangri.

Einhver hefði haldið að lið með menn eins og Derrick Rose, Jimmy Butler og Pau Gasol ætti að geta skorað stig, en gallinn er að þegar nánar er að gáð, er mannskapurinn sem liðið hefur yfir að ráða fullt af ferköntuðum kubbum sem ætlað er að fara niður um kringlótt göt.

Chicago vantar leikmenn sem geta skotið, eins og öll lið í NBA deildinni, af því allur sóknarleikur í dag gengur út á að geta teygt á gólfinu og fengið vörn andstæðinganna til að hlaupa í allar áttir eins og hauslausir kjúklingar.

Vörn sem þarf ekki að hlaupa um allt gólf og hafa áhyggjur af skyttum, getur leyft sér að pakka bara miðjunni og bíða eftir að andstæðingurinn annað hvort missi boltann eða taki skot sem litlar líkur eru á að fari ofan í.

Þetta eru oftar en ekki örlög Chicago-manna í sókninni - það er ekkert að frétta hjá þeim.

En hvernig stendur á þessu? Jú, við fyrstu sýn virðast vera menn í liði Bulls sem eiga að geta bjargað sér sóknarlega, en það er bara ekki svo gott.

Pau Gasol skorar eitthvað af stigum í teignum og Jimmy Butler framleiðir eitthvað af sóknarleik upp á sitt einsdæmi, en það eru langskotin sem liðið vantar svo nauðsynlega að bæta til að geta auðveldað sér lífið í sókninni.

Jimmy Butler var að skjóta ljómandi vel fyrir utan í fyrra, en hefur dalað mjög illa í vetur, Pau Gasol er hættur að taka þriggja stiga skot, Nikola Mirotic ætti varla að taka þau því hann hittir ekki rassgat og besta þriggja stiga skytta liðsins (Mike Dunleavy) er meidd og virðist ætla að verða það næstu árin. Ljósir punktar eins og Doug McDermott hjálpa til, en hann er ekki maður í að fá almennilegan spilatíma nærri strax.

Þá er ótalinn fíllinn í herberginu, Derrick Rose.

Derrick Rose er ekki bara að eiga gjörsamlega hræðilegt tímabil þar sem hann hittir ekki nokkurn skapaðan hlut og spilar stundum eins og hálfgerður vitleysingur - hann er mögulega uppspretta og rót flestra vandamála liðsins. Blessaður karlinn.

Chicago veit ekkert hvað það á að gera við leikmanninn sem er andlit félagsins og fyrrum leikmaður ársins. Tilraunir Bulls að láta bara sem ekkert sé og láta hann spila eru ekki að ganga upp, þannig að mögulega þarf að tækla hlutina með öðrum hætti.

David Thorpe á ESPN kom með róttæka tillögu í dag, þar sem hann stakk upp á því að Chicago myndi hreinlega senda Rose niður í D-deildina til að finna sig. Þar gæti hann fundið sjálfstraustið sitt aftur gegn lélegri varnarmönnum - nú eða komist að því að hann ætti bara ekkert erindi í NBA deildina lengur. Það hlýtur að vera skelfileg tilhugsun fyrir Rose og alla stuðningsmenn Bulls.

En Rose er ekki bara að spila illa, hann hefur átt í vandræðum í einkalífinu og er iðinn við að segja asnalega hluti í fjölmiðlum sem koma af stað veseni.

Rose hefur verið leiðtogi Chicago-liðsins undanfarin ár ásamt Joakim Noah, en nú er svo komið að hann er það bara ekkert lengur. Það er kominn ný stjarna í liðið, maður sem er góður í körfubolta og lætur sig varða um framtíð klúbbsins.

Þessi maður heitir Jimmy Butler og auðvitað er hann að reyna að skipa sér sinn sess hjá liðinu sem langbesti leikmaður Bulls. Þess vegna eru þessi ummæli hans út í þjálfarann og liðsfélagana ansi áhugaverð.

Hefði Butler átt að henda þjálfaranum sínum svona undir rútuna í viðtali? Auðvitað ekki, auðvitað verða menn að reyna að fara fínna í svona hluti, en við verðum samt eiginlega að taka málstað Butler í þessu leikriti.

Það er alveg satt sem hann bendir á - leikmenn Chicago (hann taldi sjálfan sig með) eru allt of oft daufir og áhugalausir og tapandi fyrir skítaliðum. Þetta lið er alls ekki að spila af fullum styrk og meira að segja traustir stuðningsmennirnir í Chicago eru orðnir hundleiðir á þessu - stundum heyrist ekki múkk í þeim, sem er harla óvenjulegt á þeim bænum.

Eins og þið vitið, höfum við ekki hundsvit á körfubolta og því ætlum við ekki að dæma um það hvort Fred Hoiberg er rétti maðurinn til að stýra Chicago fram á veginn - amk ekki hvað varðar x og o og þannig lagað. Við látum mönnum eins og Zach Lowe það eftir - hann skrifaði hlemm um allt þetta Chicago-drama í dag.

Það sem við vitum hinsvegar, er að þessi byrjun hjá Hoiberg er hreint ekki að lofa góðu og það er ljóst að leikmenn hans bera ekki nógu mikla virðingu fyrir honum. Það er ekki ávísun á neitt gott.

Við höfum aldrei verið hrifin af vinnubrögðum forráðamanna Chicago Bulls og þess vegna ætlum við sannarlega ekki að halda niðri í okkur andanum þangað til þeir leysa þessa klemmu sem liðið er komið í núna.

Chicago er með lið sem fyrir það fyrsta passar ekki nógu vel saman, en það er svo þjálfað af óreyndum manni sem nýtur ekki virðingar leikmanna sinna.

Leikstjórnandi liðsins er fyrrum stórstjarna með undarleg viðhorf sem er hætt að geta nokkuð í körfubolta, stórstjarna liðsins er ekki búin að ná tökum á leiðtogahlutverki sínu, andlegur leiðtogi liðsins er slitinn og alltaf meiddur, besta skytta liðsins í gegn um árin er heima hjá sér að horfa á netflix, nýjasti innflutningur liðsins frá Evrópu reyndist vera gallaður og stuðningsmennirnir eru hættir að nenna þessu.

Glæsilegt eða hitt þó heldur...

Það má vel vera - og það hlýtur bókstaflega að vera - að Chicago nái eitthvað að laga ástandið áður en vorar, en þetta lið verður aldrei sú ógn sem það átti að vera fyrir LeBron James. Það lagðist í völlinn og fór að grenja þegar það mætti honum í vor og á eftir að gera það aftur næsta vor, ef það verður þá svo heppið að ná svo langt.

Friday, December 18, 2015

Spurs er helsti keppinautur Warriors í vestrinu


NBA deildin er ekki komin í alveg eins mikið rugl og enska úrvalsdeildin - það er ekkert Leicester á toppnum í NBA - en hún er samt alls ekki að láta að stjórn í vetur. Hún er ekki að haga sér eins og við ætluðum henni, og það fer stundum dálítið í taugarnar á okkur eins og þið vitið kannski.

Það sem fer mest í taugarnar á okkur er að það eru allt of mörg lið í Vesturdeildinni að drulla dálítið á sig og um leið að láta Austurdeildina líta betur út. Og það fer sérstaklega mikið í taugarnar á okkur.

Úr því helmingur fólks er úti að kaupa jólagjafir og hinn að missa sig í einhverju nördarugli í kvikmyndahúsum, er því ekki úr vegi fyrir okkur að setjast niður og greina þessa undarlegu þróun aðeins. Til þess erum við jú - eitt stærsta hlutverk NBA Ísland er og hefur alltaf verið, að leiða ykkur í sannleikann um hvað NBA deildin er. Þetta er stór deild með fullt af liðum og fólk sem á sér vott af lífi hefur að sjálfssögðu engan tíma til að stúdera þetta allt saman. Þar komum við inn í þetta.


Eins og 99% ykkar vita, hefur nær allur fókus í umfjöllun um NBA deildina síðustu misseri verið á Vesturdeildinni, enda fær Cleveland bara enga samkeppni í austrinu. Þessi þróun hefur aðeins orðið sterkari í vetur, þar sem Cleveland er einfaldlega besta liðið í austrinu þrátt fyrir að vera meira og minna með lykilmenn í meiðslum.

Við erum ekki gáfaðari en það, að við héldum að eitthvað af liðunum í Austurdeildinni gætu að minnsta kosti veitt þessu vængbrotna Cleveland-liði smá samkeppni í deildarkeppninni, en það virðist ekki ætla að gerast. Um leið og Cleveland fær eitthvað af lykilmönnum sínum (almennilega) heila til baka, stingur liðið af í töflunni eystra og þá þurfum við ekkert að hafa áhyggjur af því meir.

Eitt og eitt lið í austrinu hefur ef til vill verið að vinna aðeins fleiri leiki en við reiknuðum með, en það er bara vegna þess að stærðfræðin segir okkur að þegar tvö lið í Austurdeildinni mætast - verður annað þeirra að vinna leikinn, sama hversu léleg þau eru bæði.

Ókei, ókei, þetta er kannski aðeins of grimmilega orðað, en í stóra samhenginu skiptir það ekki fjandans máli hvort eitthvað af liðunum í Austurdeildinni vinnur 35 leiki í stað 25 - það er ekki að fara að gera neitt í vor. Og hér ætlum við að skoða stóra samhengið - taka smá vörutalningu.



Kíkjum þá í Vesturdeildina.

Eins og einhver orðaði það á Twitter um daginn: "Guði sé lof fyrir lið eins og Golden State og San Antonio - annars myndi NBA deildin ekki meika sens lengur!"

Það er mikið til í þessu. Golden State og San Antonio eru nefnilega einu liðin í Vesturdeildinni sem eru að spila eins og þau hafa burði til - og meira að segja betur. Miklu betur, satt best að segja.

Við erum búin að skrifa Golden State svo fast ofan í kokið á ykkur í vetur að mörg ykkar hafa ekki lyst á meiru, en við höfum minna skrifað um San Antonio.

Það að Spurs hafi ekki fengið mikla umfjöllun er svo sem eðlilegt upp að vissu marki, því þetta lið er búið að vera meistaraefni nánast óslitið í tuttugu ár og þegar svo er, hættir mönnum við að fara að leita eitthvað annað eftir umfjöllunarefni.

Nú er hinsvegar svo komið að við verðum að fara að beina sjónum okkar að San Antonio aftur, því þar eru stórmerkilegir hlutir í gangi. 

Við viðurkennum fúslega að við höfum ekki horft mikið á Spurs spila í vetur, en á því fer að verða breyting. Gregg Popovich er nefnilega farinn að sýna töfrabrögð enn eina ferðina. 

Tuesday, December 15, 2015

Senn kemur vetur, Curry-tetur



Nýtt hlaðvarp: Karfan.is tíu ára


Allir sem á annað borð vita hvað körfubolti er, eru reglulegir lesendur karfan.is. Þess vegna var það stórmerkilegur áfangi í gær þegar þessi traustasti körfuboltavefur landsins átti tíu ára afmæli.

Á svona stórum tímamótum er ekki annað hægt en að fá ritstjórann Jón Björn Ólafsson í smá hlaðvarp og fá hann til að rifja upp gamla tíma, en horfa um leið fram á veginn á innlendum vettvangi í körfunni.

Þú getur hlustað á hlaðvarpið í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna okkar góðu og sótt það til að setja inn á spilarann þinn - og hlusta þegar þér sýnist, aftur og aftur...


Sunday, December 13, 2015

Golden State tapaði körfuboltaleik


Það er til siðs að einhver segi eitthvað þegar einhver drepst, svo það er líklega alveg eins gott að við segjum nokkur orð nú þegar sigurganga Golden State Warriors er dauð.

Við vissum öll að færi að koma að þessu, en það var samt hálfgert frat að tapið skuli hafa komið í Milwaukee. Sérstaklega þegar mörg okkar voru búin að horfa upp á Bucks-liðið spila andlausan og hugmyndasnauðan körfubolta 24 tímum áður hinu megin við landamærin. Og sérstaklega af því við vorum að vona að þetta asnalega met er varðar sjö leikja keppnisferðalög færi að falla.


En það var ekki í spilunum. Eins og svo mörgum öðrum liðum áður, tókst Warriors aðeins að vinna sex af sjö leikjum sínum á ferðalaginu og því er ljóst að sigurganga liðsins staðnæmdist í 28 leikjum (24 í röð í upphafi þessarar leiktíðar - fjórum síðustu í lok síðustu), sem er næstlengsta sigurganga í sögu NBA deildarinnar.

Við vorum náttúrulega búin að velta þessu öllu fram og til baka, hvað þetta þýðir og allt það, en ykkur er óhætt að trúa okkur þegar við segjum ykkur að það eru allir í liði Warriors dauðfegnir að þessum sirkus sé lokið.

Það setur auka pressu og bætir auka álagi á lið að eltast við met, en nú getur Luke Walton þjálfari farið að einbeita sér betur að því að hvíla lykilmennina sína samviskulaust.

Og nú geta leikmenn liðsins aftur farið að einbeita sér að því að vinna bara átta af hverjum tíu leikjum sínum eða svo, í stað þess að þurfa að sópa öllu alltaf.

Eitt atriði þykir okkur allt í senn kaldhæðnislegt, dæmigert og ógnvekjandi. Það er sú staðreynd að San Antonio sé ekki nema fjórum leikjum á eftir Golden State í töflunni þó að Warriors hafi verið að tapa fyrsta leiknum sínum síðan árið 1983 í gærkvöldi.

Þetta er kaldhæðnislegt og dæmigert fyrir San Antonio, sem hefur 849 sinnum verið í þessari sömu stöðu áður. Ógnvekjandi fyrir Warriors myndi einhver halda.  Eða, svona. kannski pínu.

Þig gæti farið að gruna að ef til vill sé þetta ekki kvöldið þitt ef:

  • Gunnar Nelson er gjörsigraður - meðan félagi hans McGregor vinnur á 13 sekúndum.
  • Kobe Bryant og Carmelo Anthony hitta BÁÐIR úr yfir 50% skota sinna á sama kvöldinu.
  • Og Raymond Felton nær þrefaldri tvennu!



Já, Raymond Felton, þessi þarna... feiti í Dallas. Svona gerist ekki á hverjum degi og það fer náttúrulega hver að verða síðastur til að sjá Kobe Bryant skjóta yfir 50% og eiga eitthvað sem á hans mælikvarða gæti talist eðlilegan leik.

Ætli það sé ekki ágætt fyrir okkur öll að þessari skemmtilegu rispu Golden State sé lokið í bili. Hún var dásamlega skemmtileg og tryggði að deildin okkar fallega var alltaf í sviðsljósinu í haust. Það veitti líka ekki af smá velgengni inn í Vesturdeildina, þar sem aðeins of mörg lið hafa verið að kúkíbussansín í haust.



Milwaukee hefur nú unnið sér það til frægðar að hafa stöðvað tvær lengstu sigurgöngur í sögu NBA deildarinnar. Bucks-liðið hans Jabbars stöðvaði Lakers-liðið hans Wilts fyrir fjörutíu árum og í dag var það Milwaukee-liðið hans Giannis Antetokounmpo sem stöðvaði Warriors-liðið hans Currys.

Mikið fjandi voru þetta hressandi vikur hjá Warriors. Þeir halda bara áfram að gera hluti sem við höfum ekki séð áður, setja met og umfram allt, skemmta okkur. Þeir lifi, húrra, húrra, húrra!

Hérna fyrir neðan sjáið þið loks hvað Milwaukee-bolurinn grjótharður og á tánum, en þar á bæ voru menn búnir að láta prenta sérstaka boli fyrir leikinn, þar sem þeir ætluðu sér sigur og ekkert annað.




Sjöundi mest pirrandi hlutur á jörðinni










































Það eru öryggisverðir úti um allt á NBA leikjum. Þetta eru ekki lögregluþjónar, ekki hermenn, ekki lífverðir. Þetta er alveg sérstakur þjóðflokkur, yfirgengilega amerískur. Þetta eru í mörgum tilvikum offitusjúklingar og ellilífeyrisþegar, sem þar af leiðandi eru álíka traustvekjandi og framsóknarmaður tengdur við lygamæli.

Hlutverk þessa fólks er annars vegar að standa illa gerðir hlutir í hallærislegum einkennisbúningum sínum og hinsvegar að lóðsa leikmenn af vellinum og inn í átt að búningsklefanum - hvort sem er eftir að leik lýkur með hefðbundnum hætti eða leikmaðurinn jafnvel er rekinn af velli.

Eitt hefur alltaf farið óheyrilega í taugarnar á okkur við þetta blessaða fólk og það er að það virðist ekki með nokkru móti geta sinnt þessu asnalega hlutverki sínu nema styðja höndinni á bakið á leikmanninum sem það er að fylgja út af vellinum. Hvort sem hann er að labba spakur og rólegur af velli, eða er jafnvel æstur og reiður eftir að hafa fengið reisupassann.

Þetta litla smáatriði virðist vera fastur hluti af hverjum einasta NBA leik og eftir stutta en vísindalega könnun höfum við komist að því að það eru í mesta lagi sex hlutir í veröldinni sem fara meira í taugarnar á okkur.

Er ekki alveg í fokkíng lagi!?!  Hvað er að þessu fólki? Heldur það bara alveg í alvörunni að það VERÐI bara að ýta tveggja metra háum heimsklassa íþróttamanni út af vellinum og inn í klefa - af því hann getur það ekki sjálfur þá, eða???

Það hafa allir sem æfa boltaíþróttir lent í því að hafa stokkið upp á nef sér og lent í smávægilegum ryskingum eða pústrum, þar sem fólk hefur jafnvel þurft að ganga inn á milli (hoooold me back!) og stilla til friðar.*

En hvað er það sem er meira pirrandi heldur en gaurinn sem tæklaði þig upp í hálsinn á fótboltaæfingunni eða hrinti þér á markstöngina á körfuboltaæfingunni?  Jú, gaurinn sem ætlar að fara að labba með þig eitthvað sem þú ætlar ekkert að fara - þegar þú ert æst(ur) í skapi.

Þetta er atvinna dyravarða dauðans í NBA deildinni. Fyrir utan það að standa eins og hálfvitar og stara út í loftið, er það eina físíska sem þetta fólk gerir - að styðja hendinni á bakið á atvinnumönnum í körfubolta og ýta þeim. Ekki leiðbeina þeim, þeir vita alveg hvert þeir eru að fokkíng fara - nei, ýta þeim inn í búningsklefa, jafnvel á þeirra eigin heimavelli!

Enn og aftur dáumst við að blíðlyndi og jafnaðargeði NBA leikmanna - við verðum bara að segja það. Við gætum verið í besta skapi í heimi þann daginn, en svo kemur einhver svona einfrumungur og fer að káfa á okkur - ýta okkur út af vellinum!

Er ekki í &$+&$*?# lagi???

Hvernig ætli þessu ágæta fólki myndi líða ef einhver gaur myndi allt í einu birtast í vinnunni hjá því og byrja að sleikja á því eyrun? Þetta er engu skárra.

Eins og Stephen Curry og Draymond Green hafi ekki verið NÓGU pirraðir eftir að hafa þurft að horfa á eftir sigurgöngunni sinni upp í fjósið á Milwaukee flippin Bökks í nótt - kemur ekki eitt svona guðsvolað viðrinið og byrjar að káfa á þeim - ýta þeim út af.

Þetta er mannréttindabrot. Svona fólk á bara að fá högg, sko.

------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Óheppinn þú ef þú hefur aldrei lent í smá axjóni á æfingu. Það er hollt, eflir anda og styrkir skapgerð, svo framarlega sem þetta fer ekki út í eitthvað rugl - við erum ekki að mæla með slíku.

Saturday, December 12, 2015

Andstæðir pólar



"Oh, þett´er svo þægileg vinnaaa!"



Stephen Curry teymir NBA deildina inn í nýja tíma


Stór hluti af byltingunni sem Stephen Curry og Warriors-liðið hans fara fyrir í NBA deildinni þessi misserin er byggður á þriggja stiga skotunum - að taka mörg, óhemju mörg - og hitta vel úr þeim.

Öll hafið þið heyrt línuna hans Charles Barkley, sem er orðin mjög fræg á meðal þeirra sem aðhyllast tölfræði fyrir lengra komna, að lið sem byggja sóknarleik sinn á stökkskotum vinni ekki titla. Þetta var kannski þannig þegar Barkley spilaði í deildinni, en það var bara ekki sama deild og við erum að horfa á í dag.

Núna vinna lið sem byggja á stökkskotum - þriggja stiga skotum - meistaratitla ár eftir ár. Við erum búin að sjá minnst þrjú slík á síðustu árum í Dallas, San Antonio og nú Golden State. Allt lið sem treystu gríðarlega mikið á þriggja stiga skotin, reyndar alveg eins og Miami gerði líka.

Við erum dálítið spurð út í þetta. Hvað sé svona sérstakt við þetta Warriors-lið og ekki síður hvað sé svona hættulegt við þetta Curry-krútt, sem er alltaf brosandi eins og engill og skokkar um völlinn í rólegheitum milli þess sem hann tekur langskotin sín mjúku. Hann lítur ekki út fyrir að vera hryðjuverkamaður í einu eða neinu, þetta rassgat.

En látið ekki blekkjast, Curry er ekkert krútt, amk ekki ef þú ert í körfuboltaliði sem þarf að mæta honum. Og hann er að fara að sprengja öll þriggja stiga met sem til eru til fjandans áður en hann hættir. Á grafinu hérna fyrir neðan sjáið þið hvað hann gjörsamlega skilur aðrar skotgoðsagnir eftir í rykinu þegar kemur að afköstum og magni.



Það myndi taka okkur einn af þessum glórulaust-löngu pistlum að útskýra það endanlega hvað Curry og Golden State eru að breyta NBA deildinni og gera hluti sem hafa aldrei sést áður, en við nennum því ekki núna, enda er það ekki tímabært. Við skrifum kannski bara bók um það nokkrum árum eftir að byltingunni lýkur.

Akkúrat núna, langar okkur að draga upp einfalda mynd af því hvernig Curry byltingin virkar með því að setja hann aðeins í samhengi við aðra þekkta leikmenn í NBA sögunni. Setja þetta í perspektíf.

Það er dálítið skondið að hugsa til þess, en þriggja stiga línan er ekki nema 35 ára gamalt fyrirbæri í NBA deildinni og það tók bæði menn og lið mörg ár að taka henni opnum örmum. Sumir þykjast meira að segja hata hana enn þann dag í dag, þó það sé auðvitað tóm vitleysa.

Það hafa alltaf verið til þriggja stiga sérfræðingar í NBA deildinni - menn sem gerðu lítið annað en að skjóta þriggja stiga skotum - og þumalputtaregla til að finna þessa menn er að renna í gegn um þátttakendur í 3ja stiga skotkeppnunum um Stjörnuhelgina. Hérna fyrir neðan sjáið þið þátttakendur í annari 3ja stiga skotkeppninni sem haldin var um Stjörnuhelgina í Seattle árið 1987.

Þið sjáið hann Larry lengst til vinstri, Detlef með mottuna við hliðina á honum, Dale Ellis þar við hliðina (sem sagar í fótinn á sér með bogasög daglega fyrir að vera ekki NBA leikmaður í dag) og hversu óheyrilega og ógeðslega kaldhæðnislegt er að sjá sjálfan þriggja stiga skota fæluna, tölfræði fyrir lengra komna hatursmanninn og afturhaldssegginn Byron Scott þarna þriðja frá hægri? Hann skammast sín eflaust gríðarlega fyrir að hafa tekið þátt í þessum vitleysisgangi á sínum tíma.



Maðurinn sem rúllaði þessari keppni upp fyrstu þrjú árin* var goðsögnin Larry Bird hjá Boston Celtics og segja má að hann hafi verið ein af fyrstu stjörnunum í NBA deildinni sem hafði 3ja stiga skotin í vopnabúri sínu, þó hann hafi meira notað það sem neyðartæki eða bakbrjót, í stað reglubundinnar leikaðferðar eins og menn gera í dag.

Næsta stjarna sem byggði leik sinn mikið á þriggja stiga skotunum var Reggie Miller hjá Indiana Pacers. Miller er einn ofmetnasti leikmaður í sögu NBA og gerði ekkert inni á vellinum annað en að skora, en það verður ekki af honum tekið að hann var fín skytta.

Fulltrúi kynslóðarinnar sem kom á eftir Miller var tvímælalaust Ray Allen sem undir lok ferils síns tók fram úr Reggie Miller og varð afkastamesta 3ja stiga skytta í sögu deildarinnar.

Allen var ekki bara betri skytta heldur en Miller, heldur skaut hann líka meira, enda var langskotið þegar hér var komið við sögu orðið miklu stærri partur af öllum sóknarleik í deildinni en hann var áður.

Allen spilaði lengst af á ferlinum með Milwaukee og Seattle, en mörg ykkar muna ef til vill meira eftir honum á síðustu árunum hans í deildinni þar sem hann spilaði alltaf fram í júní með liðum sínum Boston Celtics og síðar Miami Heat.

Þar náði hann að skilja eftir sig djúp fótspor með í sögunni með meistaratitlum og æfingum eins og þessum hérna á myndinni fyrir ofan þegar hann skaut hjartað úr San Antonio í lokaúrslitunum um árið.

Það kemur svo í hlut manna eins og Stephen Curry að taka við keflinu af Allen og enn og aftur eru þeir að skjóta meira en kynslóðin á undan. Það klikkaða við þetta er bara að hann er ekki bara að skjóta miklu meira, hann er líka að hitta miklu betur!


Eins og þið sjáið á töflunni hérna fyrir ofan (smelltu bara á hana og stækkaðu hana ef hún er svona fjandi óskýr - hvað er eiginlega að þér?) sýnir hún Curry ekki vera að taka "nema" 6,8 3ja stiga tilraunir í leik á ferlinum, en það er náttúrulega bara pínöts miðað við hvað hann er að gera í dag, þar sem hann er að taka ELLEFU þriggja stiga skot í leik.

Fyrir aðeins örfáum árum, hefði svona skotgleði verið kölluð stöppu-geðveiki - hvort sem menn hefðu verið að hitta úr þessu eða ekki. Menn bara skutu ekki svona hér áður, það hefði bara þótt dónaskapur.

En eins og við höfum farið í gegn um áður, tók það menn einfaldlega mjög langan tíma að fatta það að þriggja stiga skotin eru drullu hagkvæm skot þó þau fari ekki jafn oft ofan í og tveggja stiga skotin, af þeirri einföldu ástæðu að það fást fleiri stig fyrir að setja þau niður.

Nú er það vitaskuld ekki á færi allra liða að hitta fyrir utan, en þegar þú ert með lið eins og Warriors, sem er með fimm og sex leikmenn í sínum röðum sem skjóta vel yfir 40% fyrir utan - þá gefur augaleið að þú lætur vaða eins og fjandinn sé á hælunum á þér.


Öll þessi tölfræði fyrir lengra komna sýnir svo ekki verður um villst að öll þessi þriggja stiga skot - í höndunum á liði sem getur sett þau niður - eru að gera Golden State að einu af bestu liðum sögunnar. Og það er náttúrulega Stephen Curry sem fer fyrir öllu þessu. Það er hann sem tekur flest skotin og það er hann sem veldur mótherjum Warriors mestum kvíða.

En það er alveg sama hvað mótherjar liðsins skáta hann fram og aftur, hann finnur alltaf leiðir til að raða þristum í andlitið á þeim en spilar svo bara félaga sína uppi ef hann sjálfur fær of mikla athygli. Það er nú eitt af því sem er svo bjútífúl við drenginn - honum er fullkomlega sama um allt þetta skytterí bara ef liðið hans er að vinna. Og það er sko að vinna.

Sjáðu skotkortið hjá þessum brjálæðingi! Það er eins og lógóið hjá vinstri grænum!
























Curry og Warriors-liðið hans er fjarri því að vera eina liðið í deildinni sem tekur mikið af þriggja stiga skotum og við eigum eflaust eftir að sjá sóknarleikinn verða enn meira þristaþenkjandi áður en við förum að sjá draga úr langskotum í NBA.

Gallinn við þetta er bara að það eru ekki öll lið svo heppin að eiga bakvarðapar eins og Curry og Klay Thompson sem skjóta eins og brjálæðingar en hitta alltaf í kring um 45% úr þristunum sínum. Á meðan svo er, verður þetta Golden State skaðræði við að eiga.

------------------------------------------------------------------------------------------------

* Fræg er sagan af því þegar Bird mætti inn í klefa fyrir 3ja stiga keppnina og hreytti út úr sér svo allir hinir keppendurnir heyrðu til hans: "Jæja, hver af ykkur aumingjunum ætlar að verða í öðru sæti í þessari keppni?"



Aðeins af Draymond og Warriors


Það er ekki oft sem NBA deildin stelur sviðsljósinu frá öðrum greinum fyrir áramótin, en hún er sannarlega að gera það núna út af þessum látum í Golden State Warriors. Við höfum tekið eftir því að Jón Jónsson úti á götu veit af þessu, veit að þetta Golden State lið er að vinna fullt af leikjum í röð og svona, en pælir ekkert meira í því. Veit ekki hvað er í gangi.

Þetta er reyndar ekkert mikið öðru vísi með þá lengra komnu, þeir fatta jú af hverju Golden State vinnur fullt af leikjum, en það skilur enginn upp eða niður í þessari lygilegu sigurgöngu hjá liðinu. Andstæðingar og hatursmenn geta huggað sig við að við erum jú bara ennþá stödd í desember og það er langt langt þangað til úrslitakeppnin byrjar.

Það er ekki hlaupið að því að fá miða þegar Warriors koma í heimsókn og dæmi eru um það að miðaverð hafi hækkað fimm til tífalt. Allir vilja sjá Curry og Warriors koma í bæinn, og lúskra á liðinu sínu. Liðið fær líka lygilegan stuðning á mörgum útivöllum. Bolurinn lætur sig ekki vanta á vagninn frekar en venjulega, en menn segja nú samt að þeir hafi ekki séð aðrar eins rokkstjörnur á ferðinni síðan seinni útgáfan af Chicago-liðinu hans Jordans var og hét.

Luke Walton og þjálfarateymi Warriors eru í sjálfu sér örugglega ekkert allt of hamingjusamir með þessa löngu sigurgöngu, því þeir hefðu eflaust viljað hvíla lykilmenn liðsins eitthvað aðeins meira en þeir hafa verið að gera í allra síðustu leikjum, en öll þessi met - sem liðið er annað hvort búið að slá eða er alveg við það að slá - gera það að verkum að það er erfitt að kýla ekki á það.

Til hvers eru lið jú í þessu ef þau reyna ekki að setja mark sitt á söguna og slá met. Eins og einhver sagði  - og hafði að hluta til rétt fyrir sér - það verður eitt lið meistari á hverju ári, en mjög fá lið fá tækifæri til að reyna að slá nærri hálfrar aldar gamalt met LA Lakers yfir flesta sigurleiki í röð (33).

Það tryggir þér öruggan sess í sögubókum. Þegar við lesum greinar um þau NBA met sem er erfiðast að slá, er þetta met alltaf nefnt til sögunnar, en nú er svo komið að það er í hættu í annað skipti á þremur árum eða svo.

Við erum ekki bara að skrifa þessar línur til að jinxa Warriors til að fara að tapa leikjum. Ætli við séum ekki helst að því af því við urðum að skrifa eitthvað til að lýsa yfir hrifningu okkar á Draymond Green enn eina ferðina.


Einu sinni voru menn eins og Andre Iguodala eða Andrew Bogut eða Klay Thompson næstbestu leikmenn Golden State - og þeir eiga það til að vera það í leik og leik. En það er orðið alveg ljóst í dag að það er Draymond Green sem er næstbesti maður liðsins.

Drengurinn er að spila alveg óheyrilega vel. Hann kórónaði þessa pælingu ekki illa með því að komast í mjög takmarkaðan hóp leikmanna í sögu NBA sem hafa náð fimmfaldri fimmu, þegar hann skoraði 24 stig, hirti 11 fráköst, gaf 8 stoðendingar, varði fimm skot og stal fimm boltum! Hann er aðeins þriðji leikmaðurinn í sögunni til að ná þessum tölum í leik í NBA deildinni. Hrottalegt!

Stigaskorið hans drepur engan (13,5) en það er heldur ekki það sem honum finnst skemmtilegast að gera og hann lítur þannig á að það sé nóg af mönnum í liðinu sem geta séð um það. Og það er líka rétt hjá honum. Það er hinsvegar alltaf pláss fyrir varnarmenn, hindranasetningamann, frákastara og pleimeikera í öllum liðum - og Draymond tikkar í öll þessi box eins og fáir aðrir leikmenn í deildinni.


Green er ekki bara að skjóta mjög virðingarverðum 36% eða svo fyrir utan 3ja stiga línu og hirða nærri níu fráköst í leik - hann er í sjöunda sæti í NBA deildinni í stoðsendingum! Það er svona á líka og ef Arjen Robben væri í sjöunda sæti í Bundeslígunni í því að vinna skallaeinvígi eða tæklingar. Það er sannarlega þetta með skrattann og sauðalegginn.

Draymond Green er búinn að gera stórhættulegan sóknarleik Golden State helmingi meira hættulegan með því að vera búinn að breyta sér í 105 kílóa þungan leikstjórnanda sem er bæði klókur og fullkomlega óeigingjarn eins og restin af liði Warriors náttúrulega.

Það er ekki ónýtt að settur kraftframherji liðsins geti tekið pressu af verðmætasta leikmanni deildarinnar þegar hann þarf ef til vill að hvíla í nokkrar sóknir eða jafnvel sagt að spila af boltanum um stund. Þetta er með ólíkindum.

Draymond Green á að vera í byrjunarliði Vesturdeildarinnar í Stjörnuleiknum. Á að vera annað nafnið niður á blað á eftir félaga sínum Stephen Curry.

En við vitum að það verður ekki þannig, af því kosningin í byrjunarliðin í Stjörnuleikinn er júróvisjón og júróvisjón er heilalaust rusl og ómenning.

Kobe Bryant verður í byrjunarliði Vesturdeildarinnar í Stjörnuleiknum. Það verður gaman fyrir hann og stuðningsmenn Lakers, en það verður óverðskuldaðasta val síðan... tjah, sennilega síðan Bryant var valinn í fyrsta Stjörnuleikinn sinn á ferlinum forðum.

 Það verður einhver mjög góður körfuboltamaður í Vesturdeildinni að sætta sig við að horfa á hann í sjónvarpinu meðan Kobe tekur mínúturnar hans. Svona er þetta víst bara.

Haters og Neikvæðar-Nönnur reyna að taka af Warriors með því að benda á að það hafi sloppið við að spila við lið eins og Cleveland, San Antonio og Oklahoma á þessari rispu, en leikmenn Warriors geta bara ekkert að því gert. Þeir fá tækifæri til að mæta þessum liðum fljótlega - Cleveland t.d. um jólin og Golden State getur heldur ekkert að því gera að það þurfi að vinna eitthvað af þessum leikjum án 1-2 byrjunarliðsmanna og hvern einn og einasta þeirra án aðalþjálfara síns.


Það skiptir engu máli hvað hver segir, Golden State heldur bara áfram að slá met og það er ekkert sem þú eða þið getið gert í því. Nú þegar við hugsum um það, hrifsaði Golden State metabókina (eða bækurnar) til sín á seinni hluta síðasta tímabils og situr nú bara með þær í fanginu og skrifar í þær eins og jólasveinninn. Og liðið er ekkert að fara að skila þessum bókum neitt á næstunni - hvort sem það tapar leik á morgun eða eftir mánuð. Þeir eru sko ekki búnir - þeir eru rétt að byrja þessir menn.

Wednesday, December 9, 2015