Saturday, April 30, 2016

Risaeinvígið hefst í kvöld


Úrslitakeppni NBA deildarinnar hefst fyrir alvöru í nótt þegar San Antonio Spurs og Oklahoma City Thunder mætast í fyrsta sinn í annari umferð úrslitakeppni Vesturdeildarinnar. Okkur ber skylda til að segja ykkur frá því að þessi leikur er klukkan hálfeitt í nótt og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Eins og við sögðum ykkur í pistli hér á dögunum, var fyrsta umferðin (þó hún sé ekki einu sinni búin þegar þetta er ritað) einfaldlega vonbrigði.  En nú getum við gleymt öllum leiðindunum, því einvígið sem við gátum um hér að ofan á eftir að verða eitt það besta sem við sjáum í þessari úrslitakeppni, óháð því hver niðurstaðan verður - gæðin sem hér eru á ferðinni tryggja það.

Og það er út af þessum gæðum sem San Antonio og Oklahoma eru tvö af aðeins þremur liðum í NBA deildinni sem geta svo mikið sem þvælst fyrir Golden State í titilvörninni (það þriðja er Cleveland, af dálítið öðrum ástæðum, en samt).

Á meðan meistarar Golden State dúlla sér við að slíta Portland í sundur á næstu dögum, geta þeir skemmt sér inn á milli með því að sjá San Antonio og Oklahoma berjast til síðasta manns í seríu sem flestir spá að verði löng og blóðug.

Og að því sögðu verðum við að koma með dálítið sérstaka spá sem samt er svo augljós að þú átt eftir að bölva þér fyrir að hafa ekki séð hana fyrir þér. Sigurvegarinn í einvígi San Antonio og Oklahoma mun ekki mæta heill til skógar í einvígið sem bíður gegn Warriors í úrslitum Vesturdeildar, ef við gefum okkur að meistararnir nái þangað. Ó, nei.

Þið sjáið alveg hvernig þetta er búið að vera síðasta rúma árið. Andstæðingar Golden State missa ALLTAF lykilmenn í meiðsli áður en þeir mæta þeim og því er 99,9% öruggt að hvorki Spurs né OKC mæti 100% til leiks í næstu umferð. Þú getur bara farið út og hengt þig núna upp á það.

En að einvíginu sem allir eru að tala um.

Hérna eru nokkrir punktar af algjöru handahófi sem okkur eru ofarlega í huga fyrir seríuna og á endanum glórulaus spá um niðurstöðu hennar.

Margir falla í þá gryfju þegar þeir spá í Spurs-OKC að grípa í gamlar klisjur til að spá fyrir um þetta einvígi. Ef þú gerir það, ertu á hálum ís, af því þessi lið eru t.d. allt öðruvísi í dag en þau voru þegar þú mættust síðast í úrslitakeppni.

San Antonio er nefnilega allt annað lið en það var síðast þegar það vann titilinn, þegar það blindaði okkur öll og mótherja sína með leifturssókn sinni þar sem boltinn gekk eins og borðtenniskúla milli kanta og allt endaði með þriggja stiga körfum - taktíkin sem reif lífsviljann úr Miami í úrslitunum 2014.

Nú ætlum við ekki að segja að San Antonio sé horfið aftur til daga mulningsvélarinnar sem tryggði liðinu fyrstu titlana sína í kring um aldamótin, en það eru element í þessu liði sem minna pínúlítið á það. Það er sú staðreynd að þetta lið byggir meira á því að láta menn eins og LaMarcus Aldridge og Kawhi Leonard hólkast einn á einn og tekur miklu meira af skotum af miðfærinu en það gerði - sem er auðvitað eðlilegt í ljósi þess að liðið er með mannskap sem gerir það vel.

Varnarleikur Spurs í vetur er búinn að vera sögulega góður en sóknarleikur Oklahoma hefur að sama skapi líklega aldrei verið fyrirsjáanlegri.

Það er varla að Gregg Popovich þurfi að skáta Oklahoma, hann hefur séð þetta allt saman áður.

Og ofan á góðan liðsvarnarleik, hefur San Antonio nokkuð sem okkur er til efs að nokkuð annað lið í deildinni hafi - tvo leikmenn sem eru hannaðir til að dekka Russell Westbrook og Kevin Durant.

San Antonio hefur ekki slegið okkur af stólnum með spilamennsku sinni í vetur, þó hún hafi verið góð, en það er að hluta til vegna þess að þetta er fyrsta tímabil liðsins með þá Aldridge og Leonard í svo stórum hlutverkum sóknarlega.

Að öllu þessu sögðu, förum við ekki ofan af því að stór hluti af sóknarleik San Antonio eigi enn upptök sín í spilamennsku Tony Parker. Svo mikið af aðgerðum Spurs ganga út á að láta hann komast framhjá manninum sínum og valda usla í vörn andstæðinganna, en málið er að undanfarið ár hefur Parker bara ekki verið í standi til að gera það eins og hann gerði hérna einu sinni. Það er að hluta til þess vegna sem Popovich hefur breytt taktíkinni í sókninni.

Þið takið eftir því að allt í þessari skýrslu snýr enn sem komið er að San Antonio og það er af því að okkar mati er það San Antonio sem er með öll spilin á hendi og öll svörin - þetta er bara spurning um hvort leikmennirnir geti notað þau.

Þessi sería er algjört slef á pappírunum, en ef hún þróast eins og við reiknum með, verður hún ekki mjög löng. Það er af því við sjáum ekki hvernig Oklahoma á að gera þetta að löngu einvígi. Af því Oklahoma hefur ekki sýnt okkur neitt í allan vetur sem fær okkur til að trúa að það geti lagt San Antonio eða Golden State í sjö leikja seríu.

Durant - og sérstaklega Westbrook - eru búnir að spila af sér anusinn í vetur og eru, eins og áður, nógu góðir leikmenn á sinn hátt til að búa til seríu úr hvaða einvígi sem er. Gallinn er bara að þar með er þetta upptalið hjá Oklahoma.

Serge Ibaka er flottur spilari sem gegnir stóru hlutverki á báðum endum, Adams er að vera fínn varnarmiðherji og Kanter er góður frákastari og slúttari. Þar með er þetta upp talið hjá Oklahoma.

Restin af leikmönnum liðsins hafa hvorki getu né reynslu til að vinna lið eins og San Antonio og þið getið strumpað ykkur upp á að þjálfari liðsins hefur ekki það sem til þarf til að skáka Popovich og hans teymi.

Einu sinni hefði það verið deddlí fyrir Oklahoma að spila bara minnibolta á móti liði eins og Spurs (þó Spurs geti reyndar mætt því eins og nánast öllum öðrum afbrigðum) með því að setja Kevin Durant í fjarkann. En það þýðir ekkert í dag, af því Oklahoma hefur ekki mannskap til að gera þá leikaðferð vænlega til árangurs. Nema þú hafir allt í einu rosalega trú á mönnum eins og Dion Waiters og Kyle Singler. Lol.

Flestir sérfræðingar sem við höfum leitað til segja San Antonio í sex - Zach Lowe er einn þeirra og þú ættir kannski frekar að lesa upphitun hans en þessa. Nokkrir segja San Antonio í sjö. Einn og einn reynir að róa á móti straumnum og spá Oklahoma sigri í sex eða sjö.

Við hölluðumst líka að því að spá Spurs sigri í sex leikjum, en úr því allir og ömmur þeirra segja San Antonio í sex - ætlum við að segja San Antonio í fimm. Fokk it, það er ekki eins og Oklahoma fari að koma okkur á óvart allt í einu...