Monday, May 11, 2015

Útlitið er dökkt hjá Rockets (+ myndir)


Chicago var kannski að kúkí bussan sín með því að tapa heima fyrir Cleveland í gærkvöldi, en það er í stórkostlegum málum miðað við annað rauðklætt lið í NBA deildinni. Ef Derrick Rose og félagar ætla eitthvað að fara að missa sig í þunglyndi, þurfa þeir ekki að gera annað en ímynda sér að þeir væru Houston Rockets í tvær mínútur og þá taka þeir gleði sína á ný.

Það tekur ekki langan tíma að súmmera um vandamál Houston, en það er að glíma við kvilla sem hrjáir ekkert af hinum liðunum sem eftir eru í úrslitakeppnini. Það hefur bara ekki áhuga á því að fara lengra, sem er ákaflega sorglegt. Nema þér finnist 128-95 tap liðsins fyrir Clippers í nótt bera vott um metnað og baráttuanda.

Varnarleikur Houston er mestmegnis búinn að vera hræðilegur hjá Rockets í úrslitakeppninni, sérstaklega í síðustu tveimur leikjum.

Liðið mátti við því í einvíginu við Dallas í fyrstu umferðinni, en það gefur augaleið að það þýðir ekkert að spila andlausa og lélega vörn gegn besta sóknarliði deildarinnar þegar komið er í aðra umferð úrslitakeppninnar.

Það kom að því að Houston færi að sakna Patrick Beverley. Hugsið ykkur bara martröðina sem hefði beðið Chris Paul í þessu einvígi að vera að reyna að hrista Beverley af sér hverja einustu sekúndu í leiknum á tognuðu læri.

Í staðinn fá þeir Paul og JJ Redick hverja huggulegu sóknina á fætur annari með James Harden og Jason Terry á sér. Terry er 74 ára gamall og Harden er dottinn aftur í sama gír og hann var í á síðustu leiktíð, þegar hann var aflífaður á internetinu fyrir vafasaman varnarleik.

Dwight Howard byrjaði einvígið ágætlega fyrir Houston en það er alveg dæmalaust hvað hann finnur oft leiðir til að gera annað hvort ekkert gagn eða hreinlega skemma fyrir liðinu sínu.

 Í nótt átti hann einmitt sorglega dæmigerðan Dwight-leik þar sem hann lét reka sig í bað eftir átján gagnslausar mínútur á vellinum (7 stig, 6 fráköst, 6 villur, 2 tapaðir boltar og mínus tuttuguogátta í plús/mínus).

Við höfum heyrt dálítið af gagnrýni á James Harden líka og hún er sannarlega réttlát hvað varnarleikinn varðar, en þó Skeggið sé með ljómandi fína tölfræði (24,5 stig, 5 fráköst, 9 stoðsendingar, 45%, 44% og 94%) er hann samt allt of passífur í sóknarleiknum.

Hann er að skjóta talsvert minna en í deildinni og þó það sé alltaf virðingarvert að menn vilji bæði leggja á borð og elda fyrir félaga sína, geta þeir ekki étið fyrir þá líka.

Leik eftir leik erum við að sjá Harden taka færri skot en einhverjir pappakassar sem geta jafnvel ekki skotið til að bjarga lífi sínu, sem er glórulaust. Eins og Harden var kaldur á því í allan vetur og tók yfir fjölda leikja í síðari hálfleik eftir að hafa sett á borð fyrir félaga sína í þeim fyrri. Og hann virkar ekki aðeins ragur við að skjóta, því hann er engan veginn að skila leiðtogahlutverkinu heldur.

Það er einmitt áberandi einkenni á leiðtogalausum liðum að þau brotni hálfpartinn niður og gefist upp við mótlæti og það var akkúrat málið hjá Rockets í nótt.

Það er Harden sem þarf að taka þetta lið á herðar sér bæði í máli og myndum og hann er að reyna það, en hefur ekki árangur sem erfiði.

Hann er sennilega ekki meiri leiðtogi en Dwight Howard, sem er einmitt álíka góður leiðtogi og John Carver eða Spud í Trainspotting.

Þið munið kannski að þátttöku Houston í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð lauk í eintómu þunglyndi. Ekki bara af því Damian Lillard skaut það úr keppni á flautunni í sjötta leik, heldur af því liðið olli svo miklum vonbrigðum.

Þar átti James Harden nokkurn hlut að máli. Hann stóð sig frekar illa og er eiginlega í bráðri hættu á að fá á sig stimpil sem leikmaður sem drullar á sig í úrslitakeppni, þó tölurnar hans núna séu fínar eins og við bentum á áðan.

Hvað Clippers varðar er ekki annað að sjá en blómabreiður og brosandi börn. Blake Griffin og DeAndre Jordan eru dýrslegir í teignum sem fyrr, JJ Redick hundeltir Harden og er farinn að hitta sæmilega aftur, Austin Rivers er allt í einu að spila eins og NBA leikmaður og Chris Paul bindur þetta allt saman með snilligáfu sinni.

Hakka-sjakk-leikaðferðin reyndist risastór dökkur blettur á þessum leik eins og öðrum, en menn voru óvenju rausnarlegir á villurnar í þessum leik. DeAndre Jordan tók þannig ekki nema 34 víti og nýtti hvorki meira né minna en fjórtán þeirra. Jordan náði reyndar að hefna sín aðeins á heiminum með því að þruma niður nokkrum 600 kílóa viðstöðulausum troðslum eins og þessum:



Sú seinni er í fastari kantinum, ef svo má segja.


Hverjum hefði dottið í hug að Houston ætti eftir að vera svo skítlélegt í þessu einvígi að Chris Paul þyrfti ekki að spila nema rúmlega 20 mínútur í leik og fengi þar með rándýra hvíld á laskað lærið á sér. Það er vitað mál að Paul á ekki eftir að ná sér að fullu af þessum meiðslum í úrslitakeppninni, alveg sama hvað liðið hans fer langt, en við erum ekki frá því að hann hafi litið aðeins betur út í þessum leik en þeim síðasta.

Houston finnur vonandi einhverja huggun í því að fá að spila á heimavelli í næsta leik, en ef það spilar ekki helmingi betur en í síðustu tveimur leikjum, er tímabilið búið og ekkert annað eftir en að panta sér miða á Benidorm.

Það yrðu æpandi vonbrigði fyrir félagið eftir deildarkeppni sem gekk ljómandi vel þrátt fyrir hellings mótlæti.

Það er stórfurðulegt að lið sem var svona þétt í varnarleiknum í allan vetur sé núna búið að missa allan áhuga á því þegar það kemur í úrslitakeppni, en úr því sem komið er, er ekki að sjá að Houston nái að gera meira í þessu einvígi en forða sér frá niðurlægingu með því að vinna einn leik í viðbót.

Allar sögubækur og tölfræðibankar segja að þetta sé komið hjá Clippers og það er búið að vera veisla að fylgjast með þessu liði vaxa. Það er augljóst að það gaf Clippers-liðinu gríðarlegt sjálfstraust að slá meistarana út í fyrstu umferðinni og það virðist ekki óttast neitt núna, enda hlýtur að vera þægilegt að sleppa úr klónum á San Antonio og fara þaðan í allt að því kósí seríu við Houston.

----------------------------------------------------------------------------------------------------

P.s. - Þýski textinn á titilmyndinni efst í færslunni birtist okkur í draumi, svo það þýðir ekkert             fyrir ykkur að skammast út af því ef eru villur í honum. Danke.

              Nokkrar myndir, yo: