Sunday, June 24, 2012

Nýr kafli hefst hjá skuldlausum LeBron James:


 --- Sú staðreynd að LeBron James er búinn að vinna sinn fyrsta meistaratitil breytir ansi miklu í körfuboltalandslaginu í NBA.

Lauslega reiknað munu skrif um hann minnka um 17,4 milljón orða og því miður gætum við horft fram á nokkrar uppsagnir í blaðamannageiranum ytra vegna þessa.

Nú höfum við fengið smá tíma til að venjast þeirri hugmynd að LeBron James sé kominn með titil. Sama hvort sem fólki líkar vel við hann eða ekki, er sómi af því að pilturinn sé búinn að vinna þetta. Þá meinum við það í "illu er best af lokið" samhenginu. Nú þurfa hatursmenn hans að semja nýja brandara og breyta aðeins til. Það er mjög jákvætt.

Að öllu gamni slepptu, er James vel að titlinum kominn. Hann er búinn að vera langbesti leikmaður heimsins síðustu ár og það var að verða pínulítið kjánalegt hjá honum að safna öllum þessum MVP styttum og eiga ekki meistarahring í stíl.

Okkur þótti ákaflega vænt um að sjá fagnaðarlæti LeBron James þegar titillinn var í höfn á fimmtudagskvöldið.

Einlæg og ómenguð ánægjan leyndi sér ekki. Strákurinn var að rifna af hamingju með þetta, enda ekki bara að ná sínu helsta langtímamarkmiði, heldur einnig að losna úr bjarnargildru sem hann hafði setið fastur í í níu ár.

Nú verður ákaflega forvitnilegt að sjá hvað titillinn gerir fyrir hugartetrið hjá James.

Þið vitið að það er ekki nóg að hafa hæfileika til að vinna NBA titla.

Ef menn ætla að vinna þá nokkra, þurfa menn að vera dálítið klikkaðir líka. Æfa harðar, oftar og meira en aðrir, sleppa við meiðsli og gefa 110%

Er LeBron James með drápseðli og hungur í að halda nú áfram að vinna titla, eða fer hann nú að einbeita sér meira að því að rappa og koma fram í auglýsingum? Þetta er stærsta spurningin í framtíð Miami Heat, fyrir utan heilsufarið á Dwyane Wade.

Meistaratitillinn sem LeBron James var að næla sér í, þýðir að hann er orðinn óumdeild súperstjarna númer eitt í NBA deildinni. Hann fer að fá enn fleiri flautur frá dómurum, hlýtur aukna virðingu á öllum sviðum og verður nú miðpunktur öðruvísi umræðu en áður.

Nú geta menn hætt að tala um að James sé leikmaður sem þolir ekki pressuna og að hann vinni aldrei titla. Nú er kannski hægt að fara að tala aðeins um hvað hann er góður og hvar hann kemur til með að standa í sögulegu samhengi þegar fram í sækir.

Annað sem þessi titill gerir er að stroka út mistök James þegar kemur að almannatengslunum. Nú þýðir ekkert að vera að nudda framan í hann gömlum ummælum um að "flytja hæfileika sína til Suðurstrandar" eða "vinna ekki einn, ekki tvo, ekki sjö titla."  Þetta dæmi heyrir nú sögunni til og James hefur unnið sér inn fyrir því að mega loka þessum kafla og henda lyklinum.

Já, krakkar. Við ætlum öll að reyna að vera jákvæðari í garð besta körfuboltamanns heims framvegis. Það er líka miklu auðveldara og uppbyggilegra.