Sunday, June 17, 2012

NBA Ísland fer í tilfinningamotocross með Celtics:


Það hljómar líklega illa í eyru bæði stuðningsmanna og fjandmanna liðsins, en Boston Celtics átti - afsakið orðbragðið - helvíti gott ár.

Af þessu tilefni er ekki úr vegi að taka smá Boston-rússíbana. Bölva liðinu og blessa það til skiptis. Lestu endilega áfram.

Stuðningsmenn Boston eru ósáttir af því það munaði svo litlu, fjandmenn Boston eru reiðir yfir því hve langt liðið komst og aðrir af því Boston rústaði hjá þeim brakketinu.

Það eru líklega bara svona hlutlausir sveppir eins og við sem getum hrósað Celtics fyrir árið 2012.

Við munum ekki hvenær við afskrifuðum Boston í titilbaráttu, en það eru örugglega mörg ár síðan.

Úrslitakeppnin í Austurdeildinni missti talsverðan sjarma þetta árið þegar Chicago lenti í öllum þessum meiðslum, en áfram mallaði Boston eins og af gömlum vana - þó heilsa manna þar á bæ væri sannarlega ekki með besta móti.

Það er skondið að bera saman lið Celtics í dag og liðið eins og það var þegar þeir Bird, McHale og Parish voru komnir á felguna. Meiðsli settu sinn svip á liðið, menn voru komnir af léttasta skeiði, en stoltið, hjartað og kunnátan voru enn til staðar.

Þannig er það með Celtics árið 2012. Margir hata þetta lið bara af því þetta er Boston, aðrir af því liðið spilar stundum leiðinlegan bolta og einhverjir af því nokkrir af lykilmönnum liðsins hreinlega biðja um að vera hataðir.

Þrátt fyrir að vera nokkuð hlutlaus þegar kemur að NBA deildinni, verðum við að viðurkenna að Boston fer stundum óhugnarlega í taugarnar á okkur.

Það endurspeglast mest í þeim Kevin Garnett og Paul Pierce. Þeir geta farið rosalega í taugarnar á okkur. Þetta á við um alla með tölu hér á ritstjórninni.

Paul Pierce fer í taugarnar á okkur á krúttlegan hátt. Hann er með pirrandi rödd, pirrandi líkama, pirrandi leik, pirrandi svægi og - satt best að segja - alveg hrottalega leiðinlegan leik.

Athugaðu að það þýðir alls ekki að við berum ekki virðingu fyrir honum. Pierce var alltaf góður leikmaður, en hann fór upp um klassa þegar hann sýndi hvað hann gæti á stóra sviðinu árið 2008.

Síðan hefur hann verið ískaldur slúttari og einn besti Neyðarkarlinn í deildinni. Frábær leikmaður en hundleiðinlegur. Bara okkar skoðun.

Kevin Garnett er annar leikmaður sem fer í taugarnar á okkur, en öfugt við Pierce, er nákvæmlega ekkert krúttlegt við það.

Garnett er nefnilega að drulla dálítið yfir arfleifð sína á efri árum. Þetta vita aðeins þeir sem fylgjast vel með. Garnett hefur nefnilega breyst í ómerkilegan fant á síðustu misserum.

Mann, sem gefur bakvörðum og þeim sem minna mega sín ógeðsleg olnbogaskot meðan dómarinn sér ekki til. Garnett geltir hunda hæst, en gætir þess að gera það ekki á menn sem eru mikið yfir 180 sentimetrar á hæð.

Þessir óþolandi taktar hans færðist nokkuð í aukana í vetur og við sáum hann t.d. fara illa með tvo mótherja sína í einum og sama leiknum í Garðinum. Enginn tók eftir því nema mennirnir sem urðu fyrir þessum skræfuárásum hans. Það er eitt að leika fast, annað að stunda svona.

Það er leiðinlegt að sjá jafn hæfileikaríkan mann og Garnett skemma fyrir sér með svona fíflagangi, en okkur þótti nauðsynlegt að segja frá þessu áður en við færum að kyssa á honum afturendann.

Garnett átti nefnilega ekkert minna en stórkostlegan vetur og úrslitakeppni með Boston í ár. Fáir leikmenn á þessum aldri (36) hafa skilað öðru eins tímabili og Garnett átti í vetur. Meiðslin í herbúðum Boston þýddu að liðið þurfti enn meira á honum að halda en áður og hann stóð undir því eins og mannlegur máttur hans og geðveiki áttu til.

Það var ákveðinn innblástur í því fólginn að fylgjast með gömlu jálkunum í Boston berjast til síðasta blóðdropa í úrslitakeppninni um daginn.

Boston hafði ekki nokkurt einasta erindi í að fara svona langt - hvað þá í öllum þessum meiðslum - en gerði það nú samt. Ögraði öllum helstu kenningum um aldur og hnignun.

Við þurfum ekki að fara mörgum orðum um Rajon Rondo og hve mikill snillingur hann er. En það er eins með Rondo og hina karakterana í liði Boston. Þú veist aldrei hvað þú færð frá honum þá um kvöldið.

Oft færðu leiðinlegan leik og einstaka sinnum slaka frammistöðu, en inn á milli færðu hágæðaskemmtun og öskrandi klassík - hluti sem þú sérð hvergi nema í Garðinum.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess, en kannski verður Boston bara áfram í bullandi séns í Austurdeildinni ef það nær að halda í helstu leikara og styrkja sig á réttum stöðum í sumar. Með klókindum og smá heppni - því í fjandanum ekki?

Það er örugglega búið að vera hálfgerður rússíbani að lesa þennan pistil, þar sem við skiptumst á að blóta liðinu og hrósa því. En svona er Boston og hefur alltaf verið. Heldur vonandi áfram að kalla fram þessi viðbrögð hjá stuðningsmönnum, andstæðingum og pennum.

Vonandi taka stuðningsmenn Celtics ekki illa í þessi leiðindi í okkar út í liðið og leikmenn þess, en þessi leiðindi eru að okkar mati bara ómissandi partur af prógramminu sem er Boston Celtics. Þetta er allt byggt á virðingu.

Sem sagt; Þú getur hatast út í Boston eins og þú vilt, en rétt eins og með San Antonio, verða menn bara að sýna klúbbnum virðingu þegar upp er staðið.

Og það gerum við.