Saturday, March 22, 2014
Já, veinaðu Úlfur, Úlfur*
Það er ljúft að fá loksins tækifæri til að vera í byrjunarliði í NBA deildinni. Eða svo virðist vera ef við skoðum feril nýliðans Gorgui Dieng ( í treyju númer fimm á myndinni hérna fyrir neðan) hjá Úlfunum.
Senegalinn síkáti var ekki búinn að fá nema það sem kallað er ruslmínútur í vetur en var hent í byrjunarliðið á dögunum eftir að Úlfarnir misstu þrettánþúsundfjögurhundruðogáttunda leikmanninn sinn í meiðsli.
Jæja, hann var ekki lengi að svara kallinu og er búinn að skila 15 stigum, 14 fráköstum og 2 vörðum skotum í þeim þremur leikjum sem hann hefur verið í byrjunarliðinu.
Á fimmtudagskvöldið bauð drengurinn svo upp á 22 stig og 21 frákast í tapi Úlfanna gegn Houston Rockets. Hvar endar þetta, er fólk eflaust farið að spyrja.
Það hafa jú ekki nema þrír leikmenn verið með svona læti í fyrstu þremur leikjunum þeir komu inn í byrjunarlið á síðustu tuttugu árum í deildinni (DeJuan Blair hjá Spurs (2x), Joe Smith (2x) hjá Warriors og auðvitað Tim Duncan hjá Spurs skv. tölfræði Elíasar og ESPN).
Æ, við verðum að reyna að finna eitthvað jákvætt hjá Úlfunum í vetur - ekki eru þeir að fara í úrslitakeppnina. Það getur ekki talist líklegt.**
Það eru meira en tveir mánuðir síðan þeir sem rýna í tölfræði fyrir lengra komna, lýstu því yfir að það væri ekki séns að Úlfarnir færu í úrslitakeppnina.
Okkur þótti sem þessir tölfræðingar (gott ef Kevin Pelton var ekki einn þeirra) dálítið snemma í því að dæma Úlfana okkar úr leik, en það er að koma á daginn að þeir voru sannspáir. Meira að segja jinx eins og þetta er ekki nóg til að koma Úlfunum í úrslitakeppnina. Og það er sorglegt.
Vissulega eru meiðsli búin að setja strik í rekninginn hjá Minnesota í vetur, en það er bara fastur liður hjá þessu liði og verður alltaf. Stjörnurnar hjá þessu liði spila bara ekki meira en 60-80% þeirra leikja sem eru í boði, nú eða náttúrulega minna en það.
Það nöturlega við þetta allt saman er ekki meiðslin. Það sorglega við það að Úlfarnir skuli nú vera að missa af úrslitakeppninni tíunda árið í röð, eða síðan Sam Cassell (20/7) og Kevin Garnett (24/15/5/2) fóru fyrir því og komu því alla leið í úrslit Vesturdeildar.
Sjáðu bara hvað þeir eru ánægðir með sig hérna til hægri. Þeir máttu svo sem vera það, þeir voru flottir þessir karlar.
Þá, eins og nú, er aldrei að segja hvað hefði gerst ef meiðsli hefðu ekki fokkað þeim upp á versta tíma.Við getum reynt að horfa áfram á björtu hliðarnar. Við getum reynt að fókusera á það að Úlfarnir eru hægt og bítandi búnir að vera að bæta sig undanfarin ár.
Það er reyndar helvíti erfitt að ná annað en betri árangri þegar lið vinnur bara 15 leiki allan veturinn, en Minnesota er búið að bæta sig frá 15 sigrum, í 17 sigra, í 26 sigra, í 31 sigur og er þegar komið með 34 sigra þegar þetta er ritað og því öruggt með besta árangur sinn síðan 2005 (44 sigrar).
Vandamálið er bara að þetta er ekki nóg í Vesturdeildinni í NBA. Þetta er ekki Austurdeildin, þar sem þú getur tapað sjö leikjum í röð án þess að það hafi nokkur áhrif á möguleika þína á að komast í úrslitakeppni. Þetta er Vesturdeildin, þar sem þú ert beisikklí fögt ef þú tapar 2-3 leikjum í röð.
Sjáið bara lið eins og Portland og Phoenix. Portland er búið að öskubuskast í toppbaráttunni í allan vetur, en er nú búið að lenda í smá mótlæti og er komið niður á jörðina.
Liðið sem var að elta San Antonio og Oklahoma á toppnum hálfan veturinn, má núna þakka fyrir að mæta ekki San Antonio eða Oklahoma í úrslitakeppninni og verða sópað út eins og hverju öðru rusli.
Phoenix var sömuleiðis búið að Spútnika yfir sig í allan vetur, en þarf sem komið er á kraftaverki að halda til að komast í úrslitakeppnina. Þrátt fyrir að vera með 57% vinningshlutfall og vera, án gríns, búið að vinna fjórum sinnum fleiri leiki en spár gerðu ráð fyrir í haust.
En vandamál Úlfanna er ekki bara sú staðreynd að liðið spilar í þessari ógnarsterku Vesturdeild. Það tekur okkur óhemju sárt að þurfa að segja þetta, en ákveðin sannleikur liggur fyrir varðandi Úlfana í vetur. Ákveðin staðreynd sem komið hefur í ljós, sama hvað meiðsli hafa reynt að fela hana.
Minnesota er bara ekki nógu gott lið.
Úlfarnir eiga sér nokkra grjótharða stuðningsmenn á Íslandi og á tímabili var orðið ansi þétt setið á Úlfavagninum góða. Allur þessi pótensjal sem þetta lið hafði! Þess var framtíðin, var ekki svo?
Öll héldum við að Rubio yrði betri, að Love yrði betri, að Pekovic yrði betri. Og að þessir aukaleikarar sem liðið var að safna í kring um þá og líma saman með sterkum þjálfara eins og Adelman?
Ef þetta lið drullaðist einhvern tímann til að haldast heilt nógu lengi, væri það að sjálfssögðu á leið beint í úrslitakeppninna - var það ekki?
Nei, nefnilega ekki. Meiðslin hafa reyndar haldið áfram að hrjá liðið, svo mikið að við erum búin að lýsa því yfir að þau séu komin til að vera, en það er ekki bara það. Minnesota er bara ekki nógu gott lið.
Alltaf er þetta spurnin um sömu hlutina. Minnesota er ekki nógu gott varnarlið, Ricky Rubio getur (alls, alls, alls) ekki skotið, Love og Pekovic eru gjörsamlega vonlaus varnarframlína, liðið ver engin skot, er ekki með neinar skyttur og bekkurinn hjá því er rusl.***
Kevin Love er alltaf með klámfengna tölfræði og árið í ár er þar engin undantekning. Rubio og Pekovic eru strangt til tekið búnir að bæta sig í tölfræðinni, en það sem er að þessu liði kemur ekki alltaf fram í tölfræðinni, nema kannski þetta með þá staðreynd að Össur Skarphéðinsson er sennnilega betri skytta en Ricky Rubio.
Kannski er það bara í takt við þetta að liðið sé að bæta sig örlítið ár frá ári, bara alls ekki eins mikið og við - hin óþolnimóða Twitter-kynslóð - er að óska eftir. En það er ekki bara okkar óþolinmæði.
Örfáir sigrar upp á við á ári eru bara ekki nóg ef það skilar ekki í það minnsta sæti í úrslitakeppni. Það ætti að vera ljóst, nú þegar Kevin Love er allt nema farinn frá félaginu
Sagt er að versti staðurinn til að vera á í NBA deildinni sé í meðalmennskunni - að vera svona Atlanta Hawks - lið sem þið munið að fór í úrslitakeppnina ár eftir ár eftir ágætis deildakeppni, en var svo alltaf slegið út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Ef þú getur ekki fengið til þín menn með lausa samninga og færð aldrei almennilega nýliða af því þú velur alltaf í kring um 20, eru líkurnar á því að þú bætir þig ansi litlar, alveg sama hvað þú ert með efnilegt lið.
Minnesota getur reyndar ekki einu sinni státað af því að detta út úr úrslitakeppninni í fyrstu umferð. Það gerði það á árunum með Kevin Garnett, þegar það datt 87 ár í röð í fyrstu umferð þegar það var fast í 50% vinninshlutfallinu. Það er líka ömurlegur staður til að vera á.
Það væri rosalega auðvelt fyrir svona hrokagikki eins og okkur að sitja hérna og segja Minnesota að það sé kominn tími til að stokka upp og breyta til - reyna eitthvað nýtt.
En það er bara sorglega líklegt að slík ákvörðun verði tekin fyrir félagið, þegar Kevin Love klárar samninginn sinn og fer (til Los Angeles). Og hvað verður þá til ráða?
Nei, smáklúbbur úr sveit eins og Minnesota Timberwolves getur ekki leyft sér jafn yfirgripsmiklar aðgerðir eins og að fara að kasta frá sér stórstjörnunni sinni eða bestu leikmönnunum sínum bara af því að liðið er ekki að bæta sig í nógu stórum stökkum. Líklega er þolinmæðin það eina sem er í stöðunni hjá Úlfunum.
Verstur fjandinn fyrir okkur og alla hina aðdáendur liðsins, er að við verðum örugglega öll farin að horfa eitthvað allt annað ef þessi þolinmæði ber einhvern daginn ávöxt.
Og þó...
Það er svo létt að hoppa á vagninn aftur.
---------------------------------------------------------------------------------------
* -- Þetta orti Megas einu sinni og líkurnar á því að við höfum notað þetta í fyrirsögn áður, eru betri en líkurnar á því að Úlfarnir komist í úrslitakeppnina - svo mikið er handvíst.
** -- Eins og hendi hafi verið veifað, er lítill "sælar stelpur, Gorgui hérna"-pungur búinn að breytast í stóran hlemm um endalausa ógæfu Úlfanna. Þarna gefst ykkur sjaldgæft tækifæri til að öðlast innsýn í brjálaða starfshætti ritstjórnar NBA Ísland. Fjandinn er fljótur að verða laus.
*** -- 1.) Mótherjar Minnesota skjóta 63% undir körfunni. Langhæsta hlutfall í allri deildinni. Andstæðingar Indiana skjóta 51% undir körfunni (best í NBA).
2.) Minnesota ver fæst skot allra liða í NBA deildinni. Ronny Turiaf ver flest skot í liðinu (1,7) og enginn annar leikmaður (sem fær marktækar mínútur) er nálægt því að verja eitt skot í leik. Turiaf ver því helming skota liðsins. Til samanburðar má geta þess að Michael Jordan varði best 1,6 skot í leik með Chicago og Dwyane Wade 1,3 í tvígang. Þeir eru/voru jú bakverðir.
3.) Aðeins varamannabekkir Indiana, Washington, Toronto og Portland skora minna en bekkur Úlfanna, sem skilar liðinu 26 stigum í leik. Þá skilar bekkur Úlfanna aðeins 39,7% skotnýtingu, nánast sömu nýtingu og bekkur Golden State, en þessir tveir eru í langneðsta sæti í deildinni - meira en tveimur prósentustigum fyrir neðan næsta lið. San Antonio er að sjálfssögðu efst í þessum tölfræðiflokki - bekkur Spurs er með 48,8% skotnýtingu.
Efnisflokkar:
Ekki er allt sem sýnist
,
Farin að fiska
,
Kevin Love
,
Ricky Rubio
,
Timberwolves
,
Tölfræði
,
Úlfavaktin