Einvígi þessara liða er þegar byrjað að líkjast klassík og til dæmis er gaman að geta þess að áhorfstölur á leik tvö voru þær hæstu sem sést hafa síðan í leik tvö hjá Lakers og Detroit árið 2004. Það veit á ansi gott, því við höfum meðal annars séð Lakers og Boston eigast við í tvígang í úrslitum á þessu tímabili.
Það þarf ekki að fjölyrða um gríðarlegt mikilvægi þessa sigurs hjá Miami á fimmtudagskvöldið.
Eins og verða vill var fólk búið að dæma Miami úr leik strax eftir fyrsta leik - og þó það hafi verið full mikið - er það ekkert leyndarmál að róðurinn hefði orðið ansi þungur fyrir Miami ef það hefði tapað.
Allt annað var að sjá lið Miami frá fyrstu mínútu í leik tvö. Miklu meiri grimmd, betri varnarleikur og í sókninni voru menn að keyra á körfuna.
Dwyane Wade átti betri leik en í fyrsta leiknum þó tölfræðin hrópi ekki á það, en hann var að beita sér meira en hann gerði í fyrsta leiknum. Við kölluðum eftir því að Wade réði úrslitum í þessu einvígi og skárri leikur frá honum breytti miklu.
Það var þó alls ekki bara skárri leikur frá Wade sem tryggði Miami þennan frábæra sigur. Chris Bosh skilaði loksins leik sem sómaði manni á helmingi launa hans, sem er betra en hann sýnir venjulega.
Bosh er að fá óhemju hrós fyrir leik sinn á fimmtudagskvöldið, sem er óþarfa meðvirkni, en það skipti auðvitað máli fyrir Miami að fá þessi fráköst og slútt frá honum, þó hann léti stundum fara illa með sig eins og kettlingurinn sem hann er.
Shane Battier heldur áfram uppi 17 stiga meðaltali sínu og fáránlegri nýtingu sinni úr langskotunum. Það er ekki glæsilegt að hugsa til þess hvar Miami væri án þessarar ofurframmistöðu Battier á báðum endum vallarins.
Hann er reyndar farinn að fara dálítið í taugarnar á bæði okkur og Kevin Durant. Höfum ekki tölu á því hve oft hann braut á Durant þegar hann var að lemja í hendurnar á honum um leið og hann reyndi að halda fyrir augun á honum.
Þú veist að maður er að standa vaktina þegar hann er farinn að fara svona í taugarnar á öllu og öllum. Það verður ekki tekið af Battier að hann er að standa sig vel og það er þessi Battier sem við vorum að hrósa Miami fyrir að næla sér í á sínum tíma.
LeBron James heldur einfaldlega uppteknum hætti og spilar eins og engill. Það var sérstaklega gaman að sjá hann setja niður erfitt skot og krítísk pressuvíti í blálokin.
Ansi margir hefðu haldið veislu ef vítin hans hefðu ekki ratað rétta leið og satt best að segja kom það okkur á óvart að þau hafi dottið niður hjá honum. Ekkert nema jákvætt um það að segja.
Oklahoma tapaði leiknum af því liðið gróf sér gröf strax í byrjun eins og það hefur gert leik eftir leik á heimavelli.
Að þessu sinni var gröfin of djúp, þó hafi ekki munað nema hundshári í lokin að þeim tækist að fullkomna enn eina endurkomuna.
Kevin Durant er á hraðri leið í að verða mjög sérstakur leikmaður. Er þegar orðinn það raunar.
Það er í tísku að drulla yfir Russell Westbrook og ákvarðanatöku hans. Þetta er að hluta til réttmæt gagnrýni, en eins og allir þjálfarar segja - vilja þeir frekar hafa mann í sínu liði sem þarf að tjúna niður en upp.
Westbrook er einstakur leikmaður og á fáa sína líka. Hann á alltaf nokkur heilaprump og slæm skot, en Oklahoma mun halda áfram að lifa með því og Westbrook gerir alltaf fleiri góða hluti en slæma inni á vellinum. Hann er bara rétt skriðinn yfir tvítugt og á eftir að verða enn betri.
Fólk sem gleymir sér í því að gagnrýna hann þarf að slappa aðeins af og skoða hluti sem eiga til að gleymast, eins og baráttuandinn, krafturinn, úthaldið, kappið og varnarleikurinn sem Westbrook er að bjóða upp á í hverjum einasta leik. Hann á eftir að lenda á löppunum pilturinn, þó hann taki stundum hrikalegar dýfur.
Eitt fer dálítið í taugarnar á okkur hjá Scott Brooks þjálfara Oklahoma - og það er hvað hann er að láta Kendrick Perkins spila allt of mikið á kostnað Nick Collison.
Perkins tekur eitt og eitt frákast og setur góðar hindranir, en þá er það líka upptalið sem hann gefur Oklahoma í þessari seríu. Collison hentar miklu betur í bæði vörn og sókn gegn Miami að okkar mati, en við erum ekki þjálfarar auðvitað.
Nokkuð hefur verið talað um dóma sem féllu ekki með Oklahoma undir lokin á leik tvö og það er réttæt umræða.
Það var brotið á Westbrook þegar hann náði sóknarfrákasti undir körfunni og svo braut LeBron James klárlega á Kevin Durant þegar hann keyrði að körfunnin eftir endalínunni á öðrum tímapunkti þegar Oklahoma freistaði þess að jafna leikinn.
Það þýðir ekkert að velta sér upp úr þessu þó súrt sé. Þetta á eftir að jafnast út. Sannið til. Það besta við þessar villur eru viðbrögð Kevin Durant við þeim. Hann var margoft spurður út í þetta atvik eftir leikinn en beit bara í vörina á sér og sagði; "Ég hitti bara ekki úr skotinu."
Svona segja bara alvörumenn og þessi viðbrögð hans eru til algjörrar fyrirmyndar. Bara, áfram með smjörið. Risa kúdós á þennan hægláta og auðmjúka snilling. Deildin er í góðum höndum með svona drengi á toppnum.
Nú er staðan í þessu frábæra einvígi því orðin 1-1 og næstu þrír leikir í Miami. Það er glæpsamlegt að þurfi að vera svona langt á milli leikja í þessu, en þá er bara meiri tími til analíserínga sem þessara.
Þetta einvígi lofar öllu fögru og mun standa undir því.
Áfram með hátíðina.