Saturday, February 27, 2016

Af leikandi léttum Haukum


Ka-kaaaaa!*

Einar Árni kærði sig ekki um að nota flensuskít sem afsökun fyrir slökum leik hans manna í Þórsliðinu þegar þeir steinlágu 86-62 fyrir Haukum í Schweinhunde-höllinni í Hafnarfirði í gærkvöldi. Hann sagði að hefðu verið veikindi hjá Haukunum líka. Það bar þó eitthvað minna á því hjá heimamönnum.

Það sem fór með þetta hjá Þórsurunum var að mikilvægasti leikmaður liðsins var mjög augljóslega veikur, enda skoraði Vance Hall ekki nema 12 stig og hitti úr 4 af 13 utan af velli. Það gefur augaleið að þetta verður alltaf erfitt þegar prímusmótorinn er á felgunni. Sáum Natvélina poppa íbúfen á bekknum.

Þetta var skítt fyrir Þórsarana, að lenda í svona pestarkjaftæði á svona mikilvægum tímapunkti, þar sem liðin í efri hluta deildarinnar eru að klóra og bíta hvert annað til að ná í heimavöllinn í úrslitakeppninni. Þórsararnir reyndu, en stundum ganga hlutirnir einfaldlega ekki upp. Þeir eiga eftir að svara þessu þegar þeir hressast, ekki spurning.

Aftur urðum við vitni að Jekyll and Haukar móment hjá Hafnfirðingum. Þeir eru álíka stöðugir og íslenska krónan, en þetta getur verið drullu skemmtilegt lið þegar það er í essinu sínu. Við erum búin að sjá nokkra átakanlega leiki frá Haukunum í vetur, en þeir virðast hafa unnið í Kanalottóinu, því það er allt annað að sjá liðið eftir að Brandon Mobley kom inn í þetta hjá þeim.

Nú höfum við ekki hugmynd um hvort þessi uppsveifla Hafnfirðinga skrifast á hann eða ekki, en hann á tvímælalaust þátt í þessu. Maðurinn er einfaldlega frábær í körfubolta, sem hjálpar. Hann er með 21/9 meðaltal þrátt fyrir fúleggið sem hann verpti gegn Star um daginn og er að skjóta 50% fyrir innan og utan.

Þegar vörnin heldur hjá Haukum, boltinn gengur vel og skotin þar af leiðandi að detta, er ljómandi gaman að horfa á þá spila körfubolta. Sérstaklega þótti okkur gaman að sjá þegar (Steph) Kári Jónsson og Mobley tóku vegginn og veltuna. Það var svona dálítið: "Hvort viltu láta bora í hnéskelina á þér eða sparka úr þér tennurnar?"- dæmi fyrir aumingja Þórsarana.

Vorum við búin að segja ykkur frá hrifningu okkar af Kára Jónssyni? Já, margoft, en hér kemur það aftur. Við ráðum ekkert við þetta. Eigum ekki séns þegar kemur að Kára, eins og líklega allir körfuboltaáhugamenn sem á annað borð eru með mælanlegan púls. Drengurinn er listamaður í alla staði og skilar 18/5/5 með 55% og 37% í vetur. Uh, jez-ah.

Men in black, lag Will Smith úr samnefndri kvikmynd, var á toppi breska vinsældalistans daginn sem Kári fæddist í lok ágúst árið 1997.

Nú eru Haukarnir búnir að vinna fimm leiki í röð og eru taplausir í febrúar eftir að hafa kvatt janúar með blæstri frá KR. Það er freistandi að stökkva um borð í Haukavagninn og byrja að renna sér núna, en við ætlum ekki að gera það alveg strax. Viljum ekki brenna okkur aftur. Það er svo sárt.

Hvað sem öðru líður, ætti að vera óhætt að áætla að Haukar eigi eftir að setja skemmtilegan svip á úrslitakeppnina í vor - eitthvað sem við sáum ekki fyrir fyrir mánuði síðan. Þeir eru með hörkulið og eiga að krefjast þess af sjálfum sér að þeir fari að minnsta kosti í undanúrslitin í vor. Annað væru bara vonbrigði og við erum 100% viss um að Haukarnir eru því sammála.

Það er líklega of mikil bjartsýni að ætla þessu liði að keppa um titilinn, en okkur er alveg sama. Ef þetta lið spilar svona skemmtilegan bolta í úrslitakeppninni, fáum við öll eitthvað fyrir peninginn okkar og þá eru allir glaðir.

Hérna eru loks nokkrar myndir frá leiknum í gær. Þú mátt alveg fá þær lánaðar ef þú gætir þess að merkja okkur þær. Nema þú sért fjölmiðill. Þá eru ekkert of góður til að borga fyrir þær. Dollah, dollah, bill yo!

-------------------------------------------------------------------

* - Þetta er mökunarkall hauksins um fengitímann








Thursday, February 25, 2016

Frá ritstjórn


Þið vitið að okkur hérna á ritstjórn NBA Ísland þykir ákaflega vænt um traustan lesendahópinn okkar, sem að hluta til hefur verið með okkur frá byrjun. Þannig reynum við að koma til móts við lesendur eins og við getum þegar það á við.

Oft vantar fólk upplýsingar um hitt eða þetta (t.d. leikjadagskrá), stundum vantar það ráðleggingar um eitt eða annað (t.d. ferðir á leiki) og stundum hefur það samband til að segja okkur að það hafi gaman af að lesa NBA Ísland. 

Þetta síðastnefnda verður aldrei þreytt.

Fyrir þá sem vilja fá sem mest út úr því að nota NBA Ísland (til viðbótar við lesturinn) hlusta auðvitað á hlaðvarpið, læka NBA Ísland á Facebook og fylgja okkur eftir á Twitter. Það er til dæmis þægilegt að vera með læk á Íslandið á Facebook, því við setjum nýjar greinar oft beint þar inn eftir að þær fæðast og margir lesa pistlana eftir að við birtum tengla á þá á Facebook.

Twitter er óhemju gagnlegt og skemmtilegt verkfæri. Við notum Twitter líka til að miðla efninu okkar, en megnið af tímanum hjá okkur í því apparati fer í að vera með fíflagang á leikskólastigi, hvort sem hann tengist körfubolta eður ei. 

Við hvetjum fólk eindregið til að bæta NBA Ísland í félagsmiðlaflóruna sína. Það borgar sig.

Það er til dæmis ógeðslega hallærislegt að síðan skuli vera föst í 980 lækum á Facebook. Þetta á að fara yfir þúsund og það strax.

Sömu sögu er að segja af Twitternum, þar sem við erum með 1890 fylgjendur í stað 2000+, sem er algjört lágmark ef við eigum að vera að þessu yfir höfuð. Verið endilega dugleg að læka og fylgja og fáið vini ykkar og fjölskyldu til að taka þátt líka.

Einhverra hluta vegna virðist ákveðinn hluti lesenda okkar einfaldlega ekki hafa andlega burði til að átta sig á því að það er hægt að sjá það á ákveðinni síðu á NBA Ísland hvaða leikir verða í beinum útsendingum bæði á Stöð 2 Sport og NBATV. Kannski er það af því það stendur ekki ritað "Dagskrá/Leikir í beinni" með nógu stórum og skýrum stöfum á tveimur stöðum á síðunni. Hvur veit.

Þeir sem kynnu að hafa áhuga á að auglýsa eitthvað á síðunni geta haft samband á nbaisland@gmail.com, en við þurfum ef til vill að fara að hressa aðeins upp á þann hluta hjá okkur. Í framhaldi af því þyrftum við svo dæmis að reyna að keyra NBA Ísland punktur is aftur í gang.

Að lokum viljum við fara þess auðmjúklega á leit við lesendur síðunnar að þeir aðstoði okkur við að reka hana með fjárframlögum, en það er hægt að gera í gegn um paypal-þjónustuna með því að smella á gula hnappinn "Þitt framlag" til hægri á síðunni eða smella hér

Það er dýrt að endurnýja tölvukostinn, myndavélaflotann og byggja upp hljóðver fyrir hlaðvarpsupptökur og því þætti okkur vænt um ef þið gætuð veitt okkur lið í þeim efnum, það þurfa alls ekki að vera stórar upphæðir ef þeir sem eru aflögufærir taka þátt. Allt efnið á NBA Ísland er frítt og verður það áfram, en þeir sem vilja koma þakklæti sínu á framfæri geta notað tækifærið og gert það núna. Hver veit, kannski verða þeir gjafmildustu verðlaunaðir með NBA Ísland bol...



Ykkur er að sjálfssögðu alltaf frjálst að hafa samband við ritstjórnina á nbaisland@gmail.com ef þið hafið einhverjar spurningar eða athugasemdir um eitthvað tengt Íslandinu ykkar. Það er mjög gefandi að fá bréf frá lesendum og heyra hvernig efnið leggst í þá, því stór partur af öllu þessu umstangi er jú alltaf tileinkaður ykkur - lesendunum okkar.

Viðingarfyllst,
Ritstjórn NBA Ísland

Wednesday, February 24, 2016

Nýtt hlaðvarp


58. þáttur Hlaðvarps NBA Ísland er komið í loftið. Í þættinum fara Baldur Beck og Gunnar Björn Helgason yfir stöðu mála í NBA deildinni. Þeir ræða m.a. hvaða lið eru líklegust til að komast í úrslitakeppnina í Austurdeildinni, hvort félagaskiptin um daginn muni hafa áhrif í framhaldinu, vandræðaganginn á Oklahoma, velgengni Golden State og ótalmargt fleira.

Þú getur hlustað á þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar til að setja hann inn á spilarann þinn. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.

Sunday, February 21, 2016

Saturday, February 20, 2016

Ófreskjan að vakna?


Sumir héldu kannski að KR-ingar yrðu eitthvað værukærir þegar deildarkeppnin byrjaði á ný, eftir þennan ljómandi fína sigur í bikarúrslitaleiknum um síðustu helgi. Ekki við. Við sáum það langar leiðir að leikmenn og þjálfarar KR ætluðu einmitt að gæta þess vel að koma brjálaðir til leiks í deildinni og klára hana sem fyrst. Þar styttist í verklok.

Andstæðingar KR í úrvalsdeildinni upplifa örugglega ákveðið "ó, fokk" móment núna. Þetta er augnablikið árlega þegar KR ófreskjan stendur upp, hristir sig og öskrar eins og T-Rex - minnir alla hina á að þeir eiga ekki séns. Sigur KR á Kef í gær var dálítið þannig.

KR á enn helling inni. Við vitum það og þeir vita það, en við þóttumst merkja það á liðinu í gær að nú ætti að fara að ræsa mótorana. Svo hjálpar það mikið þegar einn besti leikmaður deildarinnar er að komast í sitt besta form aftur eftir endalaus meiðslaleiðindi. Við fögnum því að sjá Pavel Ermolinski nálgast sitt fyrra form - sjá hann í og við þrennuna leik eftir leik. Þannig á þetta að vera.

Hérna eru nokkrar myndir úr Vesturbænum í gær.





Sunday, February 14, 2016

Stjörnuleikurinn er í nótt


Stjörnuleikurinn í NBA fer fram í Toronto klukkan eitt í nótt og verður að venju sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Þarna er gleðin og léttleikinn í fyrirrúmi. Góða skemmtun.


Ótrúleg troðkeppni í Toronto í nótt


"Troðkeppnin er komin aftur!" tístu menn eins og Dominique Wilkins eftir að hafa horft á troðkónginn Zach LaVine frá Minnesota verja titil sinn í troðkeppninni í NBA í gærkvöldi eftir rosalegt einvígi við Aaron Gordon frá Orlando.

Þetta eru orð að sönnu. Við erum ekki frá því að þetta hafi verið flottasta úrslitarimma í sögu keppninnar. Aaron Gordon var maður fólksins og Twitter var ósammála dómurunum að gefa LaVine sigurinn. Það skiptir þó í rauninni engu máli, því það sem stendur upp úr er að við fengum sögulega skemmtilega troðkeppni í Toronto í gær.

Gordon kom heldur betur á óvart og lét LaVine, sem fyrirfram var talið að færi létt með þetta eins og í fyrra, vinna fyrir kaupinu sínu fram í síðustu troðslu. Það sem okkur finnst flottast við prógrammið hjá Gordon var að hann klikkaði ekki á einni einustu troðslu í allri keppninni, sem er lygilegt þegar haft er í huga hvað drengurinn var að framkvæma flókna hluti þarna uppi.

Þetta var hreint út sagt frábær keppni og það gleður okkur óendanlega að sjá að troðkeppnin lifi góðu lífi, eftir að hafa nánast dáið út um árabil. Svona háloftafuglar eins og LaVine og Gordon eiga heiður skilinn fyrir þessa hágæðaskemmtun í nótt. Við vorum svo hrifin af þessu að við ákváðum að henda hérna inn bæði myndbandi og myndum handa ykkur sem misstuð af stemmaranum, eða viljið upplifa hann á ný.









Og þá var kátt í Höllinni


NBA Ísland óskar KR-piltum og Snæfells-stúlkum til hamingju með bikarmeistaratitlana í gær. Það er alltaf svo gaman að vera til á bikardeginum, þegar við fjölmennum öll í höllina, hittum hvort annað og skemmtum okkur saman yfir frábærum körfubolta. Allir vinna, nema þeir sem tapa.

Við ætlum ekki að reyna að neita því að Þórsliðið úr Þorlákshöfn er búið að heilla okkur mikið í vetur og því var sómi af því að sjá þetta skemmtilega lið í Höllinni í gær. Eins og flestir reiknuðu með, reyndist KR-liðið of stór biti til að kyngja fyrir austanmenn, en þeir stóðu sig frábærlega og eiga hrós skilið fyrir frammistöðu sína í sínum fyrsta bikarúrslitaleik.

Það sem gladdi okkur mest við úrslitaleikinn í karlaflokki var sú staðreynd að Helgi Magnússon næði að vinna sigur í því sem er nokkuð örugglega hans síðasti bikarúrslitaleikur. Helgi og KR-liðið hans hefur lent í basli í bikarnum á undangengnum árum, en það var ljóst frá fyrstu mínútu í gær að Helgi ætlaði alls ekki tómhentur heim úr höllinni. Hann ætlaði að vinna þennan fjandans titil og ekkert rugl!

Það verður eftirsjá í höfðingja eins og Helga þegar hann hættir að spila í vor, því menn eins og hann vaxa ekki á trjánum. Liðsmenn og leiðtogar út í gegn, fúndamentin á hreinu og aldrei neitt bull. Sannkallaður meistari, hann Helgi. Þá er bara að loka Íslandsmeistaratitlinum, til að fullkomna endasprettinn. Það yrði sannarlega draumaár fyrir þennan frábæra leikmann.

Hérna eru nokkrar gular myndir úr Höllinni: