Thursday, May 28, 2015

Golden State í úrslit


Þeir eru ánægðir með sig hérna fyrir ofan og ætli það sé ekki í lagi. Stephen Curry og Steve Kerr hafa farið fyrir mögnuðu liði í allan vetur og eru nú komnir með það í úrslitin, þar sem Cleveland bíður.

Golden State lokaði Houston 104-90 í nótt og kláraði einvígið því 4-1. Warriors vann 67 leiki í vetur, er 44-3 á heimavelli, 56-0 í leikjum þar sem það nær 15+ stiga forystu og náttúrulega 12-3 í úrslitakeppninni.

Nú vantar bara fjóra sigra í viðbót til að feta í fótspor Warriors-liðsins hans Rick Barry forðum, en það er vægast sagt kominn tími á það. Flóamenn er búnir að bíða í 40 ár eftir titli og enginn af strákunum í liðinu núna var fæddur þegar liðið vann síðast. Titillinn sá kom líka nokkrum dögum áður en Jaws kom í bíó, þannig að....

Golden State virðist vera tilbúið í lokabardagann við LeBron James og félaga, því það hefur staðið af sér allar þær áskoranir sem fyrir það hafa verið settar hingað til. Það sópaði New Orleans af því það átti að gera það, fékk á kjaftinn gegn Griz en lokaði og sá svo sjálft um að gefa á kjaftinn á móti Houston, sem átti aldrei séns í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar eftir að Warriors komst í 3-0.

Við erum búin að segja það áður og endurtökum það hér. Það er eitthvað stórkostlega mikið að ef Golden State vinnur úrslitaeinvígið ekki örugglega. Við vitum alveg að úrslitaeinvígin í NBA deildinni eru langoftast nokkuð jöfn, en það er bara ekkert í spilunum annað en LeBron James sem bendir á að Cleveland eigi séns í þetta. James er vissulega góður, en ekki nógu góður til að vinna Dubs upp á sitt einsdæmi.


Spáin okkar væri mjög svipuð þó Kevin Love og Kyrie Irving væru við 100% heilsu. Cleveland hefði unnið tvo leiki ef þeirra hefði notið við, en ætti ekki að vinna nema í mesta lagi einn með engan Ástþór og Irving á annari löppinni.

Við finnum óskaplega til með James Harden núna. Okkur er til efs að hann hafi spilað lélegri leik en hann gerði í nótt, þar sem hann hitti ekki rassgat og bætti metið yfr tapaða bolta í úrslitakeppninni úr ellefu upp í þrettán. Þetta er hrikalega neyðarlegt fyrir Skeggið. Harden er búinn að eiga frábæran vetur og frábæra úrslitakeppni, þó hann hafi verpt tveimur fúleggjum í þessu Warriors-einvígi.

En þó við finnum til með Harden, þýðir það alls ekki að hann sleppi við gagnrýni. Hann er búinn að vera að reyna að taka að sér stærra hlutverk sem leiðtogi Rockets en það er ekki að skila sér. Það gefur augaleið að það er Harden sem á að taka að sér að framleiða stig ef sóknarleikur liðsins er ekki að ganga nógu vel, en hann stendur ekki undir þeirri ábyrgð.


Það er náttúrulega fáránlegt að horfa upp á einn besta skorara heimsins, manninn sem varð annar í kjörinu á leikmanni ársins, taka hverja sóknina á fætur annari þar sem hann kemur ekki við boltann og lætur paper-cases eins og Josh Smith sjá um að dæla skotum út í loftið eins og vitleysingar.

Við vitum að það var rosalega krúttlegt þegar Smith tryggði liðinu einn sigurinn á móti Clippers og hvernig hann kveikti í liðinu með skotsýningu sinni í upphafi fjórða leiksins. Fólk má bara ekki gleyma því að þetta er Josh fokkíng Smith og það er ótækt að svona stór hluti umfjöllunar okkar um þetta einvígi skuli vera helgaður honum. Piltur kvaddi okkur með einum dásamlegum Josh Smith-leik, þar sem hann skoraði 11 stig, hirti 4 fráköst og hitti úr þremur af fjórtán skotum sínum, þar af tveimur af sjö í þristum.

Wednesday, May 27, 2015

Fimmta úrslitaeinvígið í röð hjá LeBron James


Ætli sé ekki best að skipta aðeins um gír. Reyna að laða fram smá jákvæðni eftir að vera búin að eyða klukkutíma í að moka skít yfir hræið af Atlanta Hawks. Ekki hélduð þið að við ætluðum að klappa fyrir Atlanta og veita því verðlaun fyrir að drulla svona á sig.

Nei, Cleveland er komið í lokaúrslitin í annað skipti í sögu félagsins eftir að það hraunaði yfir Atlanta 118-88 í nótt og því var 4-0 sóp staðreynd. Vel gert hjá Cleveland, fáránlegt hjá Atlanta.

Við þurfum ekki að fara mjög mörgum orðum um Cleveland á þessu stigi málsins - gerum það kannski áður en lokaúrslitin hefjast 4. júní (sem sagt, eftir ellefu mánuði). Þó eru nokkrir punktar sem verða að koma fram.

Þegar við segjum að Cleveland sé komið í úrslit, erum við meira að segja að LeBron James sé kominn í úrslit, því hann er meira og minna búinn að bera þetta lið á herðum sér í gegn um úrslitakeppnina.

Okkur er alveg sama hvað fólk segir, meiðslastaðan hjá Cleveland gerir það að verkum að það er margt líkt með 2015 liðinu þeirra og 2007 liðinu sem San Antonio slátraði í lokaúrslitunum.

Þetta lið fer eins langt og LeBron James fer með það. Það er klisja, en það er satt.

Cleveland á eftir að fá þungt högg þegar það mætir loksins góðu liði í lokaúrslitunum og ef við gefum okkur að það mæti Golden State þar, ætti það einvígi ekki að verða langt.

Golden State er svo miklu, miklu betra lið en Cleveland - ekki síst ef Irving verður á annari löppinni. Við gefum Cavs þá séns ef LeBron James verður með 40/15/15 meðaltal í seríunni.

En kíkjum á það seinna - skoðum heldur hvað LeBron James er að gera. Hann er að tússa í sögubækur drengurinn.

Við erum búin að sjá James þokast upp alls konar lista í þessari úrslitakeppni og það er eins og hann sé að taka fram úr mönnum eins og Larry Bird annan hvern dag.

Hann er ekki nema þrítugur pilturinn en hann er búinn að vera svo sigursæll undanfarin ár að hann er að hóta að slá öll möguleg tölfræðimet í úrslitakeppninni.

Annað sem honum finnst eflaust merkilegra en þessi tölfræði er að hann er nú að leika til úrslita um meistaratitilinn fimmta árið í röð, sem er með ólíkindum.

Síðast þegar leikið var til úrslita um NBA meistaratitilinn og LeBron James var ekki í öðru hvoru liðinu, voru Inception, The Social Network og Black Swan í bíó. Pældu aðeins í því.

Þú veist að þú ert á mjög sérstökum slóðum ef þú ert farinn að ná árangri sem enginn hefur náð nema Bob Cousy og Bill Russell í gullaldarliði Boston Celtics. Þeir tveir eru nefnilega einu stjörnuleikmennirnir sem hafa spilað til úrslita fimm ár í röð.

Þeir Russell og Cousy voru ekki einu mennirnir hjá Celtics sem náðu þessum árangri á sínum tíma, þeir voru auðvitað með sína aukaleikara líka.

Reyndar er LeBron James líka með einn fastan aukaleikara, því James Jones hefur fylgt honum öll þessi fimm ár sem hann hefur farið í úrslitin, fyrst hjá Miami og nú hjá Cleveland.

Þetta er lygilegur árangur hjá James og það gefur augaleið að menn gera ekki svona nema vera ákaflega heppnir með meiðsli og það hefur James gert. En það er annað sem LeBron karlinn hefur verið heppinn með og það er sú staðreynd að hann er að spila í alveg hrottalega lélegri Austurdeild.

Þegar James náði með einhverju kraftaverki að vinna austrið árið 2007 voru talsvert sterkari lið þar en eru í dag. Hann þurfti t.d. að slá fyrrum meistara Detroit Pistons út í úrslitum Austurdeildar áður en hann lenti í klónum á San Antonio í lokaúrslitunum.

Liðin sem eru búin að vera við toppinn í Austurdeildinni undanfarin ár eru hinsvegar flest algjört drasl.

Kjarninn í meistaraliði Boston frá 2008 var kominn á aldur þegar James fór aftur í úrslitin árið 2011 með Miami og eina liðið sem hefur staðið eitthvað í honum síðan þá er Indiana.

Það var vissulega fínt varnarlið en vonlaust sóknarlið og því meingallað þó það væri líklega sterkasti keppinautur James í austrinu á þessum fimm árum sem hann hefur farið í lokaúrslitin.

Þetta hljómar örugglega eins og við séum að dissa James, en það var reyndar ekki planið og það er óþarfi að taka þessu sem slíku af því þó liðin í austrinu hafi verið drasl undanfarin ár, hefur liðið sem kom úr vestrinu alltaf verið mjög sterkt og því hefur James sannarlega þurft að hafa fyrir titlunum sínum tveimur.

Eins verður það ef hann ætlar að vinna þriðja titilinn sinn í næsta mánuði, þegar hann mætir í lokaúrslitin í sjötta skipti síðan hann kom inn í deildina haustið 2003.

Það er langt síðan við höfum gert það að gamni okkar að bera LeBron James saman við bestu körfuboltamenn sögunnar og pæla í því hvað hann á skilið að fara hátt á listanum. Það eina sem James hefur gert síðan við gerðum þetta síðast er að vinna leiki og titla, setja met og halda áfram að vera besti körfuboltamaður í heimi.

Ætli sé því ekki best að vara afturhaldsseggina við. Það gæti farið að styttast í að við förum að setja LeBron James upp fyrir einhverjar af gömlu hetjunum ykkar á lista þeirra bestu. Hann er bara svona góður.

Atlanta náði að koma á óvart


Fólk er alltaf með einhverjar lélegar afsakanir og þorir ekki að segja "við sögðum ykkur þetta!" varðandi nokkurn skapaðan hlut - alveg sama hvað það hefur rétt fyrir sér. Svona er að lifa í sífellt meðvirkara vestrænu samfélagi þar sem pólitískur rétttrúnaður er að keyra allt um koll og enginn má segja neitt.

Gott og vel, en við ætlum sko ekki að vera með eitthvað hallærislegt lítillæti þá sjáldan við höfum rétt fyrir okkur með einhvern skapaðan hlut. Það er ekki eins og það komi oft fyrir. Það þarf samt örugglega ekki að minna ykkur á það að við erum búin að segja ykkur það reglulega allar götur síðan í haust að Atlanta sé ekki aðeins Atlanta alla leið í gegn - heldur hafi það alltaf verið Atlanta og muni þess vegna mjög líklega verða Atlanta um ókomna tíð.

Nei, við þorðum ekkert að hengja okkur upp á að Atlanta ætti ekki eftir að geta neitt í úrslitakeppninni, en við sögðum eins og var, að við værum ekki að sjá að þetta lið væri að fara að gera einhverja hluti í úrslitakeppninni.

Atlanta átti ljómandi góða deildarkeppni eins og þið öll vitið væntanlega. Liðið vann 60 leiki í fyrsta sinn í sögu félagsins og átti fjóra menn í Stjörnuleik og þjálfara ársins. Það verður ekkert mikið betra. 

En svo er það þetta vesen með úrslitakeppnina. Eftir á að hyggja, kom það í ljós strax í apríl að Atlanta væri ekki að fara að gera neitt í úrslitakeppninni, því það afrekaði að tapa tveimur leikjum fyrir Brooklyn í fyrstu umferðinni. 

Brooklyn er álíka sterkt og Fram í körfubolta, svo það hefði ef til vill átt að hringja einhverjum bjöllum. Við þurftum svo sem engar bjöllur til - þið munið að Atlanta er Atlanta. 

Það er ekki hægt að segja að Atlanta hafi komið sér á neitt sérstaklega gott ról þegar það sló Brooklyn úr leik og það var heldur enginn glæsibragur á því á móti Washington. 

Þú færð auðvitað engin stig fyrir að líta vel út í úrslitakeppninni, við vitum það, en lið verða að koma sér í takt ef þau ætla langt í úrslitakeppninni, jafnvel í þessari hræðilegu Austurdeild.

Heilladísirnar héldu með Haukunum þegar John Wall gat ekki beitt sér að fullu í einvíginu við Washington. Sumir vilja meina að Wiz hefði unnið Atlanta ef Wall hefði verið heill. Við gefum ekkert út á það - og er reyndar skítsama, því hvorugt þessara liða hefði átt séns í Cleveland.

Fátt er erfiðara að kyngja en að láta sópa sér út úr úrslitakepppninni eins og Atlanta þurfti að upplifa í nótt. 

Við töluðum um það eftir leik tvö að við hefðum fundið nýja veikleika á liðinu og leikir þrjú og fjögur gerðu ekkert annað en að leiða hann betur í ljós. Atlanta er bara glatað lið í úrslitakeppni. Handónýtt.

Eins og alltaf er hægt að horfa á glasið hálffullt eða hálftómt. Bjartsýnir geta horft á allar viðurkenningarnar, sigrana sextíu, bent á þá staðreynd að liðið hafi verið að vinna átta leiki í úrslitakeppni í einhver sextíu ár og að það sé með plan - með sýstem sem amk virkar vel í deildarkeppninni.

Þeir sem er svartsýnir - eða reyndar raunsæir, í tilviki Atlanta núna - sjá hinsvegar að það er engin ástæða til að vera með eitthvað Pollýönnukjaftæði hérna. 

Atlanta dalaði áberandi mikið á síðustu vikum deildarkeppninnar og var ekki bara í vandræðum í úrslitakeppninni - það gjörsamlega drullaði á sig í úrslitakeppninni.

Eins og við sögðum um daginn: Hvurslags lið þykist þú vera ef þú vinnur sextíu leiki í deildarkeppninni en getur svo ekki einu sinni unnið EINN leik á móti vængbrotnu Cleveland-liði sem bauð upp á að vera slegið út. 

Við erum ekki að segja að Cleveland sé lélegt lið, en fjarvera Kevin Love og sú staðreynd að Kyrie Irving var á annari löppinni í einvíginu ef hann spilaði á annað borð, segir bara allt sem segja þarf um Atlanta. 

Þetta er bara arfaslakt lið og það má eiginlega segja að það sé fánaberi ömurlega lélegrar Austurdeildar.

Nú hefur nefnilega komið á daginn að kenningar okkar um Austurdeildina reyndust rangar. Við sáum fyrir okkur að þar yrðu tvö áþekk og sæmilega sterk lið í vetur (Cleveland og Chicago) sem ættu eftir að bítast um efsta sætið og að eina liðið sem fræðilega gæti sett strik í þann reikning væri Atlanta - úr því það vann alla þessa bölvaða leiki í deildarkeppninni.

Þetta var hinsvegar allt einn stór misskilningur. Staðreyndin er sú að það er bara eitt sæmilega gott lið í Austurdeildinni og það er Cleveland. Og LeBron og félagar eru meira að segja með svo mikla yfirburði í austrinu að þeir þurftu ekki einu sinni að nota Kevin Love og aðra löppina á Kyrie Irving til að henda hinu ruslinu í sumarfrí. 

Það voru nú öll átökin.

Það er hægt að benda á fullt af hlutum sem fóru úrskeiðis hjá Atlanta í þessari úrslitakeppni en ef til vill fljótlegra að telja upp það sem ekki fokkaðist upp hjá þeim. 

Tölfræðin lítur hræðilega út hjá þeim. Til dæmis skaut liðið aðeins 23% úr þriggja stiga skotum þar sem voru meira en fjögur fet í næsta varnarmann og alls 31% úr 3ja stiga skotum sem tölfræðin skilgreinir sem opin. 

Atlanta skaut 40% úr "grípa-og-skjóta" þriggja stiga skotum í deildarkeppninni í vetur, en var með helmingi lélegri nýtingu í úrslitakeppninni.

Það var samt ekki þessi múrsteinahleðsla sem fór mest í taugarnar á okkur við leik Atlanta í úrslitakeppninni, heldur algjört bjargarleysi þess í teignum. 

Þeir Tristan Thompson og Timofey Mozgov gjörsamlega áttu teiginn eins og Té-Rexar í barnaafmæli og það var hlutur sem við vorum búin að spá. Þú verður næstum því alltaf að vera með kjöt og sentimetra í miðjunni þegar kemur fram í úrslitakeppni og fagurfræðistuðlar taka að lækka.

Við höfum ekki nógu mikinn áhuga á Atlanta til að fara að kortleggja framtíðina hjá því og hvað það þarf að gera til að forðast að gerar sig að fífli í úrslitakeppninni næst. 

Við eigum svo sem ekki von á því að gerðar verði stórar breytingar hjá þeim, enda er þetta svo sem bara annað árið hans Budenholzer og hann hlýtur að fá meiri tíma með þetta lið.

Haukarnir þurfa að semja við menn eins og Paul Millsap og DeMarre Carroll fyrir næstu leiktíð og það á eftir að verða rándýrt, því þeir koma til með að fá myndarlega launahækkun eins og bróðurparturinn af leikmönnunum í NBA deildinni í nánustu framtíð. 

Þó að þetta prójekt sem Atlanta er að búa til sé frekar nýtt á nálinni, þýðir það hinsvegar ekki að við séum að tala um einhverja unglinga. Megnið af leikmönnum liðsins eru orðnir vel þroskaðir og því verður stjórnin að gera það upp við sig í sumar hvort hún ætlar að halda áfram að róa á þessi mið eða gera róttækar breytingar. Við setjum fimmhundruðkallinn á fyrri kostinn.

Þó Atlanta hafi sannað kenningar okkar um að það væri Atlanta á frekar fyrirsjáanlegan hátt, verðum við samt að gefa því það að það náði samt að koma okkur hressilega á óvart hvað varðar eitt atriði.

Okkur hefði aldrei órað fyrir því að það væri svona lélegt.


Sjálfur kvöldsins














































Við lifum á tæknitímum og nú er enginn hvorki maður með mönnum né kona með konum nema henda í nokkrar sjálfur (ens. selfies) til að deila heimildum um líf sitt með heiminum.

Það gerðu leikmenn Cleveland þegar þeir hentu Atlanta í frí í kvöld. LeBron James tók eina strax inni á vellinum með fjölskyldunni og JR Smith hlóð í eina með félögum sínum James og Tristan Thompson í pontu á miðjum fjölmiðlafundi eftir leik. Svona á víst að sigra árið 2015.




Tuesday, May 26, 2015

Sumarleyfum leikmanna Houston frestað um sinn


Þetta gátuð þið, sveppirnir ykkar!

Houston var ekki tilbúið að fara í sumarfrí í kvöld, einhverra hluta vegna. Kannski hefur verið uppselt í flugið á Benidorm, hver veit. Það sem við vitum hinsvegar, er að Houston náði að klóra út einn leik í viðbót við Golden State með 128-115 sigri í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar. Staðan er sumsé 3-1 fyrir Golden State og næsti leikur er í Oakland á miðvikudagskvöldið klukkan eitt.

Við erum kannski harðbrjósta hérna á ritstjórninni, en við erum engin fífl. Við erum alveg tilbúin að henda út hrósi þegar það á við og Houston á hrós skilið fyrir þennan leik, þó það hefði að sjálfssögðu átt að drullast til að spila með sömu örvæntingu í leik þrjú í fyrrakvöld í stað þess að bíða með það þangað til í kvöld.

En svona er þetta Houston-lið bara. Það er nú 4-0 í úrslitakeppninni í leikjum þar sem það á á hættu að falla úr keppni, sem er ágætt út af fyrir sig.

Og áfram með hrósið á Houston. Venjulega verðum við bara pirruð þegar lið sem lenda undir 3-0 aulast til að vinna leik fjögur og kjósa því að fá svokallað heiðursmanna-sóp (4-1) í stað hefðbundins sóps (4-0). Aðeins eitt atriði getur forðað okkur frá þessum pirringi og það er ef umræddur leikur er skemmtilegur.

Og þó Houston hafi líklega bara verið að seinka hengingunni sinni í kvöld, má það eiga að það gerði það a.m.k. skemmtilega. Sjáið þið bara hvað við erum jákvæð í nótt! Svona verðum við jákvæð þegar við sjáum skemmtilegan körfubolta og þetta var dúndrandi skemmtilegur körfubolti. Miklar sveiflur, nokkrir olnbogar og drama. Svona á það að vera.

Ætli sé ekki best að afgreiða þetta olnboga mál strax. Dwight Howard átti alltaf, undir öllum kringumstæðum að fjúka út af í nótt fyrir olnbogann/handlegginn sem hann barði í andlitið á Andrew Bogut. Hvernig Joey Crawford af öllum mönnum henti honum ekki útaf er með því furðulegra sem við höfum orðið vitni að í NBA deildinni nokkru sinni.

Það er hinsvegar ekkert ólíklegt að NBA deildin helli sér yfir atvikið aftur og athugi hvort þessi óíþróttamannslega villa hans Howard sem Crawford dæmdi 1. stigs villu, hafi í raun og veru verið 2. stigs villa. Ef svo er, fer Howard yfir ákveðinn þröskuld af "skamm-skamm" stigum og þarf þá að taka út bann í næsta leik.

Það yrði auðvitað ákveðið áfall fyrir Houston, sérstaklega í ljósi þess að Donatas Motiejūnas er meiddur og því yrði fátt um fína drætti í framlínu Houston.

Liðið er mjög vant að spila án hans og getur það alveg, en það þarf á öllum sínum varnartrompum að halda í leiknum í Oakland á miðvikudagskvöldið.

Byltan













Sunday, May 24, 2015

Það er meistarabragur á Golden State Warriors


Það er ekkert mál fyrir Stephen Curry að mæta Houston í úrslitum Vesturdeildar. Ekki þegar hann var búinn að nota fjóra leiki við New Orleans til að stilla miðið og ná úr sér væntingahrollinum og eyða svo sex leikjum á móti Memphis í að skjóta sig í stuð með heimsklassa vörn á sér.

Heldurðu þá að Curry verði eitthvað smeykur við að mæta 37 ára gömlum gaur sem er nýbúinn að keyra sig út við að reyna að hanga í Chris Paul í sjö leikja seríu? Einmitt.

Margir trúa því ekki enn, en leikmenn Houston hafa verið gripnir glóðvolgir við það að spila vörn oftar en einu sinni í vetur. Og þó akkerið í vörn liðsins hefði ekki verið með nema hálft mótið vegna meiðsla, hefur Houston samt náð að spila fínustu vörn lengst af í vetur. Enginn skilur af hverju, en tölurnar ljúga ekki. Houston gat spilað vörn í vetur.

Þess vegna er enn erfiðara að kyngja svona aumingjalegri frammistöðu eins og Houston sýndi í varnarleiknum á heimavelli sínum í nótt þegar það lét Golden State keyra yfir andlitið á sér, stoppa, bakka yfir andlitið aftur, stoppa og gefa svo allt í botn og keyra spólandi á öllum hjólum yfir andlitið á sér einu sinni enn.

Nánar tiltekið var Houston niðurlægt 115-80 á sínum eigin heimavelli. Í sveitinni er þetta kallað heimaslátrun,.

Eins og þið sjáið, eigum við óskaplega erfitt með að hætta að tala um Houston, þó við höfum helgað liðinu heilan skammarpistil í færslunni fyrir neðan þessa. Hvað getum við sagt? Þetta Houston-lið heldur bara áfram að gefa og gefa - fóðra innstu fylgsni neikvæðni okkar og leiðinda.

Og það heldur líka áfram að tapa fáránlega. Þetta var þriðji leikurinn sem Houston tapar með 25 stiga mun eða meira í úrslitakepppninni. Öll hin liðin í úrslitakeppninni eru samanlagt búin að tapa þremur með 25 stigum eða meira.

Golden State er búið að vinna alla leikina sína við Houston í vetur og þessi ógeðslegi í nótt var sá sjöundi í röðinni. Þeir segja að það sé rosalega mikið atriði hvernig lið raðast upp í úrslitakeppninni - hvernig þau passa á móti hvort öðru hvað varðar leikstíl og mannskap. Ef tekið er mið af því, hentar það Houston álíka vel að mæta Golden State og það hentar íslenskum stjórnmálamönnum að vera heiðarlegir.

Ástæðan fyrir því að við erum með þessi læti út í Houston er ekki aðeins sú að við séum neikvæð að eðlisfari, heldur væri greiningin á úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar einfaldlega ekki marktæk ef ekki væri farið ofan í saumana á arfaslakri frammistöðu Rockets í þriðja leiknum.

Nú þegar við erum loksins búin að koma því frá, er hægt að fara að skoða Golden State. Og fjandinn sjálfur, þar er eitthvað að frétta.

Hvort sem fólk trúir því eða ekki, var Golden State ekki að spila neitt sérstaklega vel í fyrstu tveimur leikjunum þrátt fyrir kolbilaða stemningu í Oracle Arena.

Houston var reyndar að spila miklu betur þar en í nótt en kannski hafa Warriors-strákarnir bara viljað þetta of mikið, verið aðeins of spenntir þegar þeir voru að læra aftur inn á Houston í leikjum eitt og tvö.

Steve Kerr þjálfari sagðist hafa fundið það á leikmönnum sínum áður en þeir fóru inn á völlinn í gærkvöldi að þeir myndu spila vel. Það er auðvitað haugalygi, en hún lítur ljómandi vel út eftir leik þegar andstæðingurinn liggur í gólfinu, barinn, brotinn og bugaður.

Enn er Houston vandi á höndum


Möguleikinn var vissulega fyrir hendi, en við áttum samt ekki von á því að Golden State ætti eftir að ná 3-0 forystu í rimmunni við Houston. Þá meinum við, ekki með þessum hætti. Ekki með því að taka fyrstu tvo heima en mæta svo til Texas og berja Rockets í andlitið með gömlum Estwing hamri.

Í nótt sem leið skrifuðum við blóðlaust lið Atlanta út af sakramentino og nú er kominn tími til að níðast á Houston Rockets. Munurinn á Atlanta og Houston er helst sá að Houston er ágætis körfuboltalið. Atlanta er búið að sýna okkur að það er ekki bara lélegt, heldur líka karakterslaust. Það er eitt að vera hæfileikalaus - verra að vera huglaus - og það er Atlanta svo sannarlega. 

Okkur er alveg sama þó einhver segi að Atlanta geti ekki verið hug- og hæfileikalaust úr því það komst alla leið í úrslit Austurdeildar. Við erum búin að segja ykkur það í allan vetur að Austurdeildin sé átakanlegt drasl og undanfarnar vikur hefur því miður komið í ljós að liðin þar eru flest ennþá meira drasl í úrslitakeppninnin en þau voru í deildarkeppninni. Og það er ekkert smámál.

En höldum okkur við Houston, það vantar ekki umræðuefnið á þeim bænum. Einvígi Golden State og Houston er að þróast allt öðru vísi en við áttum von á. Það sem við eigum við með því, er að Houston kom okkur dálítið á óvart í fyrstu tveimur leikjunum í Oakland með því að vera inni í þeim báðum og eiga bullandi séns. Eða svona... einhvern séns.

Og aftur kom Houston okkur á óvart í nótt - og við hötum okkur sjálf fyrir að leyfa Houston að koma okkur aftur á óvart með þessum hætti. Við lærum aldrei.

Réttu viðbrögðin hjá Houston í leik þrjú, þegar það var loksins komið á heimavöllinn þar sem allir voru í stuði og stemmara, hefðu að sjálfssögðu átt að vera að koma öskrandi og klórandi til leiks með því að kasta sér á alla bolta og spila bestu vörn sem það hefði spilað í allan vetur.

U, nei!

Í staðinn fengum við Houston-útgáfuna sem við sáum í leikjum þrjú og fjögur gegn Clippers í annari umferðinni um daginn: ískalt í sókninni og gjörsamlega áhuga- og karakterslaust í vörninni. 

Kommon Houston! 
Ertu virkilega ekki betra en þetta? 

Nei, sennilega ekki... 
(Blótsyrði) drasl. 

Houston er ekki sama ruslið og Atlanta og fær kúdós fyrir baráttuna í leikjum eitt og tvö, en það er gjörsamlega búið að þurrka það allt út með skitunni á heimavelli í kvöld. Þetta er gjörsamlega óásættanleg frammistaða hjá liði í undanúrslitum NBA deildarinnar

Það er skondið að fylgjast með umfjöllunar-mælunum í NBA í kring um Houston þessa dagana. Ef við gefum okkur sem sagt að sé til apparat sem mælir hvernig umfjöllun um tiltekið körfuboltalið hefur verið á ákveðnu tímabili. Ætli niðurstaðan yrði ekki eitthvað á þessa leið (smelltu til að stækka):


Houston var voða duglegt að klára Dallas nokkuð auðveldlega 4-1 í fyrstu umferðinni og fékk þá prik fyrir að drullast a.m.k. til að vinna eina seríu öfugt við árið áður. Svo hallaði fljótlega undan fæti þegar liðið skeit á sig í fyrsta leik gegn Clippers og hatrið náði hámarki þegar það lenti undir 3-1 og fékk okkur til að skrifa þetta. Það er að koma enn betur í ljós núna að líklega var það var meira Clippers að þakka en Houston að Rockets skuli hafa komið til baka og klárað þá seríu. 

Aftur verðum við að gefa Houston kúdós á að ná að hanga í Golden State í fyrstu tveimur leikjunum og með örlítilli heppni hefði það alveg getað stolið öðrum þeirra. Golden State gerði hinsvegar það sem góð lið gera, það kláraði heimaleikina sína þó það væri í sjálfu sér ekki að spila neitt rosalega vel.

Og þá erum við komin að þessu rugli í Houston í nótt. Eins og feiti maðurinn sem lýsti leiknum á Stöð 2 Sport sagði réttilega, er ekkert óeðlilegt við það þó skotin vilji ekki detta hjá hvaða liðum sem er. Það kemur fyrir reglulega og þegar það gerist, er fjandi lítið við því að gera. 

Það sem er hinsvegar hægt að stjórna, er hvernig sóknarleikurinn er framkvæmdur (til dæmis hindranasetning) og í frekara mæli hvernig varnarleikurinn er leystur - hvort farið er eftir fyrir fram ákveðnum leiðum og hvort hann er leikinn af heilum hug. Og þarna fellur Houston illa á prófinu. Aftur.

Við erum búin að skrifa allt sem þarf að skrifa um þetta Houston lið og í sjálfu sér þarf ekki að bæta miklu við það. Margir freistast til að fara með hamarinn á loft þegar illa gengur hjá liðum í úrslitakeppninni, þegar þau eru að falla úr keppni og sýna okkur af hverju þau eru ekki nógu sterk. 

Þetta eru Atlanta og Houston að gera núna og það skiptir engu máli hvort þeim verður báðum sópað út eða hvort þau tefja þetta með því að fara í sjö leiki.

Við eigum að vera reyndari í bransanum en það að fara að hrauna svona yfir lið í undanúrslitum, en við erum bara alveg 100% viss um að þið eruð öll sammála okkur þegar við segjum að andstæðingar Golden State og Cleveland hafi gert miklu meira en sýna okkur veikleika sína.

Þau eru búin að sýna okkur hvað þau eru gjörsamlega laus við karakter og engan vegin verðug þess að ná jafn langt og raun ber vitni.

Atlanta reyndar komst bara í undanúrslitin af því að það verður eitthvað lið að komast þangað, en þó Houston eigi ef til vill meira hrós skilið fyrir að komast í gegn um miklu sterkara vestrið, er það ekki að gera sig að mikið minna fífli en Houston. 

Hugsið ykkur bara, öll þessi skrif um vanhæfni og veikleika Houston Rockets (og Atlanta) en enn ekki stakt orð um Golden State! Jæja, það er með ráðum gert, því við ætlum ekki að gera Warriors þann óleik að skrifa um það í sömu andrá og Rockets. Við verðum að þvo okkur um hendurnar áður en við snúum okkur að Warriors.

Saturday, May 23, 2015

NBA Ísland fann nýjan galla á liði Atlanta Hawks


Við vissum að þetta væri að koma, en okkur grunaði ekki að skellurinn yrði svona þungur. Við vissum að það kæmi kafli í úrslitakeppninni þar sem við fengjum öll að sjá sannleikann um Austureildina. Það var Atlanta sem tók það á sig að sýna okkur þennan sannleika svart á hvítu og niðurstaðan var hreint út sagt ógeðsleg.

Leikmenn Atlanta Hawks gerðu sig að algjörum fíflum í 94-82 tapi fyrir Cleveland í nótt. Þetta lið sem átti fjóra leikmenn í Stjörnuliðinu í febrúar, lagðist á völlinn á heimavelli sínum í kvöld og drullaði á sig.

Atlanta vann 60 leiki í vetur en er núna að láta lið sem skipað er LeBron James og nokkrum rulluspilurum gjörsamlega hrauna yfir sig.

Það er enginn Kevin Love í liði Cleveland. Enginn Kyrie Irving heldur. Bara LeBron og einhverjir gaurar sem New York gat ekki notað, gegn Stjörnuliðsmönnunum fjórum í Atlanta.

Þið sjáið augljóslega að þetta dæmi gengur ekki upp og það er af því við erum að tala um Austurdeildina. Gæðin eru ekki meiri en það þarna austan megin að það var bara tímaspursmál hvenær við fengjum að sjá neyðarlega hluti þaðan.

En það er ekki Austurdeildinni að kenna að Atlanta sé drasl. Já, við sögðum það. Þetta Atlanta lið er drasl - amk þegar komið er fram í úrslitakeppni. Svo mikið drasl að það hefur orðið Photoshop-listamönnum internetsins innblástur.


Atlanta-menn eru voða krúttlegir í deildarkeppninni þegar enginn nennir að spila vörn en það verður bara að segjast eins og er að þeir eru búnir að spila eins og aumingjar lengst af í úrslitakeppninni. Þeir lentu í vandræðum á móti Brooklyn, sem er últramegacrap og hefðu með smá heppni látið vængbrotið Washington-lið henda sér úr keppni.

Þeir toppuðu sig hinsvegar endanlega í kvöld þegar þeir létu vængbrotið Cleveland-lið sópa sér upp og henda sér í klósettið - og það á heimavelli.

Við gerum okkur grein fyrir því hvað við erum föst á þermistigi Freuds þegar kemur að því að lýsa óförum Atlanta Hawks, en það er blanda af vanþroska okkar og raunverulegri vanhæfni körfuboltaliðsins.


Hvað eru menn að meina þegar enginn byrjunarliðsmaður skorar meira en 12 stig í leiknum og stigahæsti maðurinn þeirra á myndinni hér fyrir ofan skorar heil 13 stig.

Friday, May 22, 2015

Golden State er í góðum málum (+ myndir)


Fimm stig. Það er allur munurinn á Golden State og Houston eftir tvo fyrstu leikina í Oakland, en það er Golden State sem er komið í 2-0 og afar þægilega stöðu í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar eftir 99-98 sigur í leik tvö í nótt.

Í stóra samhenginu er þessi rimma að þróast eins og búast mátti við - Warriors nær að verja heimavöllinn og fer nú til Texas með tvo góða sigra í farteskinu. Þróun mála í þrengri skilningi er þó ekki alveg eins og við höfðum reiknað með.

Við bjuggumst sannarlega við að það yrðu nokkuð hressilegar sveiflur í þessu einvígi og það helst í formi stórskotaárása frá heimamönnum, en það sem er svo magnað við þetta er að Houston hefur náð að svara þeim í hvert einasta skipti. Það sem kemur mest á óvart er því seiglan í liði Rockets. Við reiknuðum einhvern veginn með að það væri tómt á þeim tönkum eftir Clippers-einvígið, en annað hefur komið á daginn.

En þó Houston hafi náð að elta Golden State uppi í hvert sinn sem Warriors hóta því að stinga af, hefur því ekki tekist að nýta færin sem það hefur fengið til að komast yfir á réttum tíma og stela leik í Kaliforníu.

Það var vitað mál að Houston ætti ekki eftir að vinna mjög marga leiki í Oracle-höllinni í þessu einvígi í ljósi þess að liðið er bara búið að tapa þrisvar sinnum þar í allan vetur.

Það segir sig sjálft að Houston verður að finna leið til að vinna útileik í þessu áður en það verður of seint. Fyrst bíða tveir heimaleikir niðri í Texas, þar sem heimamönnum ætti að líða betur en í hávaðanum í Oakland.

Tölfræðin er auðvitað ekki á bandi Houston eftir þessi töp og segir að séu 93% líkur á að Golden State klári rimmuna. Houston hefur 15 sinnum í sögunni lent undir 2-0 í seríu en aðeins tvisvar sinnum náð að koma til baka og vinna hana. Þetta gerðist árin 1994 og 1995 - árin sem Houston vann meistaratitlana sína.

Það sem er skemmtilegast við þetta einvígi í dag er einmitt hvað það er skemmtilegt. Eins og búast mátti við, höfum við fengið að sjá brjálaðan sóknarleik í þessu og stundum svo mikinn hraða að enginn ræður við neitt. Ekki misskilja, þessi lið kunna alveg að spila varnarleik, en þau eru sannkallað augnakonfekt í sókninni.

Og það sem kórónar alla þessa sóknargleði einvígi stórstjarnanna tveggja Stephen Curry og James Harden. Þeir eru báðir að spila frábærlega um þessar mundir og við fáum öll að njóta veislunnar.

Það er gaman að fá loksins að sjá Curry leika listir sínar stóra sviðinu og gera með því tilkall til þess að stækka prófílinn sinn utan hins nánasta NBA samfélags.

Við sem fylgjumst með NBA deildinni 24/7 vitum alveg hvað Curry getur, en nú fær bolurinn að kynnast honum líka nú þegar liðið hans er komið alla leið í undanúrslitin og leikir þess byrja fyrr en áður (þó þeir byrji auðvitað hundseint hér á landi eins og alltaf).

Ef vel er að gáð, getið þið séð hvernig sjálfstraustið vex og vex hægt og bítandi hjá Curry þessa dagana. Hann hefur alltaf verið nokkuð svægur á því, en þessi velgengni hans undanfarið í bland við frábæran stuðning frá þjálfarateyminu er að keyra egóið á honum í botn.

Menn eins og Curry sem borga reikningana sína með því að vinna sem skyttur, hafa aldrei nóg af egói. Þá erum við að meina jákvæðari hliðarnar á egóisma - óbilandid trú á eigin aðferðafræði og hæfni í faginu.

Þetta sama er í gangi hjá James Harden. Í nýlegu viðtali viðurkenndi hann að hefðu runnið á hann tvær grímur á tímabili eftir að hann fór til Houston, þar sem hann spurði sjálfan sig hvort hann væri raunverulega nógu góður til að vera aðal gaurinn í liði.

Ætli hann sé ekki búinn að slökkva í þeirri pælingu núna, því hann er að spila um það bil eins vel og hægt er þessa dagana.

Harden er með 33 stig, 10 fráköst, 9 stoðsendingar, 3,5 stolna bolta, 58% skotnýtingu og 93% vítanýtingu í leikjunum við Warriors. Einhver gæti sagt að þetta væru LeBron-legar tölur, en það er óþarfi að kalla þær það. Þetta eru bara Harden-legar tölur. Dílaðu við það.

Og ef við ætlum að fara að velta okkur upp úr frammistöðu einstaka leikmanna, verðum við að sjálfssögðu að minnast aðeins á Draymond Green. Þvílíkur gæðaleikmaður sem hann er sá drengur. Hann er að bjóða upp á 12/10/8 meðaltal og brjálaða vörn um allan völl og þegar hann er ekki að rífa kjaft við allt sem hreyfist er hann að peppa félaga sína og segja þeim til í vörninni.

Þessi drengur á eftir að fá vel borgað næst þegar hann semur (vonandi við Golden State) en við skulum öll vona að hann smitist ekki af meira-veikinni í kjölfar velgengni Warriors. Hann gæti ekki fundið lið sem hentar honum betur.

Þetta einvígi er alveg ógeðslega skemmtilegt og það er ómögulegt að segja hvaða stefnu það tekur þegar það færist niður til Texas.

Það þyrfti ekki að koma neinum á óvart þó Golden State tæki þetta einvígi nokkuð örugglega í fjórum eða fimm leikjum, en við erum eiginlega að vona að við fáum meira en það.

Annar punktur sem við verðum að henda hérna inn er svo þátttaka Josh Smith í þessari rimmu. Hvað er að frétta með þann mann?

Við vitum ósköp vel að hann var bænheyrður í sjötta leiknum gegn Clippers þegar hann fór allt í einu að hitta úr þriggja stiga skotum, en Kevin McHale þjálfari Houston verður að gæta þess að leyfa Smith ekki að skjóta liðið út úr keppninni - því hann er fær um það.

Smith skaut 6 af 16 í fyrsta leiknum við Warriors í fyrrakvöld en bætti um betur í nótt þegar hann tók sautján skot og hitti aðeins úr fimm þeirra. Þetta er annar leikurinn í röð þar sem Smith nartar í hælana á James Harden í skottilraunum, sem ætti ekki að gerast undir nokkrum kringumstæðum.

Úttekt á úrvalsliðunum


Stundum nota sjónvarpsmenn fjölda Stjörnuleikja til að láta leikmenn hljóma rosalega góða. Þið vitið þó væntanlega að það er mjög ónákvæm aðferð til að mæla ágæti leikmanna í NBA deildinni, sérstaklega á þessum síðustu og verstu.

Það eru hinsvegar úrvalsliðin þrjú sem eiga að gefa okkur réttari mynd af því hvaða leikmenn voru að spila best á tilteknum tímabilum. Þessi aðferð er ekki gallalaus heldur vegna þess að kjörið miðar við að fylla þurfi allar leikstöður. Hér áður var ósköp einfalt að velja í þessi lið, en það er aðeins flóknara í dag. 

Þannig er búið að breyta reglunum þannig að menn geta "svindlað" aðeins og sett framherja í liðið sitt í stað miðherja ef svo býr undir og ekki er horft sérstaklega til þess hvort um er að ræða leikstjórnendur eða skotbakverði - þeir eru bara titlaðir sem bakverðir.

Valnefndin að þessu sinni var nokkuð sammála um hvaða leikmenn ættu heima í fyrsta úrvalsliðinu, enda var það ekki flókið. Það eina sem stingur í augun þar er að Marc Gasol frá Memphis skuli vera þar, en þar komum við inn á þetta sem við vorum að tuða yfir áðan - leikstöðurnar. Gengið er út frá því að það verði að vera miðherji í úrvalsliðunum hvað sem raular eða tautar - jafnvel þó hann eigi það ekki skilið.






























Marc Gasol hefur til dæmis ekkert að gera í fyrsta úrvalslið deildarinnar. Hann er vissulega mjög góður leikmaður, en það hefi verið réttara í okkar augum að velja til dæmis Chris Paul eða Blake Griffin þar inn í staðinn.

Þeir Stephen Curry, James Harden, LeBron James og Anthony Davis eru það sem við köllum nóbreiner í fyrsta liðið - það liggur í augum uppi að þeir eiga heima þar, hvort sem einhverjir þeirra misstu úr nokkra leiki í deildinni eða ekki.

Það eru hinsvegar lið tvö og þrjú sem fara aðeins í taugarnar á okkur að þessu sinni, en það er mjög auðvelt að laga það með því að skipta úrvalsliði tvö nokkurn veginn út og setja úrvalslið þrjú þar inn í staðinn. Þetta á sérstaklega við um stóru stöðurnar á vellinum, miðherja og framherjana.

Við hefðum þannig frekar sett Tim Duncan og Blake Griffin í lið tvö þar sem þeir eiga réttilega heima. Þeir eru nær því að vera í fyrsta úrvalsliðinu í okkar bókum en því þriðja og kannski á DeAndre Jordan bara heima þar með þeim.

Við höfum ekkert á móti LaMarcus Aldridge, Pau Gasol og DeMarcus Cousins, en þeir ná ekki í lið númer tvö hjá okkur - sérstaklega Pau Gasol - sem var ekki einu sinni besti maðurinn í sínu liði í vetur.

Á hverju ári er fólk að svekkja sig á því að þessi eða hinn skuli ekki ná inn í úrvalslið deildarinnar, annað sem er sérstakt við valið í ár er hvað menn þurftu að spila óguðlega vel til að komast á blað. Það segir sína sögu um styrk leikmanna þegar menn eins og Chris Paul og Russell Westbrook komast ekki í fyrsta úrvalsliðið þó þeir hafi báðir verið framúrskarandi í allan vetur. Það var bara enginn bakvörður að fara að taka sætið af annað hvort leikmanni ársins (Curry) eða manninum sem varð annar í kjörinu á leikmanni ársins (Harden).

Að lokum eru þarna tveir piltar sem vöktu athygli okkar, þeir Klay Thompson og DeMarcus Cousins. Thompson er vel að því kominn að ná inn enda spilaði hann mjög vel fyrir langbesta liðið í deildinni en við erum á báðum áttum með það hvort DeMarcus eigi heima í úrvalsliði tvö.

Hann setur vissulega upp bilaða tölfræði, betri en flestir leikmennirnir þarna, en í okkar huga á hann ekki skilið að komast í annað úrvalslið deildarinnar af því liðið hans vann ekki nema 29 leiki í vetur. 

Þú getur ekki ætlast til þess að verða verðlaunaður mikið ef liðið sem þú spilar með getur nákvæmlega ekkert. Leikmenn sem komast í úrvalslið deildarinnar eiga að vera það góðir að liðin þeirra vinni að minnsta kosti helming leikja sinna og komist helst í úrslitakeppnina. Okkur er alveg sama þó sé fátt um fína drætti í leikmannahóp Sacramento og Cousins fái litla hjálp. Þetta lið er drasl og því hefur stjarnan í því ekkert að gera í úrvalslið. 

Annar punktur varðandi Cousins er svo viðhorf hans og framkoma. Hann var aðeins byrjaður að sýna það í vetur að hann ætlaði að þroskast en hann var nokkuð fljótur að taka upp sína gömlu ósiði. Cousins skilar oftast hrikalegri tölfræði, en þetta er líka oftast innantóm tölfræði af því hún er stofnuð í tapleikjum. Þá kemur allt of oft fyrir hvað eftir annað að Cousins fari í fýlu, láti reka sig út af, nenni ekki að spila vörn og nenni ekki að keyra til baka. Úrvalsleikmenn haga sér bara ekki svona.