Saturday, April 30, 2016
Risaeinvígið hefst í kvöld
Úrslitakeppni NBA deildarinnar hefst fyrir alvöru í nótt þegar San Antonio Spurs og Oklahoma City Thunder mætast í fyrsta sinn í annari umferð úrslitakeppni Vesturdeildarinnar. Okkur ber skylda til að segja ykkur frá því að þessi leikur er klukkan hálfeitt í nótt og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Eins og við sögðum ykkur í pistli hér á dögunum, var fyrsta umferðin (þó hún sé ekki einu sinni búin þegar þetta er ritað) einfaldlega vonbrigði. En nú getum við gleymt öllum leiðindunum, því einvígið sem við gátum um hér að ofan á eftir að verða eitt það besta sem við sjáum í þessari úrslitakeppni, óháð því hver niðurstaðan verður - gæðin sem hér eru á ferðinni tryggja það.
Og það er út af þessum gæðum sem San Antonio og Oklahoma eru tvö af aðeins þremur liðum í NBA deildinni sem geta svo mikið sem þvælst fyrir Golden State í titilvörninni (það þriðja er Cleveland, af dálítið öðrum ástæðum, en samt).
Á meðan meistarar Golden State dúlla sér við að slíta Portland í sundur á næstu dögum, geta þeir skemmt sér inn á milli með því að sjá San Antonio og Oklahoma berjast til síðasta manns í seríu sem flestir spá að verði löng og blóðug.
Og að því sögðu verðum við að koma með dálítið sérstaka spá sem samt er svo augljós að þú átt eftir að bölva þér fyrir að hafa ekki séð hana fyrir þér. Sigurvegarinn í einvígi San Antonio og Oklahoma mun ekki mæta heill til skógar í einvígið sem bíður gegn Warriors í úrslitum Vesturdeildar, ef við gefum okkur að meistararnir nái þangað. Ó, nei.
Þið sjáið alveg hvernig þetta er búið að vera síðasta rúma árið. Andstæðingar Golden State missa ALLTAF lykilmenn í meiðsli áður en þeir mæta þeim og því er 99,9% öruggt að hvorki Spurs né OKC mæti 100% til leiks í næstu umferð. Þú getur bara farið út og hengt þig núna upp á það.
En að einvíginu sem allir eru að tala um.
Hérna eru nokkrir punktar af algjöru handahófi sem okkur eru ofarlega í huga fyrir seríuna og á endanum glórulaus spá um niðurstöðu hennar.
Margir falla í þá gryfju þegar þeir spá í Spurs-OKC að grípa í gamlar klisjur til að spá fyrir um þetta einvígi. Ef þú gerir það, ertu á hálum ís, af því þessi lið eru t.d. allt öðruvísi í dag en þau voru þegar þú mættust síðast í úrslitakeppni.
San Antonio er nefnilega allt annað lið en það var síðast þegar það vann titilinn, þegar það blindaði okkur öll og mótherja sína með leifturssókn sinni þar sem boltinn gekk eins og borðtenniskúla milli kanta og allt endaði með þriggja stiga körfum - taktíkin sem reif lífsviljann úr Miami í úrslitunum 2014.
Nú ætlum við ekki að segja að San Antonio sé horfið aftur til daga mulningsvélarinnar sem tryggði liðinu fyrstu titlana sína í kring um aldamótin, en það eru element í þessu liði sem minna pínúlítið á það. Það er sú staðreynd að þetta lið byggir meira á því að láta menn eins og LaMarcus Aldridge og Kawhi Leonard hólkast einn á einn og tekur miklu meira af skotum af miðfærinu en það gerði - sem er auðvitað eðlilegt í ljósi þess að liðið er með mannskap sem gerir það vel.
Varnarleikur Spurs í vetur er búinn að vera sögulega góður en sóknarleikur Oklahoma hefur að sama skapi líklega aldrei verið fyrirsjáanlegri.
Það er varla að Gregg Popovich þurfi að skáta Oklahoma, hann hefur séð þetta allt saman áður.
Og ofan á góðan liðsvarnarleik, hefur San Antonio nokkuð sem okkur er til efs að nokkuð annað lið í deildinni hafi - tvo leikmenn sem eru hannaðir til að dekka Russell Westbrook og Kevin Durant.
San Antonio hefur ekki slegið okkur af stólnum með spilamennsku sinni í vetur, þó hún hafi verið góð, en það er að hluta til vegna þess að þetta er fyrsta tímabil liðsins með þá Aldridge og Leonard í svo stórum hlutverkum sóknarlega.
Að öllu þessu sögðu, förum við ekki ofan af því að stór hluti af sóknarleik San Antonio eigi enn upptök sín í spilamennsku Tony Parker. Svo mikið af aðgerðum Spurs ganga út á að láta hann komast framhjá manninum sínum og valda usla í vörn andstæðinganna, en málið er að undanfarið ár hefur Parker bara ekki verið í standi til að gera það eins og hann gerði hérna einu sinni. Það er að hluta til þess vegna sem Popovich hefur breytt taktíkinni í sókninni.
Þið takið eftir því að allt í þessari skýrslu snýr enn sem komið er að San Antonio og það er af því að okkar mati er það San Antonio sem er með öll spilin á hendi og öll svörin - þetta er bara spurning um hvort leikmennirnir geti notað þau.
Þessi sería er algjört slef á pappírunum, en ef hún þróast eins og við reiknum með, verður hún ekki mjög löng. Það er af því við sjáum ekki hvernig Oklahoma á að gera þetta að löngu einvígi. Af því Oklahoma hefur ekki sýnt okkur neitt í allan vetur sem fær okkur til að trúa að það geti lagt San Antonio eða Golden State í sjö leikja seríu.
Durant - og sérstaklega Westbrook - eru búnir að spila af sér anusinn í vetur og eru, eins og áður, nógu góðir leikmenn á sinn hátt til að búa til seríu úr hvaða einvígi sem er. Gallinn er bara að þar með er þetta upptalið hjá Oklahoma.
Serge Ibaka er flottur spilari sem gegnir stóru hlutverki á báðum endum, Adams er að vera fínn varnarmiðherji og Kanter er góður frákastari og slúttari. Þar með er þetta upp talið hjá Oklahoma.
Restin af leikmönnum liðsins hafa hvorki getu né reynslu til að vinna lið eins og San Antonio og þið getið strumpað ykkur upp á að þjálfari liðsins hefur ekki það sem til þarf til að skáka Popovich og hans teymi.
Einu sinni hefði það verið deddlí fyrir Oklahoma að spila bara minnibolta á móti liði eins og Spurs (þó Spurs geti reyndar mætt því eins og nánast öllum öðrum afbrigðum) með því að setja Kevin Durant í fjarkann. En það þýðir ekkert í dag, af því Oklahoma hefur ekki mannskap til að gera þá leikaðferð vænlega til árangurs. Nema þú hafir allt í einu rosalega trú á mönnum eins og Dion Waiters og Kyle Singler. Lol.
Flestir sérfræðingar sem við höfum leitað til segja San Antonio í sex - Zach Lowe er einn þeirra og þú ættir kannski frekar að lesa upphitun hans en þessa. Nokkrir segja San Antonio í sjö. Einn og einn reynir að róa á móti straumnum og spá Oklahoma sigri í sex eða sjö.
Við hölluðumst líka að því að spá Spurs sigri í sex leikjum, en úr því allir og ömmur þeirra segja San Antonio í sex - ætlum við að segja San Antonio í fimm. Fokk it, það er ekki eins og Oklahoma fari að koma okkur á óvart allt í einu...
Efnisflokkar:
Spurs
,
Thunder
,
Úrslitakeppni 2016
Friday, April 29, 2016
Fella hjá KR
Körfuboltavertíðinni hér heima lauk formlega hjá strákunum í gærkvöldi þegar KR lagði Hauka nokkuð örugglega 70-84 á Ásvöllum og tók úrslitaeinvígið sumsé 3-1. Þetta er búinn að vera nokkurn veginn fullkominn vetur hjá KR-ingum sem tóku bæði deild og bikar í ár.
Áætlunin hans Helga Magnússonar um að hætta með stæl gekk því óaðfinnanlega upp, þar sem hann er Íslandsmeistari þrjú síðustu árin sín og vinnur allt á lokaárinu sínu. Þið munið eflaust eftir öðrum þekktum körfuboltamanni sem lagði skó sína á hilluna árið 1998 eftir að hafa orðið meistari þrjú ár í röð, en það er nokkuð skondin tilviljun að sá leikmaður fór líka til Washington eftir titlana þrjá eins og Helgi ætlar sér að gera átján árum síðar.
KR-ingar eru vel að titlinum komnir eins og venjulega. Haukaliðið er einfaldlega ekki nógu sterkt til að vinna KR í seríu og við vissum það öll fyrirfram. Hinsvegar verðum við að hrósa Haukapiltum fyrir að ná að gera þetta að einvígi á kafla en ekki sópi. Við fengum smá drama í þriðja leiknum og það reddaði seríunni, sem hefði ekki verið merkileg ella. Til dæmis ekki nálægt því eins góð og Njarðvíkurserían hjá KR.
Það hefði verið gaman að sjá KR mæta Stjörnunni, það hefði verið gaman að sjá KR mæta Njarðvíkurliði sem væri ekki með lykilmenn í meiðslum og síðast en ekki síst hefði verið helvíti gaman að fá að sjá Kára Jónsson spila með Haukunum í úrslitaeinvíginu. En svona er þetta víst. Meiðsli gerast og allt það.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig KR-ingar ætla að fylla í það stóra skarð sem Helgi Magnússon skilur eftir sig næsta vetur og það verður eftirsjá í þessum flinka leikmanni og leiðtoga. Það verður líka áhugavert að sjá hvernig Haukarnir tækla næstu leiktíð - hvort þeir ætla að láta sér nægja að hafa skrifað smá Öskubuskuævintýri núna og sökkva sér bara aftur í meðalmennskuna þegar Kári er farinn. Vonandi ekki.
Ritstjórn NBA Ísland óskar KR-piltum og Snæfellsstúlkum hjartanlega til hamingju með titlana sína í vikunni. Þetta er búinn að vera frábær körfuboltavetur hjá okkur á innlendum vettvangi.
Hérna eru loks nokkrar myndir frá Ásvöllum í gær.
Smelltu á "Lesa meira" ef þig langar að skoða þær allar.
Efnisflokkar:
Haukar
,
Heimabrugg
,
Helgi Magnússon
,
Kári Jónsson
,
KR
,
Myndir
,
Sigurgöngur
,
Sigurvegarar
,
Skórnir á hilluna
,
Titlar
,
Úrslitakeppni 2016
Thursday, April 28, 2016
Rauntal: Vonbrigðavor
Svona, svona krakkar, örvæntið ekki. NBA Ísland er hérna til að útskýra fyrir ykkur hvað er að gerast í úrslitakeppninni í NBA. Mörg ykkar er eflaust farið að lengja eftir vörutalningu frá okkur og hér kemur hún.
Þið vitið að við hérna á ritstjórninni reynum alltaf að vera heiðarleg við ykkur og samkvæm sjálfum okkur í leiðinni. Það hryggir okkur því óneitanlega að gefa frá okkur sársaukafulla svohljóðandi yfirlýsingu:
Fyrsta umferð úrslitakeppninnar í NBA árið 2016 er rusl.
Þetta er ákveðið áfall, því við höfum aldrei upplifað það áður. Aldrei, í alla þessa áratugi sem við höfum fylgst með NBA deildinni, hefur fyrsta umferð úrslitakeppninnar verið rusl. Hún hefur ekki verið léleg, skítsæmileg eða bleh. Nei, hún er alltaf skemmtileg.
Fyrsta umferðin í fyrra var til að mynda ekki besta fyrsta umferð í heimi, en þá var einvígi Spurs og Clippers svo hrottalega skemmtilegt að hinar rimmurnar hefðu geta verið þriggja tíma tónleikar með Celine Dion - umferðin hefði samt verið skemmtileg heilt yfir. En núna er ekkert Spurs-Clippers einvígi til að ylja okkur í kuldanum.
Fyrsta umferðin í ár hefur svo að segja verið að skiptast í tvo flokka: grjótkast og götusóp. Eins og búast mátti við var sópurinn á lofti í einvígi San Antonio-Memphis, Cleveland-Detroit, Oklahoma-Dallas og Golden State-Houston, þó seinni tvö einvígin hafi raunar flokkast undir svokölluð séntilmannasóp þar sem betra liðið vann 4-1 í stað 4-0. Kemur í sama stað niður.
Nokkrar staðreyndir voru á hreinu áður en leikar hófust í úrslitakeppninni. Við vissum að í austrinu myndi Cleveland krúsa nokkuð þægilega í gegn um fyrstu þrjár umferðirnar á meðan hin liðin sjö grýttu grjóti í hvert annað og við vissum að fyrsta umferðin í vestrinu gæti orðið bragðdauf. Þetta stóð allt eins og stafur á bók.
Kveikjan að þessum "glasið hálftómt" pistli okkar er auðvitað endurkoma meiðsladraugsins. Munið þið hvernig meiðsli allt nema eyðilögðu úrslitakeppnina í fyrra? Jæja, nú er verið að hóta því að endurtaka leikinn með því að taka Chris Paul, Blake Griffin og Stephen Curry út á tíu mínútum.
Það er eins og meiðsladraugurinn sé bara að sýna okkur hvað hann á ógeðslega auðvelt með að rústa sumrinu fyrir okkur með því að skjóta niður allar stjörnurnar í NBA deildinni með vélbyssu. Þetta er með öllu helvíti óþolandi - afsakið orðbragð okkar.
En nú skulum við hætta þessari fjandans neikvæðni, því það eru hamingjutímar handan við hornið, börnin góð. Það er af því að núna á laugardaginn hefst einvígi San Antonio og Oklahoma í annari umferð vestursins.
San Antonio vinnur þetta einvígi nokkuð sannfærandi, en við lofum ykkur samt að rimman verði ljómandi skemmtileg allan tímann. San Antonio er 600 sinnum betra "lið" en Oklahoma, en OKC er með Kevin Durant og Russell Westbrook, sem þýðir að þeir ættu að geta hangið inni í flestum leikjum. Nema San Antonio rassskelli þá bara. Það er alveg inni í myndinni.
Við skulum þó vona að það verði engin burst í gangi í þessu einvígi, sem við þorum ekki að spá 4-1 fyrir Spurs og segjum því 4-2 fyrir Spurs, þó við höfum í sjálfu sér enga óbilandi trú á Texasliðinu. Við erum bara búin að sjá götin í leik Oklahoma svo vel undanfarið - og þau eru svo stór að það er hægt að sjá Hofsjökul í gegn um þau.
Hinumegin í vestrinu er útlit fyrir að það verði Portland sem fær að tapa fyrir Golden State í næstu umferð og ekkert nema sómi af því. Clippers-liðið er of skaddað til að komast í gegn um Portland, hvað þá Golden State.
Það er gaman fyrir Portland-drengina að vera komnir á þröskuldinn inn í aðra umferðina eftir að liðið var tekið og úrbeinað í sumar. Enginn hefði þorað að spá því að Blazers ætti eftir að ná öðrum eins árangri. Enginn spáði liðinu í úrslitakeppni - menn tippuðu á að það ætti eftir að vinna einhverja 25 leiki í besta falli.
Nú þurfa forráðamenn Portland að gæta þess að missa sig ekki í eitthvað Phoenix/Toronto-dæmi og ofmeta liðið sem þeir eru með í höndunum svo gróflega að þeir eyðileggi alla framtíðarmöguleika þess. Helsti munurinn á forráðamönnum Blazers og skrifstofufólki hinna klúbbanna er að það eru ekki eins margir hálfvitar á kontórnum hjá Portland, svo þeir ættu ekki að keyra bílinn út í skurð þó þeir hafi óvart komið honum í 100 kílómetra hraða.
Portland-menn verða hundsáttir með það að komast í aðra umferð í þetta skiptið og hafa náttúrulega ekkert lengra að gera að svo búnu. Þeir náðu að stríða Golden State aðeins í deildarkeppninni, en það verður ekkert slíkt uppi á teningnum í úrslitakeppninni þó Stephen Curry missi af megninu af einvíginu. Steve Kerr og félögum væri nær að gæta þess að leyfa Curry að jafna sig að fullu áður en hann leggur af stað aftur til að sækja sér þriðju meiðslin í úrslitakeppninni.
Það má vel vera að þið séuð mörg ósammála því, en í okkar huga er megnið af leikjunum í úrslitakeppni austursins ekki annað en grjótkast. Þar eru miðlungslið og stundum lakari en það bókstaflega að grýta grjóti í hvert annað.
Grjótkast köllum við það þegar við horfum upp á menn eins og Marcus Smart bomba upp hverju 3ja stiga skotinu á fætur öðru, sem er alltaf mun nær því að slasa fólk í fjórtándu röð en að fara ofan í. Við elskum Marcus Smart - hann er töffari - en skytta er hann ekki og verður aldrei, aumingja drengurinn.
Þetta ætti ekki að verða annað huggulegur bíltúr hjá Cleveland á næstu vikum, en það eina sem getur komið í veg fyrir að liðið hlaupi í gegn um austrið er að það fari sjálft að gera sér erfitt fyrir með einhverju kæruleysi.
Í vestrinu verða þetta einvígi San Antonio-Oklahoma og Golden State-San Antonio sem verða algjör kjötkveðjuhátíð og það góða við það er að Spurs-OKC byrjar strax á laugardaginn eins og áður sagði. Þessi úrslitakeppni á bókað eftir að verða miklu, miklu, miklu betri en hún hefur verið til þessa. Fyrsta umferðin núna er bara undantekningin sem sannar regluna.
Við hefðum getað nýtt þetta tækifæri til að hrauna aðeins yfir Houston Rockets, en það er ekki á þunglyndið bætandi. Þó verður að koma hér fram að Houston-lið þeirra Howards og Hardens er karakterslausasta körfuboltalið sem við höfum nokkru sinni séð og leikmenn liðsins ættu ekki bara að skammast sín, heldur ættu þeir allir með tölu að verða sektaðir og svo reknir. Bara beint í Gúlagið með svona gegndarlausa aumingja.
Efnisflokkar:
Rauntal
,
Úrslitakeppni 2016
,
Vörutalning
Wednesday, April 27, 2016
Nýtt hlaðvarp
Í 62. þætti Hlaðvarps NBA Ísland ræða Baldur Beck og Snorri Örn Arnaldsson hjá Stjörnunni úrslitaeinvígi karla og kvenna í Domino´s deildinni og fara svo stuttlega yfir stöðu mála í úrslitakeppni NBA deildarinnar.
Þið getið hlustað á þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á spilarann ykkar. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
Hlaðvarpið
,
Úrslitakeppni 2016
Saturday, April 23, 2016
Windhorst
Efnisflokkar:
Brian Windhorst
,
Eltihrellir
,
Holdafar
,
LeBron James
,
Líkamsþróttur er eftirsóttur
,
Matreiðsluhornið
,
Sjoppan
Tuesday, April 19, 2016
Saturday, April 16, 2016
Nýtt hlaðvarp: Úrslitakeppni NBA hefst í dag
61. þáttur Hlaðvarps NBA Ísland er helgaður úrslitakeppni NBA deildarinnar sem hefst í dag. Baldur Beck og Gunnar Björn Helgason spá í spilin fyrir komandi átök, en fyrsti leikur Golden State Warriors og Houston Rockets verður sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan 19:30 í kvöld.
Þið getið hlustað á þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á spilarann ykkar. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.
Efnisflokkar:
Dagskrá
,
Hlaðvarpið
Tuesday, April 12, 2016
Nýtt hlaðvarp
Gestur Baldurs Beck í 60. þætti Hlaðvarps NBA Ísland er Hrafn Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar. Farið er yfir veturinn hjá Stjörnunni, nýja samninginn hans Hrafns við félagið, úrslitakeppnina, kynslóðaskiptin sem eru að verða í Garðabænum, taktík liðsins í vörn og sókn og leikmannamál félagsins í framtíðinni.
Hrafn spáir í spilin fyrir undanúrslitarimmurnar hjá Tindastól-Haukum og KR-Njarðvík og í lokin rabba þeir aðeins um liðið hans Hrafns í NBA deildinni (Lakers) og auðvitað ofurlið Golden State og Stephen Curry.
Þið getið hlustað á þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á spilarann ykkar. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.
Efnisflokkar:
Hlaðvarpið
,
Hrafn Kristjánsson
,
Stjarnan
,
Úrslitakeppni 2016
Saturday, April 9, 2016
Eitt er víst...
... og það er sú staðreynd að Kevin McHale er alveg:
Og hann er ekki einn í þessu, því við erum nokkuð viss um að Tom Thibodeau sé líka alveg:
Svona geta hlutirnir verið furðulegir í NBA deildinni okkar.
Efnisflokkar:
Atvinnumál
,
Bulls
,
Kevin McHale
,
Rockets
,
Sá hlær best...
,
Tom Thibodeau
,
Þjálfaramál
Friday, April 8, 2016
Sögubóka-Warriors eru enn að
Eitt af hlutverkum NBA Ísland er að gæta þess að íslenskumælandi fólk sem hefur áhuga á körfubolta átti sig á því þegar sögulegir hlutir eru að gerast í NBA deildinni. Þetta er bara eitthvað sem við höfum alltaf litið á sem mikilvægan part af ritstjórnarstefnu síðunnar.
Mörg ykkar eruð ef til vill orðin svo góðu vön að þið áttið ykkur ekki á því, en dettið ekki í þá gryfju að taka því sem sjálfssögðum hlut að Golden State sé búið að vinna 70 leiki í deildarkeppninni í vetur. Það getur vel verið að þið verðið orðin feður og mæður eða afar og ömmur næst þegar þetta gerist - nú eða steindauð, hreinlega.
Þegar sögulega sterkt Chicago-liðið vann 72 leiki í deildarkeppninni árið 1996, vissu menn hreinlega ekki hvað þeir áttu af sér að gera og spáðu því að það það yrði ansi langt þangað til það yrði toppað.
Auðvitað er alltaf mikið af fólki með hálftómt glasið og segir að þessi árangur skipti ekki nokkru einasta máli ef ekki tekst að vinna titil í kjölfarið - og víst er sannleikskorn í því.
En við verðum að hafa hugfast að NBA deildin er tvö mót, deildarkeppnin og úrslitakeppnin.
Við erum ekki af þeim sauðahúsum. Fyrir okkur er deildarkeppnin alveg jafn dásamlegt fyrirbæri og úrslitakeppnin, þó þetta séu ólík fyrirbæri.
Og núna erum við bara að tala um deildarkeppnina. Úrslitakeppnin segir okkur hvaða lið er best í NBA þegar í alvöruna er komið og það er alveg ljómandi, en deildarkeppnin segir okkur líka mjög mikið um það hvað í þessi lið er spunnið.
Deildarkeppnin er enn meira langhlaup en úrslitakeppnin og því er ljóst að skussar og aulabárðar geta ekki náð árangri í deildarkeppninni.
Hún er bara svo ógeðslega löng og erfið að þú verður að hafa úthald og karakter til að ná árangri í henni.
Golden State er eitt af þessum liðum sem hefur úthald og karakter, og þessi sögulega deildarkeppni hjá liðinu í vetur er ein sú sögulegasta sem færð hefur verið í bækurnar - og hún er ekki einu sinni búin.
Það gefur Golden State óneitanlega meiri vigt á þessum spretti í vetur að liðið hafi unnið titilinn á síðustu leiktíð. Ef liðið hefði ekki unnið titilinn síðasta sumar, væri árangur þess í deildarkeppninni loftkenndari en raun ber vitni. En það er ekki um neitt svoleiðis að ræða hjá Warriors núna.
Þetta lið hakkaði sig í gegn um deildarkeppninna á síðustu leiktíð með því að vinna 67 leiki og Stephen Curry var kjörinn leikmaður ársins. Það yrði ekki toppað svo glatt, eða hvað?
Jú, reyndar. Golden State er búið að vinna 70 leiki nú þegar og getur slegið met Chicago Bulls frá ´69 ef það vinnur þrjá síðustu leikina sína í deildarkeppninni á næstu dögum. Og rétt eins og liðið er búið að bæta sig, er besti leikmaður liðsins búinn að bæta sig.
Stephen Curry verður kjörinn verðmætasti leikmaður ársins aftur í ár og það með því að skora sex stigum meira að meðaltali í leik en hann gerði þegar hann var kjörinn leikmaður ársins á síðustu leiktíð. Við þurfum sennilega ekki að taka fram að það yrði NBA met.
Okkur er með öðrum orðum nákvæmlega sama hvort Golden State vinnur 70, 71, 72 eða 73 sigra í deildarkeppninni í ár, þó það yrði óneitanlega gaman að sjá liðið slá met Chicago frá því fyrir tuttugu árum - liðinu sem þjálfari Warriors í dag spilaði með sem leikmaður.
Golden State er þegar búið að stimpla sig inn í sögubækurnar með því að verða annað liðið í sögunni til að ná að vinna 70 leiki í deildarkeppninni og við skulum gæta þess að gera ekki lítið úr því. Sama hvort liðið vinnur 71 leik eða 73 - og sama hvort liðið vinnur titilinn í sumar eða ekki.
Ef þið hafið hugfast að stórveldin sem hafa unnið megnið af titlunum sem í boði hafa verið í sögu NBA deildarinnar - Lakers og Celtics - hafa ekki náð að vinna 70 leiki í sögu félaganna, sýnir það okkur svart á hvítu hvað þetta er ótrúlegt afrek.
Ef þið hafið hugfast að stórveldin sem hafa unnið megnið af titlunum sem í boði hafa verið í sögu NBA deildarinnar - Lakers og Celtics - hafa ekki náð að vinna 70 leiki í sögu félaganna, sýnir það okkur svart á hvítu hvað þetta er ótrúlegt afrek.
Hér eru einfaldlega sögulegir hlutir í gangi og það er nauðsynlegt að færa það til bókar.
Efnisflokkar:
Sigurvegarar
,
Sögubækur
,
Stephen Curry
,
Steve Kerr
,
Warriors
Wednesday, April 6, 2016
Steve Bruce dagsins
Efnisflokkar:
99 vandamál
,
Brenda Fricker
,
Drullan upp á herðar
,
Knattspyrna
,
My left foot
,
Steve Bruce
Tuesday, April 5, 2016
Stórveldið Warriors er enn fyndin tilhugsun
Golden State gæti tapað fimm síðustu leikjunum sínum í deildarkeppninni, það skiptir engu máli, þetta væri samt búið að vera eitt allra besta tímabil sögunnar hjá meisturunum. Og þeir eru náttúrulega ekkert að fara að tapa öllum þessum leikjum, þeir eru að fara að vinna yfir 70 leiki sem engu liði sem ekki hafði Michael Jordan innanborðs hefur tekist í sögu NBA deildarinnar.
Það sem er ótrúlegast við þennan frábæra árangur Golden State núna, er einmitt sú staðreynd að þetta er Golden State sem er að vinna alla þessa leiki. Ekki Celtics, ekki Lakers, ekki Bulls, ekki Spurs... heldur Golden effin´ State Warriors.
Þeir yngstu sem lesa þetta sjá sjálfssagt ekkert óeðlilegt við það að Warriors-liðið sé að vinna svona ógeðslega marga körfuboltaleiki, en við seum erum búin að fylgjast með þessu í nokkra áratugi hættum bara ekki að vera hissa á þessu.
Við hneggjum ennþá innra með okkur þegar við hugsum til þess að Golden State sé eitt besta lið sögunnar, af því við munum hvernig Golden State var búið að standa sig síðustu 30 árin eða svo. Og það var ekki glæsilegt.
Fólk talar oft um Los Angeles Clippers sem sorglegasta klúbbinn í NBA deildinni og það á alveg rétt á sér, en saga Golden State frá titlinum árið 1975 er alls ekki búin að vera síðri sorgarsaga en saga Clippers.
Golden State komst þannig aðeins sex sinnum í úrslitakeppnina frá árinu 1978 til 2012, þó við verðum reyndar að gefa því að það komst í aðra umferð úrslitakeppninnar í fjögur af þessum sex skiptum.
Annað, sem er miklu verra, er að á öllum þessum þrjátíu og fjórum árum, vann Golden State þrisvar sinnum fleiri en 45 leiki á tímabili. Þrisvar sinnum! Sem þýðir lauslega talið að liðið náði að vinna 55% leikja sinna á um það bil ellefu ára fresti. Hér fyrir neðan sérðu hvernig gekk hjá þeim á þessum skelfilegu árum. Þetta er svo eðlilegt eitthvað.
Og við þurfum svo sannarlega ekki að leita langt aftur til að rata inn í tímabil vanhæfni, vitleysisgangs og eymdar hjá Warriors. Ó, nei. Við þurfum ekki að leita lengra en aftur til upphafsára þessa vefsvæðis árið 2010. Þegar við spóluðum til baka, rifjaðist það upp fyrir okkur að við hötuðum ekkert að búa til myndasögur af Don Nelson þjálfara Warriors á fylleríi.
Fyrir það fyrsta var karlinn bara alltaf svo hrottalega sopalegur (og fékk sér öllara inni í klefa í miðju viðtali þegar lið hans sló Dallas út úr úrslitakeppninni á sögulegan hátt árið 2007) en svo sást það bara svo langar leiðir þarna á lokametrunum hjá karlinum að hann var löngu hættur að nenna að þjálfa og kominn niður til Máí í huganum (þar sem hann hefur mestmegnis verið í chillinu og sopanum síðan).
En það var ekki bara Nelson gamli sem var í ruglinu. Þetta lið virtist ekki með nokkru móti geta forðast það að ráða til sín vitleysinga eða jafnvel geðsjúklinga ár eftir ár og árangurinn eftir því. Þarna voru menn eins og Matt Barnes og Stephen Jackson sem eru nógu klikkaðir til að sprengja hvaða skala sem er.
Svo voru þarna albatrosar eins og Monta Ellis, sem á sínum tíma var alveg handviss um að það eina rétta í stöðunni hjá Golden State væri að láta þennan Stephen Curry-krakka fara og láta sig um að stýra leik liðsins og taka öll skotin. Svo eru náttúrulega fyrirbæri eins og Andris Biedrins, sem væri hægt að skrifa bækur um, bara svona af því að.
Svona eftir á að hyggja... hvernig ætlaðist klúbbur til að ná árangri með svona apparat í lykilstöðu? Nei, við áttum okkur ekki á því heldur - þó hann sé með brodda.
En þarna sjáið þið kannski af hverju við hristum alltaf höfuðið og glottum enn þann dag í dag þegar einhver er að tala um sögulega sterkt lið Golden State Warriors, sem er að hóta því að gera betur en ofurlið Michael Jordan um miðjan tíunda áratuginn - og hefur þegar gert það á ákveðnum sviðum.
Þetta er dálítið eins og ef Leicester færi bara allt í einu að rúlla upp ensku úrvalsdeildinni.
Það bara meikar ekki alveg sens.
Efnisflokkar:
Don Nelson
,
Drullan upp á herðar
,
Fret úr fortíðinni
,
Geðheilbrigði
,
MAFS
,
Sjoppan
,
Stephen Jackson
,
Vanhæfni
,
Warriors
Subscribe to:
Posts (Atom)