Friday, April 29, 2016

Fella hjá KR

































Körfuboltavertíðinni hér heima lauk formlega hjá strákunum í gærkvöldi þegar KR lagði Hauka nokkuð örugglega 70-84 á Ásvöllum og tók úrslitaeinvígið sumsé 3-1. Þetta er búinn að vera nokkurn veginn fullkominn vetur hjá KR-ingum sem tóku bæði deild og bikar í ár.

Áætlunin hans Helga Magnússonar um að hætta með stæl gekk því óaðfinnanlega upp, þar sem hann er Íslandsmeistari þrjú síðustu árin sín og vinnur allt á lokaárinu sínu. Þið munið eflaust eftir öðrum þekktum körfuboltamanni sem lagði skó sína á hilluna árið 1998 eftir að hafa orðið meistari þrjú ár í röð, en það er nokkuð skondin tilviljun að sá leikmaður fór líka til Washington eftir titlana þrjá eins og Helgi ætlar sér að gera átján árum síðar.


KR-ingar eru vel að titlinum komnir eins og venjulega. Haukaliðið er einfaldlega ekki nógu sterkt til að vinna KR í seríu og við vissum það öll fyrirfram. Hinsvegar verðum við að hrósa Haukapiltum fyrir að ná að gera þetta að einvígi á kafla en ekki sópi. Við fengum smá drama í þriðja leiknum og það reddaði seríunni, sem hefði ekki verið merkileg ella. Til dæmis ekki nálægt því eins góð og Njarðvíkurserían hjá KR.

Það hefði verið gaman að sjá KR mæta Stjörnunni, það hefði verið gaman að sjá KR mæta Njarðvíkurliði sem væri ekki með lykilmenn í meiðslum og síðast en ekki síst hefði verið helvíti gaman að fá að sjá Kára Jónsson spila með Haukunum í úrslitaeinvíginu. En svona er þetta víst. Meiðsli gerast og allt það.



Það verður forvitnilegt að sjá hvernig KR-ingar ætla að fylla í það stóra skarð sem Helgi Magnússon skilur eftir sig næsta vetur og það verður eftirsjá í þessum flinka leikmanni og leiðtoga. Það verður líka áhugavert að sjá hvernig Haukarnir tækla næstu leiktíð - hvort þeir ætla að láta sér nægja að hafa skrifað smá Öskubuskuævintýri núna og sökkva sér bara aftur í meðalmennskuna þegar Kári er farinn. Vonandi ekki.

Ritstjórn NBA Ísland óskar KR-piltum og Snæfellsstúlkum hjartanlega til hamingju með titlana sína í vikunni. Þetta er búinn að vera frábær körfuboltavetur hjá okkur á innlendum vettvangi.

Hérna eru loks nokkrar myndir frá Ásvöllum í gær.
Smelltu á "Lesa meira" ef þig langar að skoða þær allar.