Thursday, February 25, 2016

Frá ritstjórn


Þið vitið að okkur hérna á ritstjórn NBA Ísland þykir ákaflega vænt um traustan lesendahópinn okkar, sem að hluta til hefur verið með okkur frá byrjun. Þannig reynum við að koma til móts við lesendur eins og við getum þegar það á við.

Oft vantar fólk upplýsingar um hitt eða þetta (t.d. leikjadagskrá), stundum vantar það ráðleggingar um eitt eða annað (t.d. ferðir á leiki) og stundum hefur það samband til að segja okkur að það hafi gaman af að lesa NBA Ísland. 

Þetta síðastnefnda verður aldrei þreytt.

Fyrir þá sem vilja fá sem mest út úr því að nota NBA Ísland (til viðbótar við lesturinn) hlusta auðvitað á hlaðvarpið, læka NBA Ísland á Facebook og fylgja okkur eftir á Twitter. Það er til dæmis þægilegt að vera með læk á Íslandið á Facebook, því við setjum nýjar greinar oft beint þar inn eftir að þær fæðast og margir lesa pistlana eftir að við birtum tengla á þá á Facebook.

Twitter er óhemju gagnlegt og skemmtilegt verkfæri. Við notum Twitter líka til að miðla efninu okkar, en megnið af tímanum hjá okkur í því apparati fer í að vera með fíflagang á leikskólastigi, hvort sem hann tengist körfubolta eður ei. 

Við hvetjum fólk eindregið til að bæta NBA Ísland í félagsmiðlaflóruna sína. Það borgar sig.

Það er til dæmis ógeðslega hallærislegt að síðan skuli vera föst í 980 lækum á Facebook. Þetta á að fara yfir þúsund og það strax.

Sömu sögu er að segja af Twitternum, þar sem við erum með 1890 fylgjendur í stað 2000+, sem er algjört lágmark ef við eigum að vera að þessu yfir höfuð. Verið endilega dugleg að læka og fylgja og fáið vini ykkar og fjölskyldu til að taka þátt líka.

Einhverra hluta vegna virðist ákveðinn hluti lesenda okkar einfaldlega ekki hafa andlega burði til að átta sig á því að það er hægt að sjá það á ákveðinni síðu á NBA Ísland hvaða leikir verða í beinum útsendingum bæði á Stöð 2 Sport og NBATV. Kannski er það af því það stendur ekki ritað "Dagskrá/Leikir í beinni" með nógu stórum og skýrum stöfum á tveimur stöðum á síðunni. Hvur veit.

Þeir sem kynnu að hafa áhuga á að auglýsa eitthvað á síðunni geta haft samband á nbaisland@gmail.com, en við þurfum ef til vill að fara að hressa aðeins upp á þann hluta hjá okkur. Í framhaldi af því þyrftum við svo dæmis að reyna að keyra NBA Ísland punktur is aftur í gang.

Að lokum viljum við fara þess auðmjúklega á leit við lesendur síðunnar að þeir aðstoði okkur við að reka hana með fjárframlögum, en það er hægt að gera í gegn um paypal-þjónustuna með því að smella á gula hnappinn "Þitt framlag" til hægri á síðunni eða smella hér

Það er dýrt að endurnýja tölvukostinn, myndavélaflotann og byggja upp hljóðver fyrir hlaðvarpsupptökur og því þætti okkur vænt um ef þið gætuð veitt okkur lið í þeim efnum, það þurfa alls ekki að vera stórar upphæðir ef þeir sem eru aflögufærir taka þátt. Allt efnið á NBA Ísland er frítt og verður það áfram, en þeir sem vilja koma þakklæti sínu á framfæri geta notað tækifærið og gert það núna. Hver veit, kannski verða þeir gjafmildustu verðlaunaðir með NBA Ísland bol...



Ykkur er að sjálfssögðu alltaf frjálst að hafa samband við ritstjórnina á nbaisland@gmail.com ef þið hafið einhverjar spurningar eða athugasemdir um eitthvað tengt Íslandinu ykkar. Það er mjög gefandi að fá bréf frá lesendum og heyra hvernig efnið leggst í þá, því stór partur af öllu þessu umstangi er jú alltaf tileinkaður ykkur - lesendunum okkar.

Viðingarfyllst,
Ritstjórn NBA Ísland