Saturday, October 31, 2015
KR slátraði Njarðvík í frumraun Hauks Helga
Við áttum von á talsvert mikið jafnari leik í Vesturbænum í gærkvöldi. Við flýttum okkur í Frostaskólið og tókum upphitun, hitting og burger áður en flautað var til leiks - allt eins og það á að vera fyrir hörkuleik tveggja stórliða.
En Íslandsmeistarar KR voru ekkert á því að halda einhverri spennu í viðureign sinni við Njarðvík. Þeir þurftu hvorki á Helga Magnússyni né Pavel Ermolinski að halda, þegar þeir völtuðu yfir þá grænklæddu 105-76.
Njarðvíkingarnir voru vissulega ekki með fullt lið heldur. Handsprengjan Stefán er í gönguskó og spilar ekkert með liðinu á næstunni, en dagurinn í gær snerist alls ekki um að væla út af meiðslum, heldur fagna komu Hauks Helga Pálssonar inn í Njarðvíkurliðið.
Haukur er slíkur hvalreki fyrir Suðurnesjaliðið að við ætluðum honum auðvitað að keyra beint í borgina og vinna KR. Það fór ekki alveg þannig eins og áður sagði, en það fer heldur enginn á taugum yfir óhagstæðum úrslitum í október - nema kannski Skagfirðingar.
Það var svo fjandi mikið að gera hjá okkur að taka myndir handa ykkur að við misstum af stórum hluta leiksins. Það er erfitt að lesa í spilamennsku á bak við linsuna. Við skulum kalla þetta ljómandi góða afsökun fyrir því að skrifa lítið sem ekkert um leikinn.
En þó voru nokkur atriði sem fóru ekki framhjá okkur. Við tókum eftir því að KR spilaði ljómandi fínan sóknarleik (reyndar gegn slökum varnarleik Njarðvíkinga) þar sem boltinn fékk á tíðum að fljúga milli manna og skapa opin þriggja stiga skot. Þetta er merkilegt þegar horft er til þess að það vantar jú besta leikstjórnanda deildarinnar í KR-liðið. Bæði lið lentu í klafsi og vandræðum annað slagið vegna leikstjórnarskorts, en KR tókst augljóslega betur að takast á við það. Leikmenn KR skiluðu flestir ljómandi góðum leik í gær og við vorum sérstaklega hrifin af því að þrír byrjunarliðsmenn meistaranna skiluðu 6+ stoðsendingum.
Þar fór Ægir Þór Steinarsson fremstur í flokki og reyndi að þrenna þetta upp með sjö stigum (sjö stigum? kommon), tíu fráköstum og níu stoðsendingum. Fagmaðurinn Darri Hilmarsson sletti líka á skýrsluna með 13/11/7 og Brynjar og Crayon voru solíðir.
Það var svo hinn 17 ára gamli Þórir Þorbjarnarson sem stal senunni í leiknum. Pilturinn skoraði 21 stig og henti niður fimm þristum í sjö tilraunum og er að neyða Finn þjálfara til að leyfa sér að spila, því hann hefur bætt við sig bæði stigum og mínútum í öllum fjórum leikjum KR í deildinni til þessa. Svo er það líka sérstakur plús að hann skuli vera örvhentur, það er alltaf gaman að horfa á örvhenta menn skjóta, jafnvel þó skotið þeirra sé dálítið flatt. Ef það fer ofan í, er öllum sama.
Þessi stóri skellur sem Njarðvíkingar fengu var ekki frumsýningin sem Haukur Helgi var búinn að sjá fyrir sér - það vitum við án þess að hafa sagt eitt orð við manninn. Hann gerði þó það sem hann gat og sýndi okkur annað slagið hvað hann er óhemju sterkur og fjölhæfur körfuboltamaður. Hann á eftir að gata nokkrar tölfræðiskýrslur í vetur, það er öruggt mál.
Njarðvíkurliðið á helling inni og þeir Friðrik Ingi Rúnarsson og Teitur Örlygsson munu sjá til þess að ná meira út úr því. Þetta var dálítið ljótt í gær og ljóst að það er mikil vinna fram undan hjá grænum, en þeir geta nú líka huggað sig við að þurfa ekki að spila við KR aftur alveg strax.
Það er haust og því fer enginn að missa sig í óðagot þó hann tapi körfuboltaleikjum. Við erum enn í október (þó að sé kominn nóvember þegar þú lest þetta) og þú vinnur ekkert í október, svo við rúllum okkur aðeins í 2. persónuna eins og Hubie Brown.
Það hefur ekki tíðkast hjá Friðrik Inga og Teiti að afsaka sig og sitt lið með væli út af meiðslum, en auðvitað gefur það augaleið að það vantar helling í Njarðvíkurliðið þegar það er án leikstjórnandans síns.
Efnisflokkar:
Ægir Þór Steinarsson
,
Blástur
,
Brynjar Björnsson
,
Darri Hilmarsson
,
Friðrik Ingi Rúnarsson
,
Frumraunir/frumsýningar
,
Haukur Pálsson
,
Heimabrugg
,
KR
,
Njarðvík
,
Teitur Örlygsson
,
Þórir Þorbjarnarson
Klikkaðasti körfuboltamaður heims
Hér er bara lítið dæmi frá því í nótt sem rökstyður af hverju Russell Westbrook er klikkaðasti körfuboltamaður heims í dag. Klikkaður, eins og í óútreiknanlegur, hvatvís, ör, óhræddur og alveg ógeðslega góður.
Efnisflokkar:
#Russ
,
Á flautunni
,
Andi
,
Brelluskot
,
Gæsahúð
,
Hafðu þetta hugfast um jólin
,
Hrikalegheit
,
Rólegur
,
Russell Westbrook
,
Sirkusinn er kominn í bæinn
,
Stórustrákabuxurnar
,
Tilþrif
Wednesday, October 28, 2015
Nýtt hlaðvarp, nema hvað
Þátturinn Körfuboltakvöld á Stöð 2 Sport hefur heldur betur slegið í gegn frá því hann hóf göngu sína á dögunum og Hlaðvarp NBA Ísland sló á þráðinn til stjórnanda þáttarins og spurði hann út í dagskrárgerðina, fólkið á bak við tjöldin og þær jákvæðu viðtökur sem þátturinn hefur fengið.
Í lokin berst svo talið að NBA deildinni sem hefst í nótt, nema hvað. Hlustaðu á kvikindið í spilaranum hér fyrir neðan eða hoppaðu inn á Hlaðvarpssíðuna og sæktu það þar.
Efnisflokkar:
Hlaðvarpið
,
Kjartan Atli Kjartansson
Monday, October 26, 2015
Vegasvarpið 2015 - Vesturdeild
Maður á alltaf að borða brauðið fyrst og gæða sér svo á súkkulaðikexinu. Læra fyrst heima og fara svo út að leika sér. Það segja mömmurnar alltaf, enda höfðum við þann háttinn á þegar við saumuðum Vegasvarpið okkar árlega saman. Við byrjum á austrinu og endum á vestrinu.
Hérna er sumsé skotheld tilraun "sérfræðinga" NBA Ísland til að gera sig að árlegum fíflum með því að reyna að giska á sigrafjölda liðanna (eða þar um bil) í vetur. Það má alltaf hlæja að þessu í lok leiktíðar, enda stundar enginn veðmál eða fjárhættuspil á ritstjórn NBA Ísland og við mælum ekki með slíku við nokkurn mann, konu eða barn.
Hlustaðu endilega á dýrðina í spilaranum hérna fyrir neðan, eða gerðu eins og við gerum sjálf - og farðu inn á hlaðvarpssíðuna og dánlódaðu þættinum og settu hann inn á mp3 spilarann þinn (og geymdu eins og fjársjóð meðan þú lifir og hlustaðu á hann aftur og aftur á góðum sem slæmum stundum í lífi þínu).
Efnisflokkar:
Hlaðvarpið
Vegasvarpið 2015 - Austurdeild
Eftir ógurlegt stríð við tæknidrauga og annað mótlæti, hefur okkur nú loksins tekist að hnoða saman undir/yfir hlaðvarpið árlega, þar sem við tippum það hvað liðin í NBA muni vinna marga leiki í deildarkeppninni - það er yfir eða undir sigrafjöldanum sem veðbankarnir í Las Vegas gefa út á haustin.
Starfsfólk NBA Ísland er að sjálfssögðu engir fjárhættuspilarar og mælir raunar alls ekki með neinu slíku fyrir lesendur, við styðjumst aðeins við tölurnar frá Vegas til gamans. Þá er hugmyndin að hlaðvarpi sem þessu að sjálfssögðu ekki ný á nálinni, en þó er ekki útilokað að NBA Ísland hafi verið fyrsta NBA hlaðvarpið sem byrjaði að apa þessa iðju eftir ESPN-hlaðvarpanum fyrrverandi, Bill Simmons.
Hvað um þetta allt saman, hér hafið þið Vegas-varpið árlega um Austurdeildina. Vesturdeildarvarpið kemur strax í kjölfarið. Við vonum að það stytti ykkur biðina eftir deildarkeppninni sem hefst á þriðjudagskvöldið. Það er sem sagt annað kvöld. Vá.
Þú getur hlustað á hlaðvarpið í spilaranum hér fyrir neðan, eða farið inn á hlaðvarpssíðuna okkar og sótt það til að setja inn á spilarann þinn.
Efnisflokkar:
Hlaðvarpið
Friday, October 23, 2015
Blóðbað í Breiðholtinu
Ekki skemmir að téð vél hélt áfram að terrorísera í teignum og hirti 17 fráköst, þó það væri auðvitað Davíð Ágústsson sem stal senunni með þristunum sínum sjö úr átta tilraunum.
Það er okkur alltaf ánægjuefni þegar litlu liðin úti á landi eru með kjaft, þó að þessu sinni hafi ofbeldið bitnað á öðru landsbyggðarliði. Þið vitið hvað við erum að fara.
Okkur dreymir jú öllum um að hvert einasta pláss á landinu fái forskeytið "körfuboltabærinn xxx."
Annað landsbyggðarlið með leiðindi er FSu, en það náði að hræða líftóruna úr Garðbæingum í Ásgarði í kvöld. Stjarnan náði á endanum að klára leikinn 91-87 en frá bæjardyrum heimamanna sýnir þessi leikur glöggt að það eru ansi fáir leikir gefnir í þessari deild.
Ef við skoðum dæmið frá sjónarhorni austanmanna, hljóta þessi úrslit að vera alveg sérstaklega svekkjandi, því þetta er í annað skipti á viku sem liðið tapar leik þar sem úrslitin ráðast í blálokin.
Liðið kastaði þessum kannski ekki frá sér líkt og Grindavíkurleiknum um daginn, en það er sama. FSu er hér að eiga við dæmigerða nýliðakveisu - að geta ekki klárað leiki - annað hvort vegna þess að það skortir reynslu eða gæði (oft bæði).
Nú er bara að sjá úr hverju FSu-menn eru gerðir, hvort þeir láta þetta mótlæti brjóta sig niður og eyðileggja tímabilið eða hvort þeir ná að bæta sig um þessi 5% sem vantar upp á til að fara að vinna leiki. Stigin eru dýrmæt í þessu, svo mikið er víst.
Aðalleikur kvöldsins fór fram í Breiðholtinu, þar sem ÍR tók á móti Grindavík. Þetta var aðalleikur kvöldsins af þeirri einföldu ástæðu að NBA Ísland var á svæðinu, enda alltaf gott að koma í Seljaskólann.
En talandi um Seljaskólann, megum við til með að minnast á mikilvægt atriði áður en lengra er haldið.
Um árabil - já, um árabil, voru Breiðhyltingar með allt lóðrétt niður um sig þegar kom að umgjörð og aðstöðu fyrir fjölmiðlafólk. Þar bar auðvitað hæst að internetið í kofanum var aldrei í lagi - ef það var þá einhvern tímann til staðar yfir höfuð. Við öskruðum okkur hás og skrifuðum okkur í krampa yfir þessum málum aftur og aftur en það skilaði litlu.
En batnandi fólki er best að lifa. Í kvöld varð okkur á að skjótast upp í fjölmiðlastúku inn á milli leikhluta til að skoða tölfræðina og þar beið okkar nokkuð mögnuð sjón. Þá reyndust ÍR-ingarnir ekki aðeins vera með dúndurgott internet (4G), heldur var þarna aðstaða fyrir alla fjölmiðlamenn hvort sem þeir voru skrifandi eða takandi upp og svo var þarna meira að segja kaffi, gos og bakkelsi!
Nú vitum við hvað þið eruð að hugsa - ætli blaðamannastéttin sé ekki nógu fjandi feit svo körfuboltafélögin á landinu fari ekki að bera í þau bakkelsi og slikkerí! Jú, þetta er hárrétt, en okkur þykir alveg nauðsynlegt að minnast á það þegar svona vel er staðið að málum - ekki síst þar sem menn voru með allt lóðrétt áður.
Þú þarft ekkert að vera með gos og bakkelsi, þannig séð, en það lýsir bara ákveðnum standard að hugsa vel um fjölmiðlafólkið meðan á leik stendur. Það hjálpar ekki aðeins til þegar kemur að umfjöllun, heldur er það líka augljóst merki um metnað og fagmennsku.
KR-ingar hafa verið í algjörum sérflokki þegar kemur að þessu atriði undanfarinn áratug. Við vitum alveg að KR er stór klúbbur og á því auðveldara með svona trakteríngar en önnur félög, en eins og áður sagði er þetta allt spurning um metnað félaganna. Það geta allir boðið upp á góða alhliða umgjörð ef viljinn er fyrir hendi - líka litlu klúbbarnir.
En vindum okkur að leiknum. Þeir eru eflaust fáir sem eru sammála okkur, en okkur þótti leikur ÍR og Grindavíkur alveg ógeðslega skemmtilegur.
Eins og þið vitið líklega, vann Grindavík miklu öruggari sigur en lokatölurnar 79-94 segja til um, þetta var blástur frá upphafi og langleiðina til enda. ÍR lenti sannarlega í grændernum í kvöld.
Efnisflokkar:
Blástur
,
Grindavík
,
Heimabrugg
,
ÍR
,
Jóhann Árni Ólafsson
,
Jón Axel Guðmundsson
,
Netbrennur
,
Ómar Sævarsson
,
Páll Axel Vilbergsson
,
Tölfræði
,
Þrennur
,
Þristar
Tuesday, October 20, 2015
Natvélin í urrandi botni
Við sögðum ykkur frá upplifun okkar af KR-liðinu um helgina, eftir að það tapaði fyrir Stjörnunni í Garðabæ.
Í gærkvöldi kíktum við á Vesturbæinga taka á móti Þórsurum frá Þorlákshöfn og sjáum hreint ekki eftir því.
Þeir sem sáu þennan leik voru að tala um að öfugt við leikinn í Garðabæ á föstudaginn, hafi KR amk átt nokkrar glefsur af almennilegri spilamennsku að þessu sinni. Ekki margar, en nógu margar til að klára Þórsarana sem þó bitu og klóruðu allan tímann, 90-80.
En við ætlum ekki að þvaðra um KR núna og við ætlum reyndar ekki að þvaðra um Þór heldur - ekki þannig. Við þurfum að tala aðeins um miðherja Þórs, Ragnar Ágúst Nathanaelsson - Natvélina!
Sagan segir að pilturinn hafi endurskoðað viðhorf sín til körfuknattleiksíþróttarinnar fyrir nokkrum misserum, sem hefur eflaust verið ákvörðun sem honum var hjálpað að taka, en það fylgir því auðvitað enginn eftir nema hann sjálfur.
Kannski hefur einhver sest niður með honum og sagt: "Hey, þú ert tveir og átján - kannski geturðu fengið vinnu við að troða körfuboltum ofan í körfur!"
Hvað sem því líður virðist Ragnar hafa gefið rekið hælana í klárinn og skerpt á plönum sínum. Hann var náttúrulega verðlaunaður fyrir það með því að fá að vera í frægasta landsliðshóp í sögu íslensks körfubolta sem Spútnik-aði yfir sig á EM um daginn.
Það er freistandi að fara að velta sér upp úr tröllatölfræðinni sem Ragnar er búinn að bjóða upp á í fyrstu tveimur leikjunum sínum í deildinni í ár (22 stig, 15 fráköst og 3 varin) en til þess er skammtastærðin einfaldlega of lítil.
Nei, við þurfum nefnilega ekki að horfa í tölfræðina til að átta okkur á því hvað er að gerast hjá Natvélinni. Það er nóg að horfa á piltinn spila í nokkrar mínútur.
Við sáum Ragnar spila gegn KR í gærkvöldi og það er skemmst frá því að segja að við vorum mjög hrifin af því sem fyrir augu bar.
Hann hefur alltaf verið stór, en það eru komin miklu meiri læti í hann núna. Hann er allur fljótari, kvikari og sterkari og það sem okkur finnst skipta mestu máli, hann spilar með miklu meira sjálfstrausti en áður.
Og hluti af þessu sjálfstrausti er farið að brjótast út í smá hroka.
Nú erum við almennt ekkert sérstaklega hrifin af hroka* en við erum þeirrar skoðunar að því sé eins farið með miðherja í körfubolta og stórsöngvara - t.d. tenóra. Þeir fúnkera bara miklu betur ef þeir eru hrokafullir.
Sjáðu til dæmis menn eins og Fannar Ólafsson - hvar væri hann án þessarar góðu slettu af hroka? Hefði hann farið fyrir KR og unnið alla þessa titla án hrokans? Kannski, en hrokinn skemmdi áreiðanlega ekki fyrir.
Leikstíll þeirra er gjörólíkur, en það er gaman að fylgjast með vexti og þroska tveggja ungra og 218 sentimetra hárra miðherja um þessar mundir - þeirra Ragnars og frönsku andspyrnu-hreyfingarinnar Rudy Gobert.
Frakkinn knái spilaði líka á EM og okkur datt hann í hug af því hann er líka á bullandi uppleið og er dásamlega hrokafullur. Og ekki bara af því hann er franskur. Hann ætlar að verða besti miðherji í heimi og er alveg nákvæmlega sama hvað þér finnst um það.
Ragnari virðist líka vera drullusama hvað mönnum eins og Michael Craion finnst um veru hans í teigum Domino´s deildarinnar - hann virðist kominn hingað til að vera með dólg og draga Þórsliðið eins langt og hann mögulega getur.
Hann er ekki eitthvað stiff sem sveiflast fram og aftur í teignum og veit ekkert hvað það er að gera, hann er farinn að telja á báðum endum vallarins.
Fá menn til að skipta um skoðun þegar þeir ætla að keyra á körfuna eða skjóta í teignum - og berja skotin þeirra upp í rjáfur ef þeir eru nógu vitlausir til að reyna þau. Taka við boltanum á blokkinni og setja niður stutta króka eða þruma niður troðslum á hinum endanum.
Með öðrum orðum, Natvélin er að verða fullorðins og það er orðið alveg drulluskemmtilegt að horfa á hana vinna á fullum snúningi eins og í DHL höllinni í gærkvöldi, þar sem hún grændaði sér inn 25 stig, 17 fráköst og sex varin skot.
Við hvetjum Ragnar eindregið til að halda áfram á þessari braut, halda áfram að æfa, halda sér hungruðum og hrokafullum og sverja þess eið að troða yfir allt og alla í þessari deild - aftur og aftur, oft og fast! Hrækja á tölfræðiskýrslur og slá met!
Svo á hann alltaf eftir að koma í hlaðvarp NBA Ísland og segja okkur alla söguna, enda liggur fyrir samningur þess efnis sem undirritaður var á Twitter fyrir margt löngu.
------------------------------------------------------------------------------------------------------------
* - Nema þegar Zlatan er annars vegar, auðvitað.
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
Hroki og hleypidómar
,
KR
,
Miðherjar
,
Natvélin
,
Ragnar Nathanaelsson
,
Þau erfa landið
,
Þór Þorlákshöfn
Monday, October 19, 2015
Endurtekinn áróður um LeBron James
Við vitum að við höfum skrifað um þetta áður og það er hallærislegt, en mikilvæg skilaboð verður stundum að tyggja í fólk svo það sé örugglega með á nótunum. Ekki síst nú á síðustu og verstu tímum þar sem hægt er að halda athygli fólks í innan við sekúndu í senn. Og nú hætta margir að lesa og skipta yfir á bleikt.is eða eitthvað, sem er auðvitað ljómandi í sjálfu sér.
Okkur langaði bara að sýna ykkur hvað það sést skemmtilega svart á hvítu hver er búinn að vera besti körfuboltamaður heims undanfarin ár. Flakkið á LeBron James milli Suðurstrandar og Cleveland hefur eflaust farið í taugarnar á mörgum, en það góða við það er að það gefur okkur perspektíf á hvað það gerir fyrir lið að fá LeBron James í sínar raðir - og missa hann.
Hérna fyrir neðan sérðu hvernig Cleveland gekk árin áður en LeBron kom inn í deildina, hvað liðið tók stórstígum framförum um leið og hann byrjaði að spila og fór að lokum langt yfir 60 sigra. Svo sérðu skarðið ljóta sem eru árin fjögur sem hann skrapp niður á Flórída.
Cleveland gjörsamlega drullaði lungum og lifur á meðan og var lélegasta liðið í NBA á þessum fjögurra ára kafla. Svo mætir karlinn aftur til Cleveland og það var eins og við manninn mælt - það poppaði strax aftur upp fyrir 50 sigra og fór beint í lokaúrslitin. Þið munið hvernig liðið komst þangað - hvað James fékk mikla hjálp við það.
Svo eru það árin hjá Miami. Það var sama uppi á teningnum þar, Miami hafði gengið svona la la áður en James mætti á ströndina, en um leið og hann kom, varð allt vitlaust. Miami vann tæpa 60 leiki að meðaltali (verkbannsárið uppreiknað) árin fjögur sem hann spilaði þar og fór í lokaúrslit öll árin - sem er rugl, þó austrið hafi verið veikara en Oprah Winfrey.
Það er afar sjaldgæft að einn körfuboltamaður hafi önnur eins áhrif og James hefur haft undanfarin áratug - ekki bara á liðið sem hann spilar með, heldur einnig á valdajafnvægið í allri deildinni. Síðasti leikmaðurinn sem hafði önnur eins áhrif með félagaskiptum var Shaquille O´Neal. Hann fór frá meistaraliði Lakers og gerði Miami að meistara (með góðri hjálp).
Við vitum alveg að það hjálpar James mikið hvað deildin sem hann spilar í er mikið dómsdags rusl, en þú getur ekki tekið það af honum að þetta er helvíti magnaður árangur hjá honum. Þetta er kallað að vera sigurvegari.
Nú, ef þetta fer allt saman fyrir ofan garð og neðan hjá þér, geturðu að minnsta kosti skoðað grafíkina sem við útbjuggum með færslunni. Hún er af dýrari gerðinni þó við segjum sjálf frá.
Efnisflokkar:
Cavaliers
,
Heat
,
LeBron James
,
Ógnarstyrkur
,
Töflur og gröf
,
Tölfræði
,
Úrvalsleikmenn
Af átakanlegri þrennuviðleitni Ricky Davis
Hægðaheili (ens. Shit for brains) er orðið sem kemur upp í hugann þegar við rifjum upp ferilinn hans Ricky Davis.
Þessi snaggaralegi vængmaður hafði óhemju hæfileika en skorti siðfræðilegar trefjar og andlegt atgervi til að nýta þá til fullnustu.
Davis lék með sex félögum á fjórtán ára ferli í NBA deildinni og var þekktur sem samviskulaus og skotglaður hægðaheili, en það var eitt atvik öðrum fremur sem setti svip sinn á feril hans - atvik sem menn eru enn að tala um.
Þetta var þegar hann lék með Cleveland árið 2003, vorið áður en LeBron James gekk í raðir Cavaliers. Cleveland-liðið var þá að bursta Utah Jazz á útivelli og Davis átti skínandi góðan leik. Svo góðan leik að hann vantaði aðeins eitt frákast upp á að ná þrefaldri tvennu.
"What the hell," hefur hann líklega hugsað þegar hann sneri sér við þegar sex sekúndur voru eftir af leiknum og skaut boltanum á eigin körfu í þeirri von um að fá skráð á sig frákastið sem upp á vantaði.
Skemmst er að segja frá því að hann fékk frákastið ekki skráð á sig og uppskar ekki annað en að komast á dauðalistann hjá Jerry Sloan, þjálfara Utah. Hérna fyrir neðan er viðtal við Sloan sem tekið var eftir leikinn. Það sést svo augljóslega hvað hann langar að taka Davis og troða honum ofan í trjákurlara.
Ricky Davis skoraði 20,6 stig, hirti 4,9 fráköst, gaf 5,5 stoðsendingar og stal 1,6 boltum að meðaltali á þessari leiktíð, en það er afskaplega innantóm tölfræði þegar haft er í huga að liðið vann ekki nema 17 leiki allan veturinn.
Kannski var það lán í óláni að Davis og félagar væru svona hræðilegir, því Cleveland datt í lukkupottinn sumarið eftir og fékk fyrsta valrétt í nýliðavalinu árið 2003. Og gettu nú hvaða leikmaður varð fyrir valinu!
Talandi um hvað ef, þá er ekki gott að segja hvað hefði orðið um LeBron James ef Ricky Davis hefði spilað meira en 22 leiki árið eftir. Honum var þá skipt til Boston, þegar Cleveland var búið að fá nóg af honum. Líklega hefði félagið ekki getað fengið verri fyrirmynd fyrir Frelsarann sinn LeBron James en vitleysinginn Ricky Davis.
Þeir voru nokkrir frekar vafasamir hjá Cleveland á þessum árum, en Davis toppaði þá alla þegar kom að því að vera vitleysingur.
Ef Séð og Heyrt gerir lífið skemmtilegra, gerði Ricky Davis NBA deildina skemmtilegri.
Efnisflokkar:
Cavaliers
,
Fret úr fortíðinni
,
Hægðaheilar
,
Kjarneðlisfræðingar
,
LeBron James
,
Þrennur
Saturday, October 17, 2015
Kalt start hjá KR
Kannski var það rétt sem Fannar Ólafsson sagði í Körfuboltakvöldinu í gær. Kannski mættu fyrrum félagar hans í KR eins og skussar í Garðabæinn í gærkvöldi, þegar þeir töpuðu fyrsta leiknum sínum í deildinni 80-76. Ef til vill er eitthvað örlítið til í þessu.
En ef þið hafið hlustað á eitthvað af viðtölunum við Finn þjálfara að undanförnu, ættuð þið líka að vita að hann er búinn að viðurkenna að liðið hans eigi langt í land. Kannski finnst einhverjum það léleg afsökun að Íslandsmeistararnir mæti ekki klárir til leiks að hausti, en þetta er ekki alveg svona einfalt.
Ástæðan fyrir því að KR er á eftir áætlun er þátttaka leikmanna í EM um daginn og sífelld og þrálát meiðsli lykilmanna. Það gefur augaleið að þú getur ekki æft neitt af viti ef byrjunarliðið þitt er annað hvort ekki á staðnum (og ekki þú heldur reyndar, sem aðstoðarþjálfari landsliðsins) eða að glíma við meiðsli.
En það er óþarfi að vera með einhverjar afsakanir fyrir Íslandsmeistarana. Þeir þurfa ekkert svoleiðis og eru langt frá því að fara í eitthvað hjartastopp þó þeir tapi einum leik, en það er augljóst að þeir eiga eftir að spila sig talsvert betur saman.
Eins innilega og við fögnum endurkomu Ægis Þórs Steinarssonar* til landsins, hefði pilturinn auðvitað mátt fara í eitthvað annað lið en KR, bara til að reyna að jafna mótið.
Þið vitið að við höfum óhemju gaman af að horfa á Ægi spila körfubolta og það eina neikvæða við komu hans í íslenska boltann er að hann gæti átt eftir að skemma tölfræðina hans Pavels all verulega, sérstaklega hvað varðar stoðsendingarnar.
Nú er KR liðið náttúrulega að gera tilraunir með að láta Ægi stýra leik liðsins úr hinni hefðbundnu leikstjórnandastöðu, en tefla Pavel fram í stöðu kraftframherja. Ef allt væri eðlilegt, myndi Pavel Ermolinski líklega spila stöðu kraftframherja í deildinni hér heima. Hann er tveir metrar og frákastar eins og andskotinn sjálfur, svo hann er upplagður leikmaður í þá stöðu þó hann finni sig að sjálfssögðu betur í leikstjórnandanum.
Það góða við að spila fjarkann fyrir Pavel er að hann þarf þá síður að elta eldsnögga bakverði út um allan völl í vörninni, en í staðinn þarf hann að leggja meira á sig í teignum, þar sem olnbogar fljúga og kraftar og kíló ráða miklu.
Það er þó sama hvaða stöðu Pavel spilar, ef hann hirðir varnarfrákast - sem hann gerir oftar en flestir - þá keyrir hann auðvitað fram völlinn sjálfur og reynir að finna samherja sína í hraðaupphlaupinu. Hann kemur sumsé til með að fá að klappa boltanum eitthvað líka og eins þegar Ægir hvílir.
Þetta er allt á frumstigi ennþá hjá KR. Það á alveg eftir að koma í ljós hvernig þetta þróast hjá liðinu, hvort því hentar betur að láta Ægi eða Pavel stýra leiknum og fleira í þeim dúr. Finnur þjálfari benti okkur réttilega á það að svona hlutir leystust venjulega þegar tímabilið fer á fullt og það á eftir að rætast. Það er óþarfi að hafa áhyggjur af KR.
Annars ætlar Finnur víst að breyta eitthvað um leikaðferð í vetur og hefur í hyggju að nýta hina miklu breidd sem er í KR liðinu til hins ítrasta. Þá með því að spila stífan varnarleik og keyra á andstæðingana við hvert mögulegt tækifæri.
Það má vel vera að einhver af liðunum í deildinni geti haldið í við byrjunarlið Vesturbæinga, en ef allt er eðlilegt, ætti heldur að draga í sundur þegar sterkur bekkur KR mætir þunnum bekkjum flestra mótherjanna.
Hvað frammistöðu einstaka leikmanna varðar, er ekki hægt annað en að gretta sig örlítið þegar kemur að frumraun Ægis Þórs með KR í deildinni. Blessaður pilturinn hitti nákvæmlega ekkert í þessum leik (2 af 12 í skotum), en hann á eftir að hrista þessa frammistöðu af sér og gera betur í næstu leikjum, það er engin spurning.
Öllu jákvæðara var að sjá piltinn frákasta, en hann sleit niður átta slík og gott ef hann fer ekki að hirða molana af borði Pavels í þeim tölfræðiþætti líka. Svei oss öllum ofan frá.
Kunnugir segja okkur að Michael Craion hjá KR sé í lélegu formi, sem sé fastur liður hjá þeim sterka leikmanni á haustin. Við fullyrðum ekkert um það, en við höfum oft séð Craion spila betur en hann gerði í gær. Hann átti erfitt uppdráttar gegn Alonzo Coleman í teignum og klikkaði á nokkrum kanínum.
Það vakti hinsvegar athygli okkar að Craion var mjög viljugur að spila félaga sína uppi og það finnst okkur mjög rómantískt þó hann hafi stundum ákveðið að kasta boltanum út fyrir línu í stað þess að fara upp sjálfur í teignum. Miðherjinn knái skilaði nú samt 16 stigum, 8 fráköstum, 4 stoðsendingum, 5 stolnum boltum og tveimur vörðum skotum. Og við skömmum hann fyrir það. Eðlilegt.
Hann Pavel vinur okkar olli engum vonbrigðum frekar en fyrri daginn og skilaði 15/13/7/3 leik úr framherjastöðunni. Það er svo mikill lúxus að vera með svona boltalipran fjarka að það ætti að vera bannað. Sjáið til dæmis menn eins og Draymond Green hjá Golden State, sem á það oft til að fara sjálfur upp með boltann í hraðaupphlaup eftir að hafa hirt varnarfrákast. Svona menn er dásamlegt að hafa.
Talandi um dásamlega menn. Justin Shouse segir að félagar hans í Stjörnuliðinu séu farnir að kalla hann Rauðvínið og vísa þar með í að hann verði bara betri með aldrinum. Kannski er sitt hvað til í þessu, því sá gamli bar enga virðingu fyrir KR-liðinu frekar hann er vanur og sýndi að það er nóg eftir í pokanum hjá honum. Bauð upp á 23 stig, 5 fráköst, 7 stoðsendingar og reyndar 7 tapaða bolta. Þvílík gersemi sem þessi drengur er.
Tómas Þórður Hilmarsson vakti verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína með Stjörnunni í gær. Ungi maðurinn skoraði átta stig og hirti fjórtán fráköst, flest allra á vellinum. Það er gaman að sjá svona stráka fá sénsinn og taka honum opnum örmum.
Öllu frægari Tómasinn í liði Stjörnunnar fékk ekki að taka þátt í síðustu mínútum leiksins þegar hann fékk fimmtu villuna sína, sem var í kjánalegri kantinum en skítur skeður eins og þeir segja.
Tómas á eftir að teygja vel á gólfinu í Garðinum í vetur þar sem hann er sífelld og alvarleg skotógn fyrir utan línu. Honum er þó fjandakornið alveg óhætt að taka fleiri en sjö skot í leik eins og hann gerði í gær, því auðvitað setti hann 3 af 4 langskotum sínum niður eins og Curry-inn sem hann er.
Þú manst kannski eftir fáránlegri nýtingunni hans á öllum sviðum á síðustu leiktíð, þegar hann skilaði 50-40-90 tímabili og var raunar nær því að ná 60/50/90 sísoni, sem er algjör þvættingur. Gaurinn bauð upp á 56% skot, 48% í þristum og yfir 91% á línunni. Svona menn fá kauphækkun og fara í Garðabæinn.
Eitt sem vakti alveg sérstaka athygli okkar af því við erum búin að vera að bíða eftir því. Sæmundur Valdimarsson (a.k.a. Lil Marv) virðist nefnilega hafa rifið duglega í lóðin í sumar, því hann er ekki lítill lengur.
Handleggirnir á honum voru eins og pípuhreinsarar í fyrra, en nú ber fyrir byssum og allt annað að sjá drenginn. Hann hirti líka 7 fráköst á aðeins 9 mínútum í gær og nú langar okkur að vita hvort Marvin finnst það bara allt í lagi að litli bróðir hans sé búinn að kjöta sig upp og sé orðinn stærri en hann. Ekki tækjum við svona lagað í mál.
Bandaríkjamaðurinn Coleman hjá Stjörnunni var óhemju lengi í gang í sóknarleiknum, en eins og við sögðum, olli hann landa sínum Craion erfiðleikum beggja vegna á vellinum.
Þarna virðist vera á ferðinni hæfileikaríkur strákur með ljómandi fína hæð, sem auk þess virðist spila fyrir liðið. Hann setti líka stórar körfur á lokasprettinum, svo það getur vel verið að Stjarnan sé þar komin með keeper í kananum stóra.
Domino´s deildin okkar fer ljómandi vel af stað og við erum þegar búin að fá fullt af rafmögnuðum spennuleikjum eins og leik Stjörnunnar og KR í gær. Það er fínt fyrir deildina að KR skuli byrja á að tapa leik, því margir hölluðust að því að þetta mót yrði aðeins formsatriði fyrir Vesturbæinga. Þetta er nú samt sjaldnast þannig eins og þið vitið. Þú þarft að hafa fyrir því að vinna þessa deild.
Að lokum er ekki annað eftir en að senda Jóni Axeli Guðmundssyni hjá Grindavík úthróp fyrir að hjóla í þrefalda tvennu strax í fyrstu umferð, þegar hann bauð upp á 16/10/10 leik í skrautlegum sigri þeirra gulu á FSU í Iðu. Svona eiga menn að stimpla sig inn - svona komast menn í góðu bækurnar á NBA Ísland og á þrennuvegginn á Körfuboltakvöldi Kjartans Atla og félaga.**
Mikið ljómandi er það nú gaman að þetta skuli vera byrjað aftur. Aaaaah!
-----------------------------------------------------------------------------------------------------------
* - Ægir Þór gekk gjarnan undir gælunafninu Geitungurinn á NBA Ísland hér áður og við höfum heyrt það haft eftir bæði í blöðum og í sjónvarpi. Við heyrðum hinsvegar af því að Ægir væri ekki allt of sáttur við gælunafnið sem við fundum handa honum (þó það passi vel, annars væri fólk ekki að nota það) og þess vegna erum við að hugsa um að droppa því í bili.
Ægir er líka að verða full hrikalegur til að kallast geitungur. Jú, jú, hann er öskufljótur ennþá, en hann er líka búinn að vera duglegur að taka í stálið og það er einmitt fátt sem ýtir leikmönnum jafn hratt upp vinsældalista NBA Ísland og lyftingar og hrikalegheit.
Við skulum sjá til með Geitunginn. Sjá hvað kappinn segir um þetta sjálfur.
** - Körfuboltakvöldið á Stöð 2 Sport fer óhemju vel af stað að okkar mati. Við erum kannski ekki hlutlaus vegna augljósrar tengingar okkar við stöðina, en það er nóg að skoða ummælin á samfélagsmiðlum til að sjá að körfuboltafjölskyldan jafnt sem óbreyttir eru mjög ánægð með hvernig Kjartan Atli og félagar hafa farið af stað í þessu.
Þið megið ekki gleyma því að það er eitt að vita eitthvað um körfubolta - annað að stýra umræðuþætti um hann í sjónvarpinu í beinni útsendingu. Kjartan Atli er fagmaður og er að leysa þetta verkefni með sóma. Það stefnir í frábæran vetur í körfunni með svona umgjörð. Það verða jólin í allan vetur.
Efnisflokkar:
Ægir Þór Steinarsson
,
Heimabrugg
,
Jón Axel Guðmundsson
,
Justin Shouse
,
Kjartan Atli Kjartansson
,
Körfuboltakvöld
,
KR
,
Lil Marv
,
Pavel Ermolinski
,
Stjarnan
,
Tómas Hilmarsson
,
Tómas Tómasson
Friday, October 16, 2015
NBA alla föstudaga í vetur
Nú styttist óðum í að deildarkeppnin í NBA fari af stað (27. okt), sem er auðvitað gleðiefni fyrir okkur öll. Stöð 2 Sport ætlar að gera deildarkeppninni í NBA hærra undir höfði en nokkru sinni áður í vetur og verður með beinar útsendingar alla föstudaga og tvíhöfða á jóladag.
Við erum svo heppin að vera með leikjaplanið á Stöð 2 Sport undir höndum og birtum það hérna fyrir neðan með þessum venjulega fyrirvara um breytingar auðvitað. Eins og þið sjáið eru nákvæmlega tvær vikur í fyrstu beinu útsendinguna, sem verður viðureign Cleveland og Miami föstudagskvöldið 30. október klukkan 23:00.
Það verða Baldur Beck og Kjartan Atli Kjartansson sem sjá um að lýsa leikjunum og þessi ráðstöfun Sportmanna þýðir einfaldlega að föstudagskvöldin í vetur verða hreinræktuð og réttnefnd körfuboltakvöld.
Körfuboltafólk getur sem sagt horft á beinar útsendingar frá Domino´s deildunum um kvöldmatarleytið, stillt á Körfuboltakvöld með Kjartani Atla og co. um tíu og slegið botninn í veisluna með beinni útsendingu frá NBA um og upp úr miðnættinu.
Þetta verður ekkert mikið betra, krakkar. Góða skemmtun í vetur.
Efnisflokkar:
Dagskrá
Tuesday, October 13, 2015
Fjöllum um Rose
Efnisflokkar:
Bulls
,
Derrick Rose
,
Dreptu okkur ekki
,
Ekkifréttir
,
ESPN
,
Meiðsli
,
Skrum
Thursday, October 8, 2015
Monday, October 5, 2015
Meiri Kelly Tripucka
Já, hann Kelly Tripucka er einn af þessum heppnu, sem eru bæði óhemju myndarlegir og góðir í körfubolta. Hann ber það sannarlega ekki með sér að hafa verið fjórði stigahæsti leikmaður NBA deildarinnar árið 1983, með næstum 27 stig að meðaltali í leik. Svona getur útlitið blekkt, en eitt er þó alveg á hreinu: Kelly Tripucka er ekki langt frá því að vera OF flottur á því. Enda er þetta ekki í fyrsta skipti sem við minnumst á það. Fólk hefur rétt á að vita þetta.
Efnisflokkar:
Fret úr fortíðinni
,
Kelly Tripucka
,
NBA 101
,
Svægi
Subscribe to:
Posts (Atom)