Saturday, May 16, 2015

Memphis stendur í stað


Við höfum örugglega sagt ykkur þessa sögu tíu sinnum, en það er af því að hún er sönnust allra sagna í NBA deildinni: Memphis vantar skyttur og/eða vængmann sem getur skorað stig hjálparlaust (neyðarkarl). Þetta er búið að vera vandamál Memphis í mörg ár en félagið neitar að leysa það.

Nýjasta ráðstöfun Memphis í þessum efnum var að semja við sextugan Vince Carter og einum óstöðugasta körfuboltamann í heimi, Jeff Green. Og í nótt sáum við niðurstöðurnar: Memphis er komið í sumarfrí eftir 108-95 tap fyrir meistaraefnunum í Golden State.

Við ætlum að reyna að hafa þessa hugleiðingu ekki mjög langa af því við erum orðin dauðþreytt á að berja þennan sama dauða hund með þessum sama ryðgaða felgulykli. Eini munurinn á þessari færslu og þeirri sem við skrifum árlega við þetta sama tilefni, er að núna ætlum við að setja einhverjar kúl töflur eða gröf inn í hana svo hún lúkki betur og líti út fyrir að vera vísindalegur sannleikur.

Fyrstu viðbrögð okkar eftir tap Memphis í nótt voru pirringur.

Af hverju gat Memphis ekki útvegað sér betri skyttur? Af hverju Jeff Green? Af hverju geta Marc Gasol og Zach Randolph ekki druslast til að dómínera undir körfunni? Af hverju fær framsóknar-flokkurinn fleiri en ekkert atkvæði í kosningum? Eru Íslendingar heimskasta þjóð í heimi?

Þið sjáið að þetta eru sömu spurningarnar og venjulega, það er bara önnur dagsetning á þeim. Við vitum alveg svarið við flestum þessum spurningum, en þeim er vitanlega beint inn á skrifstofuna hjá Grizzlies. Það er nefnilega fólkið á kontórnum sem þarf að svara fyrir þetta. Leikmennirnir gera sitt besta, en vita innst inni að þeir hafa ekki það sem til þarf, því miður.

Margir halda upp á Memphis af því það spilar körfubolta af gamla skólanum, grit and grind (ísl. hamagangur og hakk) og er í alla staði lið hins vinnandi verkamanns.

Þetta er allt gott og vel, en það er alveg sama hvað þetta lið reynir oft, það fer ekki alla leið á meðan eru svona stórar eyður í planinu hjá því.

Einn uppáhalds frasinn hans Charles Barkley er að segja að hin og þessi lið í NBA deildinni séu bara "stökkskotalið" sem geti ekki náð alvöru árangri.

Þar á hann við lið sem byggja mikið á lengri skotum en síður á t.d. hnoði í teignum. Þessi skoðun hans hefur vitanlega farið öfugt ofan í hvern einasta mann og konu sem aðhyllist tölfræði fyrir lengra komna.

En það er önnur hlið á málinu, því þó þú verðir ekki meistari með eintómum stökkskotum, verður þú það ekki heldur ef þú getur ekki tekið stökkskot. Fyrir svo utan það að Dallas 2011 og San Antonio 2014 voru skólabókadæmi um stökkskotalið og þeim vegnaði ágætlega eins og þið munið.


Þvert á skoðanir Barkley er fátt nauðsynlegra en að hafa góðar þriggja stiga skyttur í nútíma körfubolta, en þar sem Memphis nánast skyttulaust lið, þá tekur það vitanlega lítið af langskotum. Nánar tiltekið helmingi færri þriggja stiga skot en Golden State.

Sjáðu bara muninn á þriggja stiga tölfræðinni úr einvígi Memphis og Golden State hérna fyrir neðan. Gættu þess bara að taka ekki mark á tölunum í eiga að standa fyrir meðaltalið í deildinni (league average), þær eru ekki í nokkru sambandi við raunveruleikann.


Eins sláandi og munurinn á skotvísi og varíöntum getur skipt máli í svona seríum, réðust úrslit þessa einvígis öðru fremur á varnarleik. Við útskýrðum hluta af breyttri varnartaktík Golden State eftir þriðja leikinn í færslu í fyrradag, en þessi breyting gekk aðallega út á að gleyma því að Tony Allen væri inná vellinum og láta manninn sem átti að dekka hann sjá alfarið um að passa teiginn og stökkva annað slagið í hjálparvörn.

Það er furðulegt að svona óhefðbundin og áhugaverð breyting hafi orðið til þess að snúa þessu einvígi algjörlega á haus, en þannig er það nú samt. Það hjálpaði Warriors vissulega að Tony Allen gat lítið beitt sér þessar fáu mínútur sem hann kom inn á í síðustu leikjunum, það hjálpaði til að Mike Conley var með brotið andlit í einvíginu, það hjálpaði líka þegar menn eins og Stephen Curry byrjuðu að setja þrista og svo hélt Warriors-vörnin Memphis í 38% skotnýtingu í síðustu þremur leikjunum í einvíginu.

Já, fyrstu viðbrögð okkar varðandi Memphis voru pirringur eftir leikinn í nótt, en hann hvarf að mestu eftir að við horfðum á fjölmiðlafundinn eftir á. Þar sat Marc Gasol meðal annars fyrir svörum og hann var fullkomlega heiðarlegur. Sagðist bara hafa verið gjörsamlega búinn á því og það sást. Við vorum alltaf öskrandi á sjónvarpið til að reyna að fá hann nær körfunni og taka dvergana sem voru að gæta hans í bakaríið, en þær óskir voru ekki uppfylltar í þessum leik frekar en öðrum.

Eins og fólk talar mikið um það hvað Memphis er sterkt í teignum, á það nær eingöngu yfir varnarleikinn, að minnsta kosti þegar andstæðingurinn er Golden State. Gasol er bara ekki svona týpa af leikmanni.

Þegar Memphis fær lítið frá honum og Randoph og hittir svo ekkert fyrir utan í þokkabót, er augljóst að það verður eitthvað lítið að frétta úr Húnaveri. Þetta er kunnuglegt stef eins og þið sjáið á skopmyndinni frá Spurs-sópinu 2013, sem var í eina skiptið sem Memphis komst í þriðju umferð úrslitakeppninnar.

Nú er bara spurning hvað forráðamenn félagsins ætla að gera. Hvort þeir ætla að halda áfram á svipuðum nótum eða breyta jafnvel til. Ef þeir ætla að gera stórar breytingar, er góður tími til að gera það í sumar af því bæði Zach Randolph og Marc Gasol eru með lausa samninga.

Flestir gera ráð fyrir að Gasol verði um kyrrt í Memphis þar sem hann hefur verið alla sína tíð í Bandaríkjunum. Hann verður gríðarlega eftirsóttur í sumar, en það má vel vera að hann nenni ekki einu sinni að taka símann nema skrifstofan hjá Griz taki þá einkennilegu ákvörðun að leyfa honum að fara.

Þetta er ekki alveg jafn klippt og skorið með Z-Bo karlinn. Hann er að verða kominn af sínu léttasta skeiði og það fer að verða spurning hvað hann á eftir í tanknum 33 ára gamall eftir 13 ár í barningnum.

Svo er náttúrulega spurning hvort Memphis vill hafa Z-Bo áfram. Það er ekkert gefið í þessu.

Hvað sem menn ákveða að gera í Memphis ættu þeir að hafa gott svigrúm til að leika sér, því það styttist í að allir lykilmenn liðsins verði með lausa samninga.

Forráðamenn Memphis hafa samt alltaf verið nokkuð duglegir að minna okkur á að aumingja þeir eru bara lítið lið á litlum markaði og aumingja þeir eiga erfitt með að fá til sín leikmenn og svo framvegis. Slíkur hugsunarháttur skilar engu og nískan í eigendunum gerir það ekki heldur.

Niðurstaðan er sú að Memphis Grizzlies er ljómandi gott körfuboltalið sem á sér mjög ákveðin takmörk, sem núna eru bundin við aðra umferð úrslitakeppninnar. Við munum halda áfram að hneykslast á kjarkleysi og ráðaleysi forráðamanna félagsins, aðallega vegna þess að það vantar alls ekki mikið í þetta lið svo það geti gert harðari atlögu að titlinum.

Þá vitið þið hvernig á að skrifa örstuttan pistil um eitthvað augljóst sem sagt hefur verið sexhundruð sinnum. Kannski er bara kominn tími á stórar breytingar í Memphis.