Saturday, December 12, 2015
Stephen Curry teymir NBA deildina inn í nýja tíma
Stór hluti af byltingunni sem Stephen Curry og Warriors-liðið hans fara fyrir í NBA deildinni þessi misserin er byggður á þriggja stiga skotunum - að taka mörg, óhemju mörg - og hitta vel úr þeim.
Öll hafið þið heyrt línuna hans Charles Barkley, sem er orðin mjög fræg á meðal þeirra sem aðhyllast tölfræði fyrir lengra komna, að lið sem byggja sóknarleik sinn á stökkskotum vinni ekki titla. Þetta var kannski þannig þegar Barkley spilaði í deildinni, en það var bara ekki sama deild og við erum að horfa á í dag.
Núna vinna lið sem byggja á stökkskotum - þriggja stiga skotum - meistaratitla ár eftir ár. Við erum búin að sjá minnst þrjú slík á síðustu árum í Dallas, San Antonio og nú Golden State. Allt lið sem treystu gríðarlega mikið á þriggja stiga skotin, reyndar alveg eins og Miami gerði líka.
Við erum dálítið spurð út í þetta. Hvað sé svona sérstakt við þetta Warriors-lið og ekki síður hvað sé svona hættulegt við þetta Curry-krútt, sem er alltaf brosandi eins og engill og skokkar um völlinn í rólegheitum milli þess sem hann tekur langskotin sín mjúku. Hann lítur ekki út fyrir að vera hryðjuverkamaður í einu eða neinu, þetta rassgat.
En látið ekki blekkjast, Curry er ekkert krútt, amk ekki ef þú ert í körfuboltaliði sem þarf að mæta honum. Og hann er að fara að sprengja öll þriggja stiga met sem til eru til fjandans áður en hann hættir. Á grafinu hérna fyrir neðan sjáið þið hvað hann gjörsamlega skilur aðrar skotgoðsagnir eftir í rykinu þegar kemur að afköstum og magni.
Það myndi taka okkur einn af þessum glórulaust-löngu pistlum að útskýra það endanlega hvað Curry og Golden State eru að breyta NBA deildinni og gera hluti sem hafa aldrei sést áður, en við nennum því ekki núna, enda er það ekki tímabært. Við skrifum kannski bara bók um það nokkrum árum eftir að byltingunni lýkur.
Akkúrat núna, langar okkur að draga upp einfalda mynd af því hvernig Curry byltingin virkar með því að setja hann aðeins í samhengi við aðra þekkta leikmenn í NBA sögunni. Setja þetta í perspektíf.
Það er dálítið skondið að hugsa til þess, en þriggja stiga línan er ekki nema 35 ára gamalt fyrirbæri í NBA deildinni og það tók bæði menn og lið mörg ár að taka henni opnum örmum. Sumir þykjast meira að segja hata hana enn þann dag í dag, þó það sé auðvitað tóm vitleysa.
Það hafa alltaf verið til þriggja stiga sérfræðingar í NBA deildinni - menn sem gerðu lítið annað en að skjóta þriggja stiga skotum - og þumalputtaregla til að finna þessa menn er að renna í gegn um þátttakendur í 3ja stiga skotkeppnunum um Stjörnuhelgina. Hérna fyrir neðan sjáið þið þátttakendur í annari 3ja stiga skotkeppninni sem haldin var um Stjörnuhelgina í Seattle árið 1987.
Þið sjáið hann Larry lengst til vinstri, Detlef með mottuna við hliðina á honum, Dale Ellis þar við hliðina (sem sagar í fótinn á sér með bogasög daglega fyrir að vera ekki NBA leikmaður í dag) og hversu óheyrilega og ógeðslega kaldhæðnislegt er að sjá sjálfan þriggja stiga skota fæluna, tölfræði fyrir lengra komna hatursmanninn og afturhaldssegginn Byron Scott þarna þriðja frá hægri? Hann skammast sín eflaust gríðarlega fyrir að hafa tekið þátt í þessum vitleysisgangi á sínum tíma.
Maðurinn sem rúllaði þessari keppni upp fyrstu þrjú árin* var goðsögnin Larry Bird hjá Boston Celtics og segja má að hann hafi verið ein af fyrstu stjörnunum í NBA deildinni sem hafði 3ja stiga skotin í vopnabúri sínu, þó hann hafi meira notað það sem neyðartæki eða bakbrjót, í stað reglubundinnar leikaðferðar eins og menn gera í dag.
Næsta stjarna sem byggði leik sinn mikið á þriggja stiga skotunum var Reggie Miller hjá Indiana Pacers. Miller er einn ofmetnasti leikmaður í sögu NBA og gerði ekkert inni á vellinum annað en að skora, en það verður ekki af honum tekið að hann var fín skytta.
Fulltrúi kynslóðarinnar sem kom á eftir Miller var tvímælalaust Ray Allen sem undir lok ferils síns tók fram úr Reggie Miller og varð afkastamesta 3ja stiga skytta í sögu deildarinnar.
Allen var ekki bara betri skytta heldur en Miller, heldur skaut hann líka meira, enda var langskotið þegar hér var komið við sögu orðið miklu stærri partur af öllum sóknarleik í deildinni en hann var áður.
Allen spilaði lengst af á ferlinum með Milwaukee og Seattle, en mörg ykkar muna ef til vill meira eftir honum á síðustu árunum hans í deildinni þar sem hann spilaði alltaf fram í júní með liðum sínum Boston Celtics og síðar Miami Heat.
Þar náði hann að skilja eftir sig djúp fótspor með í sögunni með meistaratitlum og æfingum eins og þessum hérna á myndinni fyrir ofan þegar hann skaut hjartað úr San Antonio í lokaúrslitunum um árið.
Það kemur svo í hlut manna eins og Stephen Curry að taka við keflinu af Allen og enn og aftur eru þeir að skjóta meira en kynslóðin á undan. Það klikkaða við þetta er bara að hann er ekki bara að skjóta miklu meira, hann er líka að hitta miklu betur!
Eins og þið sjáið á töflunni hérna fyrir ofan (smelltu bara á hana og stækkaðu hana ef hún er svona fjandi óskýr - hvað er eiginlega að þér?) sýnir hún Curry ekki vera að taka "nema" 6,8 3ja stiga tilraunir í leik á ferlinum, en það er náttúrulega bara pínöts miðað við hvað hann er að gera í dag, þar sem hann er að taka ELLEFU þriggja stiga skot í leik.
Fyrir aðeins örfáum árum, hefði svona skotgleði verið kölluð stöppu-geðveiki - hvort sem menn hefðu verið að hitta úr þessu eða ekki. Menn bara skutu ekki svona hér áður, það hefði bara þótt dónaskapur.
En eins og við höfum farið í gegn um áður, tók það menn einfaldlega mjög langan tíma að fatta það að þriggja stiga skotin eru drullu hagkvæm skot þó þau fari ekki jafn oft ofan í og tveggja stiga skotin, af þeirri einföldu ástæðu að það fást fleiri stig fyrir að setja þau niður.
Nú er það vitaskuld ekki á færi allra liða að hitta fyrir utan, en þegar þú ert með lið eins og Warriors, sem er með fimm og sex leikmenn í sínum röðum sem skjóta vel yfir 40% fyrir utan - þá gefur augaleið að þú lætur vaða eins og fjandinn sé á hælunum á þér.
Öll þessi tölfræði fyrir lengra komna sýnir svo ekki verður um villst að öll þessi þriggja stiga skot - í höndunum á liði sem getur sett þau niður - eru að gera Golden State að einu af bestu liðum sögunnar. Og það er náttúrulega Stephen Curry sem fer fyrir öllu þessu. Það er hann sem tekur flest skotin og það er hann sem veldur mótherjum Warriors mestum kvíða.
En það er alveg sama hvað mótherjar liðsins skáta hann fram og aftur, hann finnur alltaf leiðir til að raða þristum í andlitið á þeim en spilar svo bara félaga sína uppi ef hann sjálfur fær of mikla athygli. Það er nú eitt af því sem er svo bjútífúl við drenginn - honum er fullkomlega sama um allt þetta skytterí bara ef liðið hans er að vinna. Og það er sko að vinna.
Sjáðu skotkortið hjá þessum brjálæðingi! Það er eins og lógóið hjá vinstri grænum!
Curry og Warriors-liðið hans er fjarri því að vera eina liðið í deildinni sem tekur mikið af þriggja stiga skotum og við eigum eflaust eftir að sjá sóknarleikinn verða enn meira þristaþenkjandi áður en við förum að sjá draga úr langskotum í NBA.
Gallinn við þetta er bara að það eru ekki öll lið svo heppin að eiga bakvarðapar eins og Curry og Klay Thompson sem skjóta eins og brjálæðingar en hitta alltaf í kring um 45% úr þristunum sínum. Á meðan svo er, verður þetta Golden State skaðræði við að eiga.
------------------------------------------------------------------------------------------------
* Fræg er sagan af því þegar Bird mætti inn í klefa fyrir 3ja stiga keppnina og hreytti út úr sér svo allir hinir keppendurnir heyrðu til hans: "Jæja, hver af ykkur aumingjunum ætlar að verða í öðru sæti í þessari keppni?"
Efnisflokkar:
Larry Bird
,
Metabækurnar
,
Netbrennur
,
Ray Allen
,
Reggie Miller
,
Skyttur
,
Stephen Curry
,
Tölfræði
,
Warriors
,
Þristar