Friday, May 15, 2015

Bæ, bæ beljur


Við skrifuðum tvöhundruð milljón orð um stöðu mála í úrslitakeppninni í gær og erum því búin að útskýra hvað er í gangi. Í kvöld gerðust hinsvegar merkilegir hlutir þegar fyrsta liðið tryggði sér þátttöku í fjögurra liða úrslitum. Við verðum auðvitað að fylgja því aðeins eftir.

Já, það var Cleveland var fljótast af öllum að klára aðra umferðina og bíður nú eftir að einvígi Atlanta og Washington klárist. Þetta er afar kærkomið frí fyrir LeBron James og skósveina hans, því eins og flest ykkar vita hafa meiðsli verið að gera Cavs lífið leitt að undanförnu. Kyrie Irving er þannig að glíma við tvenns konar fótamein og hver einasti klukkutími sem hann fær í hvíld er mikilvægur.

Ætli við verðum ekki að gefa Cleveland smá hrós fyrir að vera komið áfram í ljósi áðurnefndra meiðslavandræða, en bara smá. Það er af því Cleveland var að senda Chicago Bulls í sumarfrí.

Eins og við komum inn á í síðasta pistli, erum við alveg gjörsamlega gáttuð á þessu Chicago liði og erum löngu hætt að fylgja því eftir, af því það er bara ávísun á vonbrigði og leiðindi.

Það er til dæmis 100% öruggt að hver einasti stuðningsmaður Bulls sem horfði á sjötta leikinn í nótt er kominn í svartasta þunglyndiskast.

Chicago var undir 3-2 í einvíginu fyrir leikinn í nótt, en einhver hefði nú haldið að heimavöllurinn ætti eftir að geta fleytt liðinu eitthvað áfram

Einhver hefði líka kannski haldið að það hefði hjálpað Chicago að Kevin Love hafi ekki komið við sögu hjá Cleveland, að Kyrie Irving hafi verið haltrandi um allan völl og ekki spilað nema tólf mínútur og að lokum að LeBron James ætti eftir að skjóta eins og drukkinn bavíani.

Samt tapaði Chicago þessum leik og svo miklu meira en það, þessir aumingjar létu gjörsamlega valta yfir sig á sínum eigin heimavelli 94-73 og eiga því ekki annað eftir en að panta miðann á Benidorm.

Við vitum ekki hvað við getum sagt eftir svona útreið. Það er tilgangslaust að ætla að fara að pikka út einhver smáatriði þegar um svona hrun er að ræða. Þetta var skammarleg frammistaða hjá Bulls og það er ekki gott að segja hvað er framundan.

Spekingarnir spá því að Thibs þjálfari verði látinn fara innan skamms og við erum fylgjandi því. Það er kominn tími til að stokka aðeins upp og prófa nýjar áherslur í Chicago og ráða jafnvel þjálfara sem getur átt í mannlegum samskiptum við stjórn félagsins og leikmenn.


En þá að einhverju sem skiptir raunverulega máli.

Öll héldum við að LA Clippers ætlaði að senda Houston í sumarfrí í nótt og það var ekki útlit fyrir neitt annað í þriðja leikhluta þegar Clippers var nítján stigum yfir á heimavelli sínum og í dauðafæri til að loka þessu.

Eitthvað sváfu þeir á verðinum Griffin og félagar, því þeir leyfðu Josh Smith og Corey Brewrer af öllum mönnum að skjóta sig gjörsamlega í kaf í fjórða leikhlutann 40-15 og jafna metin í einvíginu í 3-3 eftir að hafa verið 3-1 undir fyrir skömmu.

Lokatölur urðu 119-107 fyrir Houston og það sem er líklegar merkilegast af öllu við þetta er að á meðan Öskubuskurnar voru að skjóta liðið inn í leikinn, sat stórstjarnan James Harden bara á bekknum og veifaði handklæði.

Harden settist á bekkinn þegar ein og hálf mínúta var eftir af þriðja leikhluta og kom ekki meira við sögu í leiknum, en hann er reyndar enn að glíma við veikindi. Hver þarf líka Harden þegar hann er með Josh Smith, sem skoraði glórulaus 14 stig.

Ef tilgangslausa þriggja stiga karfan hans Chris Paul um leið og leiktíminn rann út er ekki tekin með, skoraði Clippersliðið ekki körfu utan af velli á síðustu tæplega sjö mínútum leiksins

Þetta þýðir að liðið sem við vorum öll búin að afskrifa fær hvorki meira né minna oddaleik á heimavelli um helgina.

Alveg er þetta dæmigert fyrir NBA deildina okkar, þar gerast reglulega ótrúlegir hlutir.

Þetta kommbakk hjá Houston í nótt fer sannarlega í sögubækur. Ekki bara af því að liðið vann upp þennan mikla mun á skömmum tíma, heldur líka út af mönnunum sem tryggðu liðinu sigurinn. Við erum ekki enn búin að fatta hvernig Smith og Brewer fóru að þessu, því þeir eru báðir æpandi lélegar 3ja stiga skyttur.

Staðan sem komin er upp í þessu einvígi er nokkuð sjaldgæf, því það gerist ekki oft að lið sem lenda 3-1 undir nái að jafna metin í sjö leikja seríum í NBA deildinni. Enn síður að þau vinni þrjá leiki í röð og taki seríuna. En Houston hefur það með sér að vera með heimavöllinn, sem telur.

Clippers getur hinsvegar stólað á eitthvað af þeirri reynslu sem komin er á mannskapinn. Það var gríðarlega stórt skref fyrir liðið að leggja San Antonio um daginn og svo má jú ekki gleyma því að það eru ekki nema þrjú ár síðan Clippers lenti í nákvæmlega sömu söu í úrslitakeppninni.

Þá komst liðið í 3-1 gegn Memphis en missti það í 3-3, en náði svo að loka því með sigri í Húnaveri í oddaleiknum. Þeir ættu því ekki að vera smeykir við eitt eða neitt, leikmenn Houston, þó þjálfarinn þeirra hafi gefið það til kynna í viðtölum eftir leik í nótt að menn hefðu verið ragir að skjóta í fjórða leikhlutanum.

Nóg af þessu.

Hérna eru örfáar myndir til gamans (smelltu á myndirnar til að stækka þær):