Saturday, December 12, 2015

Aðeins af Draymond og Warriors


Það er ekki oft sem NBA deildin stelur sviðsljósinu frá öðrum greinum fyrir áramótin, en hún er sannarlega að gera það núna út af þessum látum í Golden State Warriors. Við höfum tekið eftir því að Jón Jónsson úti á götu veit af þessu, veit að þetta Golden State lið er að vinna fullt af leikjum í röð og svona, en pælir ekkert meira í því. Veit ekki hvað er í gangi.

Þetta er reyndar ekkert mikið öðru vísi með þá lengra komnu, þeir fatta jú af hverju Golden State vinnur fullt af leikjum, en það skilur enginn upp eða niður í þessari lygilegu sigurgöngu hjá liðinu. Andstæðingar og hatursmenn geta huggað sig við að við erum jú bara ennþá stödd í desember og það er langt langt þangað til úrslitakeppnin byrjar.

Það er ekki hlaupið að því að fá miða þegar Warriors koma í heimsókn og dæmi eru um það að miðaverð hafi hækkað fimm til tífalt. Allir vilja sjá Curry og Warriors koma í bæinn, og lúskra á liðinu sínu. Liðið fær líka lygilegan stuðning á mörgum útivöllum. Bolurinn lætur sig ekki vanta á vagninn frekar en venjulega, en menn segja nú samt að þeir hafi ekki séð aðrar eins rokkstjörnur á ferðinni síðan seinni útgáfan af Chicago-liðinu hans Jordans var og hét.

Luke Walton og þjálfarateymi Warriors eru í sjálfu sér örugglega ekkert allt of hamingjusamir með þessa löngu sigurgöngu, því þeir hefðu eflaust viljað hvíla lykilmenn liðsins eitthvað aðeins meira en þeir hafa verið að gera í allra síðustu leikjum, en öll þessi met - sem liðið er annað hvort búið að slá eða er alveg við það að slá - gera það að verkum að það er erfitt að kýla ekki á það.

Til hvers eru lið jú í þessu ef þau reyna ekki að setja mark sitt á söguna og slá met. Eins og einhver sagði  - og hafði að hluta til rétt fyrir sér - það verður eitt lið meistari á hverju ári, en mjög fá lið fá tækifæri til að reyna að slá nærri hálfrar aldar gamalt met LA Lakers yfir flesta sigurleiki í röð (33).

Það tryggir þér öruggan sess í sögubókum. Þegar við lesum greinar um þau NBA met sem er erfiðast að slá, er þetta met alltaf nefnt til sögunnar, en nú er svo komið að það er í hættu í annað skipti á þremur árum eða svo.

Við erum ekki bara að skrifa þessar línur til að jinxa Warriors til að fara að tapa leikjum. Ætli við séum ekki helst að því af því við urðum að skrifa eitthvað til að lýsa yfir hrifningu okkar á Draymond Green enn eina ferðina.


Einu sinni voru menn eins og Andre Iguodala eða Andrew Bogut eða Klay Thompson næstbestu leikmenn Golden State - og þeir eiga það til að vera það í leik og leik. En það er orðið alveg ljóst í dag að það er Draymond Green sem er næstbesti maður liðsins.

Drengurinn er að spila alveg óheyrilega vel. Hann kórónaði þessa pælingu ekki illa með því að komast í mjög takmarkaðan hóp leikmanna í sögu NBA sem hafa náð fimmfaldri fimmu, þegar hann skoraði 24 stig, hirti 11 fráköst, gaf 8 stoðendingar, varði fimm skot og stal fimm boltum! Hann er aðeins þriðji leikmaðurinn í sögunni til að ná þessum tölum í leik í NBA deildinni. Hrottalegt!

Stigaskorið hans drepur engan (13,5) en það er heldur ekki það sem honum finnst skemmtilegast að gera og hann lítur þannig á að það sé nóg af mönnum í liðinu sem geta séð um það. Og það er líka rétt hjá honum. Það er hinsvegar alltaf pláss fyrir varnarmenn, hindranasetningamann, frákastara og pleimeikera í öllum liðum - og Draymond tikkar í öll þessi box eins og fáir aðrir leikmenn í deildinni.


Green er ekki bara að skjóta mjög virðingarverðum 36% eða svo fyrir utan 3ja stiga línu og hirða nærri níu fráköst í leik - hann er í sjöunda sæti í NBA deildinni í stoðsendingum! Það er svona á líka og ef Arjen Robben væri í sjöunda sæti í Bundeslígunni í því að vinna skallaeinvígi eða tæklingar. Það er sannarlega þetta með skrattann og sauðalegginn.

Draymond Green er búinn að gera stórhættulegan sóknarleik Golden State helmingi meira hættulegan með því að vera búinn að breyta sér í 105 kílóa þungan leikstjórnanda sem er bæði klókur og fullkomlega óeigingjarn eins og restin af liði Warriors náttúrulega.

Það er ekki ónýtt að settur kraftframherji liðsins geti tekið pressu af verðmætasta leikmanni deildarinnar þegar hann þarf ef til vill að hvíla í nokkrar sóknir eða jafnvel sagt að spila af boltanum um stund. Þetta er með ólíkindum.

Draymond Green á að vera í byrjunarliði Vesturdeildarinnar í Stjörnuleiknum. Á að vera annað nafnið niður á blað á eftir félaga sínum Stephen Curry.

En við vitum að það verður ekki þannig, af því kosningin í byrjunarliðin í Stjörnuleikinn er júróvisjón og júróvisjón er heilalaust rusl og ómenning.

Kobe Bryant verður í byrjunarliði Vesturdeildarinnar í Stjörnuleiknum. Það verður gaman fyrir hann og stuðningsmenn Lakers, en það verður óverðskuldaðasta val síðan... tjah, sennilega síðan Bryant var valinn í fyrsta Stjörnuleikinn sinn á ferlinum forðum.

 Það verður einhver mjög góður körfuboltamaður í Vesturdeildinni að sætta sig við að horfa á hann í sjónvarpinu meðan Kobe tekur mínúturnar hans. Svona er þetta víst bara.

Haters og Neikvæðar-Nönnur reyna að taka af Warriors með því að benda á að það hafi sloppið við að spila við lið eins og Cleveland, San Antonio og Oklahoma á þessari rispu, en leikmenn Warriors geta bara ekkert að því gert. Þeir fá tækifæri til að mæta þessum liðum fljótlega - Cleveland t.d. um jólin og Golden State getur heldur ekkert að því gera að það þurfi að vinna eitthvað af þessum leikjum án 1-2 byrjunarliðsmanna og hvern einn og einasta þeirra án aðalþjálfara síns.


Það skiptir engu máli hvað hver segir, Golden State heldur bara áfram að slá met og það er ekkert sem þú eða þið getið gert í því. Nú þegar við hugsum um það, hrifsaði Golden State metabókina (eða bækurnar) til sín á seinni hluta síðasta tímabils og situr nú bara með þær í fanginu og skrifar í þær eins og jólasveinninn. Og liðið er ekkert að fara að skila þessum bókum neitt á næstunni - hvort sem það tapar leik á morgun eða eftir mánuð. Þeir eru sko ekki búnir - þeir eru rétt að byrja þessir menn.