Sunday, May 10, 2015

Memphis leiðir (myndir)


Það er enginn skandall, en það er engu að síður stórmerkilegt að Memphis sé búið að ná 2-1 forystu í einvíginu við Golden State, eftir 99-89 sigur í þriðja leik liðanna í Húnaveri í nótt.

Við hefðum öll átt að gera okkur grein fyrir því strax að Memphis væri ekki að fara að leggjast á jörðina og láta moka yfir sig steypu. Auðvitað myndu bangsarnir sjá til þess að enginn kæmi ókraminn og klóraður út úr rimmu við þá. Það sá bara enginn fyrir að þeir ættu eftir að leiða í einvíginu, sem átti að klárast í fimm eða sex leikjum. Vissulega getur það enn farið í sex leiki, en Memphis er gjörsamlega búið að taka yfirhöndina í þessu einvígi eftir tap í fyrsta leiknum.

Steve Kerr var pollrólegur eftir leikinn og sagði að strákarnir hans hefðu gott af þessu, þeir þyrftu að læra að mæta svona mótlæti í úrslitakeppninni fyrr eða síðar, því ekki hafa þeir reynsluna. Leikmenn Warriors voru heldur ekkert að hengja haus eftir annað tapið í röð fyrir Griz, en það er ljóst að þeir verða að spila talsvert betur ef á ekki að fara illa fyrir þeim.

Fjórði leikurinn (í Memphis) stillir Golden State nokkurn veginn upp við vegg og það er ljóst að þá kemur ekkert annað en sigur til greina hjá Dubs. Ekki sjáum við þá vinna einvígi þar sem þeir lenda undir 3-1, það yrði nær óvinnandi vegur.

Nú kætast kverúlantar sem kalla Golden State stökkskotalið (hæ, Charles Barkley) og segja að það þýði ekkert að ætlast til að vinna titilinn með liði sem byggir á stökkskotum, þó færa megi rök fyrir því að meistaralið San Antonio (´14) og Dallas (´11) falli í þann flokk.

Það er samt sannleikskorn í þessari flóknu heimsspeki í kring um stökkskotin, sérstaklega þegar þau eru tekin fyrir utan þriggja stiga línuna. Við höfum öll séð það þúsund sinnum áður; leikmaður X eða lið X spilar ljómandi vel allan veturinn og skýtur allt og alla í kaf, en getur svo ekki keypt körfu þegar úrslitakeppnin hefst.

Raunar finnst okkur undarlegt hve lítið er almennt talað um þennan gríðarlega mikilvæga faktór í körfuboltanum - muninn á því að spila deildarleiki og leiki í úrslitakeppninni.

Þetta er ekkert sama mót og þó menn fái stundum að leika lausum hala gegn slakri vörn í deildarkeppninni, er ekkert slíkt uppi á teningnum þegar kemur fram í úrslitakeppni.

Allt verður erfiðara, harðara og hraðara og þá byrja venjulegar og lélegar skyttur að skjóta stutt, bæði af því þær eru uppgefnar á því að spila úrslitakeppnivörn og af því þær eru með óða varnarmenn límda í andlitið á sér hvert sem þær fara.

Það talar enginn um erfitt hlutskipti skyttunnar í úrslitakeppni. Hvernig það er eitt að hitta vel í deildarkeppninni og svo allt annað að gera það í geðveikinni á vorin.

Nákvæmlega þetta er Golden State að díla við núna. Varnarleikur liðsins er með fínasta móti - Kerr var meira að segja nokkuð ánægður með hann - en menn eins og Stephen Curry og Klay Thompson eiga mjög erfitt uppdráttar á sínu uppáhaldssviði í leiknum, langskotunum.

Ástæðan fyrir kuldanum hjá þeim buslbræðrum er óðramannavarnarleikur Memphis, þreyta og spenna, en það er enginn tími fyrir afsakanir. Dubs verða bara að gjöra svo vel og snappa út úr þessu fönki í hvelli eða falla feisdán í flórinn. Það yrði meiri sagan!

Nú er staðan 2-1 á öllum vígstöðvum í úrslitakeppninni, en það áhugaverða við það er að það eru liðin sem eru ekki með heimavallarréttinn sem eru yfir í öllum rimmunum. Það kemur til af meiðslum ýmsum ástæðum, en setur óneitanlega skemmtilegt tvist á þetta.
------------------------------------------------------------------------------------------------

          Nokkrar myndir, yo!