Sunday, May 24, 2015

Það er meistarabragur á Golden State Warriors


Það er ekkert mál fyrir Stephen Curry að mæta Houston í úrslitum Vesturdeildar. Ekki þegar hann var búinn að nota fjóra leiki við New Orleans til að stilla miðið og ná úr sér væntingahrollinum og eyða svo sex leikjum á móti Memphis í að skjóta sig í stuð með heimsklassa vörn á sér.

Heldurðu þá að Curry verði eitthvað smeykur við að mæta 37 ára gömlum gaur sem er nýbúinn að keyra sig út við að reyna að hanga í Chris Paul í sjö leikja seríu? Einmitt.

Margir trúa því ekki enn, en leikmenn Houston hafa verið gripnir glóðvolgir við það að spila vörn oftar en einu sinni í vetur. Og þó akkerið í vörn liðsins hefði ekki verið með nema hálft mótið vegna meiðsla, hefur Houston samt náð að spila fínustu vörn lengst af í vetur. Enginn skilur af hverju, en tölurnar ljúga ekki. Houston gat spilað vörn í vetur.

Þess vegna er enn erfiðara að kyngja svona aumingjalegri frammistöðu eins og Houston sýndi í varnarleiknum á heimavelli sínum í nótt þegar það lét Golden State keyra yfir andlitið á sér, stoppa, bakka yfir andlitið aftur, stoppa og gefa svo allt í botn og keyra spólandi á öllum hjólum yfir andlitið á sér einu sinni enn.

Nánar tiltekið var Houston niðurlægt 115-80 á sínum eigin heimavelli. Í sveitinni er þetta kallað heimaslátrun,.

Eins og þið sjáið, eigum við óskaplega erfitt með að hætta að tala um Houston, þó við höfum helgað liðinu heilan skammarpistil í færslunni fyrir neðan þessa. Hvað getum við sagt? Þetta Houston-lið heldur bara áfram að gefa og gefa - fóðra innstu fylgsni neikvæðni okkar og leiðinda.

Og það heldur líka áfram að tapa fáránlega. Þetta var þriðji leikurinn sem Houston tapar með 25 stiga mun eða meira í úrslitakepppninni. Öll hin liðin í úrslitakeppninni eru samanlagt búin að tapa þremur með 25 stigum eða meira.

Golden State er búið að vinna alla leikina sína við Houston í vetur og þessi ógeðslegi í nótt var sá sjöundi í röðinni. Þeir segja að það sé rosalega mikið atriði hvernig lið raðast upp í úrslitakeppninni - hvernig þau passa á móti hvort öðru hvað varðar leikstíl og mannskap. Ef tekið er mið af því, hentar það Houston álíka vel að mæta Golden State og það hentar íslenskum stjórnmálamönnum að vera heiðarlegir.

Ástæðan fyrir því að við erum með þessi læti út í Houston er ekki aðeins sú að við séum neikvæð að eðlisfari, heldur væri greiningin á úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar einfaldlega ekki marktæk ef ekki væri farið ofan í saumana á arfaslakri frammistöðu Rockets í þriðja leiknum.

Nú þegar við erum loksins búin að koma því frá, er hægt að fara að skoða Golden State. Og fjandinn sjálfur, þar er eitthvað að frétta.

Hvort sem fólk trúir því eða ekki, var Golden State ekki að spila neitt sérstaklega vel í fyrstu tveimur leikjunum þrátt fyrir kolbilaða stemningu í Oracle Arena.

Houston var reyndar að spila miklu betur þar en í nótt en kannski hafa Warriors-strákarnir bara viljað þetta of mikið, verið aðeins of spenntir þegar þeir voru að læra aftur inn á Houston í leikjum eitt og tvö.

Steve Kerr þjálfari sagðist hafa fundið það á leikmönnum sínum áður en þeir fóru inn á völlinn í gærkvöldi að þeir myndu spila vel. Það er auðvitað haugalygi, en hún lítur ljómandi vel út eftir leik þegar andstæðingurinn liggur í gólfinu, barinn, brotinn og bugaður.

Við værum bara að endurtaka okkur ef við færum í gegn um einstaka frammistöðu leikmanna Golden State, því það var ansi margt líkt með þessum leik og hinum tveimur hvað það varðar. Klay Thompson var áfram kaldur, blessunarlega fyrir Houston, sem hefði tapað með 50 stiga mun ef hann og Harrison Barnes hefðu átt eðlilega leiki.

Aftur var gaman að sjá hvað Andrew Bogut spilaði ógeðslega vel á báðum endum vallarins og eins og venjulega, náðu flestir varamenn liðsins að leggja mark sitt á leikinn með einhverjum hætti. Að þessu sinni var það Festus Ezeli sem stal gjörsamlega senunni með 10 stigum, 6 fráköstum og vörðu skoti.

Hlutverk Ezeli er að koma inn af bekknum og gera fá mistök þegar Andrew Bogut lendir í lögbundnum villuvandræðum sínum, en hann gerði miklu meira en það í þessum leik og þessi 22 stig sem miðherjar Warriors skoruðu samanlagt voru meira en nóg til að fylla upp í eyðurnar eftir vængmennina.

Draymond Green hélt áfram að vera hávaðasamasti og kjaftforasti Leatherman-hnífur heimsins og henti í 17/13/5/1/1. Þessi drengur heldur áfram að spila eins og engill og gera alla stóru og litlu hlutina sem hjálpa þessu liði að vinna.

Talandi um engla.

Stephen Curry tók ansi hressar rispur í þessum leik og gerði hvað eftir annað grín að aumingja Houston-liðinu með fáránlegum brelluskotum í teignum í bland við fallbyssuskot fyrir utan. Curry lauk keppni með 40/5/7 og hitti úr 7 af 9 þriggja stiga skotum og það fyndna við það er að honum virðist bara finnast það eðlilegt!

Curry er að bjóða upp á 36/5/6/2 meðaltal í einvíginu og 61% skotnýtingu - þar af 58% í þriggja stiga skotunum. Þessar tölur eru ekkert annað en kjaftæði og þið verðið bara að fara að átta ykkur á því að þið eruð að verða vitni að sögulegum hlutum.

Curry er að gera hluti sem hafa aldrei sést áður, hluti sem enginn getur nema hann. Við höfum öll séð stjörnurnar í NBA deildinni setja mark sitt á söguna með framúrskarandi frammistöðum í úrslitakeppninni - það er ekkert nýtt - en Curry er að terrorísera andstæðinga sína með aðferðum sem enginn hefur notað áður.

Og það sem er merkilegast af þessu öllu er að Golden State - og sérstaklega Stephen Curry - er að láta þetta líta út fyrir að vera svo ógeðslega auðvelt. Við vitum að þetta er klisja, en þetta er samt staðreynd, svo það verður bara að hafa það.

Fjölmiðlamenn sem á annað borð eru með púls voru allir í ákaflega góðum anda eftir þessa slátrun hjá Curry og Golden State í nótt. Einn þeirra var svo frá sér numinn af hrifningu að hann byrjaði að stilla Golden State upp við hliðina á bestu liðum deildarinnar á öldinni og það óháð því hvort liðið vinnur titilinn eða ekki (lið geta alveg verið mjög góð þó þau vinni ekki titilinn, nema þér finnist t.d. 2013 lið San Antonio sem var einu skoti frá titlinum vera svona lélegt).

Það er kannski aðeins of snemmt að fara í svona hugleiðingar, en við skiljum vel að þetta Warriors-lið sé að fá menn til að missa sig jafnvel í gífuryrði.

Þið sem eruð fastagestir á Íslandinu munið ósköp vel eftir því að við sögðum ykkur það oftar en einu sinni í vetur að svo gæti farið einn daginn að við ættum eftir að horfa til baka og gera okkur grein fyrir því að við hefðum orðið vitni að sögulegu tímabili hjá þessu Golden State liði.

Með þessu erum við ekkert að þykjast vera gáfuleg, við spáðum þessu liði ekkert titlinum í vetur. Það er hinsvegar að verða líklegra með hverjum deginum að tímabilið hjá Warriors eigi eftir að verða sögulegt, af því það er eiginlega orðið það nú þegar.

Það er ekki mjög fagmannlegt að hoppa yfir leiki og fara að spá í mögulegar viðureignir í næstu umferð úrslitakeppninnar, en gjöreyðingarmáttur Cavs og Warriors neyðir okkur öll til þess núna af því andstæðingar þeirra eiga ekki blóðugan möguleika í þau.

Það eina sem Houston og Atlanta geta gert í stöðunni 3-0 er að fara í taugarnar á fólki með því að drullast loksins til að vinna þegar komið er fram í leik fjögur - bara til að fresta hinu óhjákvæmilega og fara í taugarnar á okkur. Ekki eru þau alla vega að fara að bjarga andlitinu. Andlitið á þeim liggur rifið og tætt í malbikinu.

Það er freistandi að láta berast með straumnum og byrja að semja sonnettur og sigursöngva um Curry og Warriors, en við skulum aðeins bíða með það. Ekki bara af því liðið er tæknilega ekki búið að vinna neitt ennþá, heldur líka af því það verður bara gaman að hafa eitthvað nýtt, ferskt og sögulegt að skrifa um í sumar.

En miklir andskotans snillingar eru þetta nú samt.