Thursday, April 28, 2016

Rauntal: Vonbrigðavor


Svona, svona krakkar, örvæntið ekki. NBA Ísland er hérna til að útskýra fyrir ykkur hvað er að gerast í úrslitakeppninni í NBA. Mörg ykkar er eflaust farið að lengja eftir vörutalningu frá okkur og hér kemur hún.

Þið vitið að við hérna á ritstjórninni reynum alltaf að vera heiðarleg við ykkur og samkvæm sjálfum okkur í leiðinni. Það hryggir okkur því óneitanlega að gefa frá okkur sársaukafulla svohljóðandi yfirlýsingu:

Fyrsta umferð úrslitakeppninnar í NBA árið 2016 er rusl.

Þetta er ákveðið áfall, því við höfum aldrei upplifað það áður. Aldrei, í alla þessa áratugi sem við höfum fylgst með NBA deildinni, hefur fyrsta umferð úrslitakeppninnar verið rusl. Hún hefur ekki verið léleg, skítsæmileg eða bleh. Nei, hún er alltaf skemmtileg.

Fyrsta umferðin í fyrra var til að mynda ekki besta fyrsta umferð í heimi, en þá var einvígi Spurs og Clippers svo hrottalega skemmtilegt að hinar rimmurnar hefðu geta verið þriggja tíma tónleikar með Celine Dion - umferðin hefði samt verið skemmtileg heilt yfir. En núna er ekkert Spurs-Clippers einvígi til að ylja okkur í kuldanum.



Fyrsta umferðin í ár hefur svo að segja verið að skiptast í tvo flokka: grjótkast og götusóp. Eins og búast mátti við var sópurinn á lofti í einvígi San Antonio-Memphis, Cleveland-Detroit, Oklahoma-Dallas og Golden State-Houston, þó seinni tvö einvígin hafi raunar flokkast undir svokölluð séntilmannasóp þar sem betra liðið vann 4-1 í stað 4-0. Kemur í sama stað niður.

Nokkrar staðreyndir voru á hreinu áður en leikar hófust í úrslitakeppninni. Við vissum að í austrinu myndi Cleveland krúsa nokkuð þægilega í gegn um fyrstu þrjár umferðirnar á meðan hin liðin sjö grýttu grjóti í hvert annað og við vissum að fyrsta umferðin í vestrinu gæti orðið bragðdauf. Þetta stóð allt eins og stafur á bók.


Kveikjan að þessum "glasið hálftómt" pistli okkar er auðvitað endurkoma meiðsladraugsins. Munið þið hvernig meiðsli allt nema eyðilögðu úrslitakeppnina í fyrra? Jæja, nú er verið að hóta því að endurtaka leikinn með því að taka Chris Paul, Blake Griffin og Stephen Curry út á tíu mínútum.

Það er eins og meiðsladraugurinn sé bara að sýna okkur hvað hann á ógeðslega auðvelt með að rústa sumrinu fyrir okkur með því að skjóta niður allar stjörnurnar í NBA deildinni með vélbyssu. Þetta er með öllu helvíti óþolandi - afsakið orðbragð okkar.


En nú skulum við hætta þessari fjandans neikvæðni, því það eru hamingjutímar handan við hornið, börnin góð. Það er af því að núna á laugardaginn hefst einvígi San Antonio og Oklahoma í annari umferð vestursins.

San Antonio vinnur þetta einvígi nokkuð sannfærandi, en við lofum ykkur samt að rimman verði ljómandi skemmtileg allan tímann.  San Antonio er 600 sinnum betra "lið" en Oklahoma, en OKC er með Kevin Durant og Russell Westbrook, sem þýðir að þeir ættu að geta hangið inni í flestum leikjum. Nema San Antonio rassskelli þá bara. Það er alveg inni í myndinni.

Við skulum þó vona að það verði engin burst í gangi í þessu einvígi, sem við þorum ekki að spá 4-1 fyrir Spurs og segjum því 4-2 fyrir Spurs, þó við höfum í sjálfu sér enga óbilandi trú á Texasliðinu. Við erum bara búin að sjá götin í leik Oklahoma svo vel undanfarið - og þau eru svo stór að það er hægt að sjá Hofsjökul í gegn um þau.



Hinumegin í vestrinu er útlit fyrir að það verði Portland sem fær að tapa fyrir Golden State í næstu umferð og ekkert nema sómi af því. Clippers-liðið er of skaddað til að komast í gegn um Portland, hvað þá Golden State.

Það er gaman fyrir Portland-drengina að vera komnir á þröskuldinn inn í aðra umferðina eftir að liðið var tekið og úrbeinað í sumar. Enginn hefði þorað að spá því að Blazers ætti eftir að ná öðrum eins árangri. Enginn spáði liðinu í úrslitakeppni - menn tippuðu á að það ætti eftir að vinna einhverja 25 leiki í besta falli.

Nú þurfa forráðamenn Portland að gæta þess að missa sig ekki í eitthvað Phoenix/Toronto-dæmi og ofmeta liðið sem þeir eru með í höndunum svo gróflega að þeir eyðileggi alla framtíðarmöguleika þess. Helsti munurinn á forráðamönnum Blazers og skrifstofufólki hinna klúbbanna er að það eru ekki eins margir hálfvitar á kontórnum hjá Portland, svo þeir ættu ekki að keyra bílinn út í skurð þó þeir hafi óvart komið honum í 100 kílómetra hraða.


Portland-menn verða hundsáttir með það að komast í aðra umferð í þetta skiptið og hafa náttúrulega ekkert lengra að gera að svo búnu. Þeir náðu að stríða Golden State aðeins í deildarkeppninni, en það verður ekkert slíkt uppi á teningnum í úrslitakeppninni þó Stephen Curry missi af megninu af einvíginu. Steve Kerr og félögum væri nær að gæta þess að leyfa Curry að jafna sig að fullu áður en hann leggur af stað aftur til að sækja sér þriðju meiðslin í úrslitakeppninni.

Það má vel vera að þið séuð mörg ósammála því, en í okkar huga er megnið af leikjunum í úrslitakeppni austursins ekki annað en grjótkast. Þar eru miðlungslið og stundum lakari en það bókstaflega að grýta grjóti í hvert annað.


Grjótkast köllum við það þegar við horfum upp á menn eins og Marcus Smart bomba upp hverju 3ja stiga skotinu á fætur öðru, sem er alltaf mun nær því að slasa fólk í fjórtándu röð en að fara ofan í. Við elskum Marcus Smart - hann er töffari - en skytta er hann ekki og verður aldrei, aumingja drengurinn.

Þetta ætti ekki að verða annað huggulegur bíltúr hjá Cleveland á næstu vikum, en það eina sem getur komið í veg fyrir að liðið hlaupi í gegn um austrið er að það fari sjálft að gera sér erfitt fyrir með einhverju kæruleysi.


Í vestrinu verða þetta einvígi San Antonio-Oklahoma og Golden State-San Antonio sem verða algjör kjötkveðjuhátíð og það góða við það er að Spurs-OKC byrjar strax á laugardaginn eins og áður sagði. Þessi úrslitakeppni á bókað eftir að verða miklu, miklu, miklu betri en hún hefur verið til þessa. Fyrsta umferðin núna er bara undantekningin sem sannar regluna.

Við hefðum getað nýtt þetta tækifæri til að hrauna aðeins yfir Houston Rockets, en það er ekki á þunglyndið bætandi. Þó verður að koma hér fram að Houston-lið þeirra Howards og Hardens er karakterslausasta körfuboltalið sem við höfum nokkru sinni séð og leikmenn liðsins ættu ekki bara að skammast sín, heldur ættu þeir allir með tölu að verða sektaðir og svo reknir. Bara beint í Gúlagið með svona gegndarlausa aumingja.