Saturday, May 16, 2015

Golden State er endanlega búið að sanna sig


Oft og títt í vetur hefur okkur orðið á að hugsa um hvað Golden State virkaði með sterkt lið - lið sem gæti jafnvel keppt til úrslita eða jafnvel unnið meistaratitilinn í sumar. Svona hugsanir eiga það til að fljóta með annað slagið þegar lið vinna 67 leiki í deildarkeppninni og virðast ekki þurfa að hafa neitt fyrir því.

En þetta voru bara hugsanir, pælingar, ekkert meira. Golden State átti svo sannarlega eftir að sanna marga hluti áður en við færum að tala um það sem alvöru meistaraefni, því það var jú ekki eins og liðið hafi verið að gera neina stórkostlega hluti í úrslitakeppninni til þessa.

Frá og með 108-95 sigri liðsins á Memphis í nótt verður hinsvegar risavaxin breyting á þessu. Núna er Golden State búið að stimpla sig inn sem alvöru meistaraefni.*

Í fyrsta lagi af því það er búið að sópa einvígi í fyrstu umferð, í öðru lagi af því það er búið að fá á kjaftinn en svara því óaðfinnanlega og í þriðja lagi af því það er einfaldlega er besta körfuboltalið í heimi í dag.

Liðið er búið að vera besta lið í heimi í allan vetur, en núna er það búið að sanna að það getur líka verið besta lið í heimi í úrslitakeppni. Það er nefnilega sá tími sem æði mörg lið sem byggja mikið upp á langskotum ungra manna eiga erfitt uppdráttar.

Það á ekki við hér.

Þriggja stiga skotin eru vissulega stór þáttur í sóknaraðgerðum Warriors og ein af helstu ástæðunum fyrir því að liðið er svona ógnarsterkt.

Hvernig í fjandanum eiga lið til dæmis að stöðva menn sem eru svo heitir að þeir þurfa ekki að fara yfir miðju til að hitta?



Nei, það er vörnin sem er aðalatriðið hjá Warriors. Meistarar síðustu áratuga í NBA deildinni hafa undantekningalítið verið á topp tíu í varnar- og sóknartölfræði fyrir lengra komna. Golden State er við toppinn í sóknarleiknum og er besta varnarliðið - það er meira að segja fjölhæfasta liðið líka.

Við þurfum alltaf að sjá lið fara í gegn um ákveðnar prófraunir áður en við krýnum þau kandídata og núna er Golden State búið að fara í gegn um það ritúal og meira til.

Þetta lið er bara best, alveg sama hvort þú ert tölfræðinörd eða pjúristi, óldskúl eða njúskúl.

Golden State verður meistari í júní og þarf ekki einu sinni að hafa mikið fyrir því, allra síst lokaeinvíginu sjálfu.

Okkur þykir leiðinlegt að koma fram með svona grófa spoilera strax áður en annari umferðinni lýkur, en þetta þarf bara að koma fram á prenti núna. Þið eruð nú ekki svo vitlaus að ykkur hafi ekki varið farið að gruna þetta.

Það eru í sjálfu sér engar staðreyndir í þessum stutta pistli, við vildum bara segja ykkur stuttlega frá því að Golden State vinni meistaratitilinn í ár af því að NBA Ísland er búið að samþykkja það. Við ætluðum að hafa þessa færslu rosalega langa og flotta með töflum, gröfum og græjum, en eins og þið sjáið er það algjör óþarfi. Meira að segja við getum ekki búið til langloku úr svona augljósum staðreyndum.

Nú skulið þið bara slaka á og njóta þess vel að horfa á Golden State vinna átta leiki í viðbót. Aðeins stórslys getur komið í veg fyrir það hér eftir. Þett´er bara búið.

---------------------------------------------------------------------------------------------------

* - NBA Ísland ber enga ábyrgð á jinxi af neinum toga, hvort sem það er viljandi eða óvart.