Friday, June 24, 2016
LeBron James inn í elítu NBA Ísland
Við tókum þá meðvituðu ákvörðun að bíða aðeins með það að skrifa þennan pistil, til að láta tilfinningarússíbanann eftir oddaleikinn í lokaúrslitunum ekki hafa of mikil áhrif á okkur. Ykkur grunaði eflaust að þessi væri á leiðinni. LeBron James pistillinn. Þið höfðuð rétt fyrir ykkur.
Enginn körfuboltamaður hefur fengið neitt nálægt þeirri umfjöllun sem LeBron James hefur fengið á þessu vefsvæði, sem er ofureðlilegt, því það er stofnað þegar hann var orðinn besti körfuboltamaður í heimi. Og núna, einum sjö árum síðar eða svo, er hann það ennþá.
James var ekki besti leikmaður deildarkeppninnar í vetur frekar en síðasta vetur, þó hann væri með óguðlega tölfræði og skilaði liði sínu eitthvað upp undir 60 sigra eins og hann gerir á hverju ári. Við hefðum öll rekið upp stór augu ef einhver annar leikmaður hefði skilað þessari tölfræði hans, en við tökum framlagi hans alltaf sem sjálfssögðum hlut.
Væri James ekki að hugsa um að stilla álaginu í jafnt hóf yfir veturinn og spara sig fyrir úrslitakeppnina, væri hann líklega búinn að bæta einni eða tveimur styttum við þessar fjórar sem hann á uppi á hillu og afhentar eru leikmanni ársins í deildarkeppninni. En hann er að safna annars konar gripum núna og annars konar styttum.
Við erum ekki enn farin að fatta hverning í fjandanum Cleveland fór að því að vinna meistaratitilinn árið 2016. Það er eins og sé eitthvað undarlegt í loftinu þessa dagana. Þið þurfið ekki að horfa lengra en á Evrópumótið í knattspyrnu í Frakklandi til að átta ykkur á því hvað við erum að meina. Kannski væri ekki vitlaust að fara og kaupa lottó, nú þegar 1. vinningur þar stefnir í 100 milljónir króna. Hver veit?
Eins og við héldum fram í neikvæðni okkar og leiðindum í síðasta pistli, förum við aldrei ofan af því að betra liðið hafi tapað þessu úrslitaeinvígi. Við vitum alveg að betra liðið vinnur alltaf í sjö leikja seríu og því er ákveðin mótsögn fólgin í þessari fullyrðingu, en getur betra liðið ekki tapað seríu ef leikmenn þess eru orðnir of þreyttir til að spila og besti leikmaðurinn gengur ekki heill til skógar?
Við erum nú hrædd um það. Og þetta kom fyrir Golden State Warriors núna.
Þeir voru orðnir bensínlausir og mættu besta körfuboltamanni í heimi sem var búinn að fá miklu þægilegra prógramm en þeir í úrslitakeppninni.
En það er ekki Golden State sem er viðfangsefni þessa pistils - það er LeBron James. Það má vel vera að Warriors-liðið hafi ekki spilað upp á sitt besta í lokaúrslitunum - það gerði það sannarlega ekki - en LeBron James gæti ekki verið meira sama.
Hann er búinn að rífa þetta ævintýri til sín, snúa því með hæfileikum og handafli, losa prinsessuna úr álögunum og giftast henni og allir lifðu hamingjusamir til æviloka. Amen.
Forsíðumyndina með þessari færslu bjuggum við til í fyrra. Þá vorum við alltaf að bíða eftir tækifæri til að skrifa LeBron James inn í meistaraklúbbinn, þar sem aðeins allra, allra, allra bestu leikmenn sögunnar fá aðgang. Fattiði, Jordan, Larry og Magic. Þannig klúbbur.
Við verðum að segja alveg eins og er, ekki hefði okkur svo mikið sem dreymt um að James myndi pikka í okkur og minna okkur á að skrifa þessa grein með því að vinnna annan meistaratitil. Það töldum við - og þið örugglega - algjörlega ómögulegt.
Jú, jú, Cleveland hefur alltaf ákveðið forskot á fulltrúa vestursins í lokaúrslitum af því leið þess í gegn um austrið er svo átakanlega létt, en James og félagar geta ekkert að því gert. Þeir spila bara við það sem sett er fyrir þá og undanfarin ár hefur það verið svo mikið drasl að það er tímasóun að spila þessi einvígi. Sóun á tíma, sóun á sjónvarpsrétti, svo mikið bull að þessir klúbbar ættu að skammast sín.
Þessi aukna hvíld sem Cleveland fékk með því að tapa aðeins tveimur leikjum á leið sinni í gegn um austrið, hefur alveg tvímælalaust hjálpað því mikið þegar í úrslitin var komið. Sérstaklega gerði það LeBron James kleift að vera algjörlega upp á sitt besta í úrslitunum og þó hann hafi verið "lengi í gang" á sinn eigin mælikvarða, voru síðustu þrír leikir hans í einvíginu með því besta sem nokkru sinni hefur sést í lokaúrslitarimmu.
James var með 29,7 stig, 11,3 fráköst, 8,9 stoðsendingar, 2,6 stolna bolta og 2,3 varin skot í úrslitaeinvíginu, en eftir að Golden State komst að því er virtist fyrirhafnarlítið í 3-1 í einvíginu, ákvað hann að skipta yfir í god-mode.
Golden State átti engin svör við LeBron James í guðsgírnum og hann setti allt Ohio-ríki á herðar sér og vann þrjá síðustu leikina í rimmunni. Þetta var í fyrsta skipti sem Warriors tapaði þremur leikjum í röð síðan Steve Kerr tók við liðinu. Tölurnar hans LeBron James í þessum síðustu þremur leikjum?
36 stig, 12 fráköst, 10 stoðsendingar, 3 stolnir, 3 varin, 51% skotnýting og 42% í þristum.
Og eins og þú hefur alveg örugglega séð alla fréttamiðla tyggja hundrað sinnum, varð James fyrsti maðurinn í sögunni til að leiða úrslitaeinvígið í ÖLLUM tölfræðiþáttum. Það vottar ekki fyrir því að það sé eitthvað eðlilegt.
Þá er ótalið varða skotið hans á Andre Iguodala, sem framvegis verður einfaldlega kallað Blokkeríng-in. Það var vel við hæfi að James hakkaði manninn sem hirti af honum mvp-styttu lokaúrslitanna í fyrra með þessari suddalegu blokkeríngu og það á ögurstundu. Það er ekkert hæp, þetta er stærsta varða skot NBA sögunnar.
"Þetta eru fallegustu tilþrif sem ég hef séð í körfuboltaleik," sagði Jim Boylen, aðstoðarþjálfari Cleveland um blokkerínguna ógurlegu. Við skiljum hann vel. Hvernig James var búinn að ákveða hvað hann ætlaði að gera þar sem hann stóð í horninu á hinum enda vallarins. Hljóp, miðaði, reiknaði og búmm. Sögubækur og youtube að eilífu.
Við erum ógeðslega glöð fyrir hönd LeBron James að hann skuli hafa náð sér í þriðja titilinn sinn á ferlinum og þriðju finals-mvp styttuna í leiðinni. Golden State átti alltaf að vinna þetta einvígi, en LeBron James ákvað að leyfa það ekki. Leikmenn sem geta bara ákveðið að taka svona yfir úrslitaeinvígi eru alveg óhemju sjaldgæfir og þess vegna veistu að þú ert að horfa á mjög sérstakan leikmann ef þú verður vitni að svona yfirtöku eins og James bauð upp á gegn Warriors.
“Hann býr yfir svo miklu líkamlegu afli, hann er svo kraftmikill. Mér fannst hann miklu öflugri í síðustu þremur leikjunum en fyrstu fjórum, en hann er einn besti leikmaður allra tíma," sagði Steve Kerr eftir að hafa horft upp á James skjóta hans menn í sumarfrí.
Stephen Curry var auðmýktin uppmáluð eftir tapið og hrósaði mótherja sínum í hástert: "Hann spilaði frábærlega og setti niður mikilvæg skot. Hann átti sannarlega stóran þátt í því að þeir unnu, þannig að maður verður að taka ofan fyrir honum og óska honum til hamingju. Þeir eiga þetta skilið, þeir spiluðu af sér rassgatið og náðu að klára þetta. Þetta er sérstakt augnablik fyrir þá.... við vitum hvernig tilfinning þetta er," sagði Curry, sem olli vonbrigðum í úrslitaeinvíginu - strangt til tekið annað árið í röð.
LeBron setti hlutina skemmtilega í samhengi þegar hann var spurður að því fyrir lokaúrslitaeinvígið hvort pressan kæmi til með að hafa áhrif á hann. Hann sagðist þegar vera búinn að snúa á tölfræðina og gera eitthvað sem átti að vera ómögulegt bara með því að komast til manns upp úr þeim aðstæðum sem hann ólst upp við.
Þetta er rómantísk útskýring, en alveg rétt. James flutti einu sinni í mánuði þegar hann var á unglingsaldri og það var aldrei til peningur, en í dag er hann sigursæll milljarðamæringur með sitt eigið viðskiptaveldi og getur gert nákvæmlega það sem honum sýnist.
“Ég hef verið trúr leiknum öll þau þrettán ár sem ég hef spilað í deildinni. Ég hef gefið allt í þetta og spilað með hjartanu, blóðinu, svitanum og tárunum og það er enn fólk þarna úti sem efast um hvað ég get, þannig að þetta er smá ísing á kökuna," sagði James með bikarinn í höndunum.
Það er sannarlega rétt. LeBron James á sér óhemju marga gagnrýnendur og meira en það - sumt fólk hreinlega hatar hann. Megnið af þessu er öfund og ekkert annað og við erum alveg 100% viss um að meirihluti körfuboltapjúrista eru mjög hrifnir af spilamennsku James og bera virðingu fyrir því sem hann hefur náð að afreka á ferlinum.
Því eins og við höfum svo oft bent á, hefur LeBron James verið með þrjá hljóðnema og tvær myndavélar í andlitinu á sér samfleytt síðan hann var barn og hann kom inn í NBA deildina í mesta fjölmiðlafári sem sést hefur um nokkurn leikmann. Það voru læti þegar menn eins og Wilt og Kareem komu inn í deildina, en það var ekki í þessum 24/7 fréttaheimi nútímans þar sem umfjöllunin er sífelld.
Það voru ekki bara fjölmiðlar, fyrirtæki, umboðsmenn og stuðningsmenn sem settu pressu á James. Mesta pressuna setti hann á sig sjálfur, eins og hógværa bakhúðflúrið hans ber með sér. LeBron James kom inn í NBA deildina með mestu pressu og athygli á herðunum sem nokkur leikmaður hefur séð og það sem er enn merkilegast við ferilinn hans er að hann hefur staðið undir þessum óraunhæfu og ofurmannlegu væntingum og farið fram úr þeim. Öllum.
Og þá komum við að því hvað á að gera við svona snillinga, svona leikmenn sem koma kannski fram einu sinni eða tvisvar á hverri öld! Það er enginn leikmaður eins og LeBron James, hefur aldrei verið og okkur er til efs að okkur muni endast aldur til að sjá annan LeBron James í NBA deildinni.
Það er náttúrulega bæði huglægt, óvísindalegt og ósanngjarnt að bera körfuboltamenn saman við aðra leikmenn sem spila jafnvel aðrar leikstöður og spila ekki einu sinni á sömu öldinni! En við ætlum heldur ekki beint að gera það. Í okkar bókum er til alveg sérstakur klúbbur uppi á körfuboltahimnum, þar sem aðeins þeir allra bestu fá aðgang.
Það eru til stjörnur, stjörnuleikmenn, úrvalsleikmenn, heiðurshallarmeðlimir og það allt saman, en það er ekki nóg til að komast inn í elítuklúbbinn. Þangað er LeBron James nú formlega kominn og það þó hann sé ekki einu sinni hættur að spila. Það segir sína sögu um hvað hann er ótrúlegur körfuboltamaður. Við setjum hann á efsta þrep virðingarstiga NBA sögunnar.
Og þá viltu auðvitað vita hverjir eru þar með honum. Þó það nú væri. Þar sem elítuklúbburinn okkar er frekar nýtt fyrirbæri, erum við ekki endanlega búin að fullmóta hverjir fá að vera í honum, en við getum sagt ykkur hvaða leikmenn fara þangað án umhugsunar.
Það eru Michael Jordan, Magic Johnson, Larry Bird, Kareem Abdul-Jabbar, Bill Russell, Wilt Chamberlain og nú síðast LeBron James.
Áður en þú ferð að grenja og hringja í 112 af því uppáhaldsleikmaðurinn þinn er ekki þarna á listanum (Kobe-aðdáendur í meirihluta, pottþétt), skaltu hafa hugfast að listinn er ekki læstur. Það gæti verið pláss fyrir fleiri menn þarna, en athugið að við erum náttúrulega að tala um þá allra, allra, allra bestu. Menn sem eru með alveg sérstakan pakka, breyta jafnvel leiknum og vinna vörubílshlöss af titlum og öðrum viðurkenningum.
Mennirnir sem eru þarna við þröskuldinn - þar sem LeBron James var fyrir mánuði síðan - eru t.d. Kobe Bryant og Tim Duncan, Jerry West, Oscar Robertson, Hakeem Olajuwon, Shaquille O´Neal, Elgin Baylor, Moses Malone og Julius Erving.... við gætum haldið áfram, en það er óþarfi.
Það sem skiptir máli er að við erum búin að finna LeBron James stað á meðal þeirra bestu í sögunni, af því þar á hann skilið að vera. James á sér engan líkan í NBA sögunni og ef þú pælir í því, yrði hann alltaf, undir öllum kringumstæðum, í úrvalsliði allra tíma ef það yrði sett saman. Alltaf. Fjölhæfni hans í bæði vörn og sókn tryggja það. Það má deila um hvaða menn ætti að setja í sumar stöðurnar í besta liði allra tíma, en James yrði alltaf þarna inni, alveg eins og Michael Jordan yrði alltaf í skotbakvarðarstöðunni. Þú getur bara reynt að mótmæla því.
Nei, LeBron James er ekki betri en Michael Jordan, það er líklega enginn, en hann er kominn þarna upp þó hann sé ekki einu sinni hættur að spila. LeBron James er langbesti körfuboltamaður sinnar kynslóðar og einn sá allra besti í sögunni.
Og það, krakkar. Það er bara þannig.
Efnisflokkar:
Elítuklúbbur NBA Ísland
,
Geimverur
,
Heiðurshöllin
,
LeBron James
,
MVP
,
Úrvalsleikmenn