Saturday, February 20, 2016

Ófreskjan að vakna?


Sumir héldu kannski að KR-ingar yrðu eitthvað værukærir þegar deildarkeppnin byrjaði á ný, eftir þennan ljómandi fína sigur í bikarúrslitaleiknum um síðustu helgi. Ekki við. Við sáum það langar leiðir að leikmenn og þjálfarar KR ætluðu einmitt að gæta þess vel að koma brjálaðir til leiks í deildinni og klára hana sem fyrst. Þar styttist í verklok.

Andstæðingar KR í úrvalsdeildinni upplifa örugglega ákveðið "ó, fokk" móment núna. Þetta er augnablikið árlega þegar KR ófreskjan stendur upp, hristir sig og öskrar eins og T-Rex - minnir alla hina á að þeir eiga ekki séns. Sigur KR á Kef í gær var dálítið þannig.

KR á enn helling inni. Við vitum það og þeir vita það, en við þóttumst merkja það á liðinu í gær að nú ætti að fara að ræsa mótorana. Svo hjálpar það mikið þegar einn besti leikmaður deildarinnar er að komast í sitt besta form aftur eftir endalaus meiðslaleiðindi. Við fögnum því að sjá Pavel Ermolinski nálgast sitt fyrra form - sjá hann í og við þrennuna leik eftir leik. Þannig á þetta að vera.

Hérna eru nokkrar myndir úr Vesturbænum í gær.