Nú styttist óðum í að deildarkeppnin í NBA fari af stað (27. okt), sem er auðvitað gleðiefni fyrir okkur öll. Stöð 2 Sport ætlar að gera deildarkeppninni í NBA hærra undir höfði en nokkru sinni áður í vetur og verður með beinar útsendingar alla föstudaga og tvíhöfða á jóladag.
Við erum svo heppin að vera með leikjaplanið á Stöð 2 Sport undir höndum og birtum það hérna fyrir neðan með þessum venjulega fyrirvara um breytingar auðvitað. Eins og þið sjáið eru nákvæmlega tvær vikur í fyrstu beinu útsendinguna, sem verður viðureign Cleveland og Miami föstudagskvöldið 30. október klukkan 23:00.
Það verða Baldur Beck og Kjartan Atli Kjartansson sem sjá um að lýsa leikjunum og þessi ráðstöfun Sportmanna þýðir einfaldlega að föstudagskvöldin í vetur verða hreinræktuð og réttnefnd körfuboltakvöld.
Körfuboltafólk getur sem sagt horft á beinar útsendingar frá Domino´s deildunum um kvöldmatarleytið, stillt á Körfuboltakvöld með Kjartani Atla og co. um tíu og slegið botninn í veisluna með beinni útsendingu frá NBA um og upp úr miðnættinu.
Þetta verður ekkert mikið betra, krakkar. Góða skemmtun í vetur.