Saturday, May 16, 2015

Nýr raunveruleiki blasir við Atlanta


Eins og þið hafið líklega tekið eftir, eyddum við ansi fáum orðum og við gátum í einvígi Atlanta og Brooklyn um daginn. Það var af því öllum var sama. Flestum var líka nákvæmlega sama um einvígi Atlanta og Washington en það bauð þó upp á talsvert meira en við fengum í fyrstu umferðinni.

Við gerðum tímabil Washington upp í pistlinum á undan þessum, en núna er komið að Atlanta. Við höfum vissulega skrifað eitthvað aðeins um Atlanta í reglulegum pistlum okkar um Austurdeildina, en eins og þið sjáið ef þið leitið í efnisorðaskránni á NBA Ísland, kemur lítið upp um Atlanta annað en molar um óguðlega 3ja stiga nýtingu Kyle Korver.

Auðvitað er þetta galið þegar haft er í huga að þetta er lið sem vann sextíu leiki í vetur, en eins og við segjum ykkur alltaf, er Atlanta alltaf bara Atlanta og því verður aldrei neitt úr neinu hjá liðinu. Eða fram að þessu að minnsta kosti. En nú er svo komið að liðið er komið í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar og þá verður einhver að rífa upp penna, svo það er alveg eins gott að við gerum það bara.

Það merkilegasta við að Atlanta sé komið í úrslit Austurdeildar er ekki að það sé að ná besta árangri sem það hefur náð í hálfa öld, þó það sé ansi merkilegt í sjálfu sér.

Nei, það langmerkilegasta við að Atlanta sé komið í úrslitaeinvígi Austureildarinnar - undanúrslit NBA deildarinnar - er að það þurfti ekki að gera annað en vinna Brooklyn og Washington til að komast þangað.

Brooklyn var með 46% vinningshlutfall í vetur og Washington 56% og síðarnefnda liðið var svo huggulegt að vera með sinn besta mann í meiðslum í annari umferðinni svo Atlanta fengi nú sæmilega greiða leið áfram í keppninni.

Þetta er sagt í kaldhæðni, en þið fattið hvert við erum að fara með þessu. Atlanta tók vissulega efsta sætið í Austurdeildinni í deildarkeppninni og tryggði sér þar með þessa léttu leið í gegn um fyrstu tvær umferðirnar, en við getum bara ekki annað en hlegið aðeins að þessu.

San Antonio hefði tapað um það bil einum leik ef það hefði mætt Brooklyn og Washington í fyrstu tveimur seríunum sínum, en þess í stað féll það úr í fyrstu umferð af því það er í Vesturdeildinni. Fúlt fyrir þá, gaman fyrir Haukana.

Atlanta náði að tapa fjórum leikjum fyrir Brooklyn og Washington í fyrstu tveimur umferðunum og það verður að teljast nokkuð vel af sér vikið. Þeir sem hafa nennt að horfa á Atlanta spila í úrslitakeppninni hafa tekið vel eftir því að það er langt í frá sami bragur á liðinu nú og var í deildarkeppninni í vetur.

Það er að hluta til eðlilegt og rímar við það sem Hatorade-drykkjufólk eins og við erum búin að vera að þusa um í allan vetur. Neikvæðni okkar byggðist á þremur atriðum:

  1. Leikaðferð Atlanta er mun erfiðari í framkvæmd í úrslitakeppni en í deildarkeppni.
  2. Atlanta er ekki með súperstjörnu sem getur framleitt sóknarleik eftir þörfum.
  3. Atlanta er Atlanta.*

En nú fáum við væntanlega fyrst að sjá hvort þetta Atlanta lið getur eitthvað í alvöru þegar það mætir Cleveland Cavaliers í úrslitum Austurdeildarinnar.

Eins og þið vitið eru talsverð meiðsli í herbúðum Cleveland, svo það ætti að geta hjálpað Atlanta eitthvað, en LeBron James og félagar ættu að verða mun verðugri andstæðingur en Washington þó ekki væri nema bara út af James sjálfum.

Tvennt stendur upp úr hjá okkur varðandi Atlanta eftir fyrstu tvær umferðirnar:

Fyrra atriðið er að DeMarre Carroll sé búinn að vera besti maður liðsins í úrslitakeppninni. Það er dálítið fyndið að eini maðurinn í byrjunarliði Hawks sem var ekki valinn í Stjörnuliðið í vetur sé að spila manna best hjá liðinu í úrslitakeppninni.

Carroll er maður sem ekkert lið kærði sig um, enda er Atlanta fimmta liðið sem hann spilar með á jafnmörgum árum í deildinni. Þar er hann þó líklega búinn að finna sér framtíðarheimili, ekki síst með frammistöðu sinni núna.

Pilturinn skoraði 12,6 stig að meðaltali í leik í vetur en í úrslitakeppninni er hann að skila 17 stigum og betri tölum á öllum sviðum leiksins, ekki síst í 3ja stiga skotunum, þar sem hann skaut 44% gegn Nets og Wizards.

Annað sem er dálítið magnað við Haukana er meintur vandræðagangur Kyle Korver í úrslitakeppninni. Við höfum ekki séð alla leiki Atlanta en Korver hefur ekki verið að hitta eins vel og hann gerði í deildinni. Slík eru vandræði stórskyttunnar að fjölmiðlar hafa gert sér mat úr því.

Við reiknuðum því með því að Korver væri að skjóta 30% utan af velli og 17% úr þristum þegar við flettum honum upp, en það er öðru nær. Hann er að hitta úr 38% skota sinna í það heila og 35% fyrir utan, sem er lélegt fyrir hann, en margir leikmenn væru tilbúnir að skipta við hann um nýtingu í langskotunum.

Hvort sem Korver var í vandræðum eða ekki, er samt alveg ljóst að Atlanta þarf á hans besta að halda þegar það mætir Cleveland. Haukarnir njóta góðs af því að vera með heimavöllinn og eru með sæmilega heilt lið, svo þeir ættu að meta möguleika sína ágæta.

Nú fáum við nefnilega að vita það í eitt skipti fyrir öll, hvor Atlanta sé bara Atlanta eða hvort Atlanta ætli að skrifa nýjan kafla í sögu Atlanta, sem væntanlega myndi þýða að Atlanta yrði ekki lengur bara Atlanta, heldur eitthvað miklu, miklu meira. Þú veist.

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Lengri útgáfan af þessu orðatiltæki er svohljóðandi:
"Atlanta er bara Atlanta, hefur alltaf verið Atlanta og verður því bara Atlanta um ókomna tíð."