Thursday, May 14, 2015

Allt um stöðu mála í úrslitakeppninni


Hvergi koma veikleikar körfuboltaliða jafn átakanlega í ljós og í úrslitakeppninni, þegar þjálfarar andstæðinganna reyna að nýta sér hvern einasta millimetra sem þeir hafa á þig. Það sem sagt kemst fljótlega upp um þig ef þú ert ekki alvöru í úrslitakeppninni.

Flest liðanna sem eru nú að bítast í annari umferðinni áttu nokkuð náðug einvígi í þeirri fyrstu, en núna er allt annað uppi á teningnum. Núna snýst allt um tommurnar sem Al Pacino talaði um forðum.

Og af því þessir veikleikar eru stundum dálítið áberandi hjá liðum þegar komið er fram í fjórða og fimmta leik í einvígi, hættir okkur til að hrökkva í neikvæðnigírinn og fara að velta okkur upp úr því sem upp á vantar hjá liðunum í stað þess að skoða hvað þau gera vel. Við erum svo sem ekki ein um að sjá glasið svona hálftómt - Twitter er t.d. miskunnarlaus vélbyssa sem hlífir engum.

En við skulum hætta að velta okkur upp úr þessu og kíkja aðeins á það hvað er að gerast í rimmunum fjórum sem eru í gangi í úrslitakeppninni, þar sem staðan er svona þegar þetta er skrifað:



Eins og þið munið kannski, var staðan 1-1 á öllum vígstöðvum eftir fyrstu tvo leikina og var það í fyrsta skipti í ansi mörg ár sem sú staða kom upp eftir tvo leiki í 2. umferðinni, sem var nokkuð óvænt. Nú eru hinsvegar búnir fimm leikir í öllum rimmum og þá eru línur oftast farnar að skýrast nokkuð vel.

ATLANTA (3) - WASHINGTON (2)

Atlanta hafði heilladísirnar sannarlega á sínu bandi í nótt þegar það vann nauman 82-81 sigur á Washington á heimavelli sínum í fimmta leik.

Atlanta tapaði boltanum 23 sinnum í leiknum og skaut innan við 23% úr þriggja stiga skotum en vann samt, sem er ekkert annað en heppni í bland við góða baráttu.

Við leyfum okkur að fullyrða að Atlanta muni ekki vinna annan leik það sem eftir er í úrslitakeppninni með svona spilamennsku.

Það sem vakti helst athygli okkar í þessu einvígi var hvað Washington-liðið var fullt af góðum anda nánast allan leikinn.

Það hleypti óneitanlega fjöri í liðið að fá John Wall aftur inn og hann fær mörg rokkstig fyrir að ákveða að spila þrátt fyrir handarmeiðsli.

En Wall gerði meira en að spila, hann stýrði leik Wizards eins og herforingi og það er ekki hægt annað en öfunda Washington af bakvarðaparinu unga - honum og Bradley Beal - sem voru báðir frábærir í þessum leik.

Það sama verður ekki sagt um Nene frænda þinn, sem ákvað að vera Lélegi Nene í nótt og það hjálpaði Washington ekki neitt. Annað sem hjálpar liðinu ekki er að það er að spila á færri mönnum en LA Clippers, sem er ekki til eftirbreytni.

Það var eiginlega alveg magnað við þennan leik að okkur þótti Washington vera með hann í hendi sér nánast allan leikinn og sjálfstraustið geislaði af liðinu - sérstaklega bakvarðaparinu unga.

Paul Pierce hélt að hann hefði tryggt Washington sigur í leiknum með þriggja stiga körfu rétt fyrir leikslok, en eins og flest ykkar sáu, voru það Al Horford og heilladísirnar sem kláruðu leikinn þegar innan við tvær sekúndur voru eftir og Washington búið með leikhléin sín.

Við neyðumst víst til að hrósa Atlanta liðinu fyrir að hafa klárað þennan leik, en við finnum satt best að segja talsvert færri hluti til að hrósa Atlanta fyrir en Washington.

Atlanta vann 60 leiki í vetur og á auðvitað ekki að vera í svona rosalegum vandræðum með lið sem vann ekki nema 46 leiki.

Eini maðurinn sem okkur langar að hrósa hjá Atlanta er Al Horford og það er ekki af því hann skoraði sigurkörfuna eftir sóknarfrákast. Það er meira af því hann skoraði 23 stig, hirti 11 fráköst og varði 5 skot í leiknum og var langbesti maður Atlanta.

Það kom upp úr kafinu eftir leikinn að Mike Budenholzer þjálfari (ársins) Atlanta teiknaði lokaleikkerfið upp fyrir Dennis Schröder, sem er eitthvað sem við bara föttum ekki.

Schröder er vissulega fljótur og góður að komast fram hjá manninum sínum, en þar með er það upptalið. Hann getur ekki skotið til að bjarga lífi sínu og þó hann virðist vera mjög hugrakkur, finnst okkur stórfurðulegt að Jeff Teague hafi ekki verið látinn slútta þessu.

Washington getur huggað sig við að næsti leikur eru á heimavelli, þó það hafi reyndar ekki spilað sérstaklega vel þar í úrslitakeppninni síðustu tvö ár. Það kæmi okkur á óvart ef Wizards næði ekki að klóra þetta í oddaleik.

Einn punktur enn varðandi þetta einvígi er varnarleikur Washington liðsins og þá sérstaklega Bradley Beal á Kyle Korver, stórskyttu Hawks. Korver tók hvorki meira né minna en 6 þriggja stiga skot að meðaltali í leik í deildarkeppninni og það sem meira er, hitti hann úr þremur þeirra.

Slíkt er þó hreint ekki uppi á teningnum í þessu einvígi, því þar er hann í besta falli að hósta upp 4-5 skotum, sem flest eru varin eða hitta ekki einu sinni körfuna af því hann er dekkaður svo stíft. Þetta tekur talsvert af Atlanta auðvitað.

CLEVELAND (3) - CHICAGO (2)

Til að gera langa sögu stutta, eru gæðin í þessu einvígi umtalsvert lítil, ef undan er skilið einstaklingsframtak manna eins og Derrick Rose og sérstaklega LeBron James.

Og hérna komum við inn á hluta af neikvæðninni sem við minntumst á í upphafi pistilsins. Það er nefnilega þannig að góður hluti ritstjórnar NBA Ísland er búinn að vera svo nautheimskur og tregur að halda því fram í mörg ár að Chicago sé lið sem gæti gert einhverja hluti í úrslitakeppni.

Þetta er mesti misskilningur. Það er kannski ósanngjarnt að segja svona um lið sem er búið að vinna tvo leiki í annari umferð úrslitakeppninnar, er með besta varnarmann sinn á annari (hvorugri?) löppinni (Joakim Noah) og þurfti að vera án Pau Gasol í síðasta leik, sem sumir vilja meina að hafi kostað Bulls í sókninni.

Chicago er alveg ótrúlega seigt lið - ekki bara á vellinum - heldur nær þetta lið alltaf að gabba fólk á vagninn með sér og fá það til að trúa því að Bulls-liðið geti eitthvað.

Stuðningsmenn Bulls eru líka í flestum tilvikum fólk sem er búið að fylgjast lengi með NBA deildinni og þekkir sinn bolta, ef svo má segja. En þetta fólk veður um í villu og svíma alveg eins og við. Það trúir á þetta Chicago lið í blindni og heldur að einn daginn muni þetta koma.

Þetta er ekkert að fokkíng koma, krakkar. Þetta er bara ekki nógu gott lið.

Og það grátlegasta við þetta allt saman er að nú er eins og Chicago geti ekki einu sinni spilað vörn lengur - nokkuð sem það hefur gert betur en flest önnur lið í deildinni undanfarin ár.

Við höfum vægast sagt verið óánægð með varnarleik Bulls, enda höfum við horft upp á LeBron James og meira að segja Kyrie Irving (á annari löppinni) fara illa með þá hvað eftir annað.

Það er auðvitað voðalega þægilegt að sitjá kontór á Íslandi og hrista spikið yfir því að Chicago geti ekki spilað vörn þegar það er að díla við tvo af bestu sóknarmönnum heims, en við erum bara gjörsamlega búin að missa alla trú á Chicago.

Við fáum gjörsamlega hroll þegar við hugsum til allra sjö mínútna kaflana sem þetta lið getur ekki skorað stig og stendur bara og hjakkast og ekkert að frétta.

Það er kominn tími á Chicago og það stefnir í að lemstrað Cleveland muni sjá um að henda því í sumarfrí. Það verður skondið að sjá hvað Cleveland á eftir að komast langt í úrslitakeppninni á varnarleik undir meðallagi og sóknarleik sem byggist 99% upp á einum manni (og öðrum höltum hlaupandi á eftir honum).

Það er fjandakornið ekkert að segja um þetta Cleveland lið annað en það að LeBron James heldur áfram að sýna að hann er enn besti körfuboltamaður í heimi. Margir voru farnir að efast um stöðu hans á toppnum, en spilamennska hans í síðustu leikjum ætti að sanna það að James sé enn sá besti.

HOUSTON (2) - LA CLIPPERS (3)

Þessi rimma er búin að bjóða upp á ansi hressandi sveiflur, framúrskarandi gæði og svartmálm.

Gæðin hafa að mestu komið frá leikmönnum LA Clippers eins og þið hafið orðið vör við, en ætli við verðum ekki að gefa Houston snuddu fyrir að láta þó ekki henda sér í sumarfrí á heimavelli sínum á þriðjudagskvöldið.

Clippers fær nú annað tækifæri til að klára þetta einvígi og að þessu sinni á heimavelli sínum (á fimmtudagskvöldið).

Það þarf ekki að taka fram að þarna liggur pressan öll á Clippers, sem þarf helst a klára einvígið í sjötta leiknum heima ef það ætlar að gera það á annnað borð, því við vitum öll hver tölfræði útiliðanna er í oddaleikjum. Hún er skelfileg.

Okkur dettur ekki í hug að hrósa Houston liðinu of mikið eftir þessa skítaholningu sem er búin að vera á liðinu lengst af í þessu einvígi. Liðið er aðeins búið að spila þokkalega vel í  einn og hálfan leik og þessi heili leikur var einmitt fimmti leikurinn á þriðjudagskvöldið, enda var liðið með bakið upp að vegg.

Og yfir í neikvæðnina.

Það væri eflaust hægt að taka það saman í nokkrar bækur á lengd við Game of Thrones hvað búið er að sjúkdómsgreina og gagnrýna Houston síðustu daga.

Staðreyndin er að þetta prógramm hjá þeim virkar ljómandi vel í deildarkeppninni en ekki eins vel í úrslitakeppninni og þegar fólk byrjar að gagnrýna Rockets staldrar það jafnan strax við á stórstjörnunum tveimur.

Við ættum öll að vera löngu búin að átta okkur á því hvað Dwight Howard er í raun takmarkaður leikmaður. Howard er búinn að eiga nokkra mjög góða spretti núna eins og í fyrra, en hann finnur sér alltaf leiðir til að skemma fyrir liðinu sínu með því að koma sér snemma í villuvandræði - oft með heimskulegum villum - eða láta reka sig út af fyrir vitleysisgang.

Howard hefur svo verið gagnrýndur fyrir að vera ekki nógu góður leiðtogi eins og við skrifuðum um daginn, en þó James Harden sé að reyna að vera leiðtogi Rockets, er það einhvern veginn ekki að ganga.

Það er eins og vanti alla samheldni og baráttu í Houston liðið.

Það er orðið erfitt að finna lýsingarorð til að hrósa Blake Griffin í úrslitakeppninni og við erum á því að sé drengur hafi endanlega orðið að manni í þessari úrslitakeppni.

Sigur Clippers á Spurs var risavaxinn fyrir anda leikmanna eins og Griffin og DeAndre Jordan, sem sjá núna að þeir geta náð ansi langt.

Griffin er gjörsamlega að fræsa upp tölfræðiskýrslur og er að bjóða upp á 27/13/5 og 54% skotnýtingu gegn Houston.

Við húðskömmuðum hann fyrir að nenna ekki að frákasta í deildarkeppninni, en þá leyfði hann DeAndre vini sínum að hirða þau öll af þvi hann var að safna. Griffin var meira í því að safna stoðsendingum í vetur og hefur haldið því áfram í úrslitakeppninni, sérstaklega þegar Chris Paul nýtur ekki við og hann byrjar að spila eins og LeBron James.

Við erum hrikalega spennt fyrir því að fá að sjá hvað Griffin getur ef hann heldur nú áfram að æfa boltameðferðina og hvort hann fær yfir höfuð tækifæri hjá þjálfara sínum til að halda áfram að taka svona spretti með boltann. Okkur finnst fátt skemmtilegra en að horfa á Griffin drippla upp allan völlinn og finna félaga sína eða troða sjálfur. Dásamlega hæfileikaríkur þessi drengur.

Við reiknum með því að Clippers loki þessu á heimavelli í sjötta leiknum, en við trúum Houston reyndar alveg til þess að knýja fram oddaleik með því að vinna í Los Angeles, en tapa svo oddaleiknum á heimavelli. Það yrði dálítið dæmigert fyrir Houston einhvern veginn.

GOLDEN STATE (3) - MEMPHIS (2)

Fjórða og síðasta einvígið leit um tíma út fyrir að ætla að bjóða upp á allt það besta sem í boði er, þegar Memphis náði mjög óvænt 2-1 forystu. En eins og þið hafið flest tekið eftir, var eins og einhver hafi smellt fingri í andlitið á liði Warriors í fjórða leiknum og tekið það úr dáleiðslunni.

Allt í einu var eins og leikmenn Golden State föttuðu að þeir eru með miklu betra lið en Memphis og það sem meira var, fóru þeir loksins að nýta sér risavaxna veikleika Memphis liðsins.

Það fól aðallega í sér að láta Andrew Bogut "dekka" Tony Allen, sem er annað orð yfir að spila svæðisvörn í teignum og leyfa Allen að gera hvað sem hann vildi. Hann reyndi að refsa Warriors með því að taka þessi galopnu skot sem honum voru gefin, en hann klikkaði náttúrulega á þeim flestum eins og búast mátti við.

Þetta herbragð Steve Kerr að láta Bogut sveima frjálsan um teiginn og gefa skít í Tony Allen vakti nokkra athygli en það er þó ekki nema lítill hluti af brellunni.

Galdurinn á bak við þessa leikaðferð Steve Kerr var nefnilega sú staðreynd að hann gat leyft sér að gera nokkuð sem fá - ef einhver - lið í deildinni hefðu getað. Hann gat leyft sér að láta framherjana sína dekka fjarkann og fimmuna hjá Memphis.

Þá tók Draymond Green það sumsé að sér að dekka Marc Gasol sem er nákvæmlega 15 sentimetrum hærri en hann og það sem meira er, tók Harrison Barnes að sér að dekka Zach Randolph.

Einhverjum hefði þótt þessi varnartaktík glórulaus, en þú verður að hafa í huga að þegar Golden State getur leyft sér þann lúxus að gleyma Tony Allen í vörninni, er Andrew Bogut alltaf laus og tilbúinn að koma í tvídekkunina ef með þarf.

Þetta er í sjálfu sér ekki flókin stærðfræði, en svona nokkurn veginn virkaði aðferðafræði Warriors.

Svo getið þið lesendur góðir stillt því upp í huganum hvort ykkur finnst merkilegra - að þeir Barnes og Green hafi getað dekkað Randolph og Gasol - eða að þeir Randolph og Gasol hafi ekki getað nýtt sér þann þyngdar og/eða hæðarmun sem þessi tveggja manna átök bjóða upp á.

Þú sem sagt spilar með fjóra á móti fimm í sóknarleiknum af því það dettur engum í hug að dekka Tony Allen en jafnvel þó þú sjáir sóknarfæri t.d. með því að fara með Z-Bo eða Gasol á blokkina - nærðu ekki að nýta þér það. Hmmm.

Memphis náði að taka Golden State út úr því sem það vildi gera í fystu þremur leikjunum, en í leik fjögur og sérstaklega í leik fimm í Oakland í nótt, fengu heimamenn að leika svo lausum hala að þeir voru farnir að minna æði mikið á liðið sem vann 67 leiki í deildarkeppninni í vetur.

Það stóð vörnina óaðfinnanlega gegn slakri og hugmyndasnauðri sókn Memphis og keyrði svo í bakið á því með stórskotahríð, einna helst frá Stephen Curry, sem setti sex þrista í 98-78 sigri Warriors í nótt.

Ímyndaðu þér að þú sért að keyra á illa útbúnum bíl uppi á heiði um miðja nótt og festir þig í snjóskafli - þá má segja að þú sért búin(n) að setja þig í aðstæður mótherja Golden State Warriors.

En ef þú ímyndar þér svo að ofan á allt saman sé síminn þinn rafmagnslaus þegar þú ætlar að hringja eftir hjálp og þá ertu komin(n) í svipaðar aðstæður og andstæðingar Golden State upplifa þegar Warriors herðir takið í vörninni og Andre Iguodala fer meira að segja að hitta úr skotum utan af velli. Þetta er svona tvíbölvað og útlitið verður náttúrulega bara svart - það segir sig sjálft.

Það er erfitt að sjá Golden State tapa þessu einvígi úr þessu - raunar óhugsandi - en ef það ætlar að loka einvíginu, þarf það að gera það í Húnaveri í Memphis. Heimavöllur Grizzlies er einn sá erfiðasti í deildinni til að heimsækja, en það er ekki eins og sé langt síðan að Golden State vann þar síðast og liðið virðist einfaldlega vera búið að finna formúluna að því hvernig á að gjörsigra Memphis.

Ef svo ólíklega vill til að Memphis nái að halda sér lifandi með sigri á heimavelli í sjötta leiknum á föstudagskvöldið (kl. 1:30 á Stöð 2 Sport), eru um það bil 99% líkur á því að Golden State klári dæmið heima í oddaleik.

Hvort sem Memphis nær að vinna tvo eða þrjá leiki í þessu einvígi fær það klapp á bakið því fæstir reiknuðu með að liðið næði að vinna fleiri en einn leik í rimmunni.

Stephen Curry er auðvitað búinn að fara hamförum í sigrunum tveimur í vikunni en við einfaldlega verðum að taka annan mann út fyrir sviga og fjalla um hann sérstaklega. Þetta er auðvitað Leathermanninn Draymond Green.

Við erum oft búin að hafa orð á því hvað Green er að nýtast liði Warriors vel, en það er engu líkara en að drengurinn sé að spila betur og betur með hverjum leiknum.

Tölfræðin hans er svo sem ekki að rota neinn en hann er þó með 12 stig, 8 fráköst, 5 stoðsendingar og 2 stolna bolta í einvíginu við Memphis.

Það sem gerir Green að þeim gríðarlega mikilvæga leikmanni sem hann er fyrir Golden State kemur hinsvegar ekki fram á tölfræðiskýrslum.

Þá eigum við helst við varnarleikinn hjá honum, sem er framúrskarandi, en svo gerir hann líka alla litlu hlutina sem skipta svo miklu máli þegar þeim er safnað saman.

Svo er maðurinn bara svo fjandi fjölhæfur að Steve Kerr getur notað hann í næstum hvað sem er. Gott dæmi um þetta er það sem við sögðum ykkur frá áðan, að hann skuli geta hent honum jafnt á bakverði úti á velli sem Marc Gasol á blokkinni.

Golden State væri svo miklu, miklu, miklu lakara lið ef það hefði Green ekki og hann á eftir að fá vel borgað þegar hann skrifar undir næsta samning. Green er samt engin stórstjarna og verður það aldrei. Hann er bara gaur sem hjálpar þér að vinna körfuboltaleiki og það fjandi marga körfuboltaleiki.

Eitt atriði í viðbót varðandi Golden State, sem vegur þungt og við vorum næstum búin að gleyma: Núna er liðið búið að fá á kjaftin og fá fyrstu stóru prófraunina í úrslitakeppninni þegar það lenti undir 2-1 og næsti leikur var í Memphis.

Skemmst er frá því að segja að Golden State stóðst þessa prófraun með algjörum glans (þó breytingarnar sem gerðar voru á leikskipulaginu hafi ef til vill komið dálítið seint) og er fyrir vikið ennþá óárennilegri andstæðingur.

Það verður erfiðara með hverjum deginum að sjá hvernig þetta Warriors-lið á að geta tapað fjórum sinnum í sjö leikja seríu. Ekki fyrir þessum liðum sem eftir eru í úrslitakeppninni í ár að minnsta kosti. Það er fjandi tæpt.