Sunday, December 13, 2015

Sjöundi mest pirrandi hlutur á jörðinni










































Það eru öryggisverðir úti um allt á NBA leikjum. Þetta eru ekki lögregluþjónar, ekki hermenn, ekki lífverðir. Þetta er alveg sérstakur þjóðflokkur, yfirgengilega amerískur. Þetta eru í mörgum tilvikum offitusjúklingar og ellilífeyrisþegar, sem þar af leiðandi eru álíka traustvekjandi og framsóknarmaður tengdur við lygamæli.

Hlutverk þessa fólks er annars vegar að standa illa gerðir hlutir í hallærislegum einkennisbúningum sínum og hinsvegar að lóðsa leikmenn af vellinum og inn í átt að búningsklefanum - hvort sem er eftir að leik lýkur með hefðbundnum hætti eða leikmaðurinn jafnvel er rekinn af velli.

Eitt hefur alltaf farið óheyrilega í taugarnar á okkur við þetta blessaða fólk og það er að það virðist ekki með nokkru móti geta sinnt þessu asnalega hlutverki sínu nema styðja höndinni á bakið á leikmanninum sem það er að fylgja út af vellinum. Hvort sem hann er að labba spakur og rólegur af velli, eða er jafnvel æstur og reiður eftir að hafa fengið reisupassann.

Þetta litla smáatriði virðist vera fastur hluti af hverjum einasta NBA leik og eftir stutta en vísindalega könnun höfum við komist að því að það eru í mesta lagi sex hlutir í veröldinni sem fara meira í taugarnar á okkur.

Er ekki alveg í fokkíng lagi!?!  Hvað er að þessu fólki? Heldur það bara alveg í alvörunni að það VERÐI bara að ýta tveggja metra háum heimsklassa íþróttamanni út af vellinum og inn í klefa - af því hann getur það ekki sjálfur þá, eða???

Það hafa allir sem æfa boltaíþróttir lent í því að hafa stokkið upp á nef sér og lent í smávægilegum ryskingum eða pústrum, þar sem fólk hefur jafnvel þurft að ganga inn á milli (hoooold me back!) og stilla til friðar.*

En hvað er það sem er meira pirrandi heldur en gaurinn sem tæklaði þig upp í hálsinn á fótboltaæfingunni eða hrinti þér á markstöngina á körfuboltaæfingunni?  Jú, gaurinn sem ætlar að fara að labba með þig eitthvað sem þú ætlar ekkert að fara - þegar þú ert æst(ur) í skapi.

Þetta er atvinna dyravarða dauðans í NBA deildinni. Fyrir utan það að standa eins og hálfvitar og stara út í loftið, er það eina físíska sem þetta fólk gerir - að styðja hendinni á bakið á atvinnumönnum í körfubolta og ýta þeim. Ekki leiðbeina þeim, þeir vita alveg hvert þeir eru að fokkíng fara - nei, ýta þeim inn í búningsklefa, jafnvel á þeirra eigin heimavelli!

Enn og aftur dáumst við að blíðlyndi og jafnaðargeði NBA leikmanna - við verðum bara að segja það. Við gætum verið í besta skapi í heimi þann daginn, en svo kemur einhver svona einfrumungur og fer að káfa á okkur - ýta okkur út af vellinum!

Er ekki í &$+&$*?# lagi???

Hvernig ætli þessu ágæta fólki myndi líða ef einhver gaur myndi allt í einu birtast í vinnunni hjá því og byrja að sleikja á því eyrun? Þetta er engu skárra.

Eins og Stephen Curry og Draymond Green hafi ekki verið NÓGU pirraðir eftir að hafa þurft að horfa á eftir sigurgöngunni sinni upp í fjósið á Milwaukee flippin Bökks í nótt - kemur ekki eitt svona guðsvolað viðrinið og byrjar að káfa á þeim - ýta þeim út af.

Þetta er mannréttindabrot. Svona fólk á bara að fá högg, sko.

------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Óheppinn þú ef þú hefur aldrei lent í smá axjóni á æfingu. Það er hollt, eflir anda og styrkir skapgerð, svo framarlega sem þetta fer ekki út í eitthvað rugl - við erum ekki að mæla með slíku.