Friday, April 8, 2016

Sögubóka-Warriors eru enn að


Eitt af hlutverkum NBA Ísland er að gæta þess að íslenskumælandi fólk sem hefur áhuga á körfubolta átti sig á því þegar sögulegir hlutir eru að gerast í NBA deildinni. Þetta er bara eitthvað sem við höfum alltaf litið á sem mikilvægan part af ritstjórnarstefnu síðunnar.

Mörg ykkar eruð ef til vill orðin svo góðu vön að þið áttið ykkur ekki á því, en dettið ekki í þá gryfju að taka því sem sjálfssögðum hlut að Golden State sé búið að vinna 70 leiki í deildarkeppninni í vetur. Það getur vel verið að þið verðið orðin feður og mæður eða afar og ömmur næst þegar þetta gerist - nú eða steindauð, hreinlega.

Þegar sögulega sterkt Chicago-liðið vann 72 leiki í deildarkeppninni árið 1996, vissu menn hreinlega ekki hvað þeir áttu af sér að gera og spáðu því að það það yrði ansi langt þangað til það yrði toppað.

Auðvitað er alltaf mikið af fólki með hálftómt glasið og segir að þessi árangur skipti ekki nokkru einasta máli ef ekki tekst að vinna titil í kjölfarið - og víst er sannleikskorn í því. 

En við verðum að hafa hugfast að NBA deildin er tvö mót, deildarkeppnin og úrslitakeppnin.

Margir horfa aðeins á deildarkeppnina með öðru auganu og nenna ekki að fylgjast almennilega með fyrr en úrslitakeppnin byrjar. Það er þeirra mál.

Við erum ekki af þeim sauðahúsum. Fyrir okkur er deildarkeppnin alveg jafn dásamlegt fyrirbæri og úrslitakeppnin, þó þetta séu ólík fyrirbæri.

Og núna erum við bara að tala um deildarkeppnina. Úrslitakeppnin segir okkur hvaða lið er best í NBA þegar í alvöruna er komið og það er alveg ljómandi, en deildarkeppnin segir okkur líka mjög mikið um það hvað í þessi lið er spunnið. 

Deildarkeppnin er enn meira langhlaup en úrslitakeppnin og því er ljóst að skussar og aulabárðar geta ekki náð árangri í deildarkeppninni. 

Hún er bara svo ógeðslega löng og erfið að þú verður að hafa úthald og karakter til að ná árangri í henni.

Golden State er eitt af þessum liðum sem hefur úthald og karakter, og þessi sögulega deildarkeppni hjá liðinu í vetur er ein sú sögulegasta sem færð hefur verið í bækurnar - og hún er ekki einu sinni búin.

Það gefur Golden State óneitanlega meiri vigt á þessum spretti í vetur að liðið hafi unnið titilinn á síðustu leiktíð. Ef liðið hefði ekki unnið titilinn síðasta sumar, væri árangur þess í deildarkeppninni loftkenndari en raun ber vitni. En það er ekki um neitt svoleiðis að ræða hjá Warriors núna.

Þetta lið hakkaði sig í gegn um deildarkeppninna á síðustu leiktíð með því að vinna 67 leiki og Stephen Curry var kjörinn leikmaður ársins. Það yrði ekki toppað svo glatt, eða hvað?

Jú, reyndar. Golden State er búið að vinna 70 leiki nú þegar og getur slegið met Chicago Bulls frá ´69 ef það vinnur þrjá síðustu leikina sína í deildarkeppninni á næstu dögum. Og rétt eins og liðið er búið að bæta sig, er besti leikmaður liðsins búinn að bæta sig. 

Stephen Curry verður kjörinn verðmætasti leikmaður ársins aftur í ár og það með því að skora sex stigum meira að meðaltali í leik en hann gerði þegar hann var kjörinn leikmaður ársins á síðustu leiktíð. Við þurfum sennilega ekki að taka fram að það yrði NBA met.

Okkur er með öðrum orðum nákvæmlega sama hvort Golden State vinnur 70, 71, 72 eða 73 sigra í deildarkeppninni í ár, þó það yrði óneitanlega gaman að sjá liðið slá met Chicago frá því fyrir tuttugu árum - liðinu sem þjálfari Warriors í dag spilaði með sem leikmaður.

Golden State er þegar búið að stimpla sig inn í sögubækurnar með því að verða annað liðið í sögunni til að ná að vinna 70 leiki í deildarkeppninni og við skulum gæta þess að gera ekki lítið úr því. Sama hvort liðið vinnur 71 leik eða 73 - og sama hvort liðið vinnur titilinn í sumar eða ekki.

Ef þið hafið hugfast að stórveldin sem hafa unnið megnið af titlunum sem í boði hafa verið í sögu NBA deildarinnar - Lakers og Celtics - hafa ekki náð að vinna 70 leiki í sögu félaganna, sýnir það okkur svart á hvítu hvað þetta er ótrúlegt afrek.

Hér eru einfaldlega sögulegir hlutir í gangi og það er nauðsynlegt að færa það til bókar.