Wednesday, June 29, 2016

The Boss




Ef LeBron James hefði kastað míkrófón í vatn


Við elskum fótbolta. Við spiluðum einu sinni fótbolta og þó við elskum fótbolta ekki eins mikið og körfubolta, fylgjumst við ekki síður með knattspyrnu en Leiknum okkar.

Okkur þykir nauðsynlegt að slá þennan varnagla áður en við byrjum á næstu hugleiðingu, svo fótboltamenn og konur fari ekki að kalla þetta körfuboltaáróður gegn fótbolta eða eitthvað slíkt. Þetta er ekki ætlað sem áróður, þetta er bara atriði sem vakti athygli okkar.

Þannig var að við rákumst á stutt brot úr kjaftaþættinum Mike & Mike á ESPN fyrir skömmu, þar sem Mike Greenberg benti á þennan skemmtilega punkt.

Greenberg var að tala um muninn á fótboltamönnum og körfuboltamönnum og þá sérstaklega muninn á hegðun þeirra frægustu í greinunum hvað fjölmiðla snertir.

Hann benti á tvö nýleg dæmi um eftirtektarverða hegðun knattspyrnumanna. Annars vegar atriðið þegar Cristiano Ronaldo henti míkrófón fjölmiðlamanns sem reyndi að ná tali af honum út í vatn og hinsvegar ákvörðun Lionel Messi að hætta að spila með landsliði Argentínu eftir tapið í úrslitaleik Ameríkukeppninnar á dögunum.

Þessi tvö atriði nefndi hann sem dæmi og velti svo upp spurningunni hvernig bandaríska þjóðin myndi bregðast við ef LeBron James myndi sýna svona hegðun.

Svarið við spurningunni er augljóst - James yrði tekinn af lífi í fjölmiðlum og víðar ef hann myndi gera eitthvað þessu líkt.

Eins og þið vitið flest, hefur hann margoft valdið fjaðrafoki í fjölmiðlum fyrir eitthvað sem mælist ekki við hliðina á íþróttum eins og míkrófónakasti án atrennu (í vötn). Eins og til dæmis að mæta með vitlausa húfu á íþróttakappleik og fá hraðasekt, svo við tölum nú ekki um "ákvörðunina" hans frægu.

Hvað hefðu fjölmiðlar t.d. sagt ef LeBron James hefði látið hafa annað eins eftir sér og Ronaldo gerði þegar hann gerði lítið úr íslenska landsliðinu eftir viðureign þess við Portúgal á dögunum?

Bandaríska pressan væri enn að hrauna yfir hann.

Það má segja ýmislegt misjafnt um Bandaríkjamenn, en íþróttastjörnurnar þeirra eru í flestum tilvikum kurteisar og almennilegar þegar kemur að samskiptum við fjölmiðla. Okkur er líka til efs að við eigum eftir að heyra "Strákana Okkar" vera með einhvern dónaskap við eða í fjölmiðlum og gildir þá einu hvort um er að ræða fót-, hand- eða körfuboltastrákana okkar.

Tilgangurinn með þessari hugleiðingu er ekki að draga upp dökka mynd af knattspyrnustjörnum eða upphefja íslenska eða ameríska íþróttamenn óþarflega mikið, það eru sannarlega hægðaheilar í körfuboltanum eins og annars staðar og menn eins og Ronaldo og Messi láta báðir gott af sér leiða með reglubundnum hætti.

Okkur langaði aðeins að benda á það hvað virðist vera misjafnt gildismat í gangi hjá íþróttastjörnum heimsins í dag og nokkuð misjafn tolerans þegar kemur að viðskiptum þeirra við fjölmiðla.

Sunday, June 26, 2016

Af framtíðaráformum Kevin Durant og Oklahoma


Nú þegar nýliðavalið árlega er afstaðið, geta NBA-miðlar í Bandaríkjunum nú einbeitt sér að ekkifrétt sumarsins, sem snýst um Kevin Durant og framtíðaráform hans á atvinnumarkaði. Þið vitið hvað við erum rosalega spennt fyrir svona skrumi, eða hitt þó heldur.

En rétt eins og aðrir NBA-miðlar, erum við hér á NBA Ísland með lesendur sem eru sumir hverjir forvitnir um svona mál og því verðum við að reyna að koma til móts við þá. Okkur leiðast kannski ekkifréttir um félagaskipti eða ekki félagskipti NBA leikmanna, en við erum bæði með hugmyndaflug og skoðanir, þannig að kannski er upplagt að við leggjum okkar lóð á vogarskálarnar í þessu leiðindamáli. 

Við segjum leiðindamáli, af því þetta skrum í kring um Durant er og verður eitt stórt leiðindamál og ekkifréttir þangað til hann gerir upp hug sinn, en þá verður ákvörðun hans frétt í einn eða tvo daga áður en allir steingleyma henni þangað til hann verður með lausa samninga næst.

Eins og flest ykkar vita líklega, hafa forráðamenn Oklahoma City ekki setið auðum höndum síðan liðið þeirra var slegið út úr keppni á sársaukafullan hátt í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar um daginn. Segja má að þeir hafi stolið senunni kvöldið sem nýliðavalið fór fram, þegar þeir ákváðu að ráðast í stórviðskipti á leikmannamarkaðnum.



Þannig ákváðu Oklahoma-menn að skipta framherjanum Serge Ibaka til Orlando Magic í staðinn fyrir framherjann Ersan Ilyasova, bakvörðinn Victor Oladipo og framherjann unga Domantas Sabonis sem Orlando tók fyrir þá númer ellefu í nýliðavalinu síðar um kvöldið. Sabonis þessi er af ákaflega góðum körfuboltaættum eins og flest ykkar vita líklega, en hann er sonur miðherjans Arvydas Sabonis sem lék með Portland Trailblazers á árunum 1995-2003.

Menn og konur voru afar fljót að mynda sér sterkar skoðanir á þessum viðskiptum og við erum þar engin undantekning, þetta þykir okkur ansi djarfur og kappsamur leikur hjá Oklahoma-mönnum. 

Eitthvað hefur verið talað um að þarna sé um fyrirbyggjandi aðgerðir að ræða hjá Oklahoma, því Ibaka átti ekki langt eftir af samningi sínum við félagið og ljóst var að það yrðu engir smáaurar sem hann kæmi til með að fara fram á þegar að því kæmi. Bæði af því hann gegnir jú mikilvægu hlutverki hjá liðinu og af því að launaþakið í NBA deildinni er að hækka langt upp fyrir öll velsæmismörk, ekki ósvipað og húsnæðisverð í Reykjavík.

Það er ekkert leyndarmál að tölfræðin hans Serge Ibaka er búin að vera að dala með nokkuð áberandi hætti síðustu ár, en Oklahoma-pennar segja að það megi að hluta skrifa á þjálfarateymi liðsins, því Ibaka hafi verið beðinn um að gera hluti sem urðu ekki beint til að fóðra hjá honum tölfræðina. Til dæmis hafi minnkandi frákastatölur komið til út af því að Ibaka gerði meira af því að elta minni menn úti á velli í stað þess að vera undir körfunni. Það er sitt hvað til í þessu, meira að segja við vitum það.


Annað sem olli okkur áhyggjum - og eflaust forráðamönnum og stuðningsmönnum Oklahoma líka - var hvað 3ja stiga nýtingin hans var búin að hríðlækka undanfarið. Hlutverk Ibaka í sókninni var jú á margan hátt fólgið í því að standa fyrir utan línu og teygja á vörnum andstæðinganna - t.d. með því að toga stóru mennina með sér út úr teignum svo þeir væru ekki fyrir Russell Westbrook þegar hann keyrði á körfuna.

Stigaskor Serge Ibaka lækkaði úr 15,1 stigi fyrir þremur árum niður í 12,6 í ár og þriggja stiga nýtingin hans fór úr 38,3% fyrir þremur árum, sem er afbragð, niður í innan við 33% á liðnum vetri. Á sama hátt hrundi hann niður í blokkeringum, þar sem hann varði mest 3,7 skot 2012, en aðeins 1,9 í vetur.

Loks datt hann niður í fráköstunum, úr 8,8 fyrir þremur árum og niður í aðeins 6,8 í vetur, sem er heilu frákasti minna en leikstjórnandi liðsins tók (þó hann sé líklega öflugasti frákastari í sögu NBA miðað við hæð og stöðu á vellinum. Hér er að sjálfssögðu verið að tala um Russell Westbrook. Við misnotum ekki tækifæri til að tala um Russell Westbrook. Það væri asnalegt).

Þessi þróun í tölfræðinni er vissulega áhyggjuefni, en það sem gerði Ibaka að þeim algjöra lykilmanni sem hann var í liðinu, kemur hvergi fram á tölfræðiskýrslum. Þar erum við auðvitað að tala um varnarleikinn.

Varnarleikur Oklahoma var ekki eins góður í deildarkeppninni í vetur og undanfarin ár og þið munið eflaust eftir því að það var ein af ástæðunum fyrir því að við rökkuðum liðið niður í vor og sögðum að það ætti ekki möguleika á að gera neitt í úrslitakeppninni. 

Við erum alveg handviss um að Serge Ibaka átti þarna stóran hlut að máli, enda er hann búinn að vera mikilvægasti maður liðsins í vörninni í mörg ár.

En þegar kom inn í úrslitakeppnina um daginn, var allt í einu komið allt annað hljóð í Oklahoma-liðið og skyndilega var eins og hefði "tekið sig upp gamall varnarleikur" hjá þeim. Allt í einu voru leikmenn liðsins eins og byssukúlur út um allt gólf í vörninni, nóg til að slátra San Antonio og keyra meistara Golden State alveg út á bjargbrún, lamaða af ótta eins og Krókódílamanninn eftir viðskiptin við bjargvættinn Laufeyju í texta Magnúsar Þórs Jónssonar.



Oklahoma varð fyrsta liðið til að finna svör við ógnarsterkum sóknarleik Golden State Warriors og gerði það með liðsuppstillingu sem NBA-penninn Nate Duncan kallaði Megadeath uppstillinguna, sem er ákaflega vel að orði komist. Lykilmaður í þessari aðferðafræði var að sjálfssögðu Serge Ibaka og þessi leikaðferð hefði trúlega aldrei gengið eftir með einhverjum öðrum leikmanni, því menn sem eru með þennan pakka af lengd, snerpu og íþróttamennsku eru teljandi á fingrum annarar handar - ef það.

Sopa benet



Friday, June 24, 2016

LeBron James inn í elítu NBA Ísland


Við tókum þá meðvituðu ákvörðun að bíða aðeins með það að skrifa þennan pistil, til að láta tilfinningarússíbanann eftir oddaleikinn í lokaúrslitunum ekki hafa of mikil áhrif á okkur. Ykkur grunaði eflaust að þessi væri á leiðinni. LeBron James pistillinn. Þið höfðuð rétt fyrir ykkur.

Enginn körfuboltamaður hefur fengið neitt nálægt þeirri umfjöllun sem LeBron James hefur fengið á þessu vefsvæði, sem er ofureðlilegt, því það er stofnað þegar hann var orðinn besti körfuboltamaður í heimi. Og núna, einum sjö árum síðar eða svo, er hann það ennþá.

James var ekki besti leikmaður deildarkeppninnar í vetur frekar en síðasta vetur, þó hann væri með óguðlega tölfræði og skilaði liði sínu eitthvað upp undir 60 sigra eins og hann gerir á hverju ári. Við hefðum öll rekið upp stór augu ef einhver annar leikmaður hefði skilað þessari tölfræði hans, en við tökum framlagi hans alltaf sem sjálfssögðum hlut.

Væri James ekki að hugsa um að stilla álaginu í jafnt hóf yfir veturinn og spara sig fyrir úrslitakeppnina, væri hann líklega búinn að bæta einni eða tveimur styttum við þessar fjórar sem hann á uppi á hillu og afhentar eru leikmanni ársins í deildarkeppninni. En hann er að safna annars konar gripum núna og annars konar styttum.



Við erum ekki enn farin að fatta hverning í fjandanum Cleveland fór að því að vinna meistaratitilinn árið 2016. Það er eins og sé eitthvað undarlegt í loftinu þessa dagana. Þið þurfið ekki að horfa lengra en á Evrópumótið í knattspyrnu í Frakklandi til að átta ykkur á því hvað við erum að meina. Kannski væri ekki vitlaust að fara og kaupa lottó, nú þegar 1. vinningur þar stefnir í 100 milljónir króna. Hver veit?

Eins og við héldum fram í neikvæðni okkar og leiðindum í síðasta pistli, förum við aldrei ofan af því að betra liðið hafi tapað þessu úrslitaeinvígi. Við vitum alveg að betra liðið vinnur alltaf í sjö leikja seríu og því er ákveðin mótsögn fólgin í þessari fullyrðingu, en getur betra liðið ekki tapað seríu ef leikmenn þess eru orðnir of þreyttir til að spila og besti leikmaðurinn gengur ekki heill til skógar?

Við erum nú hrædd um það. Og þetta kom fyrir Golden State Warriors núna.

Þeir voru orðnir bensínlausir og mættu besta körfuboltamanni í heimi sem var búinn að fá miklu þægilegra prógramm en þeir í úrslitakeppninni.

En það er ekki Golden State sem er viðfangsefni þessa pistils - það er LeBron James. Það má vel vera að Warriors-liðið hafi ekki spilað upp á sitt besta í lokaúrslitunum - það gerði það sannarlega ekki - en LeBron James gæti ekki verið meira sama.

Hann er búinn að rífa þetta ævintýri til sín, snúa því með hæfileikum og handafli, losa prinsessuna úr álögunum og giftast henni og allir lifðu hamingjusamir til æviloka. Amen.

Forsíðumyndina með þessari færslu bjuggum við til í fyrra. Þá vorum við alltaf að bíða eftir tækifæri til að skrifa LeBron James inn í meistaraklúbbinn, þar sem aðeins allra, allra, allra bestu leikmenn sögunnar fá aðgang. Fattiði, Jordan, Larry og Magic. Þannig klúbbur.



Við verðum að segja alveg eins og er, ekki hefði okkur svo mikið sem dreymt um að James myndi pikka í okkur og minna okkur á að skrifa þessa grein með því að vinnna annan meistaratitil. Það töldum við - og þið örugglega - algjörlega ómögulegt.

Jú, jú, Cleveland hefur alltaf ákveðið forskot á fulltrúa vestursins í lokaúrslitum af því leið þess í gegn um austrið er svo átakanlega létt, en James og félagar geta ekkert að því gert. Þeir spila bara við það sem sett er fyrir þá og undanfarin ár hefur það verið svo mikið drasl að það er tímasóun að spila þessi einvígi. Sóun á tíma, sóun á sjónvarpsrétti, svo mikið bull að þessir klúbbar ættu að skammast sín.

Thursday, June 23, 2016

Wednesday, June 22, 2016

Okkur þykir það leitt, en...


Úrslitaeinvígin í NBA deildinni eru alltaf söguleg upp að vissu marki, en úrslitaeinvígið sem við fengum í ár var alveg sérstakt - einfaldlega eitt af þeim allra, allra bestu. Og það er Cleveland sem vann þetta allt saman. Cleveland! Margir trúa því ekki enn.

Margir héldu að úrslitarimma Cavs og Warriors yrði alltaf ákveðið skref niður á við í drama og gæðum frá stórkostlegu einvígi Golden State og Oklahoma um daginn, en lokaúrslitin voru ekki aðeins á pari við þá seríu - þau voru betri! Og það segir sína sögu.

Þeir voru ekki margir, sérfræðingarnir sem spáðu Cleveland sigri í þessu einvígi og ef þú hefur lesið eitthvað af pistlum okkar hér á þessu vefsvæði í vetur, veistu að þetta kemur okkur gríðarlega á óvart. Að Cleveland skuli hafa hirt titilinn af Golden State, er nokkuð sem við hefðum talið óhugsandi fyrir aðeins nokkrum dögum síðan, en nú er það orðin staðreynd sem við verðum að rannsaka nánar.



Staðreyndin er nefnilega sú að Golden State er betra lið en Cleveland. Meira að segja miklu betra. Og það fékk tækifæri til að sýna okkur það enn einu sinni í þessum mánuði, en það tókst ekki að þessu sinni. Öllum verður á í messunni annað slagið og þegar Warriors-menn ætluðu að sýna okkur enn og aftur hvað þeir eru með gott tak á Cleveland, misstu þeir takið á seríunni sem þeim var gefin til þess.

Þið vitið alveg jafn vel og við að Warriors-liðið er betra en Cleveland. Þið sáuð Golden State vinna úrslitaeinvígið í fyrra nokkuð sannfærandi þegar upp var staðið, þið sáuð Warriors vinna leiki liðanna í deildarkeppninni í vetur og þið sáuð Curry og félaga komast í 2-0 og 3-1 í rimmu liðanna á dögunum.



En lengra komust þeir ekki. Þeir misstu Cleveland fram úr sér og töpuðu. Ástæðurnar fyrir því eru margvíslegar og okkur grunar að þú sért einmitt að lesa þennan pistil af því þig langar að vita hvað gerðist í þessu einvígi. Hvernig í ósköpunum fór Golden State að því að tapa úrslitaseríu eftir að hafa verið komið 3-1 yfir? Eftir svona frábæran og sögulegan vetur?

Við skulum ekki pína þig lengur. Ástæðurnar fyrir tapi Warriors eru banvæn blanda af kæruleysi, hroka, meiðslum, þreytu, óheppni og einum hálfguði. Hálfguðinn er LeBron James, ef það er að vefjast fyrir þér.



Þetta kemur kannski út eins og við séum að gera lítið úr Cleveland og gjaldfella meistaratitilinn þeirra, en það er nú ekki ætlunin hjá okkur. Við erum bara að benda á sannleikann hérna. Við höldum hvorki með Cleveland né Golden State og er nokk sama hvort þessara liða vinnur þegar þau mætast í úrslitum. Við vorum ákaflega ánægð fyrir hönd LeBron James þegar hann vann þriðja titilinn sinn, en eigum annars ekki hest í þessum veðreiðum.

Ákvörðun Golden State að eltast við sigrametið í deildarkeppninni í vetur var nokkuð umdeild og það er ekki nokkur spurning að hið aukna álag sem fylgdi þeim áformum gerði Warriors-mönnum erfiðara fyrir í úrslitakeppninni.



Á meðan var pressa á þeim fyrir nánast hvern einasta leik í vetur (þar sem þeir fengu oftast verðuga samkeppni frá mótherjanum af því þeir voru jú meistararnir) var Cleveland á krúskontról eftir hraðbrautum Austurdeildarinnar. Þá er ótalið að Golden State flýgur miklu, miklu lengra en Cleveland yfir veturinn, en förum ekki nánar út í það hér.

Margir segja að Warriors hefðu aldrei átt að eltast við þessi met í deildarkeppninni af því það væri meistaratitillinn sem skipti máli, ekkert annað. Þetta fólk hefur ekki skilning á því hvernig NBA deildin virkar. Þú segir ekki tiltölulega ungu og sögulega góðu körfuboltaliði að sleppa því að verða kallað besta lið allra tíma! Auðvitað læturðu slag standa, svona einu sinni! Ekki vera asni! Met eru til að slá þau!



Warriors-liðið var nær óþekkjanlegt á löngum köflum í lokaúrslitaeinvíginu og það var að hluta til af því mannskapurinn var bara búinn á því. Búinn á því eftir langan og strangan vetur og bensínlaus eftir maraþonviðureign við Oklahoma í einvíginu á undan þar sem það þurfti sjálft að koma til baka eftir að hafa lent undir 3-1.

Meiðsli settu sinn svip á þetta líka. Stephen Curry var aldrei hann sjálfur í þessari úrslitakeppni, ekki nema í litlum rispum og það skiptir gríðarlegu máli fyrir allt gengi Warriors. Svo dettur Bogut út og Iguodala var ónýtur í bakinu. Þetta hjálpaði ekki.

Warriors menn gerðu sig líka seka um hroka og kæruleysi. Aftur fyrir bak sendingarnar hans Stephen Curry og afleit frammistaða hans á löngum köflum í varnarleiknum, eru færð í þann flokk. Meistararnir þáverandi héldu að þetta væri bara komið eftir tvo leiki - og endanlega búið eftir fjóra. Að þeir gætu bara látið sig renna í mark.



Þá kom þetta Draymond Green dæmi upp á, enn eitt pungsparkið og leikbannið og hvað það nú var. Við erum ekki viss um að það hafi endilega verið rusltalið í Draymond sem kveikti í LeBron James (hann er ekki vanur að sækja sér mótiveríngu í einhverju til að verða brjálaður yfir), en eitthvað var það sem gerði það að verkum að hann tók þetta einvígi og sneri því við - nánast upp á sitt einsdæmi.

Og eins og þið sjáið, var það LeBron James sem var stóra breytan í einvíginu. Við vorum nánast hætt að öskra á sjónvarpið þegar kom að James. Fyrst sótti hann allt of lítið á körfuna og þegar hann loksins fór að sækja á körfuna, náði hann ekki að hitta nokkurn skapaðan hlut og því slógum við því föstu að hann væri bara orðinn of lúinn til að slútta.



Var hann orðinn of gamall allt í einu!?! Það var það eina sem okkur datt í hug, en eins og þið sáuð í þremur síðustu leikjunum, reyndist það blessunarlega vera þvættingur. Ætli hann hafi ekki bara verið að geyma það besta þangað til í lokin.

James átti mestan þátt í því að Cleveland náði að vinna einvígið sem það átti ekki að geta unnið og við munum segja ykkur hvað okkur finnst um það í sérstökum pistli hér á NBA Ísland innan skamms.

En þrátt fyrir hetjúdáðir LeBron James, fékk hann nú smá hjálp frá félögum sínum líka. Kyrie Irving sýndi að hann getur ekki bara hangið á bolta og skorað hetjukörfur úr glórulausum færum í deildarkeppninni - heldur getur hann það í lokaúrslitum líka. Sem er áhrifamikið.



Meira að segja Kevin Love hjálpaði til í úrslitaleiknum og (gúlp) JR Smith átti sennilega rispuna sem kveikti endanlega í Cleveland-liðinu í oddaleiknum. Við sögðum einhvern tímann að það yrði ekkert lið meistari sem þyrfti að treysta á mann eins og JR Smith í lykilhlutverki.

Ekki eruð þið hissa á því. Maðurinn er bandormur og vitleysingur. En mjög svo sveiflukenndur leikur hans í skotbakvarðarstöðunni nægði Cleveland að þessu sinni. Það er ekki annað en frekari sönnun þess hve yfirnáttúrulegur LeBron James var í úrslitunum.

Þrátt fyrir allt þetta mótlæti var Golden State nú samt aðeins tveimur sóknum frá því að verja titilinn sinn, sem einmitt þess vegna hlýtur að vera ennþá grátlegra fyrir leikmenn og þjálfara liðsins. Þeir töpuðu fyrir liði sem var orðið "tíkin þeirra" og geta ekki kennt neinum öðrum en sjálfum sér um það.

Þeir eiga líka eftir að gera það í allt sumar og við höfum trú á því að þeir komu brjálaðir en einbeittir til leiks næsta vetur og nýti sér þessa auknu reynslu til að hirða aftur það sem þeir telja að tilheyri þeim í júní á næsta ári.

Annað sem þarf að taka fram. Þó leikmenn Golden State hafi stundum spilað hrokafullan bolta og þó þeir fari orðið í taugarnar á mjög mörgum (eins og meistaralið eiga að gera), var framkoma þeirra algjörlega upp á tíu eftir leik. Þeir gáfu sér tíma til að þakka mótherjum sínum fyrir leikinn, hrósa þeim og sýna almenna auðmýkt sem er ekki á allra færi. Warriors-menn hafa sem sagt sýnt okkur að þeir kunna bæði að vinna og tapa eins og herramenn.



Þessari hugleiðingu ekki ætlað að vera árás eða hraun yfir það sem Cleveland hefur afrekað í vetur, þvert á móti. Það að Cavs hafi náð að rífa titilinn af liði sem er búið að ná öðrum eins árangri og Warriors er ekkert minna en afrek.

Málið er bara að Golden State er búið að vera dálítið eins og Stephen Curry undanfarið. Þú sérð glefsur af snilldinni annað slagið, en ekkert í líkingu við það sem hann sýndi okkur dag eftir dag í vetur. Það skilar þér eitthvað áleiðis, jafnvel í úrslit, en það er ekki nóg til að vinna titil. Ekki þetta árið að minnsta kosti.

Tuesday, June 21, 2016

Eftir á að hyggja




LeBron James stóð við stóru orðin; titill í hérað


Cleveland tryggði sér NBA meistaratitilinn í fyrsta skipti í sögu félagsins á sunnudagskvöldið, þegar það bar sigurorð af Golden State Warriors í hreinum úrslitaleik í Oakland. Oddaleikurinn þróaðist fullkomlega fyrir hinn óháða körfuboltaáhugamann, þar sem nóg var um tilþrif, spennan var óbærileg og skrifaður var nýr kafli í körfuboltasöguna.


Einvígi Cavs og Warriors varð sígilt samdægurs alveg eins og rimma Thunder og Warriors um daginn og það er ekki útilokað að menn eigi eftir að skrifa heilu bækurnar um frammistöðu LeBron James síðustu daga, ef þeim tekst á annað borð að finna orð til að lýsa þessum atgangi hans.

NBA Ísland gerir þetta allt saman upp með pistlum og hlaðvörpum næstu daga, þó það nú væri. Hér áttu sér stað sögulegir hlutir sem þarf að greina vandlega. Þvílík rússíbanareið sem þetta einvígi er búið að vera.

Friday, June 17, 2016

Hömlulaus LeBron - Oddaleikur í úrslitunum


Ætli sé ekki best að byrja á smá tölfræði á meðan við náum okkur niður eftir þetta rugl þarna í Cleveland í nótt. Þá eigum við sérstaklega við tölfræði LeBron James, sem virðist vera að taka því mjög illa að hafa lent undir 3-1 og vera því á góðir leið með að tapa enn einu lokaúrslitaeinvíginu sínu á ferlinum.

Cleveland er allt í einu búið að jafna metin í einvíginu við Golden State og það er ekki síst að þakka téðum LeBron James, sem er búinn að spila á guðs vegum í síðustu tveimur leikjum. Þar hefur hann boðið upp á 41 stig, 12 fráköst, 9 stoðsendingar, 3,5 stolna bolta, 3 varin skot, þrjá tapaða bolta að meðaltali í leik og +39 í plús/mínus tölfræðinni. Einmitt.



James er skráður með 188 "snertingar" í þessum tveimur leikjum skv. heimasíðu NBA deildarinnar, sem þýðir að hann er meira með boltann en nokkur annar maður í einvíginu og því er með öllum ólíkindum að maðurinn sé aðeins búinn að missa boltann þrisvar sinnum. Við erum að tala um þrjá tapaða bolta á 86 leikmínútum.

Ofan á þetta hefur Golden State skotið 2 af 10 undir körfunni þegar hann er á svæðinu í leikjunum tveimur og einhver tölfræði sagði að Warriors-menn sem James var að dekka í leiknum í nótt, hefðu skotið 0 af 7 utan af velli.

Er þetta ekki nóg, spyrðu!?!

Einmitt.



Á lykilkafla í síðari hálfleik í nótt, skoraði Cleveland 27 stig í röð þar sem James annað hvort skoraði sjálfur eða eða átti stoðsendingu. Hann skoraði 17 stig í fjórða leikhlutanum einum saman (6 af 9 í skotum) og gaf auk þess fjórar stoðsendingar.

LeBron kom að 70 stigum Cleveland í leiknum með beinum eða óbeinum hætti og þó það muni miklu fyrir hann að langskotin hans séu farin að detta, er það sú staðreynd að hann er aftur farinn að skjóta 65% í teignum sem segir okkur að hann sé mættur í slaginn á ný - og rúmlega það.



Hann er sem sagt með 30 stig, 11,3 fráköst, 8,5 stoðsendingar, 2,7 stolna bolta, 2,2 varin skot, 51% skotnýtingu, 40% 3ja stiga nýtingu og +22 í plús/mínus í leikjunum sex í lokaúrslitunum. Þú vissir væntanlega líka að hann er efstur í öllum tölfræðiþáttum í báðum liðum í einvíginu. Hann er reyndar með jafnmörg fráköst og Tristan Thompson, en þú fattar þetta.

Trúlega væri hægt að halda áfram með þetta rugl, en þið eruð örugglega farin að ná því hvað við erum að fara hérna; Það er engu líkara en að LeBron James sé góður í körfubolta. Við sjáum mynd:



Úrslitaeinvígið okkar í ár hefur nú vaknað til lífsins og sprungið út með tilþrifum. Það reyndist forljótur andarungi sem fáir vildu sjá í stöðunni 2-0 og 3-1 fyrir Golden State. Nú er svo komið að meistararnir, sem komu til baka eftir að hafa lent undir 3-1 gegn Oklahoma í síðasta mánuði, eru nú sjálfir búnir að klúðra þessu og missa seríuna í jafntefli.

Þvílíkt einvígi!



Það góða við að vera með frjálsan og óháðan miðil eins og NBA Ísland er að við getum rekið á honum hvaða ábyrgðarlausa áróður sem okkur sýnist án þess að hlusta á kóng eða prest og nú ætlum við að nýta þennan vettvang til að leggja fram boðskap sem á erindi til allra körfuboltakera á landinu.

Þið hafið öll séð hvað narratífið í kring um lið og leikmenn í NBA deildinni eru svakalega fljótt að breytast. Það er að segja hvaða stefnu menn taka þegar þeir fjalla um t.d. úrslitaeinvígið í NBA. Hvernig menn ákveða að segja frá hlutunum - hvað þeir leggja áherslu á og hvað ekki.



Enginn leikmaður í nútímasögu NBA deildarinnar fengið jafn sveiflukennda og dramatíska umfjöllun og LeBron James og það er magnað að horfa upp á það að hann skuli enn vera fær um að breyta narratífinu í kring um sig með handafli. Margir hafa reynt það, en fáum tekst það.

Íslendingur nokkur er einmitt að reyna þetta, gnístandi tönnum af gremju. Hann reynir að skrifa söguna sína sjálfur eftir eigin höfði á hverjum degi en þó nokkrir afskaplega illa gefnir einstaklingar trúi öllu sem hann segir, breytir það engu um það að þetta er ekki raunveruleg saga, heldur átakanlegt bull og lygar örvæntingarfulls manns sem nær aldrei að þurrka mistökin sín út úr sögubókunum, sama hvað hann klórar og grenjar.



Lokaúrslitin 2016 áttu að vera úrslit Warriors-liðsins og leikmanns ársins, Stephen Curry. En á einhverjum pungsparks og kjaftbrúks tímapunkti í þessu einvígi, ákvað LeBron James að taka stílabækurnar sem sagnfræðingar eru búnir að vera að skrifa í í allan vetur og rífa þær í tætlur.

Nota bene, James er ekki búinn að skrifa lokakaflann, hann verður ekki skrifaður fyrr en á sunnudagskvöldið og það er lokakaflinn sem ræður úrslitum í þessu magnaða einvígi. En það sem við viljum árétta sérstaklega hér, er hvað er búið að gerast í síðustu tveimur leikjum.



Það sem gerðist, er að LeBron James tók eitt stykki lokaúrslitaeinvígi í NBA deildinni og barði það í andlitið með með felgulykli. Hann tók sögu sem var nánast alveg búið að skrifa, reif hana í tætlur, eyðilagði hana og er að semja sína eigin. Það vantar bara lokakaflann. En athugaðu að hvernig sem lokakaflinn fer - hver það verður sem skrifar hann, verður LeBron búinn að breyta þessari sögu varanlega og hann þarf að fá sitt hrós fyrir það.

Afar fáir körfuboltamenn hafa hæfileika, skapgerð og burði til að taka lokaúrslitaseríu yfir og breyta henni upp á sitt einsdæmi og við verðum að segja alveg eins og er, að okkur datt ekki í hug að LeBron James hefði það sem til þurfti til að gera neitt slíkt í dag. Sérstaklega eftir að við horfðum á hann klúðra hverju sniðskotinu á fætur öðru í fyrstu leikjunum gegn Warriors og fá litla hjálp frá félögum sínum.



En svo gerist eitthvað. Það er til dæmis alveg pottþétt mál að lið sem er í vandræðum með sóknarleikinn sinn, mun undir öllum kringumstæðum hagnast á því ef besta varnarmanni andstæðingsins er kippt út í eins og einn leik. Ókei, flott fyrir Cleveland, en vannst þessi sigur í leik fimm þá ekki eingöngu út á það að Draymond Green var ekki með? Nei, það virðist ekki vera.

LeBron James losnaði við Green úr vegi sínum í fimmta leiknum, en það er eins og hann hafi gleymt því að hann mætti til baka í sjötta leikinn, því hann bara sótti á körfuna eins og enginn væri morgundagurinn. Það hefur svo engan veginn dregið kjarkinn úr James í ruðningsferðum sínum inn í teiginn þegar hann far að andstæðingur hans númer eitt - Andre Iguodala - byrjaði skyndilega að haltra um völlinn eins og hann væri búinn að gera í buxurnar í nótt. Gera stórt í buxurnar.



Þvílíkt andskotans vesen er orðið á þessu Golden State liði, afsakið hjá okkur orðbragðið, en við erum viss um að leikmenn og þjálfarar orða það ekki á fallegri hátt en þetta. Þetta var allt svo klippt og skorið fyrir nokkrum dögum síðan. Liðið sem gat ekki unnið þá var komið út í horn og allt eins og það átti að vera. Það var ekki annað að gera en vinna það einu sinni enn og svo bara leikur, vindill, kampavín, skál, búið!



En í staðinn er allt komið í óefni hjá meisturunum. Bogut hefur lokið keppni, Iguodala er eins og Robocop á línuskautum, skvettubræður eru upp og ofan og Draymond var daufur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Golden State mætir mótlæti, þið áttið ykkur alveg á því, en það er dálítið nýtt fyrir þá að gera dálítið í bussan sín með þessum hætti.

Við þurfum alveg örugglega ekki að telja upp fyrir ykkur hvað lið sem spila á útivelli í oddaleikjum eru andskoti ólíkleg til að vinna nokkurn skapaðan hlut. Þið vitið þetta. En á Cleveland þá einhvern séns á sunnudaginn? Sagan segir nei, alveg eins og tölvan forðum, en af hverju ekki?



Það er allt á móti Cavs í þessu sambandi, sama hvort það varðar sögubækur, trend eða tölfræði. Lið sem lenda undir 3-1 vinna ekki seríur og lið sem eru á útivelli vinna ekki oddaleiki og bla bla bla. En af hverju á Cleveland ekki möguleika á að vinna lið sem það er búið að vinna tvisvar í röð í hreinum úrslitaleik? Af hverju á Cleveland ekki möguleika á móti Warriors-liði sem er ekki heilt heilsu og er alls ekki að finna taktinn sinn um þessar mundir?

Við skulum láta þessum spurningum ósvarað til að vera ekki að eyðileggja fyrir ykkur áhorfið á sunnudaginn og ljúkum þessu frekar með því að ítreka það sem við tókum fram hér að ofan: LeBron James reif stílabókina af söguriturum NBA deildarinnar, barði þá í hausinn með henni og er búinn að skrifa kafla fimm og sex í henni algjörlega eftir sínu höfði. Þessar breytingar eru varanlegar óháð úrslitum í sjöunda leiknum, en það er ljóst að það fer allt í eitt risastórt kaos ef Cleveland heldur þessum ótrúlega endaspretti sínum áfram.



Nú eru náttúrulega ekki allir sammála okkur um hvernig á að ganga frá þessari sögu og okkur finnst skemmtilegast að lesa skrif þeirra sem ætla að láta það ráðast í næsta leik hvernig þeir gera ferilinn hans LeBron James upp. Grínlaust, það er fullt af fólki sem ætlar sumsé að gera þetta svona: Ef Cleveland tapar, verður það LeBron James að kenna og því er hann sjálfkrafa stimplaður kokari og aumingi - en ef Cleveland vinnur verður hann bestur í heimi, jafnvel betri en Jordan.

Sigh...



Það er ekki auðvelt að díla við svona, en við skiljum svo sem að hluta af hverju fólk er svona æst. Það er af þvi LeBron James er enn og aftur að sýna okkur að hann er ofurmenni á körfuboltavelli og getur enn tekið gjörsamlega yfir heilu leikina án þess að nokkur fái rönd við reist. Og það sem meira er, við erum öll að taka þessu sem algjörlega sjálfssögðum hlut, eins og þetta sér bara eitthvað eðlilegt að spila svona!

Nei, LeBron James var bara að minna okkur aðeins á það, í þúsundasta skipti, að hann er einn allra, allra besti körfuboltamaður sem uppi hefur verið og þú skalt ekki láta þér detta í hug að sú jafna breytist eitthvað stórkostlega út af einum körfuboltaleik. Sigur á sunnudaginn gæti orðið ágætis kirsuber á toppinn á rjómaísnum sem er ferillinn hans James, þó hann sé auðvitað ekki búinn.

En hvort sem leikurinn tapast eða vinnst um helgina, verður það sífellt stærri áskorun að finna körfuboltamenn í sögunni sem eru betri en LeBron James. Þá má orðið telja á fingrum annarar handar. Þú getur notað sumarið til að díla við það.


Tuesday, June 14, 2016

Stórstjörnur Cleveland skutu meistarana í kaf


Við sáum okkur leik á borði og hlupum á Twitter þegar okkur varð ljóst að Draymond Green fengi ekki að vera í húsinu í fimmta leik Golden State og Cleveland í nótt. Hafandi horft á drenginn spila svona risavaxna rullu hjá Warriors í allan vetur, grunaði okkur að það ætti eftir að reynast liðinu hans erfitt að vinna Cleveland án hans.

Þetta var svo sem enginn Nostradamusarspádómur, það gefur augaleið að Green er lykilmaður í liði Warriors, en við leyfðum okkur að efast um að fólk gerði sér fulla grein fyrir því hversu mikilvægur hann er Golden State  - og þá á öllum sviðum leiksins, eins og svona plögg sýna svo glöggt.













Fyrsta vísbendingin um þetta kom þegar það sem hefði átt að verða nokkuð þægileg afgreiðsla og síðar bikarafhending í Oakland, breyttist í leifturstríð og blóðbað áður en nokkur fékk rönd við reist.

Það sem sagt skiptir máli að hafa besta varnarmann sinn og aðstoðarleikstjóra í búningi þegar á að taka við bikurum, þetta vitum við núna. Eftir að hafa séð Cleveland vinna nokkuð sannfærandi sigur á Golden State í nótt og minnka muninn í einvíginu í 3-2.



Það er allt of mikil einföldun að skrifa alla ógæfu meistaranna á fjarveru hrokagikksins þéttvaxna, en það var á tíðum átakanlegt hvað þeir söknuðu hans í nótt. Varnarleikur Warriors - sómi þeirra, sverð og skjöldur - er einfaldlega ekki í sama klassa þegar Green nýtur ekki við og gestirnir gengu fljótlega á lagið. Cleveland skoraði 46 stig inni í teig og var raunar 28-9 í hraðaupphlaupum líka.

Golden State spilaði í sjálfu sér alveg ágætlega í fimmta leiknum í nótt og lykilmenn liðsins (fyrir utan Harrison Barnes, með 2 af 14 í skotum) komust ágætlega frá sínu. Klay Thompson bar auðvitað af og sallaði 37 stigum á Cavs úr aðeins 20 skotum.

Stephen Curry átti rispur og hitti þokkalega, en hvort sem það er út af meiðslum eða ofþreytu, hefur hann enn ekki náð alveg að sýna sitt rétta andlit í þessu einvígi. Þetta er heldur betur vatn á myllu yfirlýstra og sjálfmenntaðra körfuboltasérfræðinga sem vafra um skrælnaðar sléttur félagsmiðlanna í leit að einhverju til að hneykslast á og/eða hrauna yfir.



En við skulum ekki velta okkur meira upp úr Warriors-liðinu. Það var án fjölhæfasta varnarmanns síns, leikstjórnanda, leiðtoga og hindranahleðslumanni í þessum leik, sem setur auðvitað strik í reikninginn.

Eitthvað segir okkur að meistararnir verði samkeppnishæfari í næsta leik þegar þeir endurheimta Draymond sinn til baka og fljúga til Cleveland, þó þeir eigi eflaust eftir að sakna Andrew Bogut sem við sjáum ekki að eigi eftir að koma meira við sögu á þessari leiktíð eftir að hafa beyglað hnéð á sér í nótt.

Saga fimmta leiksins í okkar hugum er hvað Cleveland, með þá LeBron James og Kyrie Irving í fararbroddi, nýtti sér allar þær glufur sem mynduðust í varnarleik heimamanna þegar Green var ekki í húsinu.

Þeir félagar Kyrie og Bron gerðu þó meira en það, því frammistaða þeirra í sóknarleiknum var stórkostleg. Við skulum ekki kalla það neitt annað, nema þú vitir um marga liðsfélaga sem báðir hafa skorað 40+ í sama leiknum í lokaúrslitum (þeir eru ekki til, svona áður en þú ferð að leita).



"Hvar er þetta búið að vera í fyrstu fjórum leikjunum?" spurðu margir eftir leifturárás þeirra Irving og James í nótt. Kannski eðlilegt að fólk pæli í því, en við verðum að hafa hugfast að Golden State hefði ekki unnið 73 leiki í vetur ef allir gætu bara sett undir sig hausinn og sett 40 á það.

Hefðu James og Irving skorað 40 ef Draymond Green hefði verið á sínum stað? Það er pæling, en það er líka pæling sem skiptir engu máli núna. Það sem skiptir máli er að við fengum alveg ógeðslega fjörugan körfuboltaleik sem var svo skemmtilegur að hann reddaði einvíginu.

Getum við líka nýtt þetta tækifæri til að staldra aðeins við og þakka fyrir það í þúsundasta skipti að fá að vera þess heiðurs aðnjótandi að fá að horfa á LeBron James spila körfubolta í beinni útsendingu?

Það er örugglega ekki nóg fyrir hatursmenn hans, en James skoraði 41 stig, hirti 16 fráköst, gaf 7 stoðsendingar, stal 3 boltum og varði 3 skot í leiknum.

Þú heldur kannski að það sé bara eitthvað eðlilegt að menn skili svona tölum, en trúið okkur, það er það ekki.

Samkvæmt léttri leit á tölfræðisíðum hafa fimm menn skilað svona tölum í einum leik á síðustu 30 árum í NBA, sé tekið mið af deildakeppni og úrslitakeppni. Þetta var í lokaúrslitum.

Þeir James og Irving voru á öðru plani í sóknarleiknum í nótt og þeir þurftu líka að vera það. Þeir gerðu eitthvað sem fáir menn hafa afrekað í sögu lokaúrslitanna til þess eins að halda lífi í einvíginu og því er kannski eðlilegt að fólk fari að hugsa um það hvað þeir þurfi eiginlega að gera næst ef þeir ætla sér að halda því áfram.

Það er komin upp óhemju áhugaverð staða í þessu einvígi núna. Vissulega er freistandi að horfa of langt fram í tímann og velta því fyrir sér hvort Cleveland ætli virkilega að takast að koma þessu í oddaleik, en við skulum ekki horfa lengra en í leik sex í Ohio á fimmtudaginn.

Þar verður Draymond Green aftur kominn á sinn stað í lið Warriors, en eins og staðan er núna verður að teljast ólíklegt að Andrew Bogut verði með í þeim leik (eða restinni af einvíginu). Það skiptir máli, alveg eins og það skiptir máli hvort Cleveland hefur trú á verkefninu. Hvort liðið trúi því að það geti virkilega snúið þessu við.

Serían sem var á góðri leið með að verða drullukaka í stöðunni 2-0 og 3-1 fyrir Golden State er nú orðin að girnilegri rjómatertu sem bíður okkar í ísskápnum þangað til klukkan eitt á fimmtudagskvöldið.