Það er til siðs að einhver segi eitthvað þegar einhver drepst, svo það er líklega alveg eins gott að við segjum nokkur orð nú þegar sigurganga Golden State Warriors er dauð.
Við vissum öll að færi að koma að þessu, en það var samt hálfgert frat að tapið skuli hafa komið í Milwaukee. Sérstaklega þegar mörg okkar voru búin að horfa upp á Bucks-liðið spila andlausan og hugmyndasnauðan körfubolta 24 tímum áður hinu megin við landamærin. Og sérstaklega af því við vorum að vona að þetta asnalega met er varðar sjö leikja keppnisferðalög færi að falla.
En það var ekki í spilunum. Eins og svo mörgum öðrum liðum áður, tókst Warriors aðeins að vinna sex af sjö leikjum sínum á ferðalaginu og því er ljóst að sigurganga liðsins staðnæmdist í 28 leikjum (24 í röð í upphafi þessarar leiktíðar - fjórum síðustu í lok síðustu), sem er næstlengsta sigurganga í sögu NBA deildarinnar.
Það setur auka pressu og bætir auka álagi á lið að eltast við met, en nú getur Luke Walton þjálfari farið að einbeita sér betur að því að hvíla lykilmennina sína samviskulaust.
Og nú geta leikmenn liðsins aftur farið að einbeita sér að því að vinna bara átta af hverjum tíu leikjum sínum eða svo, í stað þess að þurfa að sópa öllu alltaf.
Eitt atriði þykir okkur allt í senn kaldhæðnislegt, dæmigert og ógnvekjandi. Það er sú staðreynd að San Antonio sé ekki nema fjórum leikjum á eftir Golden State í töflunni þó að Warriors hafi verið að tapa fyrsta leiknum sínum síðan árið 1983 í gærkvöldi.
Þetta er kaldhæðnislegt og dæmigert fyrir San Antonio, sem hefur 849 sinnum verið í þessari sömu stöðu áður. Ógnvekjandi fyrir Warriors myndi einhver halda. Eða, svona. kannski pínu.
Þig gæti farið að gruna að ef til vill sé þetta ekki kvöldið þitt ef:
- Gunnar Nelson er gjörsigraður - meðan félagi hans McGregor vinnur á 13 sekúndum.
- Kobe Bryant og Carmelo Anthony hitta BÁÐIR úr yfir 50% skota sinna á sama kvöldinu.
- Og Raymond Felton nær þrefaldri tvennu!
Já, Raymond Felton, þessi þarna... feiti í Dallas. Svona gerist ekki á hverjum degi og það fer náttúrulega hver að verða síðastur til að sjá Kobe Bryant skjóta yfir 50% og eiga eitthvað sem á hans mælikvarða gæti talist eðlilegan leik.
Ætli það sé ekki ágætt fyrir okkur öll að þessari skemmtilegu rispu Golden State sé lokið í bili. Hún var dásamlega skemmtileg og tryggði að deildin okkar fallega var alltaf í sviðsljósinu í haust. Það veitti líka ekki af smá velgengni inn í Vesturdeildina, þar sem aðeins of mörg lið hafa verið að kúkíbussansín í haust.
Milwaukee hefur nú unnið sér það til frægðar að hafa stöðvað tvær lengstu sigurgöngur í sögu NBA deildarinnar. Bucks-liðið hans Jabbars stöðvaði Lakers-liðið hans Wilts fyrir fjörutíu árum og í dag var það Milwaukee-liðið hans Giannis Antetokounmpo sem stöðvaði Warriors-liðið hans Currys.
Mikið fjandi voru þetta hressandi vikur hjá Warriors. Þeir halda bara áfram að gera hluti sem við höfum ekki séð áður, setja met og umfram allt, skemmta okkur. Þeir lifi, húrra, húrra, húrra!
Hérna fyrir neðan sjáið þið loks hvað Milwaukee-bolurinn grjótharður og á tánum, en þar á bæ voru menn búnir að láta prenta sérstaka boli fyrir leikinn, þar sem þeir ætluðu sér sigur og ekkert annað.