Tuesday, December 29, 2015
Áramótaannáll NBA Ísland
Það er ekki til siðs að gera áramótaannála í NBA deildinni, enda er árið þar ekki gert upp fyrr en hálfu ári eftir áramót. Við hérna á NBA Ísland horfum hinsvegar ekkert í það hvað er til siðs eða ekki. Þó það sé vissulega glórulaust að gera áramótaannál í NBA deildinni, erum við svo mikið fyrir að gera hlutina upp um áramót að okkur fannst ekki hægt annað en setja niður nokkrar línur um NBA-árið sem er að líða.
Helsta ástæðan fyrir þessari annálaáráttu í okkur núna er auðvitað Golden State liðið okkar (flest) allra og lygilegur árangur þess á almanaksárinu 2015 sem senn er á enda. Samkvæmt okkar útreikningum er Warriors liðið búið að vinna 69 deildarleiki á árinu 2015, tapa aðeins 16 og vinna jú einn meistaratitil eða svo.
Það varð fljótt ljóst síðasta haust hvert stefndi, þegar Golden State stökk öskrandi upp úr startblokkunum og byrjaði að valta yfir andstæðinga sína. Ekkert okkar hafði trú á því að þetta lið væri beinlínis meistaraefni framan af, því við höfðum jú oft séð lið vinna fullt af leikjum í deildarkeppninni en missa svo niður um sig brækurnar að vori.
En Golden State hélt bara áfram að vinna og vinna - vann 67 leiki í deildarkeppninni og hélt uppteknum hætti í úrslitakeppninni. Liðið sópaði New Orleans í fyrstu umferð, en fékk svo aðeins á kjaftinn í annari umferð þegar Memphis náði að koma á þá ágætum vinstri krók. Warriors-menn svöruðu honum með hægrihandarbombu og rotuðu Húnana. Þá beið þeirra Houston-lið sem veitti mótspyrnu í fyrstu tveimur leikjunum í Oakland, en síðan ekki söguna meir - strangt til tekið.
Eins og flestir sem þetta lesa vita svo, vann Golden State meistaratitilinn eftir þungavigtareinvígi við vængbrotið Cleveland-lið í lokaúrslitunum í júní.
Hatursmenn Warriors og neikvæðar-Nönnur hafa allar götur síðan verið með leiðindi út í liðið af því öll liðin sem það mætti í úrslitakeppninni voru á einn eða annan hátt að glíma við meiðsli lykilmanna. Eins og það hafi verið leikmönnum Warriors að kenna að enginn af andstæðingum þeirra í úrslitakeppninni gat státað af því að tefla fram fullkomlega heilum leikstjórnanda. Eins og það væri við Curry og félaga að sakast að Cleveland hafi verið án tveggja stjörnuleikmanna í lokaúrslitunum. Og að það hafi verið þeim að kenna að þeir hafi hvorki þurft að mæta LA Clippers né San Antonio í úrslitakeppninni á leið sinni að titlinum.
Nei, það var ekki Warriors að kenna, en sumir virtustu líta þannig á þetta og gengisfella þar með fyrsta meistaratitil félagsins í fjóra áratugi.
Við höfum farið yfir þetta hundrað sinnum og gerum það einu sinni enn hér, Golden State var vel að titlinum komið og gerði ansi vel að landa honum með tiltölulega ungt lið, nýliða í þjálfarastólnum og litla reynslu af að fara djúpt inn í úrslitakeppnina.
Nú hafa leikmenn Golden State notað alla þessa neikvæðni á hárréttan hátt og virðast staðráðnir í að troða drulluskítugri tusku upp í alla hatursmenn sína og konur. Eða það lítur að minnsta kosti þannig út, þegar lið tapar ekki nema einum af fyrstu 30 leikjum sínum eða svo í deildarkeppninni þrátt fyrir að aðalþjálfari þess sé enn ekki mættur í vinnunna vegna veikinda.
Margir settu upp undrunarsvip þegar Steve Kerr lét hafa eftir sér að þó lið hans hefði vissulega verið gott á síðustu leiktíð, ætti það enn langt í land með að verða alvöru. Það yrði fyrst alvöru í ár, þegar menn væru komnir með ársreynslu og búnir að slípa sig almennilega saman sem lið. Þetta þekkir Kerr mjög vel frá því á árunum sem hann var leikmaður sjálfur, þar sem hann lyfti bikurum á hverju ári á lokasprettinum með Bulls og Spurs.
Það hefur svo komið á daginn að þetta var hárrétt hjá Kerr - Golden State er miklu betra í vetur en það var í fyrra - eins hrikalegar fréttir og það eru nú fyrir andstæðingana.
Eins og staðan er núna um áramótin 2015-16, eiga bara þrjú lið fræðilegan möguleika á að slá heilt Golden State lið út úr úrslitakeppninni og sennilega eiga bara tvö þeirra raunhæfa möguleika á því. Það fer þó sennilega alveg eftir því hvað við köllum raunhæfa möguleika, því þessir möguleikar eru satt best að segja ekkert rosalega miklir.
Oklahoma á smá séns ef allt smellur hjá því í vetur, en eins og staðan er hjá Durant, Westbrook og félögum akkúrat í dag, er það einfaldlega ekki nógu sterkt lið til að eiga séns í Warriors. Oklahoma er hinsvegar gott lið með góðan pótensjal og við verðum að gefa því smá séns til að bæta sig undir stjórn nýs þjálfara. Við höldum þó ekki niðri í okkur andanum með þetta lið.
Hin tvö liðin sem eiga raunhæfa möguleika á að veita Golden State almennilega samkeppni eru Cleveland og San Antonio. Texas-liðið er búið að spila óhemju vel í vetur - miklu betur en við áttum von á - sérstaklega í varnarleiknum. Þetta er síðasta árið sem San Antonio á möguleika á titli með Tim Duncan og Manu Ginobili í lykilstöðum og því er mikið undir á þeim bænum. Það verður ekkert gaman að eiga við þetta lið í úrslitakeppninni í vor, en þó þetta sé óhemju sterkt lið, eru mögulegt að vel þjálfaður og sterkur mótherju geti sparkað í það á viðkvæmum svæðum og sent það í sumarfrí.
Cleveland á fyrst og fremst séns í Golden State af því það er með tryggan farseðil í úrslitaeinvígið, nánast hvort sem það er heilt heilsu eða ekki. Við höfum séð austrið taka sig á í vetur, en það hefur ekkert að segja þegar kemur fram í úrslitakeppni. Það á ekkert lið í austrinu vísindalegan séns í Cleveland.
Lið með LeBron James á alltaf ágæta möguleika á að gera eitthvað gott í seríu og vonandi fær téður James meiri hjálp í úrslitakeppninni næsta vor en hann fékk síðast.
Færi svo að Golden State og Cleveland mættust öðru sinni í úrslitum, er ljóst að einvígið myndi þróast allt öðruvísi ef austurliðið mætti með allar sínar stjörnur heilar. Okkur sýnist samt að eina leiðin sem Cleveland yrði fær í það skiptið, yrði að skjóta Golden State í kaf í staðinn fyrir að berja það í kaf eins og síðast. Það er aftur á móti hættuleg aðferðafræði gegn trylltustu sókninni í NBA.
Árið 2015 var sannarlega ár Golden State Warriors og það er ekki oft sem lið ná að loka almanaksárinu með jafn glæsilegum og afgerandi hætti og Warriors í ár. Þetta lið er búið að skrifa kapítula í sögubækurnar með frammistöðu sinni og er hvergi nærri hætt. Það er ekki aðeins að vinna, það er að spila körfubolta sem aldrei hefur sést áður, með stórstjörnu í fararbroddi sem körfuboltaheimurinn hefur aldrei séð áður.
Framganga Stephen Curry og Golden State Warriors hefur tryggt það að ritstjórn NBA Ísland skemmti sér konunglega á árinu 2015 og við vonum sannarlega að árið 2016 verði jafn eftirminnilegt og skemmtilegt.
Efnisflokkar:
Áramót
,
Cavaliers
,
LeBron James
,
Sigurvegarar
,
Sögubækur
,
Stephen Curry
,
Steve Kerr
,
Titlar
,
Warriors