Saturday, June 16, 2012

Allir saman nú:
















































Einhver gæti sagt að það þyrfti ekki að fara mörgum orðum um frammistöðu LeBron James til þessa í einvíginu gegn Oklahoma, en það er ekki rétt. Það er nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um hana.

James er að spila óhemju vel og það var dásamlegt að sjá hann skjóta fjandmennum sínum ref fyrir rass með því að hitta úr erfiðu skoti og lykilvítaskotum í restina.

Fólk verður að fara að hætta drulla yfir drenginn. Hann er stórkostlegur körfuboltamaður þó hann sé ekki Michael Jordan eða hver í ósköpunum þið viljið að hann sé.

Hann er einfaldlega eitt stórkostlegasta eintak af íþróttamanni sem deildin hefur séð og þú átt að njóta þess að horfa á hann spila.

James hefur að okkar mati verið til fyrirmyndar bæði á vellinum og í viðtölum í þessari úrslitakeppni.

Hann er alltaf brosmildur, þolinmóður og jákvæður þó hann sé baðaður upp úr Hatorade á hverjum einasta degi.

Drengurinn gerði mistök, kjánaleg mistök, en það er orðið þreytt að velta honum upp úr þeim. Það er ekki eins og hann sé nauðgari eða ofbeldismaður.

Sú staðreynd að LeBron James hafi átt þann feril sem hann hefur átt í NBA deildinni er ekkert minna en kraftaverk. Drengurinn er alinn upp af drykkfeldri móður, sem hefur gefið hugtakinu að gera gloríur alveg nýja merkingu. Ekki átti hann föður og bjó aldrei á sama staðnum lengur en nokkra mánuði í senn. Hann er því ekki beint að koma úr fyrirmyndaraðstæðum.

James hefur verið hampað sem hetju síðan hann var barn og þó það virðist vissulega hafa haft slæm áhrif á hann, er ekki hægt annað en að hrósa honum hvernig hann hefur unnið úr því sem hann hefur fengið.

Þú hefur ekki hugmynd um hvernig það er að vera hundeltur af blaðamönnum og sjónvarpsmyndavélum alla daga og fá milljarða inn á bankabókina þína áður en þú byrjar að raka þig (LeBron hefur líklega byrjað að raka sig þegar hann var 7 ára, svo við getum ekki miðað það við hann).

LeBron James er búinn að vera með myndavél í grillinu á sér í tíu ár og er orðinn skrilljarðamæringur. Hefur bakgrunn, dna, peninga og aðstöðu til að gera endalausa skandala.

Betur víraðir og gáfaðari menn en hann hafa svo sannarlega gert það. En hvað er LeBron James með á sakaskrá sinni?

Honum varð einu sinni á að mæta með New York húfu á hafnaboltaleik ef við munum rétt, hann hefur fengið hraðasekt, hann hefur gengið af velli án þess að taka í höndina á andstæðingum sínum.

Þá hefur hann - eins og frægt er orðið -  tekið þátt í einni glórulausri sjónvarpsútsendingu allra tíma þar sem hann stakk Cleveland-búa í bakið (þó megi ekki gleyma því að hann var með lausa samninga og gat gert það sem hann vildi eftir að hafa borið Cavs-félagið úr öskustónni og upp að toppnum).

Hann hélt svo meistarapartí með vinum sínum í Miami áður en þeir spiluðu leik - þar sem hann lýsti því yfir að Miami gæti unnið "ekki einn, ekki tvo, ekki þrjá, ekki fjóra eða fimm eða sex titla heldur bla bla bla."

Þetta eru nú allir stórskandalarnir sem LeBron James hefur staðið fyrir á þessum tíu árum. Hann fengi ekki svo mikið sem sekt fyrir þetta í Norður-Kóreu.

Nei, krakkar, það er kominn tími til að leggja frá sér hatursmeðalið og láta LeBron ræfilinn í friði.


Þú getur haft þetta eins og þú vilt og haldið áfram að hata.

En ef þú spyrð okkur, er það orðið dálítið þreytt.

Rökin fyrir þvi hætt að halda sér.

NBA deildin væri ekki söm án LeBron James - og það veistu ósköp vel.