Þeir eru ánægðir með sig hérna fyrir ofan og ætli það sé ekki í lagi. Stephen Curry og Steve Kerr hafa farið fyrir mögnuðu liði í allan vetur og eru nú komnir með það í úrslitin, þar sem Cleveland bíður.
Golden State lokaði Houston 104-90 í nótt og kláraði einvígið því 4-1. Warriors vann 67 leiki í vetur, er 44-3 á heimavelli, 56-0 í leikjum þar sem það nær 15+ stiga forystu og náttúrulega 12-3 í úrslitakeppninni.
Nú vantar bara fjóra sigra í viðbót til að feta í fótspor Warriors-liðsins hans Rick Barry forðum, en það er vægast sagt kominn tími á það. Flóamenn er búnir að bíða í 40 ár eftir titli og enginn af strákunum í liðinu núna var fæddur þegar liðið vann síðast. Titillinn sá kom líka nokkrum dögum áður en Jaws kom í bíó, þannig að....
Golden State virðist vera tilbúið í lokabardagann við LeBron James og félaga, því það hefur staðið af sér allar þær áskoranir sem fyrir það hafa verið settar hingað til. Það sópaði New Orleans af því það átti að gera það, fékk á kjaftinn gegn Griz en lokaði og sá svo sjálft um að gefa á kjaftinn á móti Houston, sem átti aldrei séns í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar eftir að Warriors komst í 3-0.
Við erum búin að segja það áður og endurtökum það hér. Það er eitthvað stórkostlega mikið að ef Golden State vinnur úrslitaeinvígið ekki örugglega. Við vitum alveg að úrslitaeinvígin í NBA deildinni eru langoftast nokkuð jöfn, en það er bara ekkert í spilunum annað en LeBron James sem bendir á að Cleveland eigi séns í þetta. James er vissulega góður, en ekki nógu góður til að vinna Dubs upp á sitt einsdæmi.
Spáin okkar væri mjög svipuð þó Kevin Love og Kyrie Irving væru við 100% heilsu. Cleveland hefði unnið tvo leiki ef þeirra hefði notið við, en ætti ekki að vinna nema í mesta lagi einn með engan Ástþór og Irving á annari löppinni.
Við finnum óskaplega til með James Harden núna. Okkur er til efs að hann hafi spilað lélegri leik en hann gerði í nótt, þar sem hann hitti ekki rassgat og bætti metið yfr tapaða bolta í úrslitakeppninni úr ellefu upp í þrettán. Þetta er hrikalega neyðarlegt fyrir Skeggið. Harden er búinn að eiga frábæran vetur og frábæra úrslitakeppni, þó hann hafi verpt tveimur fúleggjum í þessu Warriors-einvígi.
En þó við finnum til með Harden, þýðir það alls ekki að hann sleppi við gagnrýni. Hann er búinn að vera að reyna að taka að sér stærra hlutverk sem leiðtogi Rockets en það er ekki að skila sér. Það gefur augaleið að það er Harden sem á að taka að sér að framleiða stig ef sóknarleikur liðsins er ekki að ganga nógu vel, en hann stendur ekki undir þeirri ábyrgð.
Það er náttúrulega fáránlegt að horfa upp á einn besta skorara heimsins, manninn sem varð annar í kjörinu á leikmanni ársins, taka hverja sóknina á fætur annari þar sem hann kemur ekki við boltann og lætur paper-cases eins og Josh Smith sjá um að dæla skotum út í loftið eins og vitleysingar.
Við vitum að það var rosalega krúttlegt þegar Smith tryggði liðinu einn sigurinn á móti Clippers og hvernig hann kveikti í liðinu með skotsýningu sinni í upphafi fjórða leiksins. Fólk má bara ekki gleyma því að þetta er Josh fokkíng Smith og það er ótækt að svona stór hluti umfjöllunar okkar um þetta einvígi skuli vera helgaður honum. Piltur kvaddi okkur með einum dásamlegum Josh Smith-leik, þar sem hann skoraði 11 stig, hirti 4 fráköst og hitti úr þremur af fjórtán skotum sínum, þar af tveimur af sjö í þristum.