Wednesday, March 26, 2014

Knicks heldur áfram að gefa



Varst þú einn af þeim sem fór í dramakast þegar við sögðum að Knicks-liðið þitt væri drasl um daginn?

Vonandi ekki, því Nix sótti Lakers heim í nótt og lét drulla yfir sig. Hið sögufræga Lakers-lið hefur aldrei í sögunni verið lélegra og það er grínlaust alveg hægt að kalla Lakers D-deildarlið eins og NBA lið ef tekið er mið af mannskapnum sem Mike D´Antoni þjálfari hefur úr að moða.

Þeir Kobe Bryant, Pau Gasol og Steve Nash eru kannski ekki nógu sterkir leikmenn orðið til að gera Lakers að meistaraefni, en það munar sannarlega um að hafa þá alla í jakkafötum.

Það kom þó ekki að sök þegar New York kom í heimsókn í Staples höllina í nótt.

New York á að heita í baráttu um sæti í úrslitakeppninni! Einmitt.

Í stað þess að reyna að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni, ákvað New York auðvitað frekar að tapa leiknum og setja félagsmet með því að fá á sig FIMMTÍU OG EITT STIG í þriðja leikhlutanum!

Á móti leikmönnum eins og Wesley Johnson, Kendall Marshall, Jodie Meeks, Ryan Kelly, Xavier Henry, Nick Young, Robert Sacre, Kent Bazemore, MarShon Brooks og Chris fokkíng Kaman!

Þessi karakterslausi mannskapur hjá New York ætti að skammast sín, en gerir það sannarlega ekki. Liðið er löngu hætt að hlusta á orð af því sem Mike Woodson þjálfari er að pípa, svo hann er dauðari maður í gönguferð en nokkru sinni fyrr - og ekki hefur verið lognmollan í kring um hann að undanförnu.

Þetta er með ólíkindum. Phil Jackson hefur örugglega parkerað svarta Parker-pennanum sínum í kvöld og tjáð sig í svörtu bókina með rauðum, feitum túss. Það væri réttast að setja þessa aumingja hans alla með tölu á tombólu uppi í Torfufelli.

Við látum svo fylgja með nokkrar myndir úr leiknum í nótt, þar sem þið takið eftir því hvað D-drengirnir hjá Lakers eru alveg að hata þetta allt saman, meðan ráðaleysið skín úr andlitum Nix-manna.