Sunday, June 24, 2012

Úrslitaeinvígið 2012 fór ekki alveg eins og til stóð:


Þrátt fyrir bænir okkar allra, fór einvígi Miami og Oklahoma ekki nema í fimm leiki. Í þessum fimm leikjum kom bersýnilega í ljós hvort liðið lék betur. Við segjum lék betur, því okkur finnst Oklahoma vera betra lið en Miami. Lið, er þó lykilorðið. Miami lék eins og lið í úrslitunum. Fann loksins ædentitíið sitt, ef svo má segja.

Hver hefði tippað á það fyrir úrslitaeinvígið að menn eins og Shane Battier, Mike Miller og Mario Chalmers ættu eftir að fara á hamförum á kafla og tryggja liði sínu sigra í einstaka leikjum?

Og það sem meira er - hver hefði trúað því að LeBron James ætti eftir að spila eins og besti körfuboltamaður heims hverja einustu mínútu í einvíginu?

Oklahoma fékk engan svona lúxus. Bara hunda. Kevin Durant var reyndar frábær í úrslitarimmunni, en hefði mátt reyna meira sjálfur.

Westbrook skiptist á að vera góði og vondi Russ, Ibaka átti aðeins rispur og Harden var gjörsamlega afleitur utan leiks tvö. Þá fékk Oklahoma enga plúsa frá aukaleikurum sínum.

Ógrynni góðra leikmanna í NBA fá ekki tækifæri til að spila oftar en einu sinni um titilinn, því finnst okkur leiðinlegt þegar talað er um að Oklahoma hafi þurft að tapa þessu einvígi núna -- tími liðsins muni koma síðar. Það er bara bull. Tími Oklahoma hefði alveg eins átt að vera núna.

Strákarnir í Oklahoma fóru miklu erfiðari leið en Miami í úrslitin en lentu aldrei í teljandi erfiðleikum í vestrinu. Þess vegna gerðum við ráð fyrir að sjá liðið afgreiða Miami. Þegar í úrslitin var komið, ákvað Oklahoma hinsvegar að fara að spila eftir aldri og reynslu. Kraftmikið, en óttaslegið og hikandi. Eins og við sáum, dugði það skammt gegn Miami.

Deildin er eitt, úrslitakeppnin er annað - og lokaúrslitin svo eitthvað allt annað.

Þú ert vafalítið gjörsamlega ósammála þessu öllu og það er allt í lagi. Eðlilegt. Enda vann Miami.

Það er auðvitað ekki hægt annað en taka ofan hattinn fyrir Miami og óska leikmönnum til hamingju með góðan sigur. Þeir gerðu vissulega vel að loka þessu loksins.

Hvað lið Miami varðar, er krafan að sjálfssögðu sú að það nái í minnst tvo svona sigra í viðbót.

Það miðast þá við að Dwyane Wade haldi sér góðum í nokkur ár í viðbót og verði laus við meiðsli, ef við gefum okkur að James og Bosh verði líka frískir áfram.

Framtíðin ætti líka að vera björt hjá Oklahoma, þó svo tapið í úrslitaeinvíginu núna hafi vissulega undirstrikað nokkrar spurningar sem hangið hafa yfir liðinu lengi. Til dæmis hvað á að gera við Russell Westbrook og hvort Scott Brooks er nógu sterkur þjálfari.

Nokkrar spurningar vöknuðu líka í einvíginu. Ein þeirra er hvort James Harden sé leikmaður sem þoli við á stóra sviðinu. Svarið við þeirri spurningu er þvert nei eins og staðan er í dag.

Ef við ættum að setja peninga á það núna, myndum við veðja á að það yrðu þessi tvö lið sem mættust í lokaúrslitum á næsta ári. Það er skemmtileg tilhugsun. Rimmur þeirra eru bráðskemmtilegar og svo spila bestu leikmenn liðanna auðvitað sömu stöðu (LeBron James og Kevin Durant).

Deildin okkar ætti því að vera í fjandi góðum málum á næstu árum.