Saturday, March 22, 2014

Viðbjóðnum er hampað


Vitið þið hvað er það skelfilegasta við lélegu afsökunina af körfuboltaliði sem er Philadelphia 76ers? Það er ekki sú staðreynd að liðið sé búið að losa sig við alla leikmenn sína, suma ódýrt, og bjóði stuðningsmönnum sínum upp á D-deildarleiki á verði NBA leikja.

Heldur ekki sú staðreynd að liðið er búið að tapa 23 leikjum í röð og hefur alla (leir)burði til að slá NBA met Cleveland (26) yfir flest töp í röð. Og heldur ekki að þrátt fyrir allt þetta, sé Philadelphia EKKI í neðsta sæti í deildinni!

Sá heiður fellur í skaut Milwaukee Bucks - liðs sem myndi ekki verða sér meira til skammar þó það skráði sig til leiks í Peffsídeildinni í sumar.

Nei, það versta við þetta allt saman, er að það gerðist ekki fyrr en í þessari viku að Sixers yrði stærðfræðilega úr leik með að vinna sér sæti í úrslitakeppninni. ÞAÐ er grátlegt.

Með öðrum orðum, er Austurdeildin svo viðbjóðslega léleg, að tvö lið sem mögulega gætu talist tvö af lélegustu NBA liðum allra tíma, eru ekki úr leik með sæti í úrslitakeppninni fyrr en fjórar vikur eru eftir af deildakeppninni.

ÞAÐ er viðbjóðurinn í þessu öllu saman.

Eðlilega hefur það verið rætt mikið í vetur hvort breyta eigi fyrirkomulaginu í deildakeppninni til að reyna að koma í veg fyrir svona bull eins og lélegustu liðin í NBA eru að bjóða upp á í vetur. Því miður en nákvæmlega enginn metnaður fyrir því að breyta þessu.

Við vitum ekki með ykkur, en við sjáum stóran mun á því að stokka upp og byrja upp á nýtt, eða eyða 82 leikjum í að skíta á gólfið og rukka stórfé fyrir það. Margir halda að það að "tanka" þýði að liðin reyni að tapa. Það er ekki rétt. Öll NBA lið reyna að vinna þegar flautað er til leiks.

Nei, það er skrifstofufólkið sem sér um að tanka, með því að rútta saman og tefla fram liði sem kann ekki körfubolta.

Þá erum við ekki að meina sökum vanhæfni, eins og hjá New York, heldur hreint og klárt plan sem gengur hreint og beint út á að reka alla NBA leikmenn í burtu frá félaginu og fá D-deildarmenn inn í staðinn. Menn sem kunna ekki körfubolta.

Þetta er t.d. Philadelphia að gera núna.

Menn þurfa að verða (mjög) lélegir áður en þeir geta orðið góðir, segir klisjan í NBA deildinni. Því miður er mikið til í því.

Meira að segja besta lið síðustu tveggja áratuga í deildinni lagði grunninn að því með því að tanka - og það hressilega. Já, það var San Antonio Spurs, sem tankaði til að fá Tim Duncan. Ekki hægt að bera mikið á móti þessari aðferðafræði ef hún virkar svona vel, ha?

Okkur er alveg sama. Eins og við sögðum áðan, það er eitt að stokka upp og byrja upp á nýtt með því að henda ungum strákum út í djúpu laugina eins og Seattle/Oklahoma gerði á sínum tíma, annað að bjóða upp á horrorsjóv eins og Sixers er að gera.

En merkilegt nokk, er fólk samt enn að kaupa miða og mæta á leiki hjá Sixers. Mætingin er langt frá því að vera góð, en svo virðist sem fólk láti sig hafa það að mæta, kannski til þess eins og sjá Michael Carter-Williams sýna listir sínar. Fólkið huggar sig við að bráðum komi betri tíð með endalaus lotterípikk í haga og ef það er svona andskoti vitlaust að borga sig inn á svona, hlæja eigendurnir auðvitað alla leið í bankann.

Eitthvað segir okkur samt að karmað gæti átt eftir að blanda sér í málin hjá Sixers í framtíðinni.

Körfuboltaguðirnir eru ekki hrifnir af svona stöffi - það þarf enginn að segja okkur það. Segðu hvað sem þú vilt um þessi mál, okkur þykir svona frammistaða bera vott um metnaðar- og karaktersleysi, en umfram allt eru það reglurnar sem eru út í hött. Þessar reglur eru svartur blettur á langbestu deild í heimi, en því miður sjáum við bara ekkert í spilunum sem gefur til kynna að þetta verði lagað.

Þessum leppalúðum virðist finnast þetta rosalega gaman. Verði þeim að góðu.