Friday, June 29, 2012
Wednesday, June 27, 2012
Tuesday, June 26, 2012
Stjörnulið Cons
Nike var ekki merkilegur skóframleiðandi áður en Michael Jordan gekk til liðs við fyrirtækið. Á níunda áratugnum var skemmtilegt skóstríð í gangi í NBA og eins og þú sérð á þessari eftirminnilegu mynd, varstu sekkur ef þú spilaðir ekki í Converse - sama hvað Michael Jordan sagði. Það vantar tæknilega menn í tvær leikstöður í þessu liði hérna fyrir neðan, en við myndum ekki veðja á móti því.
Efnisflokkar:
Gamli skólinn
,
Klassík
,
NBA 101
,
Skófatnaður
Sunday, June 24, 2012
Nýr kafli hefst hjá skuldlausum LeBron James:
Lauslega reiknað munu skrif um hann minnka um 17,4 milljón orða og því miður gætum við horft fram á nokkrar uppsagnir í blaðamannageiranum ytra vegna þessa.
Nú höfum við fengið smá tíma til að venjast þeirri hugmynd að LeBron James sé kominn með titil. Sama hvort sem fólki líkar vel við hann eða ekki, er sómi af því að pilturinn sé búinn að vinna þetta. Þá meinum við það í "illu er best af lokið" samhenginu. Nú þurfa hatursmenn hans að semja nýja brandara og breyta aðeins til. Það er mjög jákvætt.
Að öllu gamni slepptu, er James vel að titlinum kominn. Hann er búinn að vera langbesti leikmaður heimsins síðustu ár og það var að verða pínulítið kjánalegt hjá honum að safna öllum þessum MVP styttum og eiga ekki meistarahring í stíl.
Okkur þótti ákaflega vænt um að sjá fagnaðarlæti LeBron James þegar titillinn var í höfn á fimmtudagskvöldið.
Einlæg og ómenguð ánægjan leyndi sér ekki. Strákurinn var að rifna af hamingju með þetta, enda ekki bara að ná sínu helsta langtímamarkmiði, heldur einnig að losna úr bjarnargildru sem hann hafði setið fastur í í níu ár.
Nú verður ákaflega forvitnilegt að sjá hvað titillinn gerir fyrir hugartetrið hjá James.
Þið vitið að það er ekki nóg að hafa hæfileika til að vinna NBA titla.
Ef menn ætla að vinna þá nokkra, þurfa menn að vera dálítið klikkaðir líka. Æfa harðar, oftar og meira en aðrir, sleppa við meiðsli og gefa 110%
Er LeBron James með drápseðli og hungur í að halda nú áfram að vinna titla, eða fer hann nú að einbeita sér meira að því að rappa og koma fram í auglýsingum? Þetta er stærsta spurningin í framtíð Miami Heat, fyrir utan heilsufarið á Dwyane Wade.
Meistaratitillinn sem LeBron James var að næla sér í, þýðir að hann er orðinn óumdeild súperstjarna númer eitt í NBA deildinni. Hann fer að fá enn fleiri flautur frá dómurum, hlýtur aukna virðingu á öllum sviðum og verður nú miðpunktur öðruvísi umræðu en áður.
Nú geta menn hætt að tala um að James sé leikmaður sem þolir ekki pressuna og að hann vinni aldrei titla. Nú er kannski hægt að fara að tala aðeins um hvað hann er góður og hvar hann kemur til með að standa í sögulegu samhengi þegar fram í sækir.
Annað sem þessi titill gerir er að stroka út mistök James þegar kemur að almannatengslunum. Nú þýðir ekkert að vera að nudda framan í hann gömlum ummælum um að "flytja hæfileika sína til Suðurstrandar" eða "vinna ekki einn, ekki tvo, ekki sjö titla." Þetta dæmi heyrir nú sögunni til og James hefur unnið sér inn fyrir því að mega loka þessum kafla og henda lyklinum.
Já, krakkar. Við ætlum öll að reyna að vera jákvæðari í garð besta körfuboltamanns heims framvegis. Það er líka miklu auðveldara og uppbyggilegra.
Efnisflokkar:
Ákvörðunin
,
LeBron James
,
MVP
,
Sögubækur
,
Svægi
,
Titlar
,
Úrslitakeppni 2012
Leikmenn ársins voru frábærir í lokaúrslitunum
Efnisflokkar:
Kevin Durant
,
LeBron James
,
MVP
,
Tölfræði
,
Úrslitakeppni 2012
Úrslitaeinvígið 2012 fór ekki alveg eins og til stóð:
Þrátt fyrir bænir okkar allra, fór einvígi Miami og Oklahoma ekki nema í fimm leiki. Í þessum fimm leikjum kom bersýnilega í ljós hvort liðið lék betur. Við segjum lék betur, því okkur finnst Oklahoma vera betra lið en Miami. Lið, er þó lykilorðið. Miami lék eins og lið í úrslitunum. Fann loksins ædentitíið sitt, ef svo má segja.
Hver hefði tippað á það fyrir úrslitaeinvígið að menn eins og Shane Battier, Mike Miller og Mario Chalmers ættu eftir að fara á hamförum á kafla og tryggja liði sínu sigra í einstaka leikjum?
Og það sem meira er - hver hefði trúað því að LeBron James ætti eftir að spila eins og besti körfuboltamaður heims hverja einustu mínútu í einvíginu?
Oklahoma fékk engan svona lúxus. Bara hunda. Kevin Durant var reyndar frábær í úrslitarimmunni, en hefði mátt reyna meira sjálfur.
Westbrook skiptist á að vera góði og vondi Russ, Ibaka átti aðeins rispur og Harden var gjörsamlega afleitur utan leiks tvö. Þá fékk Oklahoma enga plúsa frá aukaleikurum sínum.
Ógrynni góðra leikmanna í NBA fá ekki tækifæri til að spila oftar en einu sinni um titilinn, því finnst okkur leiðinlegt þegar talað er um að Oklahoma hafi þurft að tapa þessu einvígi núna -- tími liðsins muni koma síðar. Það er bara bull. Tími Oklahoma hefði alveg eins átt að vera núna.
Strákarnir í Oklahoma fóru miklu erfiðari leið en Miami í úrslitin en lentu aldrei í teljandi erfiðleikum í vestrinu. Þess vegna gerðum við ráð fyrir að sjá liðið afgreiða Miami. Þegar í úrslitin var komið, ákvað Oklahoma hinsvegar að fara að spila eftir aldri og reynslu. Kraftmikið, en óttaslegið og hikandi. Eins og við sáum, dugði það skammt gegn Miami.
Deildin er eitt, úrslitakeppnin er annað - og lokaúrslitin svo eitthvað allt annað.
Þú ert vafalítið gjörsamlega ósammála þessu öllu og það er allt í lagi. Eðlilegt. Enda vann Miami.
Það er auðvitað ekki hægt annað en taka ofan hattinn fyrir Miami og óska leikmönnum til hamingju með góðan sigur. Þeir gerðu vissulega vel að loka þessu loksins.
Hvað lið Miami varðar, er krafan að sjálfssögðu sú að það nái í minnst tvo svona sigra í viðbót.
Það miðast þá við að Dwyane Wade haldi sér góðum í nokkur ár í viðbót og verði laus við meiðsli, ef við gefum okkur að James og Bosh verði líka frískir áfram.
Framtíðin ætti líka að vera björt hjá Oklahoma, þó svo tapið í úrslitaeinvíginu núna hafi vissulega undirstrikað nokkrar spurningar sem hangið hafa yfir liðinu lengi. Til dæmis hvað á að gera við Russell Westbrook og hvort Scott Brooks er nógu sterkur þjálfari.
Nokkrar spurningar vöknuðu líka í einvíginu. Ein þeirra er hvort James Harden sé leikmaður sem þoli við á stóra sviðinu. Svarið við þeirri spurningu er þvert nei eins og staðan er í dag.
Ef við ættum að setja peninga á það núna, myndum við veðja á að það yrðu þessi tvö lið sem mættust í lokaúrslitum á næsta ári. Það er skemmtileg tilhugsun. Rimmur þeirra eru bráðskemmtilegar og svo spila bestu leikmenn liðanna auðvitað sömu stöðu (LeBron James og Kevin Durant).
Deildin okkar ætti því að vera í fjandi góðum málum á næstu árum.
Efnisflokkar:
Heat
,
Sólstrandargæjarnir
,
Thunder
,
Titlar
,
Uppgjör
,
Úrslitakeppni 2012
Það sem miðlarnir sögðu
Efnisflokkar:
Ákvörðunin
,
LeBron James
,
Skóli lífsins
,
Sögubækur
,
Titlar
,
Úrslitakeppni 2012
,
Vel Gert
Saturday, June 23, 2012
Scott Brooks er heiðurspiltur
Það má vel vera að Scott Brooks hafi látið í minni pokann í þjálfaraeinvíginu í úrslitunum. Það má vel vera að samningur hans verði ekki framlengdur hjá Thunder.
Það má líka vel vera að hann hafi vitað af myndavélinni þegar hann hélt þessa ræðu. Hún er samt skemmtileg og það er klassi yfir Brooks. Hann má eiga það.
Efnisflokkar:
Scott Brooks
,
Úrslitakeppni 2012
,
Þjálfaramál
Friday, June 22, 2012
Fyrstu viðbrögð hatursmanna LeBron James
Efnisflokkar:
Ákvörðunin
,
Hatorade
,
LeBron James
,
Titlar
,
Úrslitakeppni 2012
Nike er ekkert að drolla við þetta
Efnisflokkar:
Auglýsingar
,
LeBron James
,
Satt er hratt
,
Titlar
,
Úrslitakeppni 2012
Thursday, June 21, 2012
LeBron James: Pistill frá Friðriki Inga Rúnarssyni
Hér fyrir ofan maðurinn sem allur heimurinn er að fylgjast með þessa dagana. Hann er umdeildasti íþróttamaður augnabliksins.
Þeir eru ansi margir sem vonast til þess að honum mistakist að vinna NBA titilinn. Ég er ekki í þeim hópi. Ég get unnt honum þess að vinna titil og er löngu búinn að gleyma þessari "Ákvörðun" enda svo sem óþarfi að vera að velta henni mikið meira fyrir sér. Mér fannst sú uppákoma klaufaleg eins og mörgum öðrum. Ég er þess fullviss að honum finnst það líka í dag. Hann færi öðruvísi að ef hann fengi að gera þetta aftur.
Allir eða flestir sem komast í heimsathygli ( sumir þurfa ekki heimsathygli til ) stíga einhver feilspor á lífsleiðinni og það á m.a. við um leikmenn eins og Michael Jordan, Larry Bird, Magic Johnson og Kobe Bryant sem LeBron er ávallt borinn saman við. Það eru bara allir búnir að gleyma þeim feilsporum. Látið ykkur ekki detta í hug að þessir ágætu menn hafi ekki gert einhver axarsköft á sínum ferli og jafnvel verri en að tilkynna það í beinni útsendingu með hvaða liði skal leikið næstu árin. LeBron James er mannlegur rétt eins og þeir.
LeBron James er hæfileikaríkasti körfuboltamaður heims í dag og jafnframt er hann með hæfileikaríkari íþróttamönnum almennt. Hann kemur vel fyrir og hefur gert síðan hann kom kornungur í deild þeirra bestu þar sem setið er um menn og beðið er eftir því að þeir misstígi sig. Það er ekki hægt að segja annað en að hann hafi staðist þetta og rúmlega það.
LeBron var aðeins 18 ára á 19. ári þegar hann kom inn í deildina ef einhverjir voru búnir að gleyma því.
Í sínum fyrsta leik skoraði hann 29 stig, gaf 9 stoðsendingar, tók 6 fráköst og var með 4 stolna bolta. Á tímabilinu var meðaltalið hans 21 stig í leik, 6 stoðsendingar í leik og 5.5 fráköst í leik. Ekki amalegt hjá 18-19 ára snáða sem nota bene var í slöku liði.
Hann kom Cleveland í lokaúrslitin árið 2007 og ég sagði þá að mér fyndist það mikið afrek þar sem hann var ekki með marga nógu leikmenn með sér, í það minnsta ljósárum frá getu og kunnátta þeirra leikmanna sem voru með Michael Jordan þegar hann vann fyrst - og sína titla eftir það.
Það má einnig benda á þá staðreynd að LeBron hafi sett á sig aukna og óþarfa pressu með færslu sinni til Miami, hann hefði getað sleppt því. Hann gerði það ekki. Hefur hann staðist þessa pressu?
Miami hefur spilað bæði árin til úrslita og er hársbreidd frá því að vinna titilinn á öðru árinu hans LeBron með liðinu. Mér finnst það ágætt og vísbending um að hann sé að höndla álagið og pressuna ágætlega. Hvað finnst þér?
Samherjar LeBron James elska að spila við hlið hans. Er hægt að fá betri meðmæli? Fyrir þá sem þekkja það að taka þátt í hópíþróttum vita allt um hversu sá þáttur er mikilvægur. Sá einhver sendingu Iniesta á Jesus sjálfan hjá Spánverjum á dögunum? Skothelt dæmi þar sem fagmenn kunna að deila með öðrum.
LeBron getur skorað þegar hann vill en hann kýs samt að virða samherja sína og veit sem er að þannig og aðeins þannig byggir hann upp lið sem getur unnið leiki reglulega og svo hugsanlega meistaratitla. Það sem Lebron er ekki fullnuma í frekar en Jordan var á sínum tíma í úrslitakeppnum NBA , er að læra hvenær hann þarf að taka af skarið og hvenær hann treystir samherjum sínum svo flæðið sé rétt og árangursríkt. Þetta er allt að koma.
Stundum held ég að sumir hafi viljað að LeBron væri jafngóður sem nýliði í NBA og Jordan var þegar hann var að vinna titlana sína. Hversu eðlilegt er það?
Pressan og áreitið eru alltaf að aukast. Það gera allir fjölmiðlarnir og samskiptamiðlarnir. Tilætlunarsemi, frekja og óþolinmæði í bland eykst með hverju árinu.
Furðuleg veröldin sem við lifum í.
Leikmenn eru dæmdir af verkum og verðlaunum. Leikmenn sem eru í hópíþróttum geta unnið ýmis einstaklingsverðlaun og vissulega gleður það, en í takmarkaðan tíma þó, allavega hjá flestum.
Takmarkið er að vinna NBA meistaratitilinn og við þekkjum það þegar frábærir leikmenn færa sig á milli liða seinni hluta ferils síns og jafnvel taka á sig launaskerðingu til þess eins að eiga möguleika á því að vinna titilinn.
Þar koma kappar eins og Charles Barkley, Karl Malone og Gary Payton strax upp í hugann en þeir eiga það allir sameiginlegt að hafa verið á meðal bestu leikmanna deildarinnar sem færðu sig á milli liða til þess að freistast til að vinna titilinn.
Ekki fannst fólki það neitt athugavert, heldur þvert á móti, þeim var jafnvel hampað fyrir að skipta um lið. Það sama á ekki við um Lebron.
Þó Lebron hafi ekki verið á hátindi síns ferils eða á niðurleið, hvort sem horft er út frá aldri eða getu þá ákvað hann að skipta um lið. Ég skal fúslega viðurkenna að mig langaði til að sjá hann vinna titilinn með Cleveland Cavaliers, hefði fundist það tignarlegra og sem hæfði honum betur vegna þess hversu góður hann er, ég setti hann í flokk með MJ og þar sem MJ fór ekkert (Washington ekki tekið með) þá átti LBJ ekki heldur að fara neitt.
Hann ákvað annað þrátt fyrir þessa eigingirni mína. Ég hef ákveðið að virða það og mun una honum að vinna titilinn sem virðist vera í sjónmáli nú. Ég hef reyndar þá trú að fleiri titlar fylgi í kjölfarið þegar hann losar sig við górilluna grimmu sem hangir á honum.
Ég sé LeBron James fyrir mé eftir cirka 10 ár, þar sem hann situr með einstaklingsverðlaunin í fanginu og fingur hans skreyttir hringjum sem við þekkjum. Fullkominn ferill eða því sem næst að baki. Í farmtíðinni verður talað um James sem einn af bestu leikmönnum sögunnar og sem undur sem kom við á lífsleiðinni í NBA deildina til skemmta okkur sem elskum körfubolta eða íþróttir almennt. Hafi hann þakkir fyrir það.
Leikur #5 verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 01:00
Góða skemmtun.
Friðrik Ingi Rúnarsson
Efnisflokkar:
Aðsent efni
,
Gestapennar
,
LeBron James
Wednesday, June 20, 2012
Draumaliðið
Reyndu endilega að sjá nýútkomna heimildamynd NBATV um Draumalið Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992. Lið þetta er oft kallað besta hópíþróttalið sem sett hefur verið saman og það er líklega ekki langt frá sannleikanum. Með smá klókindum á að vera hægt að finna þessa skemmtilegu mynd á youtube.
Efnisflokkar:
Draumaliðið
Sunday, June 17, 2012
NBA Ísland fer í tilfinningamotocross með Celtics:
Það hljómar líklega illa í eyru bæði stuðningsmanna og fjandmanna liðsins, en Boston Celtics átti - afsakið orðbragðið - helvíti gott ár.
Af þessu tilefni er ekki úr vegi að taka smá Boston-rússíbana. Bölva liðinu og blessa það til skiptis. Lestu endilega áfram.
Stuðningsmenn Boston eru ósáttir af því það munaði svo litlu, fjandmenn Boston eru reiðir yfir því hve langt liðið komst og aðrir af því Boston rústaði hjá þeim brakketinu.
Það eru líklega bara svona hlutlausir sveppir eins og við sem getum hrósað Celtics fyrir árið 2012.
Við munum ekki hvenær við afskrifuðum Boston í titilbaráttu, en það eru örugglega mörg ár síðan.
Úrslitakeppnin í Austurdeildinni missti talsverðan sjarma þetta árið þegar Chicago lenti í öllum þessum meiðslum, en áfram mallaði Boston eins og af gömlum vana - þó heilsa manna þar á bæ væri sannarlega ekki með besta móti.
Það er skondið að bera saman lið Celtics í dag og liðið eins og það var þegar þeir Bird, McHale og Parish voru komnir á felguna. Meiðsli settu sinn svip á liðið, menn voru komnir af léttasta skeiði, en stoltið, hjartað og kunnátan voru enn til staðar.
Þannig er það með Celtics árið 2012. Margir hata þetta lið bara af því þetta er Boston, aðrir af því liðið spilar stundum leiðinlegan bolta og einhverjir af því nokkrir af lykilmönnum liðsins hreinlega biðja um að vera hataðir.
Þrátt fyrir að vera nokkuð hlutlaus þegar kemur að NBA deildinni, verðum við að viðurkenna að Boston fer stundum óhugnarlega í taugarnar á okkur.
Það endurspeglast mest í þeim Kevin Garnett og Paul Pierce. Þeir geta farið rosalega í taugarnar á okkur. Þetta á við um alla með tölu hér á ritstjórninni.
Paul Pierce fer í taugarnar á okkur á krúttlegan hátt. Hann er með pirrandi rödd, pirrandi líkama, pirrandi leik, pirrandi svægi og - satt best að segja - alveg hrottalega leiðinlegan leik.
Athugaðu að það þýðir alls ekki að við berum ekki virðingu fyrir honum. Pierce var alltaf góður leikmaður, en hann fór upp um klassa þegar hann sýndi hvað hann gæti á stóra sviðinu árið 2008.
Síðan hefur hann verið ískaldur slúttari og einn besti Neyðarkarlinn í deildinni. Frábær leikmaður en hundleiðinlegur. Bara okkar skoðun.
Kevin Garnett er annar leikmaður sem fer í taugarnar á okkur, en öfugt við Pierce, er nákvæmlega ekkert krúttlegt við það.
Garnett er nefnilega að drulla dálítið yfir arfleifð sína á efri árum. Þetta vita aðeins þeir sem fylgjast vel með. Garnett hefur nefnilega breyst í ómerkilegan fant á síðustu misserum.
Mann, sem gefur bakvörðum og þeim sem minna mega sín ógeðsleg olnbogaskot meðan dómarinn sér ekki til. Garnett geltir hunda hæst, en gætir þess að gera það ekki á menn sem eru mikið yfir 180 sentimetrar á hæð.
Þessir óþolandi taktar hans færðist nokkuð í aukana í vetur og við sáum hann t.d. fara illa með tvo mótherja sína í einum og sama leiknum í Garðinum. Enginn tók eftir því nema mennirnir sem urðu fyrir þessum skræfuárásum hans. Það er eitt að leika fast, annað að stunda svona.
Það er leiðinlegt að sjá jafn hæfileikaríkan mann og Garnett skemma fyrir sér með svona fíflagangi, en okkur þótti nauðsynlegt að segja frá þessu áður en við færum að kyssa á honum afturendann.
Garnett átti nefnilega ekkert minna en stórkostlegan vetur og úrslitakeppni með Boston í ár. Fáir leikmenn á þessum aldri (36) hafa skilað öðru eins tímabili og Garnett átti í vetur. Meiðslin í herbúðum Boston þýddu að liðið þurfti enn meira á honum að halda en áður og hann stóð undir því eins og mannlegur máttur hans og geðveiki áttu til.
Það var ákveðinn innblástur í því fólginn að fylgjast með gömlu jálkunum í Boston berjast til síðasta blóðdropa í úrslitakeppninni um daginn.
Boston hafði ekki nokkurt einasta erindi í að fara svona langt - hvað þá í öllum þessum meiðslum - en gerði það nú samt. Ögraði öllum helstu kenningum um aldur og hnignun.
Við þurfum ekki að fara mörgum orðum um Rajon Rondo og hve mikill snillingur hann er. En það er eins með Rondo og hina karakterana í liði Boston. Þú veist aldrei hvað þú færð frá honum þá um kvöldið.
Oft færðu leiðinlegan leik og einstaka sinnum slaka frammistöðu, en inn á milli færðu hágæðaskemmtun og öskrandi klassík - hluti sem þú sérð hvergi nema í Garðinum.
Það er ótrúlegt að hugsa til þess, en kannski verður Boston bara áfram í bullandi séns í Austurdeildinni ef það nær að halda í helstu leikara og styrkja sig á réttum stöðum í sumar. Með klókindum og smá heppni - því í fjandanum ekki?
Það er örugglega búið að vera hálfgerður rússíbani að lesa þennan pistil, þar sem við skiptumst á að blóta liðinu og hrósa því. En svona er Boston og hefur alltaf verið. Heldur vonandi áfram að kalla fram þessi viðbrögð hjá stuðningsmönnum, andstæðingum og pennum.
Vonandi taka stuðningsmenn Celtics ekki illa í þessi leiðindi í okkar út í liðið og leikmenn þess, en þessi leiðindi eru að okkar mati bara ómissandi partur af prógramminu sem er Boston Celtics. Þetta er allt byggt á virðingu.
Sem sagt; Þú getur hatast út í Boston eins og þú vilt, en rétt eins og með San Antonio, verða menn bara að sýna klúbbnum virðingu þegar upp er staðið.
Og það gerum við.
Efnisflokkar:
Celtics
,
Dauðinn á skriðbeltunum
,
Dólgslæti
,
Fjórir fræknu
,
Hatorade
,
Kevin Garnett
,
Paul Pierce
,
Rajon Rondo
,
Sönn seigla
,
Úrslitakeppni 2012
Saturday, June 16, 2012
Allir saman nú:
Einhver gæti sagt að það þyrfti ekki að fara mörgum orðum um frammistöðu LeBron James til þessa í einvíginu gegn Oklahoma, en það er ekki rétt. Það er nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um hana.
James er að spila óhemju vel og það var dásamlegt að sjá hann skjóta fjandmennum sínum ref fyrir rass með því að hitta úr erfiðu skoti og lykilvítaskotum í restina.
Fólk verður að fara að hætta drulla yfir drenginn. Hann er stórkostlegur körfuboltamaður þó hann sé ekki Michael Jordan eða hver í ósköpunum þið viljið að hann sé.
Hann er einfaldlega eitt stórkostlegasta eintak af íþróttamanni sem deildin hefur séð og þú átt að njóta þess að horfa á hann spila.
James hefur að okkar mati verið til fyrirmyndar bæði á vellinum og í viðtölum í þessari úrslitakeppni.
Hann er alltaf brosmildur, þolinmóður og jákvæður þó hann sé baðaður upp úr Hatorade á hverjum einasta degi.
Drengurinn gerði mistök, kjánaleg mistök, en það er orðið þreytt að velta honum upp úr þeim. Það er ekki eins og hann sé nauðgari eða ofbeldismaður.
Sú staðreynd að LeBron James hafi átt þann feril sem hann hefur átt í NBA deildinni er ekkert minna en kraftaverk. Drengurinn er alinn upp af drykkfeldri móður, sem hefur gefið hugtakinu að gera gloríur alveg nýja merkingu. Ekki átti hann föður og bjó aldrei á sama staðnum lengur en nokkra mánuði í senn. Hann er því ekki beint að koma úr fyrirmyndaraðstæðum.
James hefur verið hampað sem hetju síðan hann var barn og þó það virðist vissulega hafa haft slæm áhrif á hann, er ekki hægt annað en að hrósa honum hvernig hann hefur unnið úr því sem hann hefur fengið.
Þú hefur ekki hugmynd um hvernig það er að vera hundeltur af blaðamönnum og sjónvarpsmyndavélum alla daga og fá milljarða inn á bankabókina þína áður en þú byrjar að raka þig (LeBron hefur líklega byrjað að raka sig þegar hann var 7 ára, svo við getum ekki miðað það við hann).
LeBron James er búinn að vera með myndavél í grillinu á sér í tíu ár og er orðinn skrilljarðamæringur. Hefur bakgrunn, dna, peninga og aðstöðu til að gera endalausa skandala.
Betur víraðir og gáfaðari menn en hann hafa svo sannarlega gert það. En hvað er LeBron James með á sakaskrá sinni?
Honum varð einu sinni á að mæta með New York húfu á hafnaboltaleik ef við munum rétt, hann hefur fengið hraðasekt, hann hefur gengið af velli án þess að taka í höndina á andstæðingum sínum.
Þá hefur hann - eins og frægt er orðið - tekið þátt í einni glórulausri sjónvarpsútsendingu allra tíma þar sem hann stakk Cleveland-búa í bakið (þó megi ekki gleyma því að hann var með lausa samninga og gat gert það sem hann vildi eftir að hafa borið Cavs-félagið úr öskustónni og upp að toppnum).
Hann hélt svo meistarapartí með vinum sínum í Miami áður en þeir spiluðu leik - þar sem hann lýsti því yfir að Miami gæti unnið "ekki einn, ekki tvo, ekki þrjá, ekki fjóra eða fimm eða sex titla heldur bla bla bla."
Þetta eru nú allir stórskandalarnir sem LeBron James hefur staðið fyrir á þessum tíu árum. Hann fengi ekki svo mikið sem sekt fyrir þetta í Norður-Kóreu.
Nei, krakkar, það er kominn tími til að leggja frá sér hatursmeðalið og láta LeBron ræfilinn í friði.
Þú getur haft þetta eins og þú vilt og haldið áfram að hata.
En ef þú spyrð okkur, er það orðið dálítið þreytt.
Rökin fyrir þvi hætt að halda sér.
NBA deildin væri ekki söm án LeBron James - og það veistu ósköp vel.
Efnisflokkar:
Ákvörðunin
,
Hatorade
,
LeBron James
,
Skoðanir
Allt í járnum hjá Oklahoma og Miami eftir leik 2:
Einvígi þessara liða er þegar byrjað að líkjast klassík og til dæmis er gaman að geta þess að áhorfstölur á leik tvö voru þær hæstu sem sést hafa síðan í leik tvö hjá Lakers og Detroit árið 2004. Það veit á ansi gott, því við höfum meðal annars séð Lakers og Boston eigast við í tvígang í úrslitum á þessu tímabili.
Það þarf ekki að fjölyrða um gríðarlegt mikilvægi þessa sigurs hjá Miami á fimmtudagskvöldið.
Eins og verða vill var fólk búið að dæma Miami úr leik strax eftir fyrsta leik - og þó það hafi verið full mikið - er það ekkert leyndarmál að róðurinn hefði orðið ansi þungur fyrir Miami ef það hefði tapað.
Allt annað var að sjá lið Miami frá fyrstu mínútu í leik tvö. Miklu meiri grimmd, betri varnarleikur og í sókninni voru menn að keyra á körfuna.
Dwyane Wade átti betri leik en í fyrsta leiknum þó tölfræðin hrópi ekki á það, en hann var að beita sér meira en hann gerði í fyrsta leiknum. Við kölluðum eftir því að Wade réði úrslitum í þessu einvígi og skárri leikur frá honum breytti miklu.
Það var þó alls ekki bara skárri leikur frá Wade sem tryggði Miami þennan frábæra sigur. Chris Bosh skilaði loksins leik sem sómaði manni á helmingi launa hans, sem er betra en hann sýnir venjulega.
Bosh er að fá óhemju hrós fyrir leik sinn á fimmtudagskvöldið, sem er óþarfa meðvirkni, en það skipti auðvitað máli fyrir Miami að fá þessi fráköst og slútt frá honum, þó hann léti stundum fara illa með sig eins og kettlingurinn sem hann er.
Shane Battier heldur áfram uppi 17 stiga meðaltali sínu og fáránlegri nýtingu sinni úr langskotunum. Það er ekki glæsilegt að hugsa til þess hvar Miami væri án þessarar ofurframmistöðu Battier á báðum endum vallarins.
Hann er reyndar farinn að fara dálítið í taugarnar á bæði okkur og Kevin Durant. Höfum ekki tölu á því hve oft hann braut á Durant þegar hann var að lemja í hendurnar á honum um leið og hann reyndi að halda fyrir augun á honum.
Þú veist að maður er að standa vaktina þegar hann er farinn að fara svona í taugarnar á öllu og öllum. Það verður ekki tekið af Battier að hann er að standa sig vel og það er þessi Battier sem við vorum að hrósa Miami fyrir að næla sér í á sínum tíma.
LeBron James heldur einfaldlega uppteknum hætti og spilar eins og engill. Það var sérstaklega gaman að sjá hann setja niður erfitt skot og krítísk pressuvíti í blálokin.
Ansi margir hefðu haldið veislu ef vítin hans hefðu ekki ratað rétta leið og satt best að segja kom það okkur á óvart að þau hafi dottið niður hjá honum. Ekkert nema jákvætt um það að segja.
Oklahoma tapaði leiknum af því liðið gróf sér gröf strax í byrjun eins og það hefur gert leik eftir leik á heimavelli.
Að þessu sinni var gröfin of djúp, þó hafi ekki munað nema hundshári í lokin að þeim tækist að fullkomna enn eina endurkomuna.
Kevin Durant er á hraðri leið í að verða mjög sérstakur leikmaður. Er þegar orðinn það raunar.
Það er í tísku að drulla yfir Russell Westbrook og ákvarðanatöku hans. Þetta er að hluta til réttmæt gagnrýni, en eins og allir þjálfarar segja - vilja þeir frekar hafa mann í sínu liði sem þarf að tjúna niður en upp.
Westbrook er einstakur leikmaður og á fáa sína líka. Hann á alltaf nokkur heilaprump og slæm skot, en Oklahoma mun halda áfram að lifa með því og Westbrook gerir alltaf fleiri góða hluti en slæma inni á vellinum. Hann er bara rétt skriðinn yfir tvítugt og á eftir að verða enn betri.
Fólk sem gleymir sér í því að gagnrýna hann þarf að slappa aðeins af og skoða hluti sem eiga til að gleymast, eins og baráttuandinn, krafturinn, úthaldið, kappið og varnarleikurinn sem Westbrook er að bjóða upp á í hverjum einasta leik. Hann á eftir að lenda á löppunum pilturinn, þó hann taki stundum hrikalegar dýfur.
Eitt fer dálítið í taugarnar á okkur hjá Scott Brooks þjálfara Oklahoma - og það er hvað hann er að láta Kendrick Perkins spila allt of mikið á kostnað Nick Collison.
Perkins tekur eitt og eitt frákast og setur góðar hindranir, en þá er það líka upptalið sem hann gefur Oklahoma í þessari seríu. Collison hentar miklu betur í bæði vörn og sókn gegn Miami að okkar mati, en við erum ekki þjálfarar auðvitað.
Nokkuð hefur verið talað um dóma sem féllu ekki með Oklahoma undir lokin á leik tvö og það er réttæt umræða.
Það var brotið á Westbrook þegar hann náði sóknarfrákasti undir körfunni og svo braut LeBron James klárlega á Kevin Durant þegar hann keyrði að körfunnin eftir endalínunni á öðrum tímapunkti þegar Oklahoma freistaði þess að jafna leikinn.
Það þýðir ekkert að velta sér upp úr þessu þó súrt sé. Þetta á eftir að jafnast út. Sannið til. Það besta við þessar villur eru viðbrögð Kevin Durant við þeim. Hann var margoft spurður út í þetta atvik eftir leikinn en beit bara í vörina á sér og sagði; "Ég hitti bara ekki úr skotinu."
Svona segja bara alvörumenn og þessi viðbrögð hans eru til algjörrar fyrirmyndar. Bara, áfram með smjörið. Risa kúdós á þennan hægláta og auðmjúka snilling. Deildin er í góðum höndum með svona drengi á toppnum.
Nú er staðan í þessu frábæra einvígi því orðin 1-1 og næstu þrír leikir í Miami. Það er glæpsamlegt að þurfi að vera svona langt á milli leikja í þessu, en þá er bara meiri tími til analíserínga sem þessara.
Þetta einvígi lofar öllu fögru og mun standa undir því.
Áfram með hátíðina.
Efnisflokkar:
Dwyane Wade
,
Heat
,
Kevin Durant
,
LeBron James
,
Russell Westbrook
,
Thunder
,
Úrslitakeppni 2012
Subscribe to:
Posts (Atom)