Monday, March 31, 2014

Seðlance Stephenson


Hinn litríki Lance Stephenson hjá Indiana birti þessa mynd víst á Instagramminu sínu um daginn. Þetta ku hafa verið ein milljón dollara í reiðufé. Það fyndna við þetta er að Stephenson er einn tekjulægsti leikmaður NBA deildarinnar, því hann rétt skríður yfir milljón dollara í laun á þessu ári.

Þetta er í eina skiptið sem hann hefur fengið meira en milljón í laun þó hann sé á sínu fjórða ári í deildinni. Því er ekki gott að segja hvaðan hann fær þessa seðla. Kannski hefur hann bara fengið þessa peninga lánaða hjá frænda sínum sem vann í Víkingalóttóinu - nú eða rænt dýragarð. Hver veit þegar þessi maður er annars vegar.

Nostradamus



Thursday, March 27, 2014

Grafarvogur versus Egilsstaðir


Spurt er: Hver sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í haust?

"Það verða klárlega Fjölnir og Höttur sem keppa um að fylgja Stólunum í úrvalsdeildina næsta vetur!"

Það er rétt hjá þér. Ekki nokkur maður. Það var enginn svo fjandi fullur.

Fjölnismenn tryggðu sér einvígið við Héraðsbúana í gærkvöldi þegar þeir lögðu Breiðablik 82-77 í æsispennandi umspils-oddaeik í Dalhúsum.

Áður höfðu Hattarmenn sent Þórsara frá Akureyri í sumarfrí. Hér eru á ferðinni liðin sem höfnuðu í 2.-5 sæti í 1. deildinni í vetur. Stólarnir fóru beint upp, en næstu fjögur liðin fóru í umspil.

Það eru ekkert allir með þetta á hreinu (ekki við amk) og því kannski ekki úr vegi að útskýra þetta fyrir leikmanninum.

Kópavogsliðið fór dálítið illa að ráði sínu í gærkvöldi, því það var yfir lengst af í síðari hálfleiknum. Þá tökum við samt ekkert af Fjölnismönnum, sem voru töffarar og settu niður risaskot í lokin, meðan fát kom á Blikana. Þetta leit hreint ekki vel út hjá Fjölni á síðustu mínútunum, en þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem við sjáum þetta lið sýna flottan karakter á ögurstundu í vetur.

Ólafur Torfason var að venju allt eins hrikalegur og hann á kyn til og skilaði 21/19. Eins verður að geta framlagi Róberts Sigurðssonar í krönsinu. Frýs í æðum blóð!

Það verður örugglega bullandi fjör í úrslitaeinvíginu, en þið þekkið okkur, auðvitað verðum við að bjóða upp á smá skammt af leiðindum. 

Hvaða erindi haldið þið að Höttur eigi upp í úrvalsdeild, þegar 840 sinnum stærri klúbbur eins og Valur fer upp annað hvert ár og en drullar alltaf strax á sig og vinnur varla leik?

Ætla mætti að Fjölnir ætti meira erindi í deild þeirra bestu en Höttur, enda miklu stærri klúbbur með 7.489 sinnum fleiri iðkendur og allt það. 

En eins og Valsmennirnir hafa reyndar sýnt okkur, skiptir stærð félaganna svo sem ekki öllu máli. Þeir virðast fullfærir um að drulla á sig hvort sem koma 20 manns eða 200 manns á leikina - og hvort sem sjoppan er tveir eða tvöhundruð fermetrar. 

Við áttum okkur ekki alveg á metnaði Valsmanna, eða öllu heldur skorti þar á. Kannski er metnaðurinn meiri við Lagarfljótið en á Hlíðarenda. Hann verður amk að vera það ef Höttur rambar nú upp. Annars verður þetta eitthvað neyðarlegt.

En nóg af svona leiðindum. Fjölnir á auðvitað að vera uppi í Úrvalsdeildinni. Það má vel vera að Grafarvogspiltarnir séu Arsenal íslenska körfuboltans, en þeir ná nú yfirleitt að hlaða í þokkalegasta lið inn á milli þess sem þeir dæla hverjum gæðaleikmanninum á eftir öðrum til útlanda og í önnur lið hér heima.

Gætum við samt fengið að sjá Fjölnir taka einn vetur með alla sína menn? Þetta eru ekki að verða neinir smá karlar sem hafa verið að koma frá Fjölni og eru ýmist í atvinnumennsku eða í lykilhlutverkum í öðrum liðum. Pant.

Hvað Hött varðar, væri auðvitað gaman fyrir félagið að fá aðeins að reyna fyrir sér í efstu deild, þó varla yrði til annars en að vera gólfmotta í nokkra mánuði. Þeir sem fylgjast eitthvað með í körfunni á annað borð, vita hvað er rosalegur styrkleikamunur á liðunum í efstu og næstefstu deild.

En, já. Nokkrar myndir.









Rusl vinnur drasl, á flautunni


Þú kemur ekki að tómum kofanum hjá Detroit Pistons þegar kemur að því að tapa körfuboltaleikjum. Í myndbrotinu hérna fyrir neðan sérðu liðið tapa skemmtilega fyrir Clevelans á flautunni. Það er Dion Waiters sem lokar þessu fyrir Cleveland-draslið, meðan Detroit-hræið horfir bjargarlaust á. Alveg rúmlega fimmtíu áhorfendur þarna í Detroit eins og venjulega. Æði bara.

Smá abstrakt í boði Stjána








































Það er fátt eðlilegt við Ronald Jerome "Popeye" Jones, aðstoðarþjálfara Indiana Pacers. 

Hann frákastaði eins og kolkrabbi á sínum tíma og virðist hafa eitthvað vit á körfubolta þó hann líti ekki út fyrir að vera mikið greindari en notuð Nilfisk-ryksuga.

Ekki vann maðurinn í genalottóinu, svona útlitslega séð, en hann er sannarlega kómískur að sjá. Það var staðfest í nótt þegar "Stjáni" bauð upp á þessa tvo stórkostlegu svipi á þeim stutta tíma sem myndavélar ESPN sjónvarpsstöðvarinnar pönnuðu yfir grillið á honum. 

Hversu kjörið er þetta viðurnefni samt? Pop-eye? Stundum er einmitt engu líkara en að augun séu að poppa út úr hausnum á honum.

Fyrst bauð hann upp á þennan lúmska ráðabruggs-Stjána, sem er algjör Dawg!



Og svo hjólar hann í Popp-augun aftur - svona eins og einhver hafi sagt honum að David Moyes hafi verið útnefndur knattspyrnustjóri mánaðarins!



Ah, þessi fagmaður.

Wednesday, March 26, 2014

Vestlæg átt, þykknar upp síðdegis


Hérna er tafla sem sýnir hvaða tíu lið í NBA deildinni hafa skarað fram úr í tölfræðinni í síðustu tíu leikjum. Þarna sérðu hvar liðin ranka í sókn, vörn og svo heilt yfir. Eitthvað þarna sem vekur sérstaklega áhuga þinn?

Það þarf ekki að koma á óvart að 90% liðanna á listanum séu úr Vesturdeildinni, sérstaklega þegar Miami og Indiana eru í skitukeppni þessa dagana. Sannarlega saga til næsta bæjar að Toronto af öllum liðum sé með þessi læti, eitthvað sem fáir hefðu séð fyrir.


Knicks heldur áfram að gefa



Varst þú einn af þeim sem fór í dramakast þegar við sögðum að Knicks-liðið þitt væri drasl um daginn?

Vonandi ekki, því Nix sótti Lakers heim í nótt og lét drulla yfir sig. Hið sögufræga Lakers-lið hefur aldrei í sögunni verið lélegra og það er grínlaust alveg hægt að kalla Lakers D-deildarlið eins og NBA lið ef tekið er mið af mannskapnum sem Mike D´Antoni þjálfari hefur úr að moða.

Þeir Kobe Bryant, Pau Gasol og Steve Nash eru kannski ekki nógu sterkir leikmenn orðið til að gera Lakers að meistaraefni, en það munar sannarlega um að hafa þá alla í jakkafötum.

Það kom þó ekki að sök þegar New York kom í heimsókn í Staples höllina í nótt.

New York á að heita í baráttu um sæti í úrslitakeppninni! Einmitt.

Í stað þess að reyna að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni, ákvað New York auðvitað frekar að tapa leiknum og setja félagsmet með því að fá á sig FIMMTÍU OG EITT STIG í þriðja leikhlutanum!

Á móti leikmönnum eins og Wesley Johnson, Kendall Marshall, Jodie Meeks, Ryan Kelly, Xavier Henry, Nick Young, Robert Sacre, Kent Bazemore, MarShon Brooks og Chris fokkíng Kaman!

Þessi karakterslausi mannskapur hjá New York ætti að skammast sín, en gerir það sannarlega ekki. Liðið er löngu hætt að hlusta á orð af því sem Mike Woodson þjálfari er að pípa, svo hann er dauðari maður í gönguferð en nokkru sinni fyrr - og ekki hefur verið lognmollan í kring um hann að undanförnu.

Þetta er með ólíkindum. Phil Jackson hefur örugglega parkerað svarta Parker-pennanum sínum í kvöld og tjáð sig í svörtu bókina með rauðum, feitum túss. Það væri réttast að setja þessa aumingja hans alla með tölu á tombólu uppi í Torfufelli.

Við látum svo fylgja með nokkrar myndir úr leiknum í nótt, þar sem þið takið eftir því hvað D-drengirnir hjá Lakers eru alveg að hata þetta allt saman, meðan ráðaleysið skín úr andlitum Nix-manna.







Sunday, March 23, 2014

San Antonio á það til að vinna 50 körfuboltaleiki


Gettin´ Jiggy wit it og Candle in the wind voru að gera góða hluti í radíóinu (enda er það oftast viðbjóður sem er að gera góða hluti í radíóinu), Michael Jordan var stigakóngur og verðmætasti leikmaður NBA-deildarinnar og Dennis Rodman varð frákastakóngur með fimmtán stykki í leik.

Þetta var að sjálfssögðu árið 1998 og það er einmitt árið sem Tim nokkur Duncan kom inn í NBA deildina, hrifsaði til sín pennann og byrjaði að breyta NBA sögunni.

Árið áður, vann San Antonio aðeins 20 leiki í deildakeppninni, þegar  David Robinson var meiddur og Spurs-liðið skipti með mestu ánægju um gír og tankaði hressilega. Fyrir vikið fékk það Duncan í skóinn og síðan hefur allt verið hönkí-dorí.

San Antonio er þegar búið að vinna 50 leiki í deildakeppninni nú og er þetta hvorki meira né minna en SAUTJÁNDA árið í röð sem Spurs nær þessum frábæra árangri.

Okkur fjandans sama um *-stjörnuna sem jafnan er látin er fylgja með þessari tölfræði Spurs af því liðið náði tæknilega ekki 50 sigrum í verkbanninu um aldamótin.

Vinningshlutfallið var hinsvegar svo gott að liðið hefði ekki verið í neinum vandræðum með þetta. Sjáðu bara síðasta verkbann, þar sem aðeins voru spilaðir 66 leikír í deildakeppninni.

San Antonio vann SAMT fimmtíu leiki.

Þetta er rugl.

Við getum meira að segja farið aftar i söguna og þá kemur í ljós að Spurs hefur unnið 50 leiki eða meira á 20 af síðustu 21 árum í NBA deildinni.

Það þarf vart að taka fram að ekkert lið í sögunni hefur náð viðlíka árangri/stöðugleika.

Þessi klúbbur er eins og lygasaga. Á eflaust eftir að verða samkeppnishæfur í tíu ár í viðbót með þennan mannskap. Hverjum kæmi það svo sem á óvart...




Saturday, March 22, 2014

Viðbjóðnum er hampað


Vitið þið hvað er það skelfilegasta við lélegu afsökunina af körfuboltaliði sem er Philadelphia 76ers? Það er ekki sú staðreynd að liðið sé búið að losa sig við alla leikmenn sína, suma ódýrt, og bjóði stuðningsmönnum sínum upp á D-deildarleiki á verði NBA leikja.

Heldur ekki sú staðreynd að liðið er búið að tapa 23 leikjum í röð og hefur alla (leir)burði til að slá NBA met Cleveland (26) yfir flest töp í röð. Og heldur ekki að þrátt fyrir allt þetta, sé Philadelphia EKKI í neðsta sæti í deildinni!

Sá heiður fellur í skaut Milwaukee Bucks - liðs sem myndi ekki verða sér meira til skammar þó það skráði sig til leiks í Peffsídeildinni í sumar.

Nei, það versta við þetta allt saman, er að það gerðist ekki fyrr en í þessari viku að Sixers yrði stærðfræðilega úr leik með að vinna sér sæti í úrslitakeppninni. ÞAÐ er grátlegt.

Með öðrum orðum, er Austurdeildin svo viðbjóðslega léleg, að tvö lið sem mögulega gætu talist tvö af lélegustu NBA liðum allra tíma, eru ekki úr leik með sæti í úrslitakeppninni fyrr en fjórar vikur eru eftir af deildakeppninni.

ÞAÐ er viðbjóðurinn í þessu öllu saman.

Eðlilega hefur það verið rætt mikið í vetur hvort breyta eigi fyrirkomulaginu í deildakeppninni til að reyna að koma í veg fyrir svona bull eins og lélegustu liðin í NBA eru að bjóða upp á í vetur. Því miður en nákvæmlega enginn metnaður fyrir því að breyta þessu.

Við vitum ekki með ykkur, en við sjáum stóran mun á því að stokka upp og byrja upp á nýtt, eða eyða 82 leikjum í að skíta á gólfið og rukka stórfé fyrir það. Margir halda að það að "tanka" þýði að liðin reyni að tapa. Það er ekki rétt. Öll NBA lið reyna að vinna þegar flautað er til leiks.

Nei, það er skrifstofufólkið sem sér um að tanka, með því að rútta saman og tefla fram liði sem kann ekki körfubolta.

Þá erum við ekki að meina sökum vanhæfni, eins og hjá New York, heldur hreint og klárt plan sem gengur hreint og beint út á að reka alla NBA leikmenn í burtu frá félaginu og fá D-deildarmenn inn í staðinn. Menn sem kunna ekki körfubolta.

Þetta er t.d. Philadelphia að gera núna.

Menn þurfa að verða (mjög) lélegir áður en þeir geta orðið góðir, segir klisjan í NBA deildinni. Því miður er mikið til í því.

Meira að segja besta lið síðustu tveggja áratuga í deildinni lagði grunninn að því með því að tanka - og það hressilega. Já, það var San Antonio Spurs, sem tankaði til að fá Tim Duncan. Ekki hægt að bera mikið á móti þessari aðferðafræði ef hún virkar svona vel, ha?

Okkur er alveg sama. Eins og við sögðum áðan, það er eitt að stokka upp og byrja upp á nýtt með því að henda ungum strákum út í djúpu laugina eins og Seattle/Oklahoma gerði á sínum tíma, annað að bjóða upp á horrorsjóv eins og Sixers er að gera.

En merkilegt nokk, er fólk samt enn að kaupa miða og mæta á leiki hjá Sixers. Mætingin er langt frá því að vera góð, en svo virðist sem fólk láti sig hafa það að mæta, kannski til þess eins og sjá Michael Carter-Williams sýna listir sínar. Fólkið huggar sig við að bráðum komi betri tíð með endalaus lotterípikk í haga og ef það er svona andskoti vitlaust að borga sig inn á svona, hlæja eigendurnir auðvitað alla leið í bankann.

Eitthvað segir okkur samt að karmað gæti átt eftir að blanda sér í málin hjá Sixers í framtíðinni.

Körfuboltaguðirnir eru ekki hrifnir af svona stöffi - það þarf enginn að segja okkur það. Segðu hvað sem þú vilt um þessi mál, okkur þykir svona frammistaða bera vott um metnaðar- og karaktersleysi, en umfram allt eru það reglurnar sem eru út í hött. Þessar reglur eru svartur blettur á langbestu deild í heimi, en því miður sjáum við bara ekkert í spilunum sem gefur til kynna að þetta verði lagað.

Þessum leppalúðum virðist finnast þetta rosalega gaman. Verði þeim að góðu.


Já, veinaðu Úlfur, Úlfur*


Það er ljúft að fá loksins tækifæri til að vera í byrjunarliði í NBA deildinni. Eða svo virðist vera ef við skoðum feril nýliðans Gorgui Dieng ( í treyju númer fimm á myndinni hérna fyrir neðan) hjá Úlfunum.

Senegalinn síkáti var ekki búinn að fá nema það sem kallað er ruslmínútur í vetur en var hent í byrjunarliðið á dögunum eftir að Úlfarnir misstu þrettánþúsundfjögurhundruðogáttunda leikmanninn sinn í meiðsli.

Jæja, hann var ekki lengi að svara kallinu og er búinn að skila 15 stigum, 14 fráköstum og 2 vörðum skotum í þeim þremur leikjum sem hann hefur verið í byrjunarliðinu.

Á fimmtudagskvöldið bauð drengurinn svo upp á 22 stig og 21 frákast í tapi Úlfanna gegn Houston Rockets. Hvar endar þetta, er fólk eflaust farið að spyrja.

Það hafa jú ekki nema þrír leikmenn verið með svona læti í fyrstu þremur leikjunum þeir komu inn í byrjunarlið á síðustu tuttugu árum í deildinni (DeJuan Blair hjá Spurs (2x), Joe Smith (2x) hjá Warriors og auðvitað Tim Duncan hjá Spurs skv. tölfræði Elíasar og ESPN).

Æ, við verðum að reyna að finna eitthvað jákvætt hjá Úlfunum í vetur - ekki eru þeir að fara í úrslitakeppnina. Það getur ekki talist líklegt.**

Það eru meira en tveir mánuðir síðan þeir sem rýna í tölfræði fyrir lengra komna, lýstu því yfir að það væri ekki séns að Úlfarnir færu í úrslitakeppnina.

Okkur þótti sem þessir tölfræðingar (gott ef Kevin Pelton var ekki einn þeirra) dálítið snemma í því að dæma Úlfana okkar úr leik, en það er að koma á daginn að þeir voru sannspáir. Meira að segja jinx eins og þetta er ekki nóg til að koma Úlfunum í úrslitakeppnina. Og það er sorglegt.

Vissulega eru meiðsli búin að setja strik í rekninginn hjá Minnesota í vetur, en það er bara fastur liður hjá þessu liði og verður alltaf. Stjörnurnar hjá þessu liði spila bara ekki meira en 60-80% þeirra leikja sem eru í boði, nú eða náttúrulega minna en það.

Það nöturlega við þetta allt saman er ekki meiðslin. Það sorglega við það að Úlfarnir skuli nú vera að missa af úrslitakeppninni tíunda árið í röð, eða síðan Sam Cassell (20/7) og Kevin Garnett (24/15/5/2) fóru fyrir því og komu því alla leið í úrslit Vesturdeildar.

Sjáðu bara hvað þeir eru ánægðir með sig hérna til hægri. Þeir máttu svo sem vera það, þeir voru flottir þessir karlar.

Þá, eins og nú, er aldrei að segja hvað hefði gerst ef meiðsli hefðu ekki fokkað þeim upp á versta tíma.Við getum reynt að horfa áfram á björtu hliðarnar. Við getum reynt að fókusera á það að Úlfarnir eru hægt og bítandi búnir að vera að bæta sig undanfarin ár.

Það er reyndar helvíti erfitt að ná annað en betri árangri þegar lið vinnur bara 15 leiki allan veturinn, en Minnesota er búið að bæta sig frá 15 sigrum, í 17 sigra, í 26 sigra, í 31 sigur og er þegar komið með 34 sigra þegar þetta er ritað og því öruggt með besta árangur sinn síðan 2005 (44 sigrar).

Vandamálið er bara að þetta er ekki nóg í Vesturdeildinni í NBA. Þetta er ekki Austurdeildin, þar sem þú getur tapað sjö leikjum í röð án þess að það hafi nokkur áhrif á möguleika þína á að komast í úrslitakeppni. Þetta er Vesturdeildin, þar sem þú ert beisikklí fögt ef þú tapar 2-3 leikjum í röð.

Sjáið bara lið eins og Portland og Phoenix. Portland er búið að öskubuskast í toppbaráttunni í allan vetur, en er nú búið að lenda í smá mótlæti og er komið niður á jörðina.

Liðið sem var að elta San Antonio og Oklahoma á toppnum hálfan veturinn, má núna þakka fyrir að mæta ekki San Antonio eða Oklahoma í úrslitakeppninni og verða sópað út eins og hverju öðru rusli.

Phoenix var sömuleiðis búið að Spútnika yfir sig í allan vetur, en þarf sem komið er á kraftaverki að halda til að komast í úrslitakeppnina. Þrátt fyrir að vera með 57% vinningshlutfall og vera, án gríns, búið að vinna fjórum sinnum fleiri leiki en spár gerðu ráð fyrir í haust.

En vandamál Úlfanna er ekki bara sú staðreynd að liðið spilar í þessari ógnarsterku Vesturdeild. Það tekur okkur óhemju sárt að þurfa að segja þetta, en ákveðin sannleikur liggur fyrir varðandi Úlfana í vetur. Ákveðin staðreynd sem komið hefur í ljós, sama hvað meiðsli hafa reynt að fela hana.

Minnesota er bara ekki nógu gott lið.

Úlfarnir eiga sér nokkra grjótharða stuðningsmenn á Íslandi og á tímabili var orðið ansi þétt setið á Úlfavagninum góða. Allur þessi pótensjal sem þetta lið hafði! Þess var framtíðin, var ekki svo?

Öll héldum við að Rubio yrði betri, að Love yrði betri, að Pekovic yrði betri. Og að þessir aukaleikarar sem liðið var að safna í kring um þá og líma saman með sterkum þjálfara eins og Adelman?

Ef þetta lið drullaðist einhvern tímann til að haldast heilt nógu lengi, væri það að sjálfssögðu á leið beint í úrslitakeppninna - var það ekki?

Nei, nefnilega ekki. Meiðslin hafa reyndar haldið áfram að hrjá liðið, svo mikið að við erum búin að lýsa því yfir að þau séu komin til að vera, en það er ekki bara það. Minnesota er bara ekki nógu gott lið.

Alltaf er þetta spurnin um sömu hlutina. Minnesota er ekki nógu gott varnarlið, Ricky Rubio getur (alls, alls, alls) ekki skotið, Love og Pekovic eru gjörsamlega vonlaus varnarframlína, liðið ver engin skot, er ekki með neinar skyttur og bekkurinn hjá því er rusl.***

Kevin Love er alltaf með klámfengna tölfræði og árið í ár er þar engin undantekning. Rubio og Pekovic eru strangt til tekið búnir að bæta sig í tölfræðinni, en það sem er að þessu liði kemur ekki alltaf fram í tölfræðinni, nema kannski þetta með þá staðreynd að Össur Skarphéðinsson er sennnilega betri skytta en Ricky Rubio.

Kannski er það bara í takt við þetta að liðið sé að bæta sig örlítið ár frá ári, bara alls ekki eins mikið og við - hin óþolnimóða Twitter-kynslóð - er að óska eftir. En það er ekki bara okkar óþolinmæði.

Örfáir sigrar upp á við á ári eru bara ekki nóg ef það skilar ekki í það minnsta sæti í úrslitakeppni. Það ætti að vera ljóst, nú þegar Kevin Love er allt nema farinn frá félaginu

Sagt er að versti staðurinn til að vera á í NBA deildinni sé í meðalmennskunni - að vera svona Atlanta Hawks - lið sem þið munið að fór í úrslitakeppnina ár eftir ár eftir ágætis deildakeppni, en var svo alltaf slegið út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Ef þú getur ekki fengið til þín menn með lausa samninga og færð aldrei almennilega nýliða af því þú velur alltaf í kring um 20, eru líkurnar á því að þú bætir þig ansi litlar, alveg sama hvað þú ert með efnilegt lið.

Minnesota getur reyndar ekki einu sinni státað af því að detta út úr úrslitakeppninni í fyrstu umferð. Það gerði það á árunum með Kevin Garnett, þegar það datt 87 ár í röð í fyrstu umferð þegar það var fast í 50% vinninshlutfallinu. Það er líka ömurlegur staður til að vera á.

Það væri rosalega auðvelt fyrir svona hrokagikki eins og okkur að sitja hérna og segja Minnesota að það sé kominn tími til að stokka upp og breyta til - reyna eitthvað nýtt.

En það er bara sorglega líklegt að slík ákvörðun verði tekin fyrir félagið, þegar Kevin Love klárar samninginn sinn og fer (til Los Angeles). Og hvað verður þá til ráða?

Nei, smáklúbbur úr sveit eins og Minnesota Timberwolves getur ekki leyft sér jafn yfirgripsmiklar aðgerðir eins og að fara að kasta frá sér stórstjörnunni sinni eða bestu leikmönnunum sínum bara af því að liðið er ekki að bæta sig í nógu stórum stökkum. Líklega er þolinmæðin það eina sem er í stöðunni hjá Úlfunum.

Verstur fjandinn fyrir okkur og alla hina aðdáendur liðsins, er að við verðum örugglega öll farin að horfa eitthvað allt annað ef þessi þolinmæði ber einhvern daginn ávöxt.

Og þó...

Það er svo létt að hoppa á vagninn aftur.

---------------------------------------------------------------------------------------

* -- Þetta orti Megas einu sinni og líkurnar á því að við höfum notað þetta í fyrirsögn áður, eru betri en líkurnar á því að Úlfarnir komist í úrslitakeppnina - svo mikið er handvíst.

** -- Eins og hendi hafi verið veifað, er lítill "sælar stelpur, Gorgui hérna"-pungur búinn að breytast í stóran hlemm um endalausa ógæfu Úlfanna. Þarna gefst ykkur sjaldgæft tækifæri til að öðlast innsýn í brjálaða starfshætti ritstjórnar NBA Ísland. Fjandinn er fljótur að verða laus.

*** --  1.) Mótherjar Minnesota skjóta 63% undir körfunni. Langhæsta hlutfall í allri deildinni. Andstæðingar Indiana skjóta 51% undir körfunni (best í NBA).

2.) Minnesota ver fæst skot allra liða í NBA deildinni. Ronny Turiaf ver flest skot í liðinu (1,7) og enginn annar leikmaður (sem fær marktækar mínútur) er nálægt því að verja eitt skot í leik. Turiaf ver því helming skota liðsins. Til samanburðar má geta þess að Michael Jordan varði best 1,6 skot í leik með Chicago og Dwyane Wade 1,3 í tvígang. Þeir eru/voru jú bakverðir.

3.) Aðeins varamannabekkir Indiana, Washington, Toronto og Portland skora minna en bekkur Úlfanna, sem skilar liðinu 26 stigum í leik. Þá skilar bekkur Úlfanna aðeins 39,7% skotnýtingu, nánast sömu nýtingu og bekkur Golden State, en þessir tveir eru í langneðsta sæti í deildinni - meira en tveimur prósentustigum fyrir neðan næsta lið. San Antonio er að sjálfssögðu efst í þessum tölfræðiflokki - bekkur Spurs er með 48,8% skotnýtingu.

Wednesday, March 19, 2014

Meira hlaðvarp


Eins og við greindum frá í gær hefur NBA Ísland nú sent frá sér tvö ný hlaðvörp. Í 20. þættinum í gærkvöldi fengum við að heyra í Kjartani Atla Kjartanssyni, en í 21. þættinum - sem nú er dottinn inn á síðuna - var slegið á til ritstjóra vefsíðunnar karfan.is.  Þar er á ferðinni einn Jón Björn Ólafsson, sem deilir með okkur hvernig hann sér fyrir sér að málin þróist hjá strákunum í bökudeildinni, þar sem úrslitakeppnin hefst annað kvöld. Þú getur sótt þáttinn hérna, en þú vissir það nú orðið.

(Mynd: Jón Björn ræðir við Dag Kár Jónsson, bakvörð Stjörnunnar).

Nýtt hlaðvarp



Úrslitakeppnin í úrvalsdeild karla í körfubolta byrjar á fimmtudagskvöldið.

Hlaðvarp NBA Ísland hitar upp með því að heyra í tveimur köppum sem þekkja deildina inn og út, en þeir segja okkur hverju er að búast í rimmunum fjórum.

Fyrri viðmælandi Baldurs Beck í hlaðvarpinu er Kjartan Atli Kjartansson, fyrrum leikmaður Stjörnunnar, en hann verður nú klæddur í jakkaföt þegar hann sé félaga sína á kunnuglegum slóðum í úrslitakeppninni - að etja kappi við Keflavík. Eins margir muna hefur verið grannt á því góða milli þessara tveggja liða og því gætum við átt á bæði jafnri og harðri baráttu í þessu einvígi.

Þeir Baldur og Kjartan líta svo auðvitað á hin einvígin þrjú; KR-Snæfell, Grindavík-Þór og Njarðvík-Haukar. Rimmurnar hefjast á fimmtudag og föstudag, svo það er upplagt að heyra hvað Kjartan hefur um málin að segja.

Næsti viðmælandi á dagskránni er svo ritstjóri karfan.is - Jón Björn Ólafsson - en viðtalið við hann verður komið inn á Hlaðvarpssíðuna áður en úrslitakeppnin hefst, svo það er um að gera að fylgjast vel með á NBA Ísland núna.

Fullt af fólki hefur enn ekki hugmynd um að NBA Ísland sé að bjóða upp á hlaðvarp, sem er ekkert spes. Myndin hérna fyrir neðan ætti þó að gefa nokkrar vísbendingar um leyndarmálið og hvernig nálgast má nýjustu hlaðvarpsþættina með því að smella á nokkra hnappa.
























Nú, ef allir tenglarnir þarna fyrir ofan eru ónýtir og myndin segir þér ekki neitt, gefum við þér einn séns í viðbót til að nálgast góðgætið - og það er með því að smella þá hér.

Eins er ykkur að sjálfssögðu alltaf frjálst að leggja okkur hérna á ritstjórninni lið með frjálsum framlögum. Það getið þið gert með því að smella á gula hnappinn til hægri á síðunni sem á stendur "Þitt framlag" (sjá: myndina hér fyrir ofan) og leggja upphæð að eigin vali í púkkið í gegn um paypal-þjónustuna. Ef þú hefur ekki tök á að nota hana, en langar að leggja okkur lið, máttu senda línu á nbaisland@gmail.com.

Framlög lesenda síðunnar eru ómetanlegur partur af starfinu á ritstjórninni, því þau hjálpa til við rekstrarkostnaðinn. Rétt er að nota þetta tækifæri og þakka þeim sem hafa lagt okkur lið sérstaklega fyrir hjálpina. Þið eruð ómissandi partur af liðinu.

Saturday, March 15, 2014

Hvað ætlar Phil Jackson að gera í New York?


Þegar stórmenni eins og Phil Jackson ráða sig í vinnu, er það jafnan í áhrifastöður hjá alvöruklúbbum. Annað væri enda óeðlilegt. Hvað ætti svo sem sjötugur og þrettánfaldur NBA meistari eins og Jackson að gera með að fara að hella sér út í járnabindingar, meindýraeyðingu eða þjálfa Milwaukee?

Þeir sem hafa haldið niðri í sér andanum yfir því hvort Knicks-orðrómurinn um Phil Jackson væri réttur, geta nú loksins andað frá sér og haldið áfram að lifa sínu eðlilega lífi. Ef þessir sömu aðilar ætla hinsvegar að sjúga inn annan lítra af lofti og halda niðri í sér andanum meðan Jackson losar um hnútana og kemur Knicks aftur á kortið sem alvöru körfuboltaliði, er illa fyrir þeim komið.

Þess vegna erum við að skrifa um þetta nokkur orð. Við erum að vara stuðningsmenn Knicks við því að missa sig í gleðinni. Er það ekki dæmigert af þessari bölsýnu, leiðinlegu og neikvæðu ritstjórn? 

Í þessum pistli færðu að vita hvaða helstu skilyrði þú þarft að uppfylla ef þú hyggst byggja upp samkeppnishæft lið í NBA deildinni, þar sem óguðlegt verkefni Phil Jackson hjá Knicks verður haft til hliðsjónar.

Það er ógeðslega létt að setjast við lyklaborð og skrifa nokkur orð um að það sé meira en að segja það að rétta Knicks-skútuna af og koma henni aftur á siglingu.

Skrifa, að þú gætir ekki komið Knicks á toppinn á ný þú þú nytir aðstoðar Frank Underwood, Walter White, Völu Matt, Leðurblökumannsins, Kim Larsen, Herra T, Vreni Schneider, gaursins sem lék Gunther í Friends og Jesúsar frá Nasaret.

Verkefnið er svo risavaxið að meira að segja Phil Jackson - einn sigursælasti maðurinn í sögu körfuboltans - gæti ekki leyst það.

Jackson, sem vann titlana sína tvo sem leikmaður þegar hann spilaði með Knicks fyrir fjörutíu árum síðan, gerir sér örugglega grein fyrir því eins og allir aðrir að verkefnið að koma Knicks aftur á toppinn er eins og að ausa hafið með skel.

En af hverju er hann þá að taka þessu djobbi? Maðurinn sem hefur hingað til ekki verið mikið fyrir það að eyða tíma sínum í eitthvað rugl, heldur stefnt að því að vinna titla með hjálp alvöru körfuboltamanna - Michael Jordan, Shaquille O´Neal og Kobe Bryant, svo einhverjir séu nefndir.

Fyrir það fyrsta er Jackson auðvitað að skipta um vettvang núna, því hann er að setjast alveg á skrifstofuna og lætur öðrum eftir að þjálfa. Enginn veit nákvæmlega hvert hlutverk Jackson verður hjá Knicks, en í okkar huga eru þó nokkur atriði alveg augljós.
Fyrir það fyrsta, er maðurinn ekki að vinna kauplaust, það er á hreinu. Það skiptir máli fyrir hann, en ekki Knicks, sem er opinn hraðbanki sem aldrei tæmist.

Hjá Knicks er hann að vinna hjá félagi þar sem hann nýtur mikillar virðingar, ekki bara sem sigursælasti þjálfari NBA-sögunnar, heldur líka af því hann spilaði með klúbbnum á sínum tíma og var í síðasta og eina Knicks-liðinu sem vann meistaratitil (1971 og 1973). 

Það hjálpar mikið á vinnustaðnum að vera með gott kaup, njóta virðingar og síðast en ekki síst - að vera ekki að vinna fyrir kærustuna sína og mág sinn líkt og þegar hann var á mála hjá Lakers síðast. 

Lakers var ekki tilbúið að ganga að skilyrðum Jackson þegar til stóð að ráða hann sem þjálfara í þriðja sinn á sínum tíma. Félagið var ekki tilbúið að opna budduna upp á gátt og heldur ekki að ganga að þeim skilyrðum sem Jackson setti varðandi keppnisferðalög og annað sem hafði með heilsu hans að gera. Það gleymist að Jackson er ekkert unglamb og hefur verið í vandræðum með heilsuna. 

Það var pínulítið klúðurslegt hvernig Phil Jackson skildi við Lakers síðast (reyndar ekki í fyrsta sinn) og þar vegur þyngst hvernig gengið var framhjá honum á elleftu stundu þegar gengið var frá ráðningunni á Mike D´Antoni á sínum tíma. 

Því má reikna með því að Jackson beri engan sérstakan hlýhug til Jim Buss og stjórnar Lakers og ef þessi ráðning hans hjá Knicks nú verður ekki til neins annars en að senda Buss-börnunum (fyrir utan kærustu hans Jeanie) og öðrum forráðamönnum Lakers hringsettan fingurinn, er hún örugglega þess virði fyrir Jackson. 

Nærvera Jackson ein, ætti að gefa Knicks trúverðugleika á leikmannamarkaðnum sem félagið hefur ekki búið yfir síðan Pat Riley var þar í brúnni fyrir tuttugu árum. Sú staðreynd að Jackson er búinn að skrifa undir þýðir að vægi Knicks er strax orðið talsvert meira en það var fyrir mánuði síðan.

Það eina sem félagið hefur haft upp á að bjóða síðustu ár er sú staðreynd að það er staðsett í einni merkilegustu borg í heimi, sem þar að auki er mekka körfuboltans. Miami hefur hinsvegar Pat Riley, hringana hans og vatnsgreiðslu - veðurfar, glans og guggur á Suðurströnd.

Við trúum því ekki að Phil Jackson sé bara að ráða sig til Knicks til að ulla á Lakers, fjandakornið. Eitthvað meira hlýtur að liggja að baki, hann hefur löngu gefið það út að hann er fjarri því að vera hrifinn af kuldanum þarna fyrir austan. Maðurinn hlýtur að ætla sér að ná árangri þarna eins og hann hefur gert allar götur síðan hann vann fyrsta meistaratitilinn sinn sem þjálfari árið 1991. Forsendurnar til þess eru bara ekki til staðar. Þess vegna erum við öll dálítið forvitin og í raun steinhissa á því hvað Jackson er að pæla með þessu.

Heldur maðurinn í alvörunni að hann geti náð árangri með Knicks? 

Langar hann kannski að ná að feta í fótspor Pat Riley forseta Miami Heat með því að verða meistari á þriðja stigi leiksins? 

Það hafa fáir gert, en Jackson veit að menn eins og Riley og Jerry West njóta talsverðrar virðingar fyrir skrifstofustörf sín ofan á sigra sem leikmenn og þjálfarar.

Jackson er auðvitað búinn að vinna miklu fleiri titla en Pat Riley, en ferill Riley er alltaf dálítið sérstakur af því hann hefur náð árangri á öllum þremur stigum leiksins. 

Riley var var rulluspilari í einu frægasta og besta körfuboltaliði allra tíma (Lakers 1972), þjálfaði eitt besta lið allra tíma (Skemmtikraftana hjá Lakers undir stjórn Magic Johnson á níunda áratugnum) og flutti loks til Miami eftir silfurstopp í New York í nokkur ár. Í Miami hefur hann náð að byggja upp tvö mjög sterk lið sem hann hefur gert að meisturum bæði sem þjálfari og síðar skrifstofumaður. 

Afsakið orðbragðið, en þú fokkar ekkert í þessu. Þetta er stórkostlegur árangur.

Auðvitað er smá séns á því að Jackson sé bara að tryggja fleiri kynslóðum afkomenda sinna efnahagslegan farborða með því að taka við nokkrum milljörðum frá bjöllusauðunum sem eru eigendur Knicks, svona rétt áður en hann gerist formlega ellilífeyrisþegi.

En myndir þú ekki frekar tippa á að svona mikill keppnismaður ætlaði í þennan slag til að ná árangri? 

Jú, við líka, en það segir okkur ekkert svo sem. Ekkert konkret á bak við það.

Ef við ætlum að komast að því hverjar raunverulegar fyrirætlanir Jackson eru, neyðumst við því til þess að gefa okkur smá tíma til að greina ástandið og fylgjast með því hvað hann gerir í vinnunni næstu misseri.

Gefum okkur það að Jackson ráði einhverju í nýja djobbinu. New York Knicks er risavaxið batterí og stór klúbbur sem hefur lítið gert annað en að verða sér til skammar síðustu ár. Ef til stendur að breyta því, verður að stokka gjörsamlega upp í dæminu eins og við höfum hvað eftir annað skrifað um á þessu vefsvæði. 

Og ef á að gera breytingar, verða fingraför Jackson væntanlega á verkefninu. Helsta ástæða þess að Knicks-mönnum er ráðlagt að halda ekki niðri sér andanum í biðinni eftir árangri er sú klúbburinn er eins og maður sem er fastur í kviksyndi. 

Því meira sem hann hamast og reynir að bjarga sér á örvæntingarfullan hátt, því hraðar sekkur hann.

Klárustu félögin í NBA deildinni (Lakers) voru oft ótrúlega fljót að stokka upp og byggja upp ný stórveldi - stundum þurftu þau ekki einu sinni að stokka upp. 

Í dag er hinsvegar búið að breyta reglunum svo mikið að svona aðferðafræði er nær ómöguleg. Þú verður helst að drulla konunglega upp á bak, vera lélegur í einhvern tíma og stokka svo allt upp á nýtt áður en þú getur farið að spá í að vinna titla á ný. Meira að segja stærstu klúbbarnir verða að fara þessa leið í dag.

Og það er þetta sem blasir við Knicks í dag. Þetta er auðvitað risastór klúbbur og krafan í Madison Square Garden er alltaf að bjóða upp á keppnishæft lið til að réttlæta bjánalega hátt miðaverðið. 

Það grátlega við þetta er hinsvegar að því meira sem þeir hafa reynt að undanförnu, því verra verður liðið eins og við bentum á í kviksyndislíkingunni áðan.

Knicks er með svívirðilega háan launakostnað og er með stórstjörnur á launaskrá, en það er ekki að skila nokkrum hlut. Því gæti einhver spurt: 

Af hverju þá ekki að "dömpa" bara öllum þessum "stjörnum" og byrja bara upp á nýtt?

Þarna komum við aftur að nýja djobbinu hans Jackson. Hvað myndir þú gera ef þú værir í hans sporum? 

Stærsta spurningin sem blasir við Knicks núna er samningsmálin hjá Carmelo Anthony. Myndir þú semja við hann og reyna áfram að byggja upp lið í kring um hann?

Phil Jackson var frábær þjálfari og vissi upp á hár hvað hann var að gera þegar hann var kominn með mannskap sem passaði vel inn í hugmyndafræði hans, þríhyrningssóknina, kammeratskap og kosmíska krafta. 
En hvað gerir hann nú þegar það kemur í hans hlut að ráða mannskap til að koma Knicks á toppinn?

Við segjum að þetta byrji allt saman á þjálfarastöðunni. Strúktúrinn hjá Knicks er til staðar, það er til nóg af peningum og umgjörðin er flott. 

Núna er bara að halda fund, koma sér saman um stefnu félagsins og byrja að ráða menn í verkefnið. Þetta er hægt að gera ef þú ert Knicks, en allt nema ómögulegt að gera ef þú ert Sacramento eða Minnesota.

Það vill enginn spila þar og rapparar, leikarar og fyrirsætur eru sjaldgæf sjón í dýru sætunum við hliðarlínuna

Efst á blaði er að ráða þjálfara fyrir liðið og það þarf að vera almennilegur þjálfari, ekki Mike Woodson, með fullri virðingu fyrir honum. 

Þetta þarf annað hvort að vera þjálfari sem er með plan og veit hvað til þarf til að búa til meistaralið (Rick Carlisle), eða einhver afburðasnjall maður í yngri kantinum sem sefur á skrifstofunni sinni og er tilbúinn að selja nýrun úr móður sinni til að vinna körfuboltaleiki (Erik Spoelstra).

Svo þarf að finna stórstjörnu, einn af fimm bestu leikmönnum deildarinnar (helst LeBron James eða Kevin Durant, auðvitað), mann sem er svo sterkur að hann myndi gera hvaða lið sem er í deildinni að virkum keppinaut - kandídat í meistaraskap. 

Svona kappar hrista upp í valdajafnvægi deildarinnar og þegar þeir skipta um lið, breytir það öllum hugmyndum manna um titilbaráttu næstu ára. Dæmi um þetta eru þegar Shaquille O´Neal fór frá Lakers til Heat og þegar LeBron James samdi við Miami.

Eins og áður sagði er búið að breyta strúktúrnum í NBA svo mikið að allar svona æfingar eru óhemju erfiðar. Lúxusskattur og leikmannasamningar þýða að aðeins handfylli af klúbbum í deildinni á möguleika á að lokka til sín samningslausa leikmenn. Memphis er ekkert að fara að landa Kevin Love þegar samningar hans losna, bara út af Elvis, vinalegu fólki eða góðum steikum. 

Regluverkið í dag er þannig að stjörnuleikmaðurinn Guðmundur annað hvort heldur áfram að spila hjá liði X þegar samningur hans rennur út hjá félaginu sem hann spilar fyrir - eða hann stingur af og fer eitthvað annað.

Klúbburinn hans Guðmundar getur boðið honum miklu hærri laun en nokkurt annað félag, svo það er umhugsunarvert hvort hann á að taka og Carmelo Anthony á þetta, væla sig út hjá klúbbnum sínum og ganga til liðs stórt og ríkt félag á stórum markaði.

Það sem ræður því að menn fara til stóru klúbbanna er "stærð markaðarins", kúltúrinn og svo auðvitað tekjumöguleikar. 

Þú getur t.d. rétt ímyndað þér hvort Kevin Love hefur meiri möguleika á því að vökva frægð sína og egó og fita hjá sér budduna í Minneapolis eða Los Angeles.

Þarna sjáið þið að það er sannarlega ekki að því hlaupið að byggja upp stórveldi í NBA deildinni. Það hefur satt best að segja aldrei verið erfiðara og þetta á bæði við um smáklúbba og þá stóru. Litlu klúbbarnir (Spurs, Thunder) þurfa bókstaflega að vinna í Víkingalottóinu sjö helgar í röð til að takast að koma saman meistaraliði. 

Risaklúbbarnir þurfa að vinna tvær vinnur og allar helgar, vera með klárt fólk á skrifstofunni, í þjálfun og frábæra leikmenn, ótakmarkað fjármagn og vorubílshlass af heppni til að gera sama hlut.

Möguleikar stóru klúbbanna á því að hlaða í meistaralið eru sem sagt takmarkaðir, sem þýðir jafnframt að möguleikar litlu klúbbanna eru astrónómískir

Og það þrátt fyrir að David Stern hafi um árabil verið að reyna að stilla regluverkið þannig að Davíð ætti smá séns í Golíat svona inn á milli.

Það má svo deila um ágæti þessarar jafnaðarstefnu fram á nótt, en það verður ekki gert hér.

Þannig að...

Það er sem sagt ekki víst að við sjáum einhverja risavaxnar breytingar hjá Knicks alveg strax, einfaldlega af því félagið er svo mikil rjúkandi rúst að það er ekki gott að sjá hvar best er að byrja. 

Við sögðum ykkur að þeir þyrftu að stokka upp - og það þurfa þeir að gera - en þeir verða að vera dálítið útsjónarsamir með það hvernig þeir fara að því.

Fyrsta og annað skrefið í uppstokkun hjá Knicks er Carmelo Anthony og við spáum því að við eigum eftir að læra mikið inn á tilætlanir Jackson og félaga þegar við sjáum hvernig þeir standa að ´Melo-málum. 

Félagið er reyndar svo efnað að það getur svo sem vel verið að það framlengi bara samninginn við Anthony hvort sem það ætlar sér að stokka upp eða ekki. 

Það má alltaf djassa upp einhverja díla með menn eins og Carmelo Anthony, málið er bara að reyna að gelda félagið ekki of langt inn í framtíðina (sjá: Bryant, Kobe og Lakers).

Við höfum oftar en einu sinni viðrað skoðanir okkar á Carmelo Anthony á þessu vefsvæði. Hann er einn besti stigaskorari jarðarinnar, en að okkar mati er hann ekki heppilegur kjarnaleikmaður til að byggja upp meistaralið í kring um.

Það eru um það bil þúsund ástæður fyrir því að að Knicks ætti að framlengja við ´Melo eins og skot og einbeita sér að næsta atriði, en að okkar fátæklega mati ætti félagið að losa sig við hann undir eins og reyna að fá eins mikið fyrir hann og unnt er.

Það ætti að vera nokkuð gerlegt enn sem komið er, því Anthony er enn í blóma lífsins og skorar eins og Hollywood-leikari á djamminu í Reykjavík.

Það má vel vera að Phil Jackson sé með plan í vasanum sem gengur út frá því að byggja upp samkeppnishæft NBA lið í kring um Carmelo Anthony á 150 milljón dollara samningi, en okkur er það til efs. 

Jackson er margfalt klárari en við þegar kemur að öllu sem snýst um körfubolta nema kannski lélegum Photoshop-bröndurum og Sasha Vujacic og þess vegna grunar okkur að það eigi ekki eftir að verða pláss fyrir Carmelo Anthony á málverkinu sem Jackson er nú að versla í striga og liti.

Tyson Chandler væri aftur á móti hiklaust maður sem væri inni í okkar plönum ef við værum í stöðunni hans Jackson, en því miður fær hann ekki að gegna stóru hlutverki í pælingunni sökum aldurs. 

Chandler er eini leikmaðurinn í liði New York í dag sem smellpassar inn í svona plön eftir okkar höfði - allt byrjar þetta í varnarleiknum. 

Þið megið ekki misskilja okkur og halda að við séum að drulla yfir ´Melo litla - hann er alveg góður körfuboltamaður - málið er bara að hann er ekki að fara að taka á sig neinar launalækkanir meðan hann er upp á sitt besta og því passar hann ekki inn í þetta skema hjá Knicks. 

Auðvitað gæti hvaða meistaralið sem er vel notað stórskorara eins og Anthony, en vandamálið er bara að það er svo lítill peningur eftir undir launaþakinu þegar hann er búinn að fá borgað að það er ekki hægt að borga restinni af meistaraliðinu okkar meinta laun.

Það er einhvern veginn svona sem við sjáum stöðu mála hjá Knicks í dag. Þetta er veruleikinn sem blasir við Phil Jackson í nýju vinnunni. 

 Forríkt félag á mögulega besta markaði í NBA deildinni sem heldur að það sé samkeppnishæft með því að tefla fram liði sem er blanda af of gömlum, of feitum, of heimskum og of meiddum leikmönnum sem eru allt frá því að vera sæmilegir að getu, niður í að vera bókstaflega kómískir og bara...  fyrir!

Það er orðin spurning um að skipta um vinnu ef þú ert orðin(n) fyrir í vinnunni, en þetta er oft raunveruleiki sem blasir við mönnum eins og Andrea Bargnani, J.R. Smith, Amare Stoudemire, Iman Shumpert, Kenyon Martin og Cole Aldrich svo einhverjir séu nefndir.

Það er hæpið að snillingur eins og Phil Jackson verði í hóp þeirra sem eru bókstaflega fyrir hjá New York Knicks, en í okkar augum er verkefnið sem við honum blasir svo risavaxið að líklega yrði það mesta afrekið hans á hans þó sögulega ferli ef hann næði að gera eitthvað með þetta Knicks-lið. 

Hér er að hefjast eitthvað sem er lygasögu líkast og eins og þetta horfir við okkur, er líklegast að fáir eigi eftir að heyra þessa sögu.

Verði sagan hinsvegar að bók, er ljóst að við erum að tala um verk sem á eftir að seljast meira en biblían og vitnað verður í til eilífðarnóns.

Slíkt er verkefnið sem blasir við Phil Jackson.