Wednesday, June 22, 2016

Okkur þykir það leitt, en...


Úrslitaeinvígin í NBA deildinni eru alltaf söguleg upp að vissu marki, en úrslitaeinvígið sem við fengum í ár var alveg sérstakt - einfaldlega eitt af þeim allra, allra bestu. Og það er Cleveland sem vann þetta allt saman. Cleveland! Margir trúa því ekki enn.

Margir héldu að úrslitarimma Cavs og Warriors yrði alltaf ákveðið skref niður á við í drama og gæðum frá stórkostlegu einvígi Golden State og Oklahoma um daginn, en lokaúrslitin voru ekki aðeins á pari við þá seríu - þau voru betri! Og það segir sína sögu.

Þeir voru ekki margir, sérfræðingarnir sem spáðu Cleveland sigri í þessu einvígi og ef þú hefur lesið eitthvað af pistlum okkar hér á þessu vefsvæði í vetur, veistu að þetta kemur okkur gríðarlega á óvart. Að Cleveland skuli hafa hirt titilinn af Golden State, er nokkuð sem við hefðum talið óhugsandi fyrir aðeins nokkrum dögum síðan, en nú er það orðin staðreynd sem við verðum að rannsaka nánar.Staðreyndin er nefnilega sú að Golden State er betra lið en Cleveland. Meira að segja miklu betra. Og það fékk tækifæri til að sýna okkur það enn einu sinni í þessum mánuði, en það tókst ekki að þessu sinni. Öllum verður á í messunni annað slagið og þegar Warriors-menn ætluðu að sýna okkur enn og aftur hvað þeir eru með gott tak á Cleveland, misstu þeir takið á seríunni sem þeim var gefin til þess.

Þið vitið alveg jafn vel og við að Warriors-liðið er betra en Cleveland. Þið sáuð Golden State vinna úrslitaeinvígið í fyrra nokkuð sannfærandi þegar upp var staðið, þið sáuð Warriors vinna leiki liðanna í deildarkeppninni í vetur og þið sáuð Curry og félaga komast í 2-0 og 3-1 í rimmu liðanna á dögunum.En lengra komust þeir ekki. Þeir misstu Cleveland fram úr sér og töpuðu. Ástæðurnar fyrir því eru margvíslegar og okkur grunar að þú sért einmitt að lesa þennan pistil af því þig langar að vita hvað gerðist í þessu einvígi. Hvernig í ósköpunum fór Golden State að því að tapa úrslitaseríu eftir að hafa verið komið 3-1 yfir? Eftir svona frábæran og sögulegan vetur?

Við skulum ekki pína þig lengur. Ástæðurnar fyrir tapi Warriors eru banvæn blanda af kæruleysi, hroka, meiðslum, þreytu, óheppni og einum hálfguði. Hálfguðinn er LeBron James, ef það er að vefjast fyrir þér.Þetta kemur kannski út eins og við séum að gera lítið úr Cleveland og gjaldfella meistaratitilinn þeirra, en það er nú ekki ætlunin hjá okkur. Við erum bara að benda á sannleikann hérna. Við höldum hvorki með Cleveland né Golden State og er nokk sama hvort þessara liða vinnur þegar þau mætast í úrslitum. Við vorum ákaflega ánægð fyrir hönd LeBron James þegar hann vann þriðja titilinn sinn, en eigum annars ekki hest í þessum veðreiðum.

Ákvörðun Golden State að eltast við sigrametið í deildarkeppninni í vetur var nokkuð umdeild og það er ekki nokkur spurning að hið aukna álag sem fylgdi þeim áformum gerði Warriors-mönnum erfiðara fyrir í úrslitakeppninni.Á meðan var pressa á þeim fyrir nánast hvern einasta leik í vetur (þar sem þeir fengu oftast verðuga samkeppni frá mótherjanum af því þeir voru jú meistararnir) var Cleveland á krúskontról eftir hraðbrautum Austurdeildarinnar. Þá er ótalið að Golden State flýgur miklu, miklu lengra en Cleveland yfir veturinn, en förum ekki nánar út í það hér.

Margir segja að Warriors hefðu aldrei átt að eltast við þessi met í deildarkeppninni af því það væri meistaratitillinn sem skipti máli, ekkert annað. Þetta fólk hefur ekki skilning á því hvernig NBA deildin virkar. Þú segir ekki tiltölulega ungu og sögulega góðu körfuboltaliði að sleppa því að verða kallað besta lið allra tíma! Auðvitað læturðu slag standa, svona einu sinni! Ekki vera asni! Met eru til að slá þau!Warriors-liðið var nær óþekkjanlegt á löngum köflum í lokaúrslitaeinvíginu og það var að hluta til af því mannskapurinn var bara búinn á því. Búinn á því eftir langan og strangan vetur og bensínlaus eftir maraþonviðureign við Oklahoma í einvíginu á undan þar sem það þurfti sjálft að koma til baka eftir að hafa lent undir 3-1.

Meiðsli settu sinn svip á þetta líka. Stephen Curry var aldrei hann sjálfur í þessari úrslitakeppni, ekki nema í litlum rispum og það skiptir gríðarlegu máli fyrir allt gengi Warriors. Svo dettur Bogut út og Iguodala var ónýtur í bakinu. Þetta hjálpaði ekki.

Warriors menn gerðu sig líka seka um hroka og kæruleysi. Aftur fyrir bak sendingarnar hans Stephen Curry og afleit frammistaða hans á löngum köflum í varnarleiknum, eru færð í þann flokk. Meistararnir þáverandi héldu að þetta væri bara komið eftir tvo leiki - og endanlega búið eftir fjóra. Að þeir gætu bara látið sig renna í mark.Þá kom þetta Draymond Green dæmi upp á, enn eitt pungsparkið og leikbannið og hvað það nú var. Við erum ekki viss um að það hafi endilega verið rusltalið í Draymond sem kveikti í LeBron James (hann er ekki vanur að sækja sér mótiveríngu í einhverju til að verða brjálaður yfir), en eitthvað var það sem gerði það að verkum að hann tók þetta einvígi og sneri því við - nánast upp á sitt einsdæmi.

Og eins og þið sjáið, var það LeBron James sem var stóra breytan í einvíginu. Við vorum nánast hætt að öskra á sjónvarpið þegar kom að James. Fyrst sótti hann allt of lítið á körfuna og þegar hann loksins fór að sækja á körfuna, náði hann ekki að hitta nokkurn skapaðan hlut og því slógum við því föstu að hann væri bara orðinn of lúinn til að slútta.Var hann orðinn of gamall allt í einu!?! Það var það eina sem okkur datt í hug, en eins og þið sáuð í þremur síðustu leikjunum, reyndist það blessunarlega vera þvættingur. Ætli hann hafi ekki bara verið að geyma það besta þangað til í lokin.

James átti mestan þátt í því að Cleveland náði að vinna einvígið sem það átti ekki að geta unnið og við munum segja ykkur hvað okkur finnst um það í sérstökum pistli hér á NBA Ísland innan skamms.

En þrátt fyrir hetjúdáðir LeBron James, fékk hann nú smá hjálp frá félögum sínum líka. Kyrie Irving sýndi að hann getur ekki bara hangið á bolta og skorað hetjukörfur úr glórulausum færum í deildarkeppninni - heldur getur hann það í lokaúrslitum líka. Sem er áhrifamikið.Meira að segja Kevin Love hjálpaði til í úrslitaleiknum og (gúlp) JR Smith átti sennilega rispuna sem kveikti endanlega í Cleveland-liðinu í oddaleiknum. Við sögðum einhvern tímann að það yrði ekkert lið meistari sem þyrfti að treysta á mann eins og JR Smith í lykilhlutverki.

Ekki eruð þið hissa á því. Maðurinn er bandormur og vitleysingur. En mjög svo sveiflukenndur leikur hans í skotbakvarðarstöðunni nægði Cleveland að þessu sinni. Það er ekki annað en frekari sönnun þess hve yfirnáttúrulegur LeBron James var í úrslitunum.

Þrátt fyrir allt þetta mótlæti var Golden State nú samt aðeins tveimur sóknum frá því að verja titilinn sinn, sem einmitt þess vegna hlýtur að vera ennþá grátlegra fyrir leikmenn og þjálfara liðsins. Þeir töpuðu fyrir liði sem var orðið "tíkin þeirra" og geta ekki kennt neinum öðrum en sjálfum sér um það.

Þeir eiga líka eftir að gera það í allt sumar og við höfum trú á því að þeir komu brjálaðir en einbeittir til leiks næsta vetur og nýti sér þessa auknu reynslu til að hirða aftur það sem þeir telja að tilheyri þeim í júní á næsta ári.

Annað sem þarf að taka fram. Þó leikmenn Golden State hafi stundum spilað hrokafullan bolta og þó þeir fari orðið í taugarnar á mjög mörgum (eins og meistaralið eiga að gera), var framkoma þeirra algjörlega upp á tíu eftir leik. Þeir gáfu sér tíma til að þakka mótherjum sínum fyrir leikinn, hrósa þeim og sýna almenna auðmýkt sem er ekki á allra færi. Warriors-menn hafa sem sagt sýnt okkur að þeir kunna bæði að vinna og tapa eins og herramenn.Þessari hugleiðingu ekki ætlað að vera árás eða hraun yfir það sem Cleveland hefur afrekað í vetur, þvert á móti. Það að Cavs hafi náð að rífa titilinn af liði sem er búið að ná öðrum eins árangri og Warriors er ekkert minna en afrek.

Málið er bara að Golden State er búið að vera dálítið eins og Stephen Curry undanfarið. Þú sérð glefsur af snilldinni annað slagið, en ekkert í líkingu við það sem hann sýndi okkur dag eftir dag í vetur. Það skilar þér eitthvað áleiðis, jafnvel í úrslit, en það er ekki nóg til að vinna titil. Ekki þetta árið að minnsta kosti.