Tuesday, April 5, 2016

Stórveldið Warriors er enn fyndin tilhugsun


Golden State gæti tapað fimm síðustu leikjunum sínum í deildarkeppninni, það skiptir engu máli, þetta væri samt búið að vera eitt allra besta tímabil sögunnar hjá meisturunum. Og þeir eru náttúrulega ekkert að fara að tapa öllum þessum leikjum, þeir eru að fara að vinna yfir 70 leiki sem engu liði sem ekki hafði Michael Jordan innanborðs hefur tekist í sögu NBA deildarinnar.

Það sem er ótrúlegast við þennan frábæra árangur Golden State núna, er einmitt sú staðreynd að þetta er Golden State sem er að vinna alla þessa leiki. Ekki Celtics, ekki Lakers, ekki Bulls, ekki Spurs... heldur Golden effin´ State Warriors.

Þeir yngstu sem lesa þetta sjá sjálfssagt ekkert óeðlilegt við það að Warriors-liðið sé að vinna svona ógeðslega marga körfuboltaleiki, en við seum erum búin að fylgjast með þessu í nokkra áratugi hættum bara ekki að vera hissa á þessu.

Við hneggjum ennþá innra með okkur þegar við hugsum til þess að Golden State sé eitt besta lið sögunnar, af því við munum hvernig Golden State var búið að standa sig síðustu 30 árin eða svo. Og það var ekki glæsilegt.

Fólk talar oft um Los Angeles Clippers sem sorglegasta klúbbinn í NBA deildinni og það á alveg rétt á sér, en saga Golden State frá titlinum árið 1975 er alls ekki búin að vera síðri sorgarsaga en saga Clippers.

Golden State komst þannig aðeins sex sinnum í úrslitakeppnina frá árinu 1978 til 2012, þó við verðum reyndar að gefa því að það komst í aðra umferð úrslitakeppninnar í fjögur af þessum sex skiptum.


Annað, sem er miklu verra, er að á öllum þessum þrjátíu og fjórum árum, vann Golden State þrisvar sinnum fleiri en 45 leiki á tímabili. Þrisvar sinnum! Sem þýðir lauslega talið að liðið náði að vinna 55% leikja sinna á um það bil ellefu ára fresti. Hér fyrir neðan sérðu hvernig gekk hjá þeim á þessum skelfilegu árum. Þetta er svo eðlilegt eitthvað.
Og við þurfum svo sannarlega ekki að leita langt aftur til að rata inn í tímabil vanhæfni, vitleysisgangs og eymdar hjá Warriors. Ó, nei. Við þurfum ekki að leita lengra en aftur til upphafsára þessa vefsvæðis árið 2010. Þegar við spóluðum til baka, rifjaðist það upp fyrir okkur að við hötuðum ekkert að búa til myndasögur af Don Nelson þjálfara Warriors á fylleríi.

Fyrir það fyrsta var karlinn bara alltaf svo hrottalega sopalegur (og fékk sér öllara inni í klefa í miðju viðtali þegar lið hans sló Dallas út úr úrslitakeppninni á sögulegan hátt árið 2007) en svo sást það bara svo langar leiðir þarna á lokametrunum hjá karlinum að hann var löngu hættur að nenna að þjálfa og kominn niður til Máí í huganum (þar sem hann hefur mestmegnis verið í chillinu og sopanum síðan).
En það var ekki bara Nelson gamli sem var í ruglinu. Þetta lið virtist ekki með nokkru móti geta forðast það að ráða til sín vitleysinga eða jafnvel geðsjúklinga ár eftir ár og árangurinn eftir því. Þarna voru menn eins og Matt Barnes og Stephen Jackson sem eru nógu klikkaðir til að sprengja hvaða skala sem er.


Svo voru þarna albatrosar eins og Monta Ellis, sem á sínum tíma var alveg handviss um að það eina rétta í stöðunni hjá Golden State væri að láta þennan Stephen Curry-krakka fara og láta sig um að stýra leik liðsins og taka öll skotin. Svo eru náttúrulega fyrirbæri eins og Andris Biedrins, sem væri hægt að skrifa bækur um, bara svona af því að.

Svona eftir á að hyggja... hvernig ætlaðist klúbbur til að ná árangri með svona apparat í lykilstöðu? Nei, við áttum okkur ekki á því heldur - þó hann sé með brodda.


En þarna sjáið þið kannski af hverju við hristum alltaf höfuðið og glottum enn þann dag í dag þegar einhver er að tala um sögulega sterkt lið Golden State Warriors, sem er að hóta því að gera betur en ofurlið Michael Jordan um miðjan tíunda áratuginn - og hefur þegar gert það á ákveðnum sviðum.

Þetta er dálítið eins og ef Leicester færi bara allt í einu að rúlla upp ensku úrvalsdeildinni.

Það bara meikar ekki alveg sens.