Thursday, March 27, 2014

Grafarvogur versus Egilsstaðir


Spurt er: Hver sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í haust?

"Það verða klárlega Fjölnir og Höttur sem keppa um að fylgja Stólunum í úrvalsdeildina næsta vetur!"

Það er rétt hjá þér. Ekki nokkur maður. Það var enginn svo fjandi fullur.

Fjölnismenn tryggðu sér einvígið við Héraðsbúana í gærkvöldi þegar þeir lögðu Breiðablik 82-77 í æsispennandi umspils-oddaeik í Dalhúsum.

Áður höfðu Hattarmenn sent Þórsara frá Akureyri í sumarfrí. Hér eru á ferðinni liðin sem höfnuðu í 2.-5 sæti í 1. deildinni í vetur. Stólarnir fóru beint upp, en næstu fjögur liðin fóru í umspil.

Það eru ekkert allir með þetta á hreinu (ekki við amk) og því kannski ekki úr vegi að útskýra þetta fyrir leikmanninum.

Kópavogsliðið fór dálítið illa að ráði sínu í gærkvöldi, því það var yfir lengst af í síðari hálfleiknum. Þá tökum við samt ekkert af Fjölnismönnum, sem voru töffarar og settu niður risaskot í lokin, meðan fát kom á Blikana. Þetta leit hreint ekki vel út hjá Fjölni á síðustu mínútunum, en þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem við sjáum þetta lið sýna flottan karakter á ögurstundu í vetur.

Ólafur Torfason var að venju allt eins hrikalegur og hann á kyn til og skilaði 21/19. Eins verður að geta framlagi Róberts Sigurðssonar í krönsinu. Frýs í æðum blóð!

Það verður örugglega bullandi fjör í úrslitaeinvíginu, en þið þekkið okkur, auðvitað verðum við að bjóða upp á smá skammt af leiðindum. 

Hvaða erindi haldið þið að Höttur eigi upp í úrvalsdeild, þegar 840 sinnum stærri klúbbur eins og Valur fer upp annað hvert ár og en drullar alltaf strax á sig og vinnur varla leik?

Ætla mætti að Fjölnir ætti meira erindi í deild þeirra bestu en Höttur, enda miklu stærri klúbbur með 7.489 sinnum fleiri iðkendur og allt það. 

En eins og Valsmennirnir hafa reyndar sýnt okkur, skiptir stærð félaganna svo sem ekki öllu máli. Þeir virðast fullfærir um að drulla á sig hvort sem koma 20 manns eða 200 manns á leikina - og hvort sem sjoppan er tveir eða tvöhundruð fermetrar. 

Við áttum okkur ekki alveg á metnaði Valsmanna, eða öllu heldur skorti þar á. Kannski er metnaðurinn meiri við Lagarfljótið en á Hlíðarenda. Hann verður amk að vera það ef Höttur rambar nú upp. Annars verður þetta eitthvað neyðarlegt.

En nóg af svona leiðindum. Fjölnir á auðvitað að vera uppi í Úrvalsdeildinni. Það má vel vera að Grafarvogspiltarnir séu Arsenal íslenska körfuboltans, en þeir ná nú yfirleitt að hlaða í þokkalegasta lið inn á milli þess sem þeir dæla hverjum gæðaleikmanninum á eftir öðrum til útlanda og í önnur lið hér heima.

Gætum við samt fengið að sjá Fjölnir taka einn vetur með alla sína menn? Þetta eru ekki að verða neinir smá karlar sem hafa verið að koma frá Fjölni og eru ýmist í atvinnumennsku eða í lykilhlutverkum í öðrum liðum. Pant.

Hvað Hött varðar, væri auðvitað gaman fyrir félagið að fá aðeins að reyna fyrir sér í efstu deild, þó varla yrði til annars en að vera gólfmotta í nokkra mánuði. Þeir sem fylgjast eitthvað með í körfunni á annað borð, vita hvað er rosalegur styrkleikamunur á liðunum í efstu og næstefstu deild.

En, já. Nokkrar myndir.