Thursday, June 21, 2012
LeBron James: Pistill frá Friðriki Inga Rúnarssyni
Hér fyrir ofan maðurinn sem allur heimurinn er að fylgjast með þessa dagana. Hann er umdeildasti íþróttamaður augnabliksins.
Þeir eru ansi margir sem vonast til þess að honum mistakist að vinna NBA titilinn. Ég er ekki í þeim hópi. Ég get unnt honum þess að vinna titil og er löngu búinn að gleyma þessari "Ákvörðun" enda svo sem óþarfi að vera að velta henni mikið meira fyrir sér. Mér fannst sú uppákoma klaufaleg eins og mörgum öðrum. Ég er þess fullviss að honum finnst það líka í dag. Hann færi öðruvísi að ef hann fengi að gera þetta aftur.
Allir eða flestir sem komast í heimsathygli ( sumir þurfa ekki heimsathygli til ) stíga einhver feilspor á lífsleiðinni og það á m.a. við um leikmenn eins og Michael Jordan, Larry Bird, Magic Johnson og Kobe Bryant sem LeBron er ávallt borinn saman við. Það eru bara allir búnir að gleyma þeim feilsporum. Látið ykkur ekki detta í hug að þessir ágætu menn hafi ekki gert einhver axarsköft á sínum ferli og jafnvel verri en að tilkynna það í beinni útsendingu með hvaða liði skal leikið næstu árin. LeBron James er mannlegur rétt eins og þeir.
LeBron James er hæfileikaríkasti körfuboltamaður heims í dag og jafnframt er hann með hæfileikaríkari íþróttamönnum almennt. Hann kemur vel fyrir og hefur gert síðan hann kom kornungur í deild þeirra bestu þar sem setið er um menn og beðið er eftir því að þeir misstígi sig. Það er ekki hægt að segja annað en að hann hafi staðist þetta og rúmlega það.
LeBron var aðeins 18 ára á 19. ári þegar hann kom inn í deildina ef einhverjir voru búnir að gleyma því.
Í sínum fyrsta leik skoraði hann 29 stig, gaf 9 stoðsendingar, tók 6 fráköst og var með 4 stolna bolta. Á tímabilinu var meðaltalið hans 21 stig í leik, 6 stoðsendingar í leik og 5.5 fráköst í leik. Ekki amalegt hjá 18-19 ára snáða sem nota bene var í slöku liði.
Hann kom Cleveland í lokaúrslitin árið 2007 og ég sagði þá að mér fyndist það mikið afrek þar sem hann var ekki með marga nógu leikmenn með sér, í það minnsta ljósárum frá getu og kunnátta þeirra leikmanna sem voru með Michael Jordan þegar hann vann fyrst - og sína titla eftir það.
Það má einnig benda á þá staðreynd að LeBron hafi sett á sig aukna og óþarfa pressu með færslu sinni til Miami, hann hefði getað sleppt því. Hann gerði það ekki. Hefur hann staðist þessa pressu?
Miami hefur spilað bæði árin til úrslita og er hársbreidd frá því að vinna titilinn á öðru árinu hans LeBron með liðinu. Mér finnst það ágætt og vísbending um að hann sé að höndla álagið og pressuna ágætlega. Hvað finnst þér?
Samherjar LeBron James elska að spila við hlið hans. Er hægt að fá betri meðmæli? Fyrir þá sem þekkja það að taka þátt í hópíþróttum vita allt um hversu sá þáttur er mikilvægur. Sá einhver sendingu Iniesta á Jesus sjálfan hjá Spánverjum á dögunum? Skothelt dæmi þar sem fagmenn kunna að deila með öðrum.
LeBron getur skorað þegar hann vill en hann kýs samt að virða samherja sína og veit sem er að þannig og aðeins þannig byggir hann upp lið sem getur unnið leiki reglulega og svo hugsanlega meistaratitla. Það sem Lebron er ekki fullnuma í frekar en Jordan var á sínum tíma í úrslitakeppnum NBA , er að læra hvenær hann þarf að taka af skarið og hvenær hann treystir samherjum sínum svo flæðið sé rétt og árangursríkt. Þetta er allt að koma.
Stundum held ég að sumir hafi viljað að LeBron væri jafngóður sem nýliði í NBA og Jordan var þegar hann var að vinna titlana sína. Hversu eðlilegt er það?
Pressan og áreitið eru alltaf að aukast. Það gera allir fjölmiðlarnir og samskiptamiðlarnir. Tilætlunarsemi, frekja og óþolinmæði í bland eykst með hverju árinu.
Furðuleg veröldin sem við lifum í.
Leikmenn eru dæmdir af verkum og verðlaunum. Leikmenn sem eru í hópíþróttum geta unnið ýmis einstaklingsverðlaun og vissulega gleður það, en í takmarkaðan tíma þó, allavega hjá flestum.
Takmarkið er að vinna NBA meistaratitilinn og við þekkjum það þegar frábærir leikmenn færa sig á milli liða seinni hluta ferils síns og jafnvel taka á sig launaskerðingu til þess eins að eiga möguleika á því að vinna titilinn.
Þar koma kappar eins og Charles Barkley, Karl Malone og Gary Payton strax upp í hugann en þeir eiga það allir sameiginlegt að hafa verið á meðal bestu leikmanna deildarinnar sem færðu sig á milli liða til þess að freistast til að vinna titilinn.
Ekki fannst fólki það neitt athugavert, heldur þvert á móti, þeim var jafnvel hampað fyrir að skipta um lið. Það sama á ekki við um Lebron.
Þó Lebron hafi ekki verið á hátindi síns ferils eða á niðurleið, hvort sem horft er út frá aldri eða getu þá ákvað hann að skipta um lið. Ég skal fúslega viðurkenna að mig langaði til að sjá hann vinna titilinn með Cleveland Cavaliers, hefði fundist það tignarlegra og sem hæfði honum betur vegna þess hversu góður hann er, ég setti hann í flokk með MJ og þar sem MJ fór ekkert (Washington ekki tekið með) þá átti LBJ ekki heldur að fara neitt.
Hann ákvað annað þrátt fyrir þessa eigingirni mína. Ég hef ákveðið að virða það og mun una honum að vinna titilinn sem virðist vera í sjónmáli nú. Ég hef reyndar þá trú að fleiri titlar fylgi í kjölfarið þegar hann losar sig við górilluna grimmu sem hangir á honum.
Ég sé LeBron James fyrir mé eftir cirka 10 ár, þar sem hann situr með einstaklingsverðlaunin í fanginu og fingur hans skreyttir hringjum sem við þekkjum. Fullkominn ferill eða því sem næst að baki. Í farmtíðinni verður talað um James sem einn af bestu leikmönnum sögunnar og sem undur sem kom við á lífsleiðinni í NBA deildina til skemmta okkur sem elskum körfubolta eða íþróttir almennt. Hafi hann þakkir fyrir það.
Leikur #5 verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 01:00
Góða skemmtun.
Friðrik Ingi Rúnarsson
Efnisflokkar:
Aðsent efni
,
Gestapennar
,
LeBron James