Monday, May 11, 2015

Chicago misnotaði dauðafæri á heimavelli


Þeir sem fylgjast vel með á NBA Ísland muna eflaust að við afneituðum liði Chicago í vetur eftir áralöng vonbrigði og vesen sem fylgdu því að ætla þessu liði að gera eitthvað af viti. Enn og aftur féllum við í þá gryfju að spá Chicago góðum árangri í haust, en hann reyndist hóflegur þegar upp var staðið í deildarkeppninni. Við sem vorum svo viss um að þessi mannskapur gæti unnið Austurdeildina.

Það er svo sem ekki stærðfræðilega útilokað ennþá að Chicago komist í þriðju umferð úrslitakeppninnar, en það verður að teljast afar ólíklegt ef tekið er mið af því sem liðið var að bjóða upp á í gærkvöldi. Þegar þú ert ekki með heimavöllinn en nærð að komast í 2-1 í einvígi, þá einfaldlega verður þú að vinna fjórða leikinn. Ef þú klárar hann og kemst í 3-1, getur fátt komið í veg fyrir að þú lokir dæminu.

Það reyndist stærra verkefni en Chicago réði við.

Fjórða leik Bulls og Cavaliers í gærkvöldi verður ekki minnst fyrir framlag sitt til fagurfræðanna, en liðin máttu eiga það að annan leikinn í röð buðu þau upp á dramatík í lokin. Derrick Rose særði tilfinningar Cleveland með flautukörfu á föstudaginn, en í gærkvöldi var komið að LeBron James og Cavaliers að setja niður eina slíka og vinna með óldskúl stigaskori 86-84.


Þó hægt sé að hrósa báðum liðum fyrir góða varnartakta í þessum leik, var frammistaða þeirra á hinum enda vallarsins í besta falli skelfileg. Bæði lið áttu til dæmis kafla í leiknum þar sem þau skoruðu ekki körfu í sjö mínútur og skutu 0-13, en það var Chicago sem átti síðasta orðið í sóknarklúðri.

Lið Bulls var með um tíu stiga forystu þegar það fór inn í fjórða leikhlutann, en þá kom hræðilegur kafli hjá því þar sem það skaut 2 af 15 og skoraði ekki nema sex stig á fyrstu tíu mínútunum í leikhlutanum. Þú vinnur tæplega leiki með slíkum sóknarleik, en Chicago var nú samt inni í leiknum og vel það. Það var hinsvegar flautukarfan hans LeBron James sem kláraði leikinn.



Cleveland fékk nokkuð umdeilt "leikhlé" til að stilla upp fyrir lokaskotið hans James þegar dómararnir tóku sér langt hlé til að skoða einhverjar endursýningar, en þó það séu vissulega réttmætar aðfinnslur, skiptir það ekki nokkru máli í heildarsamhengi hlutanna. Það fór nefnilega þannig að LeBron James gaf skít í það sem David Blatt teiknaði og lofaði einfaldlega að klára leikinn.

Það var ekki sami heppnisstimpill yfir körfunni hans James og var á flautukörfunni hans Rose á föstudaginn, þetta var í alla staði pottþétt skot hjá LeBron, sem lét það ekkert á sig fá þó hann væri búinn að skjóta eins og sæotur á sjóveikitöflum allan leikinn. Hrós á hinn útvalda fyrir að klára þetta, en hann fékk líka ljómandi hjálp frá þeim Tristan Thompson og sérstaklega Timofey Mozgov, sem eru búnir að vera skemmtilega hrikalegir undir körfunni.

Hjá Chicago er einna helst hægt að pikka Derrick Rose út úr þvögunni en við hefðum viljað sjá meira frá Jimmy Butler í sókninni. Mike Dunleavy og Joakim Noah voru afleitir þeim megin vallarins.

David Blatt var reyndar rétt búinn að klúðra öllu dæminu fyrir Cleveland í lokin þegar hann reyndi að biðja um leikhlé sem liðið átti ekki til að hætti Chris Webber. Sem betur fer fyrir hann, þóttust dómararnir ekki sjá hann og Tyronne Lue aðstoðarþjálfari náði að kæfa þessar tilraunir Blatt til að klúðra leiknum. 


Þetta atvik verður sannarlega vatn á myllu þeirra sem hafa gagnrýnt Blatt hvað harðast allar götur síðan tilkynnt var um ráðningu hans. Og með þessum gagnrýnendum erum við að meina um það bil alla Bandaríkjamenn sem vita hvað körfubolti er.

Kannski er óviðeigandi að vera með sleggjudóma um annað hvort liðið í svona hnífjafnri seríu sem þessari, en þið þekkið okkur, við gerum það samt. 

Auðvitað er það Chicago sem fær sleggjuna í hausinn frá okkur að þessu sinni og meira að segja hörðustu stuðningsmenn liðsins eru sammála okkur með það. Þeir vita alveg að þessi leikur var leikurinn fyrir Chicago.

Þetta var nefnilega ekki aðeins heimaleikur þar sem heimamenn gátu komist í 3-1 og allt nema lokað einvíginu. Þetta var líka leikur þar sem Cleveland var að spila án Kevin Love og var með Kyrie Irving óralangt frá sínum besta - haltrandi um völlinn eins og gamalmenni.

Okkur er skítsama þó Pau Gasol hafi ekki verið með Chicago vegna meiðsla, ef þú ert Bulls, verður þú einfaldlega að klára þennan leik.

Það eina sem getur fengið okkur til að fyrirgefa Bulls þetta tap er ef það fer nú til Cleveland og stelur öðrum leik þar, sem reyndar er ekkert rosalega líklegt eins og staðan er núna. Við þurfum engar þrettán síður til að sjúkdómsgreina þetta Chicago-lið - það er bara að díla við sömu hlutina og gerðu því lífið leitt í allan vetur.

Fréttin í deildarkeppninni var að þveröfugt við síðustu ár hefði Chicago allt í einu hætt að vera topp tvö vörn deildarinnar en þess í stað orðið betra en nokkru sinni áður í sóknarleiknum. 

Ætli megi ekki skrifa eitthvað af þessari undarlegu þróun á Pau Gasol, bætta heilsu Derrick Rose og undraverðar framfarir Jimmy Butler í sóknarleiknum. Það útskýrir reyndar ekki að fullu af hverju vörnin hjá Bulls var allt í einu orðin miðlungsgóð en ekki frábær.

Þrátt fyrir þessar meintu framfarir liðsins í sóknarleiknum í vetur, breytir það því ekki að Chicago á einmitt allt of oft svona kafla eins og það átti í gærkvöldi, þar sem það gjörsamlega drullaði í hárið á sér og skoraði ekki tímunum saman.

Þó við séum allt nema búin að dæma Chicago úr leik út af þessu klúðri í gær, eru öll sund þó ekki lokuð enn. Liðin eru jú mjög jöfn og ef úrslitin í leikjunum sem eftir eru halda áfram að ráðast á svona dramatískan hátt, er svo sem aldrei að segja hvað gæti gerst.

Vandamálið er að við erum bara búin að sjá Chicago gera of oft í buxurnar til að hafa trú á því.

Hvað Cleveland varðar er ekki hægt annað en taka ofan fyrir því að vinna þennan mikilvæga leik en það er augljóst að þetta verður bara erfiðara og erfiðara dæmi hjá LeBron og félögum. Breiddin var ekki mikil áður en Kevin Love datt út og er nú nánast engin og svo eru þessi meiðsli hjá Kyrie Irving algjör hryðjuverknaður.

Það er því hætt við því að verkefnahaugurinn sem liggur eftir á borðinu hjá Cleveland í þessu einvígi lendi meira og minna allur á herðum LeBron James. Hann er alveg vanur því og skorast ekki undan ábyrgð, en hann er ekki að yngjast neitt og hefur ekki endalaust úthald.

Þetta einvígi verður hreinræktað grændkor alla leið í markið.