Saturday, May 16, 2015

Washington er komið í sumarfrí


Paul Pierce fer rosalega mikið í taugarnar á okkur og hefur alltaf gert og við höfum aldrei reynt að leyna því. Þess vegna fellu engin tár hér á ritstjórninni í kvöld þegar lokaskotið hans var flautað af í sjötta leik Washington og Atlanta. Okkur finnst það ekki einu sinni leiðinlegt. Þetta var nú einu sinni hárréttur dómur.



Pierce var að vanda dramatískur í leikslok og sagðist alls ekki viss um að hann ætlaði að halda áfram að spila körfubolta á næsta ári. Það er svo sem ekki mikið að marka hvað menn segja þegar þeir eru nýdottnir út úr úrslitakeppninni með þessum hætti, en Pierce er náttúrulega búinn að vera atvinnumaður í körfubolta alveg síðan 1998 og því er eðlilegt að hann fari að horfa í kring um sig eftir dvalarheimilum.

Nei, við vorkennum Pierce ekki neitt, bæði af því við þolum hann ekki og af því hann kallaði þetta yfir sig með hrokanum sem hann sýndi í síðustu tveimur leikjum, þegar hann nánast gerði sig að fífli með innistæðulausum yfirlýsingum. 

Jú, jú, þú varst voða góður í úrslitakeppninni Paul. Þú hækkaðir stigaskorið þitt um fjögur stig, skaust 54% úr þristum gegn Atlanta og skoraðir eina flautukörfu, en þú klikkaðir líka á ögurstundu í tveimur öðrum leikjum og í kvöld kostaði það sumarfrí.

En Paul Pierce er sannarlega ekki upphafið og endirinn að öllu hjá þessu Washington-liði, jafnvel þó hann virðist hafa verið eini maðurinn þar á bæ sem hafði kjark í að taka stóru skotin. 

Framtíð Wizards er í höndum John Wall og Bradley Beal og ef þetta lið nær lengra en þetta næstu ár, verður það af því þeir leiða það þangað. Lið sem er með svona ungt og efnilegt bakvarðapar ætti að vera í ágætismálum, en þetta er ekki alveg svo einfalt. 

Eins og áður sagði er óvíst hvort slúttari liðsins heldur áfram að spila með því á næstu leiktíð, en það er svo sem allt í lagi, því það er kominn tími til að þeir Wall og helst Beal fari sjálfir að axla þá ábyrgð.

Marcin Gortat er ágætismiðherji en það er spurning hvort hann hentar í nútíma NBA, þar sem allt gengur út á að stórir menn geti bæði sent og skotið. og Nene er bara farþegi sem þiggur laun hjá félaginu. Hann var afleitur í úrslitakeppninni og það er kominn tími til að fara að kalla hann réttu nafni - hann er bara lúser og hefur aldrei verið neitt annað. Hann hvarf eins og venjulega þegar liðið hans þurfti á honum að halda og var til að mynda áttundi stigahæsti maður Wizards í úrslitakeppninni.

Þeir Gortat og Nene eru fyrirferðamiklir í teignum en þeir náðu ekki að vera neitt meira en það á móti Atlanta, því ekki náðu þeir að nýta sér sentimetra og kílóamuninn sem var á þeim og framlínu Atlanta, sem er ein sú líkamlega nettasta í deildinni.

Eins og við sögðum ykkur um daginn, koma veikleikar allra liða í ljós í úrslitakeppninni og sú varð raunin með Washington. Alveg nákvæmlega. Það sem við vitum núna er að Nene er rusl, liðið vantar nýjan slúttara og breiddin í þessu liði er minni en talið var (nánar tiltekið, nánast engin).

Það hefur verið í tísku í að minnsta kosti tvö ár að segja brandara um það hvað Randy Wittman þjálfari Washington sé ekki starfi sínu vaxinn. Við höfum ekki hundsvit á því, en þetta lið náði nokkurn veginn eins langt í úrslitakeppninni og reiknað var með. Það er ekki útilokað að klókari þjálfari hefði fundið leiðir til að færa sér veikleika Atlanta betur í nyt, en það skiptir engu máli núna.

Washington hefði líka alveg verið til í að sleppa við það að John Wall mölvaði á sér hendina svo hann gæti nú spilað á fullu gasi í úrslitakeppninni, en það þýðir ekkert að velta sér upp úr því heldur, það eru allir meiddir í þessari úrslitakeppni - alltaf.

Það verður sumsé áhugavert að fylgjast með þessu Washington-liði næstu ár, en það verður þá nánast eingöngu vegna þeirra Wall og Beal. Annað er ekki að frétta af höfuðborgarklúbbnum að þessu sinni.