Sunday, February 14, 2016

Ótrúleg troðkeppni í Toronto í nótt


"Troðkeppnin er komin aftur!" tístu menn eins og Dominique Wilkins eftir að hafa horft á troðkónginn Zach LaVine frá Minnesota verja titil sinn í troðkeppninni í NBA í gærkvöldi eftir rosalegt einvígi við Aaron Gordon frá Orlando.

Þetta eru orð að sönnu. Við erum ekki frá því að þetta hafi verið flottasta úrslitarimma í sögu keppninnar. Aaron Gordon var maður fólksins og Twitter var ósammála dómurunum að gefa LaVine sigurinn. Það skiptir þó í rauninni engu máli, því það sem stendur upp úr er að við fengum sögulega skemmtilega troðkeppni í Toronto í gær.

Gordon kom heldur betur á óvart og lét LaVine, sem fyrirfram var talið að færi létt með þetta eins og í fyrra, vinna fyrir kaupinu sínu fram í síðustu troðslu. Það sem okkur finnst flottast við prógrammið hjá Gordon var að hann klikkaði ekki á einni einustu troðslu í allri keppninni, sem er lygilegt þegar haft er í huga hvað drengurinn var að framkvæma flókna hluti þarna uppi.

Þetta var hreint út sagt frábær keppni og það gleður okkur óendanlega að sjá að troðkeppnin lifi góðu lífi, eftir að hafa nánast dáið út um árabil. Svona háloftafuglar eins og LaVine og Gordon eiga heiður skilinn fyrir þessa hágæðaskemmtun í nótt. Við vorum svo hrifin af þessu að við ákváðum að henda hérna inn bæði myndbandi og myndum handa ykkur sem misstuð af stemmaranum, eða viljið upplifa hann á ný.