Saturday, February 27, 2016

Af leikandi léttum Haukum


Ka-kaaaaa!*

Einar Árni kærði sig ekki um að nota flensuskít sem afsökun fyrir slökum leik hans manna í Þórsliðinu þegar þeir steinlágu 86-62 fyrir Haukum í Schweinhunde-höllinni í Hafnarfirði í gærkvöldi. Hann sagði að hefðu verið veikindi hjá Haukunum líka. Það bar þó eitthvað minna á því hjá heimamönnum.

Það sem fór með þetta hjá Þórsurunum var að mikilvægasti leikmaður liðsins var mjög augljóslega veikur, enda skoraði Vance Hall ekki nema 12 stig og hitti úr 4 af 13 utan af velli. Það gefur augaleið að þetta verður alltaf erfitt þegar prímusmótorinn er á felgunni. Sáum Natvélina poppa íbúfen á bekknum.

Þetta var skítt fyrir Þórsarana, að lenda í svona pestarkjaftæði á svona mikilvægum tímapunkti, þar sem liðin í efri hluta deildarinnar eru að klóra og bíta hvert annað til að ná í heimavöllinn í úrslitakeppninni. Þórsararnir reyndu, en stundum ganga hlutirnir einfaldlega ekki upp. Þeir eiga eftir að svara þessu þegar þeir hressast, ekki spurning.

Aftur urðum við vitni að Jekyll and Haukar móment hjá Hafnfirðingum. Þeir eru álíka stöðugir og íslenska krónan, en þetta getur verið drullu skemmtilegt lið þegar það er í essinu sínu. Við erum búin að sjá nokkra átakanlega leiki frá Haukunum í vetur, en þeir virðast hafa unnið í Kanalottóinu, því það er allt annað að sjá liðið eftir að Brandon Mobley kom inn í þetta hjá þeim.

Nú höfum við ekki hugmynd um hvort þessi uppsveifla Hafnfirðinga skrifast á hann eða ekki, en hann á tvímælalaust þátt í þessu. Maðurinn er einfaldlega frábær í körfubolta, sem hjálpar. Hann er með 21/9 meðaltal þrátt fyrir fúleggið sem hann verpti gegn Star um daginn og er að skjóta 50% fyrir innan og utan.

Þegar vörnin heldur hjá Haukum, boltinn gengur vel og skotin þar af leiðandi að detta, er ljómandi gaman að horfa á þá spila körfubolta. Sérstaklega þótti okkur gaman að sjá þegar (Steph) Kári Jónsson og Mobley tóku vegginn og veltuna. Það var svona dálítið: "Hvort viltu láta bora í hnéskelina á þér eða sparka úr þér tennurnar?"- dæmi fyrir aumingja Þórsarana.

Vorum við búin að segja ykkur frá hrifningu okkar af Kára Jónssyni? Já, margoft, en hér kemur það aftur. Við ráðum ekkert við þetta. Eigum ekki séns þegar kemur að Kára, eins og líklega allir körfuboltaáhugamenn sem á annað borð eru með mælanlegan púls. Drengurinn er listamaður í alla staði og skilar 18/5/5 með 55% og 37% í vetur. Uh, jez-ah.

Men in black, lag Will Smith úr samnefndri kvikmynd, var á toppi breska vinsældalistans daginn sem Kári fæddist í lok ágúst árið 1997.

Nú eru Haukarnir búnir að vinna fimm leiki í röð og eru taplausir í febrúar eftir að hafa kvatt janúar með blæstri frá KR. Það er freistandi að stökkva um borð í Haukavagninn og byrja að renna sér núna, en við ætlum ekki að gera það alveg strax. Viljum ekki brenna okkur aftur. Það er svo sárt.

Hvað sem öðru líður, ætti að vera óhætt að áætla að Haukar eigi eftir að setja skemmtilegan svip á úrslitakeppnina í vor - eitthvað sem við sáum ekki fyrir fyrir mánuði síðan. Þeir eru með hörkulið og eiga að krefjast þess af sjálfum sér að þeir fari að minnsta kosti í undanúrslitin í vor. Annað væru bara vonbrigði og við erum 100% viss um að Haukarnir eru því sammála.

Það er líklega of mikil bjartsýni að ætla þessu liði að keppa um titilinn, en okkur er alveg sama. Ef þetta lið spilar svona skemmtilegan bolta í úrslitakeppninni, fáum við öll eitthvað fyrir peninginn okkar og þá eru allir glaðir.

Hérna eru loks nokkrar myndir frá leiknum í gær. Þú mátt alveg fá þær lánaðar ef þú gætir þess að merkja okkur þær. Nema þú sért fjölmiðill. Þá eru ekkert of góður til að borga fyrir þær. Dollah, dollah, bill yo!

-------------------------------------------------------------------

* - Þetta er mökunarkall hauksins um fengitímann